Velkomin á vef Stjórnartíðinda
Setja síðu í 1024px vídd Setja síðu í 1280px vídd Setja síðu í 1400px vídd Fyrir sjónskerta Venjulegt letur Stækka letur Stækka letur enn meira

Sé munur á uppsetningu texta hér að neðan og í PDF skjali gildir PDF skjalið.
 1021/2009

Nr. 1021/2009 11. desember 2009
REGUR
um erfðafræðinefnd Háskóla Íslands.

1. gr.

Almennt.

Erfðafræðinefnd Háskóla Íslands er rannsókna- og þjónustustofnun sem starfrækt er af heilbrigðisvísindasviði Háskóla Íslands og Landspítalanum.

Stofnunin heyrir undir heilbrigðisvísindasvið, og er meðal annars vettvangur þverfaglegs samstarfs á sviði erfðafræði.

2. gr.

Hlutverk.

Hlutverk erfðafræðinefndar er:

  1. að efla erfðafræðilegar rannsóknir sem unnið er að við Háskóla Íslands, Land­spítalann og víðar,
  2. að varðveita og reka gagnabanka nefndarinnar um ættfræði,
  3. að sinna þjónustuverkefnum á sviði ætt- og erfðafræði, þar með talið erfðaráðgjöf og
  4. að stuðla að sterkum tengslum innan og utan háskólans við atvinnu- og þjóðlíf.

3. gr.

Aðstaða.

Starfsaðstaða stofnunarinnar er tilgreind í samningi háskólans og Landspítalans um erfða­fræði­nefnd. Stofnunin veitir starfsliði sínu skv. 7. gr. aðstöðu og nauðsynlegan búnað til rannsókna eftir því sem unnt er.

4. gr.

Skipan stjórnar.

Forseti heilbrigðisvísindasviðs háskólans skipar sjö menn til setu í stjórn erfða­fræði­nefndar til þriggja ára í senn. Tveir stjórnarmenn skulu vera tilnefndir af heil­brigðis­vísindasviði, tveir af forstjóra Landspítalans, einn af Þjóðskrá (dómsmála- og mann­réttinda­ráðuneyti), einn af landlækni og einn af Siðfræðistofnun Háskóla Íslands. Í stjórn skulu sitja bæði karlar og konur og skal þess gætt að hlutfall kynjanna sé ekki minna en 40%, sbr. 15. gr. laga nr. 10/2008 um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla. Í því skyni skal þess farið á leit við tilnefningaraðila að þeir tilnefni hverju sinni bæði karl og konu til setu í stjórn. Formaður stjórnar skal vera fulltrúi heil­brigðis­vísinda­sviðs, en stjórnin kýs sér varaformann og ritara úr hópi hinna. Formaður, varaformaður og ritari mynda þriggja manna framkvæmdastjórn undir forystu formanns. Umboð framkvæmda­stjórnar ræðst af ákvörðun stjórnar.

Sé ekki ráðinn forstöðumaður fyrir starfsemi erfðafræðinefndar kemur formaður stjórnar fram fyrir hennar hönd, annast daglegan rekstur hennar og framkvæmd á ákvörðunum sem stjórnin hefur tekið.

5. gr.

Stjórnarfundir.

Formaður stjórnar boðar stjórnarfundi bréflega, eða í tölvupósti, með þriggja daga fyrir­vara. Fundarboð skal greina dagskrá fundar.

Skylt er að boða stjórnarfund óski tveir eða fleiri stjórnarmenn þess. Falli atkvæði jöfn á stjórnar­fundi ræður atkvæði formanns eða þess sem gegnir formannsstörfum.

Halda skal gerðabók stjórnar og skulu staðfestar fundargerðir færðar í hana. Afrit fundar­gerða skulu send rektor.

Sé ráðinn forstöðumaður fyrir starfsemi nefndarinnar situr hann stjórnarfundi með mál­frelsi og tillögurétt, en án atkvæðisréttar.

6. gr.

Ábyrgð og verkefni stjórnar.

Stjórnin tekur allar stefnumarkandi ákvarðanir um störf stofnunarinnar, setur starf­seminni rannsóknastefnu og veitir fé til einstakra rannsóknaverkefna. Þá ber stjórnin ábyrgð á fjármálum stofnunarinnar gagnvart heilbrigðisvísindasviði og samþykkir rekstrar- og fjárhagsáætlun. Stjórnin sker úr í vafaatriðum sem upp kunna að koma og varða starfsemina.

7. gr.

Forstöðumaður og starfsmenn.

Heimilt er forseta heilbrigðisvísindasviðs, að fenginni tillögu stjórnar, að ráða forstöðu­mann fyrir starfsemi erfðafræðinefndar. Skal sá sem ráðinn er forstöðumaður að jafnaði hafa doktorsgráðu eða annað sambærilegt háskólapróf. Forseti heilbrigðis­vísindasviðs setur forstöðumanni erindisbréf, að höfðu samráði við rektor, í samræmi við samning heilbrigðisvísindasviðs og Landspítalans.

Forstöðumaður annast daglegan rekstur stofnunarinnar í samræmi við samning heilbrigðis­vísindasviðs og Landspítalans og sér um framkvæmd á þeim málum, sem stjórn felur honum.

Um ráðningu starfsfólks fer að öðru leyti eftir ákvæðum sameiginlegra reglna nr. 569/2009 fyrir Háskóla Íslands.

8. gr.

Fjármál.

Tekjur erfðafræðinefndar Háskóla Íslands eru eftirfarandi:

  1. fjárveitingar skv. ákvörðun Landspítalans,
  2. framlag skv. samstarfssamningum við aðila utan háskólans og sjúkrahússins,
  3. styrkir til einstakra verkefna,
  4. greiðslur fyrir þjónustustarfsemi byggðar á gjaldskrá nefndarinnar sem heil­brigðis­vísindasvið hefur staðfest,
  5. aðrar tekjur, t.d. gjafir og framlag úr ríkissjóði eftir því sem kveðið er á um í fjár­lögum.

Reikningshald erfðafræðinefndar skal vera hluti af reikningshaldi heilbrigðisvísindasviðs. Fjárhagsáætlun og uppgjör skulu borin undir forseta heilbrigðisvísindasviðs og ber að leggja fram og kynna í stjórn sviðsins. Um stjórnunar- og aðstöðugjald af sértekjum fer eftir ákvæðum 73. gr. sameiginlegra reglna nr. 569/2009 fyrir Háskóla Íslands.

Veiti stofnunin þjónustu í samkeppni við aðra aðila, skal sú starfsemi fjárhagslega afmörkuð frá öðrum rekstri stofnunarinnar og þess gætt að sá rekstur sé ekki niður­greiddur með öðrum tekjum, í samræmi við ákvæði samkeppnislaga.

9. gr.

Gildistaka.

Reglur þessar, sem háskólaráð hefur sett að tillögu stjórnar heilbrigðisvísindasviðs sam­kvæmt heimild í 3. mgr. 11. gr. laga nr. 85/2008 um opinbera háskóla, öðlast þegar gildi. Jafnframt falla úr gildi reglur nr. 500/2002 um erfðafræðinefnd Háskóla Íslands.

Háskóla Íslands, 11. desember 2009.

Kristín Ingólfsdóttir.

Þórður Kristinsson.

B deild - Útgáfud.: 22. desember 2009