Velkomin á vef Stjórnartíðinda
Setja síðu í 1024px vídd Setja síðu í 1280px vídd Setja síðu í 1400px vídd Fyrir sjónskerta Venjulegt letur Stækka letur Stækka letur enn meira

Sé munur á uppsetningu texta hér að neðan og í PDF skjali gildir PDF skjalið.
 416/2012

Nr. 416/2012 20. apríl 2012
REGLUR
um stjórnskipulag hug- og félagsvísindasviðs Háskólans á Akureyri.

1. gr.

Hlutverk, stefna og starfsfólk.

Hlutverk fræðasviðsins er að bjóða upp á háskólanám og standa fyrir rannsóknum í hug- og félagsvísindum, þar með talið félagsvísindum, lögfræði og menntavísindum. Fræðasviðið mótar sér stefnu til nokkurra ára í senn í samræmi við hlutverk sitt og stefnu Háskólans á Akureyri hverju sinni. Hug- og félagsvísindasvið starfar á grundvelli laga um háskóla nr. 63/2006, laga um opinbera háskóla nr. 85/2008 og reglna fyrir Háskólann á Akureyri nr. 387/2009.

Á hug- og félagsvísindasviði starfa prófessorar, dósentar, lektorar, aðjunktar, sérfræðingar, stundakennarar, gestakennarar og starfsfólk skrifstofu.

2. gr.

Fræðasviðsfundur.

Fræðasviðsfundur hug- og félagsvísindasviðs (öðru nafni deildafundur fræðasviðs, sbr. 16. gr. reglna fyrir Háskólann á Akureyri nr. 387/2009) fer með æðsta ákvörðunarvald í mál­efnum fræðasviðsins. Hann fjallar um meginatriði í starfsemi þess og ber ásamt forseta ábyrgð á að hún sé í samræmi við lög og reglur. Fræðasviðsfundur gerir tillögu að ráðningu forseta fræðasviðsins, að undangenginni kosningu um umsækjendur (sbr. 15. gr. reglna fyrir Háskólann á Akureyri nr. 387/2009). Á fræðasviðsfundi skal jafnframt kosinn staðgengill for­seta til tveggja ára, sem og varastaðgengill. Nánar er kveðið á um verkefni fræða­sviðs­fundar í 16. gr. reglna fyrir Háskólann á Akureyri nr. 387/2009.

Á fræðasviðsfundi eiga sæti og atkvæðisrétt óháð starfshlutfalli: Forseti, prófessorar, dósentar, lektorar og aðjunktar, sérfræðingar og forstöðumaður miðstöðvar skólaþróunar, einn fulltrúi stundakennara úr hverri deild, tilnefndur af stundakennurum viðkomandi deildar til eins árs í senn, og einn fulltrúi nemenda úr hverri deild, tilnefndur af félagssamtökum þeirra til eins árs í senn. Mæting á fræðasviðsfundi er hluti af starfsskyldum starfsmanna hug- og félagsvísindasviðs.

3. gr.

Deildaráð.

Deildaráð starfar skv. 17. gr. reglna fyrir Háskólann á Akureyri nr. 387/2009. Ráðið fjallar um málefni er varða fræðasviðið og fer með málefni þess á milli fræðasviðsfunda. Einnig fjallar ráðið um erindi er varða mál nemenda sem ekki verða leyst á vettvangi deilda. Í deildaráði eiga sæti forseti fræðasviðs, staðgengill hans, deildarformenn, forstöðumaður miðstöðvar skólaþróunar, einn fulltrúi kennara valinn af fræðasviðsfundi til tveggja ára í senn og einn fulltrúi nemenda úr hverri deild fræðasviðsins, valinn af félagssamtökum þeirra til eins árs í senn.

4. gr.

Forseti.

Forseti hug- og félagsvísindasviðs er ráðinn af rektor að fenginni umsögn fræðasviðsins, skv. 15. gr. reglna fyrir Háskólann á Akureyri nr. 387/2009. Um verkefni forseta er fjallað í 14. gr. sömu reglna. Forseti annast fundarboð til fulltrúa á fræðasviðsfundi og fundastjórnun á þeim. Hann er jafnframt formaður deildaráðs. Nánar er kveðið á um ábyrgð og verkefni forseta í sérstakri starfslýsingu.

5. gr.

Deildir.

Hug- og félagsvísindasvið skiptist í þrjár deildir: félagsvísindadeild, kennaradeild og laga­deild.1

Hver deild ber ábyrgð á skipulagi og þróun þess náms sem fræðasviðið hefur samþykkt að fari fram innan deildarinnar ásamt innritun og brautskráningu í umboði forseta, sbr. 30. gr. reglna fyrir Háskólann á Akureyri nr. 387/2009. Innan hverrar deildar er boðið upp á minnst eina námsbraut, en með því er átt við skilgreinda samsetningu námskeiða sem nemandinn þarf að ljúka til að hljóta tiltekna námsgráðu.

Við skipulag alls náms á fræðasviðinu er tekið mið af viðmiðum stjórnvalda um æðri menntun og prófgráður (auglýsing nr. 530/2011). Við skipulag náms í sálfræði er m.a. tekið mið af lögum um sálfræðinga nr. 40/1976. Við skipulag kennaranáms er m.a. tekið mið af lögum um menntun og ráðningu kennara og skólastjórnenda við leikskóla, grunnskóla og framhaldsskóla nr. 87/2008, lögum um leikskóla nr. 90/2008, lögum um grunnskóla nr. 91/2008, lögum um framhaldsskóla nr. 92/2008 og viðkomandi reglugerðum og aðal­námskrám. Við skipulag náms í lögfræði er m.a. tekið mið af lögmannalögum nr. 77/1998 og reglugerð um próf til að öðlast réttindi til að vera héraðsdómslögmaður nr. 1095/2005.
__________
1 Sbr. samþykkt háskólaráðs frá 28. september 2007. Í samþykktinni var stefnt að því að sjálfstæð hugvísindaskor (-deild samkvæmt núgildandi reglum) tæki til starfa haustið 2009. Þessu markmiði var ekki náð, en á fræðasviðinu er áfram stefnt að stofnun sjálfstæðrar hugvísindadeildar.

6. gr.

Miðstöð skólaþróunar við Háskólann á Akureyri.

Við hug- og félagsvísindasvið er starfrækt miðstöð skólaþróunar við Háskólann á Akureyri og starfar hún í nánu samstarfi við kennaradeild. Hlutverk miðstöðvarinnar er að efla skóla sem faglegar stofnanir og vera farvegur þekkingar til starfandi kennara í leik-, grunn-, framhalds- og háskólum landsins og frá þeim inn í háskólann.

Viðfangsefni miðstöðvar skólaþróunar lýtur að hvers konar þróunar- og umbótastarfi í leik-, grunn-, framhalds- og háskólum. Hún annast ráðgjöf og fræðslu til kennara, stjórnenda skóla og annars fagfólks er starfar að fræðslumálum. Ásamt kennaradeild hefur hún forgöngu um að kynna kennurum nýjungar á sviði skóla- og kennslumála, stendur fyrir rannsóknum á skólastarfi og heldur ráðstefnur. Miðstöð skólaþróunar annast umsýslu samnings Háskólans á Akureyri við Akureyrarbæ um sérfræðiþjónustu við skóla bæjarfélagsins og annarra samninga af sama tagi. Til að styrkja kennslu á hug- og félagsvísindasviði hefur miðstöð skólaþróunar með höndum fræðslu til kennara sviðsins, styður við rannsóknarstarf þeirra eftir því sem aðstæður leyfa og annast önnur þau verkefni er henni eru falin af fræðasviðinu.

Fagleg ábyrgð á starfsemi miðstöðvar skólaþróunar er á hendi forstöðumanns, sem ráðinn er af rektor eftir tillögu fræðasviðsfundar. Forstöðumaður skal hafa hlotið hæfnisdóm sem lektor, dósent eða prófessor á sviði fræða sem tengjast starfsemi miðstöðvarinnar. For­stöðu­maður miðstöðvarinnar og formaður kennaradeildar hafa með sér samráð um áherslur og sameiginleg viðfangsefni.

Við miðstöð skólaþróunar starfa sérfræðingar í menntavísindum. Þeir sinna ráðgjöf, þró­unar­verkefnum í skólum, námskeiða- og ráðstefnuhaldi og rannsóknum. Sé eftir leitað sinna þeir kennslu í námskeiðum deilda sviðsins og skal um það samið í hverju tilviki við forstöðu­mann miðstöðvarinnar að höfðu samráði við viðkomandi sérfræðing. Kennarar hug- og félags­vísinda­sviðs geta nýtt rannsóknarhluta starfs síns í rannsóknar- og þróunarverkefni á vegum miðstöðvarinnar í samvinnu við sérfræðinga hennar.

Forstöðumaður annast árlega gerð áætlunar um þjónustu miðstöðvar skólaþróunar innan HA og kostnað við hana. Áætlunin skal staðfest af forseta hug- og félagsvísindasviðs. Rekstur miðstöðvar skólaþróunar greiðist af sjálfsaflafé hennar.

7. gr.

Deildarformenn og deildarfundir.

Deildarformenn og deildarfundir bera ábyrgð á kennslu, kennslufyrirkomulagi og þróun náms. Deildarfundur gerir einnig tillögur til forseta um að auglýsa akademísk störf og veitir umsögn ef fleiri en einn umsækjandi hlýtur hæfnisdóm.

Sæti og atkvæðisrétt á deildarfundum eiga prófessorar, dósentar, lektorar og aðjunktar, sem inna af hendi a.m.k. helming kennsluskyldu sinnar innan deildar og einn fulltrúi nemenda sem valinn er af félagssamtökum þeirra til eins árs í senn. Mæting á deildarfundi er hluti af starfsskyldum starfsmanna sem þar eiga sæti. Deildarfundur er ályktunarbær ef hann sækir 50% atkvæðisbærra fulltrúa án tillits til starfshlutfalls. Ákvarðanir deildarfunda skulu færðar til bókar.

Deildarformaður skal kosinn af deildarfundi til tveggja ára í senn, úr hópi fastráðinna lektora, dósenta og prófessora deildarinnar. Einnig skal deildarfundur kjósa staðgengil deildar­formanns til sama tíma. Einungis fræðasviðsfundur getur leyft frávik frá þessum ákvæðum. Deildarformaður ber ábyrgð á starfsemi deildar, skipulagi, undirbúningi og framkvæmd náms, þróun og samskiptum og tekur einnig þátt í stjórn fræðasviðsins, m.a. með setu í deildaráði. Hann sér um samskipti við nemendur, áætlun kennslumagns, gerir tillögur um nýráðningar, velur umsjónarkennara hvers námskeiðs í samráði við forseta fræðasviðs og kemur að stundaskrárgerð í samvinnu við skrifstofu fræðasviðs. Deildarformaður stýrir deildarfundum og fylgir samþykktum fundanna eftir. Nánar er kveðið á um ábyrgð og verkefni deildarformanns í sérstakri starfslýsingu.

8. gr.

Brautarstjórar og kennarafundir.

Deildum er heimilt að velja sérstaka brautarstjóra til að hafa umsjón með einni eða fleiri námsbrautum innan deildarinnar, að uppfylltum almennum skilyrðum háskólans um lágmarksfjölda nemenda og námseininga brautar. Brautarstjórar eru kosnir á deildarfundi til tveggja ára í senn. Brautarstjórn felur í sér samskipti við nemendur og forystu um kennslu- og námsþróun. Kennarafundir eru samráðsvettvangur og boðar brautarstjóri til slíkra funda eftir þörfum. Á kennarafund má kalla fastráðna kennara, stundakennara og hverja þá aðra sem koma að kennslu innan námsbrautar hverju sinni. Nánar er kveðið á um ábyrgð og verkefni brautarstjóra í sérstakri starfslýsingu.

9. gr.

Náms- og matsnefndir.

Innan hverrar deildar hug- og félagsvísindasviðs starfa náms- og matsnefndir. Hlutverk námsnefndar er að fjalla um náms- og kennsluskrá og gera tillögur til deildarfundar um námsskipan hverju sinni. Hlutverk matsnefndar er að gera tillögur um mat á fyrra námi og fyrirhuguðu skiptinámi nemenda í viðkomandi deild eða á námsbraut. Deild er heimilt að sameina námsnefnd og matsnefnd í eina náms- og matsnefnd. Náms- og matsnefnd skal skipuð minnst þremur fulltrúum kennara (prófessora, dósenta, lektora eða aðjunkta), sem valdir skulu til tveggja ára í senn af viðkomandi deildarfundi og einum fulltrúa nemenda, sem er valinn af félagssamtökum þeirra til eins árs í senn. Jafnframt skal deildarformaður starfa með nefndinni. Nefndin skiptir sjálf með sér verkum. Nánar er kveðið á um skipan, hlutverk og verkferla náms- og matsnefnda í sérstökum samþykktum.

Námsnefndir á hug- og félagsvísindasviði skulu hafa formlegt samráð sín á milli með það fyrir augum að koma á sem mestri samvinnu um nám og námsframboð á fræðasviðinu.

10. gr.

Umsjónarmenn málaflokka.

Heimilt er að skipa umsjónarmenn málaflokka sem bera sérstaka ábyrgð á tilteknum málaflokkum innan fræðasviðsins. Málaflokkar sem geta haft slíka umsjónarmenn eru til dæmis rannsóknir, alþjóðasamskipti, kynningarmál og frágangur náms- og kennsluskrár. Umsjónarmenn málaflokka eru kosnir á fræðasviðsfundi til tveggja ára í senn.

11. gr.

Gildistaka og endurskoðun.

Reglur þessar sem samþykktar voru í háskólaráði 30. mars 2012 eru settar á grundvelli laga nr. 95/2008 um opinbera háskóla með síðari breytingu og reglna fyrir Háskólann á Akureyri nr. 387/2009 með síðari breytingum. Reglurnar öðlast þegar gildi. Um leið falla úr gildi reglur nr. 611/2009 um stjórnskipulag hug- og félagsvísindasviðs með síðari breytingu. Stjórn­skipulag þetta og starfslýsingar skal endurskoðað reglulega og skal þá tekið mið af feng­inni reynslu. Endurskoðað með breytingum á fræðasviðsfundi hug- og félagsvísindasviðs 1. febrúar 2012.

Háskólanum á Akureyri, 20. apríl 2012.

Stefán B. Sigurðsson rektor.

Sigurður Kristinsson,     
varaforseti háskólaráðs.

B deild - Útgáfud.: 9. maí 2012