Velkomin á vef Stjórnartíðinda
Setja síðu í 1024px vídd Setja síðu í 1280px vídd Setja síðu í 1400px vídd Fyrir sjónskerta Venjulegt letur Stækka letur Stækka letur enn meira

Sé munur á uppsetningu texta hér að neðan og í PDF skjali gildir PDF skjalið.
 462/2013

Nr. 462/2013 25. apríl 2013
AUGLÝSING
um náttúruvættið Tungufoss í Köldukvísl í Mosfellsbæ.

1. gr.

Um friðlýsinguna.

Umhverfisráðherra hefur að tillögu sveitarfélagsins Mosfellsbæjar og að fengnu áliti Umhverfisstofnunar og Náttúrufræðistofnunar Íslands ákveðið að friðlýsa Tungufoss og nánasta umhverfi hans. Landsvæðið er friðlýst sem náttúruvætti, skv. 2. tölul. 1. mgr. 53. gr. laga um náttúruvernd, nr. 44/1999.

Tungufoss er fallegur foss neðarlega í Köldukvísl í Mosfellsbæ, á móts við Leirvogstungu og dregur fossinn nafn sitt af bæjarnafninu. Við Tungufoss má sjá leifar af heimarafstöð sem var reist árið 1930 af bóndanum í Leirvogstungu og bræðrum hans og framleiddi stöðin rafmagn fyrir bæinn fram til ársins 1958. Tveir fallegir hylir eru neðan við Tungufoss: Kerið, sem er beint fyrir neðan fossinn, og Klapparhylur litlu neðar. Nærsvæði fossins er vinsælt til útivistar en hið friðlýsta svæði er 1,4 hektarar að stærð.

2. gr.

Markmið friðlýsingarinnar.

Markmiðið með friðlýsingu Tungufoss sem náttúruvættis er að vernda fossinn sjálfan sem og menningarminjar innan þess. Svæðið hefur mikið útivistargildi enda fjölsótt bæði af bæjarbúum og öðrum gestum og mikilvægt að treysta útivistar- og fræðslugildi þess.

3. gr.

Mörk náttúruvættisins.

Mörk svæðisins liggja frá upphafspunkti sem er um 100 metra ofan við göngubrú yfir Köldukvísl. Markalínan liggur í um 200 metra í norðausturátt meðfram Köldukvísl að vestanverðu, en um 50 metra ofan við Tungufoss liggur hún þvert yfir Köldukvísl og í brún klettabeltis austan við ána. Línan fylgir brúninni u.þ.b. 250 metra niður með ánni að horni sem er um 100 metra frá áðurnefndri göngubrú. Þaðan liggja mörkin þvert yfir Köldukvísl í upphafspunkt.

Mörk svæðisins eru nánar skilgreind í hnitatöflu (ISN93) og á meðfylgjandi uppdrætti í fylgiskjali.

Nr.

X

Y

101

369610,278

411126,472

102

369632,804

411089,479

103

369683,245

411116,727

104

369707,300

411135,339

105

369716,606

411147,630

106

369718,362

411160,974

107

369725,210

411172,036

108

369734,516

411181,517

109

369742,944

411201,939

110

369735,311

411236,625

111

369749,777

411252,745

112

369754,944

411282,505

113

369714,851

411297,612

114

369684,264

411253,985

4. gr.

Verndun gróðurs og landslags.

Óheimilt er að spilla jarðmyndunum og gróðri innan náttúruvættisins. Ræktun og dreifing framandi plöntutegunda er óheimil innan marka þess, í samræmi við reglugerð um innflutning, ræktun og dreifingu erlendra plöntutegunda nr. 583/2000. Umsjónaraðila, í samráði við Umhverfisstofnun, er heimilt að uppræta framandi tegundir svo sem alaskalúpínu (Lupinus nootkatensis), skógarkerfil (Anthriscus sylvestris) og spánarkerfil (Myrrhis odorata).

5. gr.

Veiði og notkun skotvopna.

Notkun skotvopna er bönnuð innan marka náttúruvættisins.

Landeigendum og öðrum rétthöfum er heimil stangveiði í ánni eins og verið hefur í samræmi við ákvæði laga nr. 61/2006 um lax- og silungsveiði.

6. gr.

Umferð og umgengni um náttúruvættið.

Almenningi er heimil för um náttúruvættið en fylgja skal merktum stígum og leiðum í samræmi við fyrirmæli hverju sinni. Öllum er skylt að ganga vel og snyrtilega um svæðið. Óheimilt er að urða eða henda rusli og úrgangi innan náttúruvættisins.

Umferð vélknúinna farartækja og lausaganga hunda er óheimil innan marka þess.

7. gr.

Umsjón með náttúruvættinu.

Umsjón og rekstur náttúruvættisins skal vera í höndum Mosfellsbæjar samkvæmt sér­stökum samningi milli sveitarfélagsins og Umhverfisstofnunar sem umhverfisráðherra staðfestir.

Í samningnum skal meðal annars kveðið á um réttindi og skyldur samningsaðila, reglu­legt eftirlit og fræðslu.

8. gr.

Verndar- og stjórnunaráætlun.

Umhverfisstofnun skal sjá um gerð verndar- og stjórnunaráætlunar fyrir náttúruvættið Tungufoss í Köldukvísl í samráði við Mosfellsbæ, sbr. d-lið 2. mgr. 6. gr. laga um nátt­úru­vernd, nr. 44/1999.

Í verndar- og stjórnunaráætluninni skal fjallað um nauðsynlegar verndaraðgerðir, land­vörslu og landnýtingu, s.s. aðgengi ferðamanna að svæðinu, stígagerð og upp­bygg­ingu þjónustumannvirkja.

9. gr.

Landnotkun og mannvirkjagerð.

Mannvirkjagerð, jarðrask og aðrar breytingar á landi innan marka náttúruvættisins eru óheimilar, nema með leyfi Umhverfisstofnunar og Mosfellsbæjar og að teknu tilliti til ákvæða laga nr. 160/2010 um mannvirki og skipulagslaga nr. 123/2010. Framkvæmdir skulu vera í samræmi við gildandi skipulagsáætlun og verndar- og stjórnunaráætlun.

10. gr.

Refsiákvæði.

Brot gegn friðlýsingu þessari varðar sektum eða fangelsi allt að tveimur árum, sbr. 75. og 76. gr. laga um náttúruvernd, nr. 44/1999.

11. gr.

Gildistaka.

Friðlýsingin öðlast þegar gildi.

Umhverfis- og auðlindaráðuneytinu, 25. apríl 2013.

Svandís Svavarsdóttir.

Guðríður Þorvarðardóttir.

Fylgiskjal.
(sjá PDF-skjal)

B deild - Útgáfud.: 16. maí 2013