Velkomin á vef Stjórnartíðinda
Setja síðu í 1024px vídd Setja síðu í 1280px vídd Setja síðu í 1400px vídd Fyrir sjónskerta Venjulegt letur Stækka letur Stækka letur enn meira

Sé munur á uppsetningu texta hér að neðan og í PDF skjali gildir PDF skjalið.
 38/2011

Nr. 38/2011 10. janúar 2011
SAMÞYKKT
fyrir búfjárhald í Sveitarfélaginu Hornafirði.

1. gr.

Markmið og gildissvið.

Samþykkt þessi er sett til að tryggja skipulag, stjórn og eftirlit með búfjárhaldi í Sveitarfélaginu Hornafirði, koma í veg fyrir ágang á lóðir íbúanna og vernda gróður í sveitarfélaginu. Atvinnumálanefnd skal fylgjast með framkvæmd samþykktar þessarar og gefa bæjarstjórn reglulega upplýsingar um framkvæmdina.

2. gr.

Takmörkun á búfjárhaldi og skilyrði til búfjárhalds utan lögbýla.

Búfjárhald (nautgripa, hrossa, svína, sauðfjár, kanína, geitfjár og alifugla) er óheimilt utan lögbýla í Sveitarfélaginu Hornafirði nema með leyfi bæjarstjórnar að uppfylltum eftirtöldum skilyrðum:

  1. Að búfjáreigendur hafi jafnan fullnægjandi aðstöðu til þess að halda búfé, bæði hvað varðar húsakost og fóður. Þeir skulu gæta þess að fjöldi búfjár sé innan þeirra marka sem bæjarstjórn hefur tiltekið í leyfi sínu. Búfjáreftirlitsmenn skulu fylgjast með því að reglur þessar séu haldnar.
  2. Að aðbúnaður búfjár og meðferð þess sé jafnan í fyllsta samræmi við ákvæði laga um búfjárhald og dýravernd. Þá er búfjáreigendum skylt að hlíta hvers konar fyrirmælum um hreinlæti og heilbrigðishætti. Eftirlit með þessum reglum skal vera samkvæmt VII. kafla laga um dýravernd nr. 15/1994 og lögum um búfjárhald o.fl. nr. 103/2002.
  3. Að búfé sé ávallt í öruggri vörslu búfjáreigenda.
  4. Að verði breyting á eignarhaldi búfjár, ber að gera bæjarstjórn grein fyrir því sem þá ákveður framhald leyfisveitingar.

3. gr.

Leyfisveitingar.

Telji Sveitarfélagið Hornafjörður að umsækjandi uppfylli skilyrði skv. 2. gr., veitir það leyfi til búfjárhalds. Leyfisveiting búfjárhalds skuldbindur þó ekki sveitarfélagið til að sjá búfjáreigendum fyrir beitilandi, hagagöngu eða slægjum handa búfé né veita þeim aðra aðstöðu til búfjárhalds.

Leyfi til búfjárhalds er veitt til ákveðins tíma en er uppsegjanlegt með eins árs fyrirvara miðað við 15. júní ár hvert. Samþykkið er háð gildandi lögum og reglum um búfjárhald eins og þær eru á hverjum tíma og er gefið út á nafn og er ekki framseljanlegt. Sá sem fær leyfi til búfjárhalds samkvæmt samþykkt þessari skal hafa búféð í öruggri vörslu og ber hann að öllu leyti ábyrgð á því.

Hafi búfjáreigandi gerst sekur um illa meðferð á búfé, skal hann sviptur leyfi til búfjárhalds.

4. gr.

Aðbúnaður búfjár.

Eigandi búfjár skal hafa fyrir það hús sem samræmist gildandi reglugerðum um aðbúnað búfjár eða annars góðum búskaparháttum að mati sveitarstjórnar. Sama gildir um allt umhverfi húsanna.

Eigandi búfjár skal hafa fyrir það beitiland og fóður og tryggja góða meðferð þess.

Gangi búfé úti á vetrarbeit, skal eigandi eða umráðamaður þess ábyrgjast nægilegt fóður, viðunandi skjól og örugga vörslu.

5. gr.

Varsla búfjár, þar með talið bann við lausagöngu og ákvæði um beitilönd.

Lausaganga búfjár er bönnuð á eftirtöldum svæðum:

Á vegsvæði þjóðvegar nr. 1 frá Almannaskarði að Hornafjarðarfljótum.
Á vegsvæði þjóðvegar nr. 99, Hafnarvegi.

Viðhald girðinga og eftirlit með friðuðum vegsvæðum er samkvæmt samningi sveitarfélagsins og Vegagerðarinnar þar um.

Búfjáreigendum er heimilt að reka búfé sitt um friðuð svæði, sbr. 1. mgr. 5. gr. með leyfi umráðamanns lands, enda sé ávallt tryggt að hæfilegur fjöldi gæslumanna sé tiltækur til að tryggja að búfé sleppi ekki úr vörslu eigenda búfjárins.

Þar sem reka þarf búfé yfir veg til beitar með reglubundnum hætti, skal veghaldari sjá til þess að tilhlýðilegar merkingar séu til staðar, vegfarendum til aðvörunar.

Sveitarstjórn heldur skrá yfir lönd í eigu sveitarfélagsins, sem leigð eru til beitar og/eða slægna. Umsóknir um land til beitar eða slægna, skal senda til sveitarstjóra sem úthlutar landi samkvæmt tillögu atvinnumálanefndar.

6. gr.

Takmörkun á flutningi, sleppingu og rekstri fjár.

Eigendum sauðfjár og geitfjár er óheimilt að reka, sleppa, flytja eða að stuðla að því með öðrum hætti að sauðfé og geitfé gangi yfir Hornafjarðarfljót, þar sem það rennur á hverjum tíma. Flutningur sauðfjár og geitfjár sem villist yfir fljótið, til síns heima, er þó heimill. Þrátt fyrir framangreint skal eigendum Svínafells í Nesjum vera heimilt að nytja land eins og verið hefur.

7. gr.

Viðurlög við brotum gegn samþykktinni.

Brot gegn samþykkt þessari varða sektum. Með mál út af brotum skal farið að hætti opinberra mála skv. 18. gr. laga um búfjárhald o.fl. nr. 103/2002, með síðari breytingum.

8. gr.

Samþykkt og gildistaka.

Samþykkt þessi er samþykkt af bæjarstjórn Sveitarfélagsins Hornafjarðar við tvær umræður og staðfestist hér með skv. 5. gr. laga nr. 103/2002, með síðari breytingum, til þess að öðlast gildi við birtingu. Við gildistöku hennar fellur úr gildi samþykkt fyrir búfjárhald í Sveitarfélaginu Hornafirði nr. 565/2008.

Sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytinu, 10. janúar 2011.

F. h. r.

Kristinn Hugason.

Arnór Snæbjörnsson.

B deild - Útgáfud.: 24. janúar 2011