Velkomin á vef Stjórnartíðinda
Setja síðu í 1024px vídd Setja síðu í 1280px vídd Setja síðu í 1400px vídd Fyrir sjónskerta Venjulegt letur Stækka letur Stækka letur enn meira

Sé munur á uppsetningu texta hér að neðan og í PDF skjali gildir PDF skjalið.
 531/2009

Nr. 531/2009 20. maí 2009
REGLUGERÐ
um heimakennslu á grunnskólastigi.

I. KAFLI

Almenn ákvæði.

1. gr.

Gildissvið o.fl.

Reglugerð þessi tekur til skilyrða fyrir heimild foreldra til heimakennslu, um skipulag hennar og eftirlit.

Með heimakennslu er átt við undanþágu frá skólaskyldu barns, skv. 3. gr. laga nr. 91/2008 um grunnskóla, þar sem foreldrum eða forráðamönnum barns er veitt tímabundin heimild til þess að annast sjálft kennslu þess að hluta eða öllu leyti.

2. gr.

Ábyrgð foreldra.

Foreldrar eða forráðamenn bera ábyrgð á námi barna sinna, innritun þeirra í skóla þegar þau komast á skólaskyldualdur og að þau sæki skóla í sveitarfélaginu. Sveitarstjórn getur veitt foreldrum eða forráðamönnum barns undanþágu til þess að annast sjálft kennslu þess samkvæmt nánari fyrirmælum reglugerðar þessarar.

II. KAFLI

Skilyrði og fyrirkomulag.

3. gr.

Umsókn.

Foreldrar, eða forráðamenn, sem óska eftir heimild til heimakennslu skulu sækja um slíkt til sveitarstjórnar í því sveitarfélagi þar sem þeir eiga lögheimili. Umsókn skulu fylgja eftirtalin gögn:

a.námskrá heimakennslu þar sem fram kemur lýsing á almennri stefnu, starfsháttum og markmiðum heimakennslunnar, ásamt áætlun um með hvaða hætti nemandi uppfylli markmið aðalnámskrár,
b.áætlun um hvers konar félags- og tómstundastarf standi barni til boða,
c.nauðsynleg gögn um menntun, starfsferil og kennsluréttindi þeirra sem annast eiga heimakennsluna,
d.upplýsingar um aðstæður, húsakost og annan aðbúnað vegna kennslunnar.

4. gr.

Úttekt á aðstæðum.

Áður en heimild er veitt til heimakennslu skal til þess bær aðili á vegum sveitarfélagsins taka út aðstæður á heimilinu með tilliti til fyrirhugaðrar kennslu og leggja fyrir skólanefnd og sérfræðiþjónustu greinargerð um athugun sína.

5. gr.

Þjónustuskóli.

Sveitarstjórn felur skólanefnd að hafa milligöngu um að skólastjóri tiltekins grunnskóla í sveitarfélaginu annist þjónustu, ráðgjöf og eftirlit vegna heimakennslu og fara með formleg samskipti við foreldra eða forráðamenn og heimili barns. Sveitarstjórn getur jafnframt falið skólastjóra þjónustuskóla að veita heimild til heimakennslu að höfðu samráði við skólanefnd og sérfræðiþjónustu.

Skólanefnd, í umboði sveitarstjórnar, skipar sérstakan heimakennslufulltrúa til þess að annast samskipti við tiltekinn grunnskóla í sveitarfélaginu. Skólastjóra er heimilt að setja í verklagsreglur nánari fyrirmæli um störf heimakennslufulltrúa, um framkvæmd þjónustu skólans og eftirlit.

6. gr.

Kennsla og skipulag hennar.

Heimakennsla skal byggjast á lögum um grunnskóla og aðalnámskrá grunnskóla.

Efni og skipulag námskrár heimakennslu, sbr. a. lið 3. gr., skal rúmast innan markmiða grunnskólans, sbr. 2. gr. laga nr. 91/2008, um grunnskóla.

7. gr.

Kennarar.

Sá sem annast kennslu samkvæmt reglugerð þessari skal hafa leyfi menntamálaráðherra til að nota starfsheitið grunnskólakennari, sbr. 4. gr. laga nr. 87/2008 um menntun og ráðningu kennara og skólastjórnenda við leikskóla, grunnskóla og framhaldsskóla.

Óheimilt er að fela einstaklingi kennslu sem hlotið hefur refsidóm fyrir brot á ákvæðum XXII. kafla almennra hegningarlaga. Við afgreiðslu umsóknar um heimakennslu skal liggja fyrir sakavottorð eða heimild sveitarstjórnar til þess að afla upplýsinga úr sakaskrá.

8. gr.

Nemendur.

Nemendur sem njóta heimakennslu skulu:

a.skráðir í viðkomandi þjónustuskóla, sbr. 5. gr.,
b.þreyta samræmd könnunarpróf í íslensku og stærðfræði fyrir nemendur í 4., 7. og 10. bekk. Nemendur í 10. bekk skulu auk þess gangast undir samræmd könnunarpróf í ensku, sbr. 39. gr. laga nr. 91/2008 um grunnskóla, þreyta önnur opinber próf og mælingar sem lögð eru fyrir nemendur í þjónustuskóla,
c.eiga kost á að taka þátt í félags- og tómstundastarfi í þjónustuskóla og skólaferðalögum með sama hætti og nemendur þess skóla,
d.eiga sama rétt og aðrir nemendur á námsgögnum án endurgjalds í skyldunámi, skv. 31. gr. laga nr. 91/2008 um grunnskóla. Námsgögnum skal skilað til þjónustuskóla í lok skólaárs.

9. gr.

Heilbrigðisþjónusta.

Heilbrigðisþjónusta skólahverfis skal hafa samráð við skólanefnd og foreldra eða forráðamenn um skipulagningu og fyrirkomulag heilsugæslu, sbr. 41. gr. laga nr. 91/2008 um grunnskóla.

III. KAFLI

Ákvörðun og eftirlit sveitarstjórnar.

10. gr.

Ákvörðun.

Í leyfi til heimakennslu skal kveðið nánar á um eftirfarandi atriði:

a. upplýsingar um foreldra eða forráðamenn og þau börn sem sótt er um heimild fyrir,
b.heimilisfang foreldra eða forráðamanna og hvar kennslan fari fram,
c.nafn grunnskóla og megintengiliðs skólans, heimakennslufulltrúa, við heimilið,
d.tímamörk heimakennslunnar,
e.hverjir annist heimakennsluna og hver sé aðalábyrgðaraðili á heimili,
f.hvernig formlegum tengslum við grunnskólann og skólanefnd verði háttað,
g.hvernig þjónustu og ráðgjöf grunnskólans verði háttað við heimilið, m.a. útvegun námsgagna, aðgangur að sérfræðiþjónustu og félags- og tómstundastarfi á vegum skólans,
h.hvernig háttað verði eftirliti skólanefndar með kennslu og skyldum foreldra eða forráðamanna til þess að láta í té upplýsingar og gögn vegna námsmats og um önnur atriði er varða kennsluna,
i.hvernig tryggt sé að kennslan verði í samræmi við grunnskólalög og aðalnámskrá grunnskóla,
j.áætlun um framkvæmd námsmats og prófa í öllum námsgreinum,
k.fyrirkomulag skólaheilsugæslu.

11. gr.

Lengd heimildar og endurnýjun.

Heimild til heimakennslu skal veitt til eins árs í senn. Áður en heimild til heimakennslu er endurnýjuð skal liggja fyrir skýrsla heimakennslufulltrúa, sbr. 2. mgr. 5. gr.

Sveitarfélög skulu tilkynna menntamálaráðuneyti um veitingu heimilda til heimakennslu.

12. gr.

Eftirlit.

Heimakennslufulltrúi skal skila skýrslu um framkvæmd kennslunnar minnst tvisvar á skólaári, í janúar og júní, til skólastjóra þjónustuskóla. Skólastjóri skólans skal jafnframt upplýsa skólanefnd um framkvæmd heimakennslunnar.

Áður en heimakennsla hefst skal þjónustuskóli fara yfir fyrirliggjandi vitnisburð um nám og stöðu nemanda, ef um slíkt er að ræða. Ef nemandinn hefur ekki áður verið í grunnskóla hér á landi eða er að byrja í grunnskóla skal þjónustuskóli láta fara fram mat á stöðu nemanda áður en heimakennsla er heimiluð.

Foreldrar, eða forráðamenn, skulu í samráði við skólann gera reglulega grein fyrir námsmati og öðru því sem varðar kennsluna og skipulag hennar.

Skólastjóri þjónustuskóla getur ákveðið að nemendur í heimakennslu séu prófaðir í lykilnámsgreinum grunnskóla og lagt fyrir stöðukannarnir í einstökum námsgreinum.

13. gr.

Breyttar aðstæður.

Verði breyting á heimilisaðstæðum, sem hafa áhrif á framkvæmd kennslunnar, meðan á heimakennslu stendur skulu foreldrar eða forráðamenn tilkynna slíkt þegar í stað til sveitarstjórnar sem metur hvort og með hvaða hætti skuli bregðast við.

14. gr.

Heimild til afturköllunar.

Sveitarstjórn er heimilt að afturkalla heimild til heimakennslu ef ákvörðun hefur byggst á röngum eða ófullnægjandi upplýsingum eða aðstæður hafa breyst með þeim hætti að ekki eru lengur til staðar nauðsynleg skilyrði fyrir heimildinni. Um málsmeðferð fer eftir ákvæðum stjórnsýslulaga nr. 37/1993.

15. gr.

Kæruheimild.

Synjun um heimild til heimakennslu eða afturköllun hennar er kæranleg til menntamálaráðherra samkvæmt fyrirmælum 47. gr. laga nr. 91/2008 um grunnskóla.

IV. KAFLI

Önnur ákvæði.

16. gr.

Gildistaka.

Reglugerð þessi, sem sett er með heimild í 46. gr. laga nr. 91/2008 um grunnskóla, öðlast þegar gildi.

Menntamálaráðuneytinu, 20. maí 2009.

Katrín Jakobsdóttir.

Guðmundur Árnason.

B deild - Útgáfud.: 19. júní 2009