Velkomin á vef Stjórnartíðinda
Setja síðu í 1024px vídd Setja síðu í 1280px vídd Setja síðu í 1400px vídd Fyrir sjónskerta Venjulegt letur Stækka letur Stækka letur enn meira

Sé munur á uppsetningu texta hér að neðan og í PDF skjali gildir PDF skjalið.
 1362/2023

Nr. 1362/2023 28. nóvember 2023

GJALDSKRÁ
fyrir matvæla-, heilbrigðis- og mengunarvarnaeftirlit á svæði Heilbrigðiseftirlits Suðurlands.

1. gr.

Af starfsemi sem háð er starfsleyfi eða eftirliti á starfssvæði Heilbrigðiseftirlits Suðurlands sam­kvæmt lögum nr. 7/1998 um hollustuhætti og mengunarvarnir og reglugerðum settum með stoð í þeim, lögum nr. 55/2003 um meðhöndlun úrgangs og reglugerðum settum með stoð í þeim lögum og lögum um matvæli nr. 93/1995 og reglugerðum settum með stoð í þeim lögum og samkvæmt 8. gr. laga um tóbaksvarnir nr. 6/2002, er heimilt að innheimta gjöld samkvæmt gjaldskrá þessari. Einnig er heimilt að innheimta gjöld samkvæmt gjaldskrá þessari vegna þjónustu heilbrigðis­eftirlitsins skv. framan­greindum lögum. Sama gildir um starfsemi sem háð er eftirliti Heilbrigðis­eftirlits Suðurlands skv. sérstökum samningum um framsal eftirlits með einstökum fyrirtækja­flokkum frá Umhverfis­stofnun eða frá Matvælastofnun til heilbrigðisnefndar.

 

2. gr.

Tímagjald                      20.210 kr.

Gjald vegna rannsóknar pr. sýni í eftirlitsáætlun skv. útlögðum kostnaði.

Af eftirlitsskyldri starfsemi er heimilt að innheimta árlegt gjald eins og fram kemur í viðauka sem auglýstur er sérstaklega sem fylgiskjal með gjaldskrá þessari, enda fari fram reglubundið eftirlit með starfseminni, skv. eftirlitsáætlun.

Sé starfsemi rekin skemur en 6 mánuði á ári eða að öðru leyti takmörkuð með svipuðum hætti er heilbrigðisnefnd heimilt að lækka eftirlitsgjaldið og að sama skapi taka aukalega gjald sé eftirlitið umfangsmeira en gjaldflokkur segir til um.

Ef starfsemi hefur samning við faggilta skoðunarstofu, hefur vottað gæðakerfi eða rekur innra eftir­lit með starfsemi sinni sem heilbrigðisnefnd telur ganga lengra en reglur kveða á um, er heil­brigðis­nefnd heimilt að lækka gjöld og draga úr eftirliti samkvæmt þessari grein.

Þegar sami aðili rekur fleiri en eina tegund starfsemi sem fellur undir gjaldskrá þessa, á einum og sama stað, er heimilt að innheimta eitt árlegt gjald. Þá er áætlaður tími fyrir hvern fyrirtækjaflokk lagður saman en einungis eitt akstursgjald tekið enda eftirlitsferð samnýtt.

Af starfsemi sem er hvorki starfsleyfis- né skráningarskyld með vísun í 54. gr. a í lögum nr. 7/1998 er heimilt að taka gjald skv. útlögðum kostnaði.

 

3. gr.

Af starfsleyfis- og/eða skráningarskyldri starfsemi, er heimilt að innheimta gjald fyrir starfs­leyfi, skráningu og þjónustu eins og hér segir:

Endurnýjun starfsleyfis:  
  Starfsleyfisgjald 1,5 tímagjald
  og gjald skv. reikningi vegna undirbúnings, ferðar,  
  úttektar og frágangs ásamt auglýsingakostnaði ef við á  
     
Ný starfsemi:  
  Starfsleyfisgjald/skráningargjald 2,0 tímagjöld
  og gjald skv. reikningi vegna undirbúnings,  
  og eftirlitsgjald viðkomandi fyrirtækjaflokks  
  ásamt auglýsingakostnaði ef við á  
     
Önnur leyfi sem ekki eru í eftirlitsáætlun s.s. tóbaksöluleyfi:  
  Starfsleyfisgjald 2,0 tímagjöld
  og gjald skv. reikningi vegna undirbúnings, ferðar,  
  úttektar og frágangs, ásamt auglýsingakostnaði ef við á.  
     
Fyrir húsnæðis- og skipaskoðun 4,0 tímagjöld

 

Starfsemi sem er eftirlitsskyld en er ekki á lista í viðauka greiðir eftirlitsgjald eins og um þjón­ustuverkefni sé að ræða.

 

4. gr.

Gjald skv. 3. gr. greiðist við afhendingu leyfisbréfs og reiknast dráttarvextir 30 dögum eftir útgáfudag leyfis.

Heimilt er að semja um annað fyrirkomulag óski rekstraraðilar eftir og skal það þá gert skrif­lega.

 

5. gr.

Fyrir vottorð sem Heilbrigðiseftirlit Suðurlands gefur út samkvæmt fyrirliggjandi gögnum og fyrir eiturbeiðnir skal greiða hálft tímagjald.

Gjald fyrir þjónustuverkefni greiðist samkvæmt reikningi.

Ef um aukin eftirlitsverkefni er að ræða, umfram reglubundið eftirlit og sýnatöku sem gert er ráð fyrir í eftirlitsáætlun Heilbrigðiseftirlits Suðurlands er heilbrigðiseftirlitinu heimilt að gera sér­stakan reikning vegna þeirra, eins og um þjónustuverkefni sé að ræða.

Verk sem unnin eru skv. ákvæðum samþykkta settum samkvæmt lögum nr. 7/1998 um hollustu­hætti og mengunarvarnir eru gjaldfærð eins og um þjónustuverkefni sé að ræða nema um annað hafi verið samið.

Eftirfylgniferðir og úttektir umfram það sem innifalið er í eftirlitsgjaldi greiðast skv. tímagjaldi við­komandi fyrirtækjaflokks.

 

6. gr.

Heilbrigðiseftirlit Suðurlands innheimtir öll gjöld samkvæmt gjaldskrá þessari og sbr. fylgiskjal sem birt er með gjaldskránni.

Um innheimtu gjalda fer samkvæmt 46. gr. laga nr. 7/1998 um hollustuhætti og mengunar­varnir.

Gjöld samkvæmt gjaldskránni er heimilt að innheimta með fjárnámi skv. ofangreindri grein.

Að öðru leyti er vísað í 7. gr. í samþykkt fyrir Heilbrigðiseftirlit Suðurlands bs. nr. 1270/2001 sem varða rekstur og fjármál.

 

7. gr.

Gjalddagi árlegra eftirlitsgjalda samkvæmt 2. og 3. gr. er 1. mars og eindagi 1. apríl ár hvert en annarra gjalda er útgáfudagur reiknings og eindagi 30 dögum síðar. Dráttarvextir reiknast frá gjald­daga séu gjöldin ekki greidd á eindaga auk áfallins innheimtukostnaðar.

 

8. gr.

Gjaldskrá þessi, sem samin er af stjórn byggðasamlags um Heilbrigðiseftirlit Suðurlands og sam­þykkt af aðildarsveitarfélögunum á aðalfundi Heilbrigðiseftirlits Suðurlands 27. október 2023 með vísun í 46. gr. laga nr. 7/1998 um hollustuhætti og mengunarvarnir, 65. gr. laga nr. 55/2003 um meðhöndlun úrgangs og 25. gr. laga nr. 93/1995 um matvæli og samkvæmt 8. gr. laga um tóbaks­­varnir nr. 6/2002 staðfestist hér með til að öðlast gildi við birtingu. Um leið fellur úr gildi gjaldskrá nr. 1280/2022 fyrir matvæla-, heilbrigðis- og mengunarvarnaeftirlit á svæði Heilbrigðis­eftirlits Suður­lands.

 

Selfossi, 28. nóvember 2023.

F.h. heilbrigðisnefndar Suðurlands,

Sigrún Guðmundsdóttir framkvæmdastjóri.

 

Fylgiskjal.
(sjá PDF-skjal)


B deild - Útgáfud.: 12. desember 2023