Velkomin á vef Stjórnartíðinda
Setja síðu í 1024px vídd Setja síðu í 1280px vídd Setja síðu í 1400px vídd Fyrir sjónskerta Venjulegt letur Stækka letur Stækka letur enn meira

Sé munur á uppsetningu texta hér að neðan og í PDF skjali gildir PDF skjalið.
 834/2009

Nr. 834/2009 22. september 2009
REGLUGERÐ
um listamannalaun.

1. gr.

Hlutverk.

Hlutverk launasjóðs hönnuða, launasjóðs myndlistarmanna, launasjóðs rithöfunda, launa­sjóðs sviðslistafólks, launasjóðs tónlistarflytjenda og launasjóðs tónskálda er að veita listamönnum starfslaun og styrki samkvæmt lögum um listamannalaun nr. 57/2009 og reglugerð þessari. Ákvarðanir um veitingu framlaga úr sjóðum þessum skulu gegna þeim tilgangi að efla listsköpun í landinu.

2. gr.

Launasjóðir.

Starfslaun listamanna skulu veitt úr sex sjóðum:

  1. launasjóði hönnuða,
  2. launasjóði myndlistarfólks,
  3. launasjóði rithöfunda,
  4. launasjóði sviðslistafólks,
  5. launasjóði tónlistarflytjenda,
  6. launasjóði tónskálda.

Auk starfslauna er sjóðunum heimilt að veita ferðastyrki.

3. gr.

Stjórn og úthlutunarnefndir.

Yfirumsjón með sjóðunum skv. 1. gr. er í höndum stjórnar listamannalauna. Mennta­mála­ráðherra skipar þrjá menn í stjórn listamannalauna til þriggja ára í senn, einn sam­kvæmt til­nefningu Bandalags íslenskra listamanna, einn samkvæmt tilnefningu Lista­háskóla Íslands og einn án tilnefningar. Ráðherra skipar formann og varaformann úr hópi aðal­manna. Varamenn skulu skipaðir með sama hætti. Ekki er heimilt að skipa sama mann aðalmann í stjórn listamannalauna lengur en tvö samfelld starfstímabil.

Sérstakar þriggja manna úthlutunarnefndir sem menntamálaráðherra skipar árlega og eigi síðar en 15. ágúst, eina fyrir launasjóð hönnuða skv. tilnefningu samtaka hönnuða og arkitekta, eina fyrir launasjóð myndlistarmanna skv. tilnefningu Sambands íslenskra mynd­listarmanna, eina fyrir launasjóð rithöfunda skv. tilnefningu Rithöfundasambands Íslands, eina fyrir launasjóð sviðslistafólks skv. tilnefningu Leiklistarsambands Íslands, eina fyrir launasjóð tónlistarflytjenda skv. tilnefningu Félags íslenskra hljómlistarmanna og Félags íslenskra tónlistarmanna og eina fyrir launasjóð tónskálda skv. tilnefningu Tón­skálda­félags Íslands og Félags tónskálda og textahöfunda, veita fé úr framan­greindum sjóðum sbr. 6.-11. gr. laga nr. 57/2009. Tilnefningum af hálfu til­nefningar­aðila skal hagað þannig að á aðalfundi eða formlega boðuðum félagsfundi er ákveðið hvernig staðið skuli að tilnefningu. Við tilnefningu skal leitast við að tryggja sem jafnastan hlut karla og kvenna í úthlutunarnefndum og þess skal gætt að sami aðili verði ekki tilnefndur oftar en þrjú ár í röð.

4. gr.

Stefnumörkun.

Stjórn listamannalauna gerir tillögu til ráðherra um stefnu og áherslur við úthlutun lista­manna­launa til þriggja ára í senn.

5. gr.

Auglýsing eftir umsóknum.

Stjórn listamannalauna sér til þess að auglýst sé með tryggilegum hætti eftir umsóknum um veitingu starfslauna og ferðastyrkja úr sjóðunum og lætur gera sérstök eyðublöð fyrir umsóknir um framlög úr þeim.

Í auglýsingu skal óska eftir upplýsingum um feril umsækjenda, listrænt gildi verkefnisins og rökstudda tímaáætlun. Umsókn skal fylgja hnitmiðuð greinargerð um verkefni það sem liggur til grundvallar og hve langan starfstíma er sótt um. Einnig skulu fylgja upp­lýsingar um náms- og starfsferil svo og verðlaun og viðurkenningar. Þessir þættir skulu að jafnaði liggja til grundvallar ákvörðun um úthlutun starfslauna. Sé sótt um ferða­styrk skal gera á skýran hátt grein fyrir tilgangi ferðarinnar. Stjórn listamannalauna ákveður að öðru leyti og tiltekur í auglýsingu hvaða upplýsingar skulu fylgja umsóknum.

Ákveði stjórn listamannalauna að leggja sérstaka áherslu á tiltekna þætti við mat á umsóknum skal gerð grein fyrir því í auglýsingu.

Auglýst skal eftir umsóknum eigi síðar en 1. október ár hvert og skal umsóknarfrestur að jafnaði vera eigi skemmri en sex vikur. Miðað skal við að úthlutun starfslauna listamanna verði tilkynnt fyrir 1. mars ár hvert.

6. gr.

Meðferð umsókna.

Stjórn listamannalauna er heimilt að færa umsóknir á milli sjóða telji hún að umsókn eigi betur heima í öðrum sjóði en þeim sem sérstaklega er sótt til miðað við inntak verkefnis.

Við veitingu starfslauna og styrkja úr öllum sjóðum skulu úthlutunarnefndir gæta þess vandlega að allar umsóknir fái sanngjarna umfjöllun og ákvarðanir séu ávallt reistar á faglegum sjónarmiðum.

7. gr.

Skilyrði og skyldur starfslauna- og styrkþega.

Fullt starf í skilningi þessara laga miðast við 67% starf eða meira. Þeir sem njóta starfs­launa í sex mánuði eða lengur skulu því ekki gegna öðru starfi sem telst meira en þriðjungur úr stöðugildi meðan þeir fá greidd starfslaun enda hindri það ekki listamanninn í því að sinna því verkefni sem starfslaunin voru veitt til.

Allir þeir sem njóta starfslauna skulu skila greinagóðri skýrslu um störf sín á starfs­launa­tímanum eigi síðar en ári eftir að honum lýkur. Þeir sem hljóta starfslaun í 18 mánuði eða lengur skulu skila skýrslu árlega.

Hafi umsækjandi áður hlotið starfslaun skal umsókn hans því aðeins tekin til umfjöllunar að hann hafi skilað fullnægjandi skýrslu um störf sín á starfslaunatímanum. Starfs­launa­þegi skal taka starfslaunin samfellt á meðan á starfslaunatíma stendur en heimilt er honum að fresta upphafi tímabilsins í allt að níu mánuði frá því að tilkynning um veitingu starfslaunanna barst honum. Stjórn listamannalauna er þó heimilt að veita undan­þágu frá töku samfelldra starfslauna vegna fæðingarorlofs sbr. lög nr. 95/2000 með áorðnum breytingum.

Sami listamaður getur eigi fengið starfslaun úr tveimur launasjóðum í senn.

8. gr.

Lengd starfslauna.

Starfslaun skulu veitt til 6, 9, 12, 18 eða 24 mánaða. Víkja má frá þessu og veita starfs­laun til skemmri tíma en 6 mánaða, þó aldrei skemur en til þriggja mánaða. Úthlutunar­nefnd er ekki heimilt að verja hærri upphæð en sem nemur 10% þeirra mánaðar­launa sem hver sjóður hefur til úthlutunar árlega til styrkja í skemmri tíma en 6 mánuði svo og til ferðastyrkja. Ferðastyrkir skulu að öllu jöfnu nema einum mánaðar­launum.

Miðað skal við að fjórðungur heildarstarfslauna hvers sjóðs verði að jafnaði veittur til lista­manna er taka laun í eitt ár eða meira þar sem slíkt gefur listamönnum betra tæki­færi til að helga sig listsköpun sinni.

9. gr.

Niðurfelling og endurgreiðsla.

Komi í ljós að listamaður, sem hlotið hefur starfslaun til lengri tíma en sex mánaða, sinni ekki því verkefni sem liggur til grundvallar úthlutun er stjórn listamannalauna heimilt að fella niður starfslaun. Í slíkum tilvikum er stjórninni heimilt að krefja listamanninn um endur­greiðslu greiddra starfslauna.

Við meðferð mála samkvæmt þessari grein skal gæta ákvæða stjórnsýslulaga nr. 37/1993.

10. gr.

Þóknun til stjórnar og úthlutunarnefnda.

Menntamálaráðherra ákveður þóknun til stjórnarmanna og fulltrúa í úthlutunarnefndum sem greiðist af fé sjóðanna.

11. gr.

Gildistaka.

Reglugerð þessi er sett samkvæmt heimild í 13. gr. laga um listamannalaun nr. 57/2009 og öðlast þegar gildi. Við gildistöku reglugerðar þessarar falla úr gildi reglugerðir nr. 679/1997, nr. 789/2004 og nr. 782/2007.

Menntamálaráðuneytinu, 22. september 2009.

Katrín Jakobsdóttir.

Baldur Guðlaugsson.

B deild - Útgáfud.: 12. október 2009