Velkomin á vef Stjórnartíðinda
Setja síðu í 1024px vídd Setja síðu í 1280px vídd Setja síðu í 1400px vídd Fyrir sjónskerta Venjulegt letur Stækka letur Stækka letur enn meira

Sé munur á uppsetningu texta hér að neðan og í PDF skjali gildir PDF skjalið.
 366/2008

Nr. 366/2008 10. apríl 2008
REGLUR
um útsölur eða aðra sölu þar sem selt er á lækkuðu verði.

1. gr.

Gildissvið.

Reglur þessar taka til útsölu eða annarrar sölu, s.s. tilboða, afsláttar og annarra slíkra aðferða sem fela í sér að venjulegt verð á vöru eða þjónustu er lækkað í tiltekinn tíma.

2. gr.

Lækkað verð.

Í auglýsingum sem og á sölustað, þ.m.t. netverslun, skal tekið skýrt fram hvaða vörur eða þjónusta er seld á lækkuðu verði.

Þegar vara eða þjónusta hefur verið seld á lækkuðu verði í sex vikur skal lækkað verð vera venjulegt verð.

3. gr.

Fyrra verð.

Þegar auglýst er lækkað verð á vöru eða þjónustu skal fyrra verð vera það verð sem varan var seld á áður en til lækkunar kom.

Seljandi skal geta sannað að vara eða þjónusta hafi verið seld á því verði sem tilgreint er sem fyrra verð.

4. gr.

Prósentuafsláttur.

Þegar veittur er prósentuafsláttur reiknast hann af fyrra verði. Taka skal fram hvert prósentuhlutfall lækkunarinnar er og skal tilgreina skýrt fyrra verð. Lækki verð vöru eða þjónustu enn frekar á meðan á útsölu eða annarri sölu stendur, sbr. 1. gr., skal koma skýrt fram hvort aukinn afsláttur reiknast frá upphaflegu eða lækkuðu verði. Sé veittur aukinn afsláttur þegar sex vikur eru liðnar af útsölu skal líta á fyrra útsöluverð sem fyrra verð, sbr. 2. og 3. gr.

5. gr.

Kynningar- eða opnunartilboð.

Þegar auglýst er kynningar- eða opnunartilboð skal afslátturinn vera raunverulegur þ.e. að eftir nánar tilgreindan tíma hækki verð vörunnar eða þjónustunnar. Gefa skal upp venjulegt verð ásamt kynningar- eða opnunarverði.

6. gr.

Rýmingarsala.

Rýmingarsölu skal aðeins auglýsa sé hún tengd því að verslun hætti eða verslun hætti sölu tiltekins vöruflokks. Rýmingarsala skal ekki standa yfir í lengri tíma og eigi hún einungis við um takmarkað vöruúrval skal það tekið skýrt fram í auglýsingum og varan höfð aðgreind frá öðrum vörum. Vara sem seld hefur verið í rýmingarsölu skal ekki selja síðar á fullu verði.

Um verðmerkingar á rýmingarsölu gilda sömu reglur og um lækkað verð.

Árstíðarbundnar vörur falla ekki undir ákvæði 1. mgr.

7. gr.

Kaupauki.

Feli tilboð í sér kaupauka er óheimilt að nota orðalag eins og „gjöf“ eða „ókeypis“ um kaupaukann enda felur kaupaukinn í sér að neytandi greiði fyrir aðra vöru eða þjónustu.

8. gr.

Takmarkað magn.

Óheimilt er að auglýsa takmarkað magn vöru nema tilgreint sé hversu mikið magn standi neytendum til boða.

Sé ekki auglýst takmarkað magn vöru á tilboði skal hún vera neytendum fáanleg í því magni sem ætla má að endist tilboðstímann með hliðsjón af hraða vöruveltu í hlutaðeigandi vöruflokki og verslun.

Ákvæði 2. mgr. á ekki við um útsölu eða rýmingarsölu.

9. gr.

Villa í auglýsingum.

Komi í ljós að villa er í auglýsingu um lækkað verð skal leiðrétta villuna eins fljótt og unnt er. Leiðréttingin skal vera í réttu hlutfalli við umfang markaðssetningar vörunnar og þjónustunnar. Villan skal jafnframt leiðrétt með áberandi hætti á sölustað og heimasíðu auglýsanda.

10. gr.

Verðvernd.

Í verðvernd felst skilyrt loforð seljanda um að geti kaupandi sýnt fram á að sama vara sé fáanleg á lægra verði hjá öðrum seljanda, fái hann greiddan verðmuninn.

Bjóði seljandi verðvernd ber honum að kanna reglulega verð á markaði og leiðrétta verð sitt í samræmi við það.

Skýrt skal koma fram í auglýsingu og í verslun hver tímamörk verðverndar eru.

11. gr.

Viðurlög.

Brot gegn reglum þessum varða viðurlögum skv. V. kafla laga um eftirlit með órétt­mætum viðskiptaháttum og gagnsæi markaðarins nr. 57/2005.

12. gr.

Reglur þessar eru settar með heimild í 17. og 18. gr. laga um eftirlit með óréttmætum viðskiptaháttum og gagnsæi markaðarins nr. 57/2005. Reglurnar öðlast gildi við birtingu og falla þá úr gildi reglur nr. 328/2008.

Neytendastofu, 15. apríl 2008.

Tryggvi Axelsson.

Þórunn Anna Árnadóttir.

B deild - Útgáfud.: 16. apríl 2008