Velkomin á vef Stjórnartíðinda
Setja síðu í 1024px vídd Setja síðu í 1280px vídd Setja síðu í 1400px vídd Fyrir sjónskerta Venjulegt letur Stækka letur Stækka letur enn meira

Sé munur á uppsetningu texta hér að neðan og í PDF skjali gildir PDF skjalið.
 393/2008

Nr. 393/2008 22. apríl 2008
REGLUR
um próf til skemmtibátaskírteinis.

1. gr.

Námskrá til skemmtibátaskírteinis.

Próf til að stjórna skemmtibát styttri en 24 metrar að skráningarlengd skal fullnægja ákvæðum námskrár sem Siglingastofnun Íslands setur. Hún skal tilgreina námskröfur um bóklegt og verklegt próf til eftirfarandi skírteinaflokka fyrir vélbáta og seglbáta:

  1. Strandsigling og sigling á takmörkuðu hafsvæði.
  2. Sigling á ám, vötnum og vatnaleiðum innan Evrópu.
  3. Úthafssigling, þ.e. sigling án takmarkana.

Námskráin skal miða við að til að stjórna skemmtibátum í strandsiglingum og á tak­mörkuðu hafsvæði skuli kröfum sem gerðar eru til útgáfu alþjóðlegs skemmtibáta­skírteinis (ICC-skírteini)1 vera fullnægt.

Um námsmat skal hafa til hliðsjónar ákvæði aðalnámskrár framhaldsskóla.

Sá sem staðist hefur bóklegt og verklegt próf og þar með fullnægt þeim menntunar- og þjálfunarkröfum sem í námskrá eru gerðar til þeirra sem stjórna skemmtibát styttri en 24 metrar, hefur öðlast rétt til útgáfu skemmtibátaskírteinis í viðkomandi skírteinaflokki, sbr. ákvæði 7. gr. laga nr. 30/2007 um áhafnir íslenskra fiskiskipa, varðskipa, skemmtibáta og annarra skipa og reglugerðar um skipstjórnar- og vélstjórnarréttindi á fiskiskipum, varðskipum og öðrum skipum.
________
1 Sjá ályktun nr. 40 frá „ECONOMIC COMMISSION FOR EUROPE INLAND TRANSPORT COMMITTEE, Working Party on Inland Water Transport“ varðandi „International Certificate for Operators of Pleasure Craft“ frá 1998.


2. gr.

Próf til skemmtibátaskírteinis.

Próf til að stjórna skemmtibát í strandsiglingu og á takmörkuðu hafsvæði skulu vera bókleg og verkleg og að því er varðar námsefni og framkvæmd þeirra vera í samræmi við námskrá Siglingastofnunar Íslands til skemmtibátaskírteinis. Verklega prófinu má skipta í tvennt, þ.e. til að stjórna seglbátum eða vélbátum. Bóklegt próf er sameiginlegt seglbátum og vélbátum.

Próf til að stjórna skemmtibát á ám, vötnum og vatnaleiðum innan Evrópu er bóklegt og sameiginlegt seglbátum og vélbátum.

Próf til að stjórna skemmtibát á úthafinu, þ.e. utan þess svæðis sem skilgreint er sem strandsigling í 19. tl. 3. gr. laga um áhafnir íslenskra fiskiskipa, varðskipa, skemmtibáta og annarra skipa.

3. gr.

Fyrirkomulag prófa.

Sá sem skipuleggur próf samkvæmt reglum þessum skal að lágmarki vera handhafi þess skírteinis sem prófið veitir rétt til. Hann skal geta lagt til aðstöðu sem að mati Siglinga­stofnunar Íslands og prófdómara telst fullnægjandi og bát af gerð og stærð sem telst fullnægjandi til nota við verkleg próf. Hann skal jafnframt tilkynna Siglingastofnun eða öðrum sem hún tilnefnir með minnst 30 daga fyrirvara hvenær óskað sé eftir að prófið fari fram, hver verði ábyrgur fyrir framkvæmd prófsins og lýsa þeirri aðstöðu og búnaði sem fyrirhugað er að nota við framkvæmd prófsins.

Við framkvæmd prófa skal kanna kunnáttu og hæfni próftaka og skal hann ekki njóta aðstoðar annarra við úrlausnir eða lausn prófverkefnis. Skal sá sem skipuleggur próf ganga úr skugga um að sá sem mættur er til próftöku sé sá sem skráður er til prófs með því að krefja persónuskilríkja með mynd. Siglingastofnun getur sett nánari kröfur um framkvæmd prófa.

Siglingastofnun Íslands eða sá aðili sem hún tilnefnir semur bókleg prófverkefni og afhendir þeim sem skipuleggja próf. Siglingastofnun tilkynnir um prófdaga með minnst 2 vikna fyrirvara og skal próf haldið svo oft sem þörf er á og aðstæður og þátttaka gefa tilefni til. Áður en prófverkefni er lagt fram skal það lagt fyrir prófdómara sem getur gert athugasemdir við prófverkefnið með tilliti til faglegra krafna, lesskilnings og þess að geta metið úrlausnir.

Sá sem skipuleggur verklegt próf skal tilkynna Siglingastofnun Íslands eða öðrum sem hún tilnefnir um fyrirhugað próf með 7 daga fyrirvara. Siglingastofnun skal velja og tilkynna um val á prófdómara eigi síðar en 3 dögum fyrir próf. Verklegt próf skal halda í samráði við prófdómara og umsækjanda með tilliti til veðurskilyrða.

Prófdómarar skulu senda Siglingastofnun eða þeim sem hún tilnefnir skýrslu um fram­kvæmd prófs og lýsa aðstæðum, veðri og þeim búnaði sem notaður var við prófið.

Þeir sem standast bókleg og verkleg próf skulu fá útgefin vottorð undirrituð af próf­dómara eða prófdómurum þar sem fram kemur til hvaða skírteinisflokks vottorðið gildir.

4. gr.

Prófdómarar.

Prófdómarar með bóklegu og verklegu prófi skulu skipaðir af Siglingastofnun Íslands til fimm ára í senn. Prófdómarar í verklegu prófi þurfa ekki að vera hinir sömu og gegna stöðu prófdómara í bóklegu prófi. Prófdómari bóklegs prófs skal a.m.k. hafa lokið skipstjórnarnámi til atvinnuskírteinis skv. námsstigi A. Prófdómari verklegs prófs skal a.m.k. vera handhafi sambærilegs skemmtibátaskírteinis. Siglingastofnun Íslands eða sá sem hún tilnefnir heldur skrá yfir skipaða prófdómara og skal hafa eftirlit með störfum þeirra.

Prófdómarar hafa yfirumsjón með framkvæmd bóklegra og verklegra prófa og hafa eftir­lit með því að próf séu í samræmi við námskrá. Prófdómurum ber að tryggja svo sem kostur er samræmt námsmat.

Prófdómarar skulu vera óháðir og hafa það hlutverk að meta úrlausnir og færni. Enginn getur verið hvort tveggja prófdómari og kennari/prófskipuleggjandi. Telji prófdómari að hann geti verið vanhæfur til þess að gegna þeirri stöðu gagnvart þeim aðila sem annast fræðslu og þjálfun, þeim sem skipuleggur próf eða einstaka umsækjanda, skal hann gera viðvart þar um og fela öðrum prófdómara að meta úrlausnir og færni þegar svo háttar.

Prófdómurum er skylt að senda Siglingastofnun eða þeim sem hún tilnefnir afrit af vottorðum ásamt skýrslu um undirbúning og framkvæmd prófa. Siglingastofnun eða sá sem hún tilnefnir skal halda skrá yfir þá sem öðlast hafa skemmtibátaskírteini og flokkun skemmtibátaskírteina.

5. gr.

Útgáfa skemmtibátaskírteinis.

Um útgáfu skemmtibátaskírteinis fer eftir reglugerð um skipstjórnar- og vélstjórnar­réttindi á fiskiskipum, varðskipum og öðrum skipum. Í skírteini skal koma fram hvort um er að ræða skírteini til að stjórna seglskipi eða vélskipi. Þá skal skírteini tilgreina þá skírteinisflokka sem viðkomandi hefur öðlast rétt til.

6. gr.

Gildistaka o.fl.

Reglur þessar, sem settar eru með heimild í 7. gr. laga nr. 30/2007 um áhafnir íslenskra fiskiskipa, skemmtibáta, varðskipa og annarra skipa, öðlast gildi þegar í stað.

Menntamálaráðuneytinu, 22. apríl 2008.

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir.

Guðmundur Árnason.

B deild - Útgáfud.: 25. apríl 2008