Velkomin á vef Stjórnartíðinda
Setja síðu í 1024px vídd Setja síðu í 1280px vídd Setja síðu í 1400px vídd Fyrir sjónskerta Venjulegt letur Stækka letur Stækka letur enn meira

Sé munur á uppsetningu texta hér að neðan og í PDF skjali gildir PDF skjalið.
 199/2009

Nr. 199/2009 6. febrúar 2009
SAMÞYKKT
um fráveitu í Hafnarfjarðarkaupstað.

I. KAFLI

Um fráveitur.

1. gr.

Samþykkt þessi gildir um fráveitu í Hafnarfjarðarkaupstað, en jafnframt gilda ákvæði reglugerðar um fráveitur og skólp nr. 798/1999.

2. gr.

Framkvæmdaráð Hafnarfjarðarkaupstaðar í umboði bæjarstjórnar fer með stjórn fráveitu­mála í Hafnarfirði. Undir það fellur:

  1. Fráveita Hafnarfjarðar starfrækir fráveitu í Hafnarfirði. Fráveita Hafnarfjarðar er rekin sem B-hluta fyrirtæki, með sjálfstæðan fjárhag og er í eigu Hafnar­fjarðar­kaupstaðar. Rekstur fráveitu í Hafnarfirði og framkvæmdir eru kostaðar af eigin tekjum af fráveitu- og rotþróagjöldum eða lántökum eftir því sem bæjarstjórn ákveður í fjárhagsáætlun á hverjum tíma.
  2. Umhverfis- og hönnunardeild Hafnarfjarðarkaupstaðar annast rekstur frá­veitu­lagna sem taka við ofanvatni af götum og þar sem við á frá lóðum.

3. gr.

Fráveita Hafnarfjarðar á allar fráveitulagnir frá móttaka að fráveitulögnum húseigna, þ.m.t. holræsalagnir, skólplagnir, stofnlagnir og útrásir. Fráveita Hafnarfjarðar á ennfremur alla brunna, dælubrunna, hverfisrotþrær, dælustöðvar, þrýstilagnir, hreinsi­stöðvar og búnað þeim tengdan.

Fráveita Hafnarfjarðar veitir fráveituvatni sem getur verið húsaskólp, iðnaðarskólp, skólp frá gripahúsum, ofanvatn, kælivatn, ræsisvatn, frárennslisvatn hitaveitu o.fl. um fráveitu­lagnir frá byggð til viðtaka.

Þar sem er ,,einföld fráveita" er öllu fráveituvatni veitt í eina fráveitulögn.

Þar sem er ,,tvöföld fráveita" er fráveituvatni veitt burt í tveimur fráveitulögnum. Menguðu fráveituvatni, s.s. húsaskólpi, iðnaðarskólpi og skólpi frá gripahúsum er veitt eftir einni lögn og öðru fráveituvatni, svo sem ofanvatni, kælivatni, ræsisvatni, frárennslisvatni hitaveitu o.fl. eftir annarri lögn.

Tvöföld fráveita skal vera frá öllum húseignum í nýjum hverfum. Við endurnýjun gatna og fráveitulagna í eldri hverfum og þar sem einföld fráveita er fyrir, verður lögð tvöföld fráveita, sem húseigendur skulu tengja húseignir sínar við.

4. gr.

Húseigandi á fráveitulagnir frá húseign sinni og heimæð að tengistað við Fráveitu Hafnarfjarðar.

Þegar reist eru ný iðnaðar- eða atvinnuhúsnæði skal aðgreina fráveitulagnir húss og koma viðeigandi mengunarvarnabúnaði fyrir þar sem hans er þörf en að öðrum kosti gera ráð fyrir honum ef hans kann síðar að verða þörf. Sama gildir um gripahús.

Þar sem þvottaplön eða búnaður, sem valdið getur mengun í fráveitu, er staðsettur á iðnaðar- eða atvinnulóðum skal gera ráð fyrir viðeigandi mengunarvörnum á fráveitu.

Þar sem aðstæður og byggingaskilmálar leyfa má ofanvatn frá húseignum og lóðum þeirra fara í til þess gerðar grjótþrær í jörðu á lóðum viðkomandi húseigna. Samþykki byggingarfulltrúa þarf fyrir slíkum útfærslum.

Þegar lögð er tvöföld fráveita skulu húseigendur halda húsaskólpi, iðnaðarskólpi eða skólpi frá gripahúsum aðskildu frá ofanvatni, kælivatni, ræsisvatni og bakrennslisvatni hitaveitu.

5. gr.

Þar sem Fráveita Hafnarfjarðar nær til skal húseigendum séð fyrir fráveituheimæðum fyrir fráveituvatn að lóðamörkum húseigna sinna, enda greiði þeir sérstaklega fyrir þær. Þar sem fráveita liggur um lóðir skal húseigendum séð fyrir tengigreinum fyrir fráveituvatn.

Á nýbyggingasvæðum ákveður umhverfis- og hönnunardeild framkvæmdasviðs Hafnarfjarðar í samvinnu við Fráveitu Hafnarfjarðar legu fráveitulagna og fráveitu­heimæða.

6. gr.

Húseigendum sem eiga húseignir við vegi eða opin svæði þar sem fráveita liggur um er skylt að leggja á eigin kostnað fráveituheimæðar frá húseignum sínum og tengja þær við fráveituna.

7. gr.

Þegar ekki er unnt að ná nægilegum halla á fráveituheimæðar frá húseignum að Fráveitu Hafnarfjarðar skulu húseigendur á eigin kostnað leiða fráveituvatn frá húseignum að safnbrunni með sjálfvirkum dælubúnaði, sem dælir síðan skólpinu frá honum um fráveituheimæðina í Fráveitu Hafnarfjarðar.

Umsóknir um slíka útfærslu skal senda byggingarfulltrúa. Umsóknum skulu fylgja sérteikningar sem sýna alla útfærslu og staðsetningar.

Hafi fráveita ekki verið komin þegar húseign var byggð skal húseigandi kosta og tengja fráveituheimæð húseignar sinnar við fráveituna, eftir að hún hefur verið lögð.

8. gr.

Þar sem Fráveita Hafnarfjarðar nær ekki til skulu húseigendur leiða fráveituvatn frá húseignum sínum í safntank eða um rotþrær og siturleiðslur til viðtaka. Rotþró, safntankur og lagnir þessu tengdar eru eign húseiganda, sem kostar niðursetningu og annan frágang svo og allt viðhald, en bæjarstjórn getur sett sérstakar reglur um stuðning við framkvæmdirnar.

Umsóknir um rotþró eða safntank skal senda byggingarfulltrúa.

Umsóknum um rotþrær skulu fylgja sérteikningar sem sýna gerð þeirra og staðsetningu og siturleiðslur að viðtaka, auk fráveitulagna húsa og lóða. Sérteikningar skulu hafa fengið samþykki heilbrigðisnefndar Hafnarfjarðar- og Kópavogssvæðis.

Rotþró skal valin þannig staður að auðvelt sé að komast að henni með tæki til hreinsunar.

Hverja rotþró skal hreinsa og tæma eftir þörfum skv. nánari ákvæðum samþykktar þessarar. Hreinsun fer fram á vegum Fráveitu Hafnarfjarðar og skal heilbrigðisnefnd Hafnarfjarðar- og Kópavogssvæðis hafa eftirlit með framkvæmd hennar.

9. gr.

Þegar tengja skal fráveituheimæðar húseignar við Fráveitu Hafnarfjarðar skal sækja um það til byggingarfulltrúa á þar til gerðum eyðublöðum.

Umsókn skal undirrituð af húseiganda eða fullgildum umboðsmanni hans ásamt pípulagningameistara þeim sem verkið á að vinna.

Umsókn skulu fylgja sérteikningar af fráveitulögnum húss og lóðar og gerð skal grein fyrir tengingu þeirra við fráveituna.

10. gr.

Við gerð sérteikninga skal fylgja almennum reglum um hönnun fráveitulagna og nauðsyn­legs mengunarvarnabúnaðar, sbr. byggingarreglugerð, byggingarskilmála og samþykkt þessa. Allt efni og vinna skal standast kröfur um gæði efnis og vinnu, eins og þær eru á hverjum tíma. Á afstöðumynd skal sýna staðsetningu fráveitulagna, mengunar­varna­búnaðar og tengingu fráveituheimæða við fráveituna sbr. 13. gr.

11. gr.

Byggingarfulltrúi hefur eftirlit með því að fráveitulagnir húseigna og fráveituheimæðar frá húseignum séu lagðar eins og samþykktar sérteikningar segja til um. Eins hefur byggingar­fulltrúi eftirlit með því að nauðsynlegur mengunarvarnabúnaður sér gerður eins og samþykktar sérteikningar segja til um.

Ekki má hylja fráveitulagnir og fráveituheimæðar húseigna í húsgrunni og á lóð né tengingar þeirra við Fráveitu Hafnarfjarðar, rotþró eða safntank fyrr en byggingarfulltrúi hefur tekið lagnirnar út og veitt samþykki sitt fyrir þeim. Sömu ákvæði gilda um mengunarvarnarbúnað.

12. gr.

Eigendum húseigna er skylt að hlíta því að fráveita sé lögð um lóðir þeirra eða lönd og fram fari á henni nauðsynlegt viðhald og hreinsun. Fráveitu Hafnarfjarðar er skylt að halda raski í lágmarki og ganga snyrtilega um og færa allt til fyrra horfs eins og við verður komið.

II. KAFLI

Mengunarvarnir á fráveitu.

13. gr.

Byggingarfulltrúi samþykkir tengingar fráveituheimæða húseignar við Fráveitu Hafnarfjarðar. Umsókn skulu fylgja nauðsynlegar sérteikningar sem sýna fráveitu­heimæðar, fráveitulagnir í húsgrunni og lóð, útfærslu og eftir atvikum gerð og staðsetningu mengunarvarnabúnaðar.

Húseigendum er skylt að halda vel við fráveitulögnum og fráveituheimæðum húseigna sinna sem og mengunarvarnabúnaði þeim tengdum. Gæta skal þess að fráveitulagnir og mengunarvarnabúnaður stíflist ekki og stuðla skal að fullri virkni alls mengunar­varna­búnaðar.

Um mengunarvarnir og búnað þeim tengdan fer samkvæmt ákvæðum samþykktar þessarar og laga um hollustuhætti og mengunarvarnir nr. 7/1998 og reglugerða settra samkvæmt þeim. Heilbrigðisnefnd Hafnarfjarðar- og Kópavogssvæðis metur hvenær þörf er á mengunarvarnabúnaði og hefur eftirlit með að slíkum búnaði sé reglulega viðhaldið og getur sett einstökum húseigendum eða rekstraraðilum kröfur þar um.

14. gr.

Óheimilt er að láta í Fráveitu Hafnarfjarðar hvers kyns spilliefni, olíur, bensín, hættulegan efnaúrgang, lífræn leysiefni eða annað það sem skemmt getur eða truflað rekstur fráveitunnar.

Iðnaðarskólp sem veitt er í fráveitu í Hafnarfirði skal forhreinsað til að tryggja eðlilegan rekstur fráveitunnar og til að tilskilin markmið reglugerðar nr. 798/1999 um fráveitur og skólp náist, sbr. lið C í viðauka I við reglugerðina.

Fyrirtæki og stofnanir með mjög próteinríkt eða fituríkt fráveituvatn, s.s. fiskvinnslur, veitingahús og fyrirtæki í matvælaiðnaði eða matvælavinnslu skulu hafa viðeigandi mengunarvarnabúnað á fráveitu í samræmi við kröfur heilbrigðisnefndar.

Bensínstöðvar, bílaþvottastöðvar, bílgreinafyrirtæki, vélaverkstæði og önnur atvinnu­starfsemi þar sem hætta getur verið á að olía eða leysiefni berist í fráveitu skulu hafa viðeigandi mengunarvarnabúnað á fráveitu í samræmi við kröfur heilbrigðisnefndar.

Sandgildrur skulu vera við þvottaplön og á fráveitum frá atvinnustarfsemi þar sem hætta er á að mikið berist af sandi, salti eða moldarefnum í fráveitu.

Gripahús, eins og t.d. hesthús skulu hafa búnað á fráveitu er tryggir að hálmur, hefilspænir, hey eða dýraskítur berist ekki í fráveitu.

Telji Fráveita Hafnarfjarðar eða umhverfis- og hönnunardeild Hafnarfjarðarkaupstaðar að losun frá tiltekinni atvinnustarfsemi skaði rekstur Fráveitu Hafnarfjarðar er hægt að óska eftir aðkomu heilbrigðisnefndar sem metur í samræmi við ákvæði laga og reglugerða hvort þörf sé á frekari mengunarvarnabúnaði og gerir kröfur í samræmi við það.

Ef mengunarvarnabúnaður er ekki til staðar, telst ekki fullnægjandi eða honum ekki rétt við haldið getur Fráveita Hafnarfjarðar krafið húseiganda um sannanlegan kostnað við hreinsun og viðhald fráveitulagna auk tækja og búnaðar, þ.m.t. í dælu- og hreinsi­stöðvum, sem rekja má til starfsemi í viðkomandi fasteign.

15. gr.

Í fráveitulagnir í húsgrunni og á lóð sem tengjast mengunarvarnabúnaði skal ekki fara annað fráveituvatn en mengunarvarnabúnaðurinn er gerður fyrir. Mengunarvarnabúnaði skal að öllu jöfnu komið fyrir þar sem auðvelt er að komast að honum til hreinsunar og viðhalds.

Á framkvæmdasvæðum húsbygginga og gatna skal húseigandi eða framkvæmdaraðili, eftir því sem við á, sjá til þess að jarðvegur, timburafgangar og annar byggingaúrgangur fari ekki inn í fráveitulagnir Hafnarfjarðar. Verði rekstraraðilar fráveitu fyrir kostnaði, sem rekja má til þess að eftir þessu hafi ekki verið farið, er hægt að krefja hlutaðeigandi aðila um greiðslu á sannanlegum kostnaði við hreinsunina.

16. gr.

Þar sem hætta er á að fráveituvatn frá Fráveitu Hafnarfjarðar flæði til baka um fráveituheimæðar húseiganda, t.d. vegna vatnsborðsriss af völdum ofanvatns eða hárrar sjávarstöðu skal húseigandi koma fyrir á eigin kostnað einstreymislokum á fráveitu­heimæðar, sjálfvirkum flóðlokum við gólfniðurföll eða annan búnað sem aðstæður kunna að krefjast. Gera skal grein fyrir þessum búnaði á sérteikningum fráveitu­lagna fyrir viðkomandi húseign.

III. KAFLI

Um fráveitu- og rotþróargjald.

17. gr.

Á nýbyggingasvæðum er heimilt að innheimta stofngjald vegna tengingar og lagningar frárennslisheimæða frá lóðamörkum húseigenda að Fráveitu Hafnarfjarðar. Gjaldið skal ákveðið í gjaldskrá sem bæjarstjórn setur og birtir í B-deild Stjórnartíðinda í samræmi við ákvæði laga nr. 7/1998 um hollustuhætti og mengunarvarnir.

Í eldri byggð skal húseigandi greiða fyrir tengingu þessa samkvæmt útlögðum kostnaði Fráveitu Hafnarfjarðar.

18. gr.

Þær húseignir í Hafnarfirði sem liggja við vegi, götur eða opin svæði og tengjast Fráveitu Hafnarfjarðar, skulu árlega greiða fráveitugjald og skal því varið til þess að standa straum af kostnaði við Fráveitu Hafnarfjarðar.

19. gr.

Álagningarstofn fráveitugjalds skal vera fasteignamat húsa, mannvirkja, lóða og landa, samkvæmt lögum um skráningu og mat fasteigna nr. 60/2001.

20. gr.

Fráveitugjald greiðist af skráðum eiganda fasteignar ef um eignarlóð er að ræða en af skráðum eiganda húseigna eða annarra mannvirkja á leigulóðum og bera þessir aðilar ábyrgð á greiðslu gjaldsins. Gjald þetta skal ákveðið með sérstakri gjaldskrá sem bæjarstjórn setur og birtir í B-deild Stjórnartíðinda í samræmi við ákvæði laga nr. 7/1998 um hollustuhætti og mengunarvarnir. Fráveitugjaldið innheimtist á sama hátt og önnur fasteignagjöld til Hafnarfjarðarkaupstaðar. Fráveitugjaldið er tryggt með lögveðsrétti í viðkomandi fasteign tvö ár eftir gjalddaga. Nýtur fráveitugjaldið lögveðsréttar í lóð og mannvirkjum næstu tvö ár eftir gjalddaga með forgangsrétti á undan hvers konar samningsveði og aðfararveði.

21. gr.

Fyrir hreinsun og tæmingu á rotþró skal húseigandi greiða árlegt rotþróargjald sem standa skal undir kostnaði við verkið. Gjald þetta skal ákveðið með sérstakri gjaldskrá í samræmi við ákvæði laga nr. 7/1998 um hollustuhætti og mengunarvarnir sem bæjarstjórn setur og lætur birta í B-deild Stjórnartíðinda.

Miðað skal við að rotþró verði hreinsuð að jafnaði annað hvert ár og oftar ef þörf er talin á.

Rotþróargjald hvers árs skal innheimt á sama hátt og fasteignagjöld til Hafnarfjarðar.

Heimilt er Hafnarfjarðarkaupstað að innheimta aukagjald af þeim húseignum, þar sem um óvenju mikinn kostnað er að ræða við hreinsun og tæmingu eða þegar um sérstaka rotþró við gripahús eða safntank er að ræða. Gjald þetta má þó aldrei vera hærra en svo að nemi sannanlegum kostnaði við verkið.

22. gr.

Bæjarstjórn er heimilt að nýta sér heimild skv. lögum nr. 137/1995 um niðurfellingu eða lækkun gjalda skv. samþykkt þessari með tilliti til tekjulítilla elli- og örorkulífeyrisþega.

23. gr.

Brot gegn samþykkt þessari varða sektum falli þau undir refsiákvæði laga nr. 7/1998 um hollustuhætti og heilbrigðiseftirlit nema þyngri refsing liggi við samkvæmt öðrum lögum. Brot skulu sæta þeirri málsmeðferð sem boðin er í lögum um meðferð opinberra mála.

24. gr.

Samþykkt þessa gerði bæjarstjórn Hafnarfjarðarkaupstaðar og staðfestist hún hér með samkvæmt 25. gr. laga nr. 7/1998 um hollustuhætti og mengunarvarnir með síðari breytingum, sbr. og 8. gr. a sömu laga, 3. ml. 5. mgr., 4. gr. laga nr. 55/2003 um meðhöndlun úrgangs og samkvæmt X. kafla vatnalaga nr. 15/1923 til þess að öðlast þegar gildi.

Umhverfisráðuneytinu, 6. febrúar 2009.

F. h. r.
Sigríður Auður Arnardóttir.

Sigurbjörg Sæmundsdóttir.

B deild - Útgáfud.: 20. febrúar 2009