Velkomin á vef Stjórnartíðinda
Setja síðu í 1024px vídd Setja síðu í 1280px vídd Setja síðu í 1400px vídd Fyrir sjónskerta Venjulegt letur Stækka letur Stækka letur enn meira

Sé munur á uppsetningu texta hér að neðan og í PDF skjali gildir PDF skjalið.
 1520/2022

Nr. 1520/2022 22. desember 2022

REGLUR
um lausafjárhlutfall lánastofnana.

1. gr.

Gildissvið.

Reglur þessar gilda um lánastofnanir og samstæður lánastofnana sem reikna lausafjárhlutfall í samræmi við 1. mgr. 412. gr., sbr. 460. gr. reglugerðar (ESB) nr. 575/2013, sbr. lög nr. 161/2002, um fjármála­fyrirtæki.

Ákvæði 3. gr. og 1. mgr. 5. gr. gilda ekki um Byggðastofnun og Lánasjóð sveitarfélaga ohf.

 

2. gr.

Lausafjárhlutfall.

Lausafjáreignir lánastofnana í öllum gjaldmiðlum samtals skulu á hverjum tíma nema a.m.k. 100% af hreinu útflæði lauss fjár þeirra í öllum gjaldmiðlum samtals næstu 30 daga á álagstímabili, sbr. 2. mgr. 4. gr. reglugerðar (ESB) 2015/61, með síðari breytingum, sbr. 4. gr. reglna þessara. Lána­stofnanir skulu fylgja ákvæðum reglugerðarinnar við útreikning á lausafjárhlutfalli.

 

3. gr.

Sérstakar kröfur um lausafjárhlutfall.

Lausafjáreignir lánastofnana í íslenskum krónum skulu á hverjum tíma nema a.m.k. 50% af hreinu útflæði lauss fjár þeirra í íslenskum krónum næstu 30 daga á álagstímabili.

Lausafjáreignir lánastofnana í evrum skulu á hverjum tíma nema a.m.k. 80% af hreinu útflæði lauss fjár þeirra í evrum næstu 30 daga á álagstímabili, ef að skuldbindingar lánastofnunar í evrum nema 10% eða meira af heildarskuldbindingum lánastofnunar.

Lánastofnanir skulu fylgja ákvæðum reglugerðar (ESB) 2015/61, með síðari breytingum, sbr. 4. gr. reglna þessara, við útreikning á lausafjárhlutfalli skv. 1. og 2. mgr. þessa ákvæðis.

 

4. gr.

Innleiðing reglugerða.

Með reglum þessum öðlast gildi hér á landi eftirtaldar reglugerðir framkvæmdastjórnarinnar (ESB) með þeim aðlögunum sem leiða af ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 80/2019 frá 29. mars 2019 sem birt er í EES-viðbæti við Stjórnartíðindi Evrópusambandsins nr. 44 frá 2. júlí 2020 bls. 59, og ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 182/2022 sem birt er í EES-viðbæti við Stjórnartíðindi Evrópusambandsins nr. 66 frá 13. október 2022 bls. 27-28, sbr. einnig bókun 1 um altæka aðlögun við samninginn um Evrópska efnahagssvæðið, sbr. lög um Evrópska efnahags­svæðið, nr. 2/1993, þar sem bókunin er lögfest:

  1. Framseld reglugerð framkvæmdastjórnarinnar (ESB) 2015/61 frá 10. október 2014 um við­bætur við reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) nr. 575/2013 að því er varðar lausafjár­þekjukröfu fyrir lánastofnanir.
  2. Framseld reglugerð framkvæmdastjórnarinnar (ESB) 2018/1620 frá 13. júlí 2018 um breyt­ingu á framseldri reglugerð framkvæmdastjórnarinnar (ESB) 2015/61 um viðbætur við reglu­gerð Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) nr. 575/2013 að því er varðar lausafjárþekju fyrir lána­stofnanir.
  3. Framseld reglugerð framkvæmdastjórnarinnar (ESB) 2022/786 frá 10. febrúar 2022 um breyt­ingu á framseldri reglugerð framkvæmdastjórnarinnar (ESB) 2015/61 um viðbætur við reglu­gerð Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) nr. 575/2013 að því er varðar lausafjárþekju fyrir lána­stofnanir.

Með vísan til heimildar í ákvæði til bráðabirgða III í lögum nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki, sbr. lög nr. 57/2015, vísar Seðlabanki Íslands til birtingar enskrar útgáfu af reglugerðum fram­kvæmda­stjórnarinnar (ESB) 2015/61, 2018/1620 og 2022/786, í Stjórnartíðindum Evrópu­sambands­ins (e. Official Journal of the European Union):

  1. https://eur-lex.europa.eu/legal-content/EN/TXT/PDF/?uri=CELEX:32015R0061&from=EN, birt í OJ deild L, undirdeild R, nr. 11, þann 17. janúar 2015, bls. 1;
  2. https://eur-lex.europa.eu/legal-content/EN/TXT/PDF/?uri=CELEX:32018R1620&from=EN, birt í OJ deild L, undirdeild R, nr. 271, þann 30. október 2018, bls. 10;
  3. https://eur-lex.europa.eu/legal-content/EN/TXT/PDF/?uri=CELEX:32022R0786&from=EN, birt í OJ deild L, undirdeild R, nr. 141, þann 20. maí 2022, bls. 1.

 

5. gr.

Upplýsingagjöf.

Auk reglubundinna skýrslna um laust fé, sem lánastofnanir skila Seðlabanka Íslands í samræmi við reglugerð (ESB) 2021/451, sbr. reglur um gagnaskil fjármálafyrirtækja, skulu lánastofnanir skila innstæðuyfirliti í samræmi við leiðbeiningar Seðlabankans, sbr. 1. mgr. 32. gr. laga nr. 92/2019, um Seðlabanka Íslands, og 1. mgr. 9. gr. laga nr. 87/1998, um opinbert eftirlit með fjármála­starfsemi.

Falli lausafjárhlutfall lánastofnunar niður fyrir lágmark skv. 2. og 3. gr., hvort heldur það gerist á álagstíma eða ekki, eða sé fyrirsjáanlegt að það gerist innan næstu sex mánaða, skal lánastofnunin án tafar tilkynna það Seðlabankanum skriflega og tilgreina ástæður þess með fullnægjandi hætti. Hlutaðeigandi lánastofnun skal enn fremur afhenda Seðlabankanum tímasetta áætlun um hvernig hún hyggst ná því lágmarki lausafjárhlutfalls sem fram kemur í 2. og 3. gr. Þar til lágmarki skv. 2. og 3. gr. er náð skal lánastofnun skila skýrslu um laust fé í lok hvers dags.

 

6. gr.

Gildistaka.

Reglur þessar, sem settar eru með heimild í 82. tölul. 2. mgr. og 3. mgr. 117. gr. b laga nr. 161/2002, um fjármálafyrirtæki, öðlast gildi 1. janúar 2023. Á sama tíma falla úr gildi reglur nr. 266/2017, um lausafjárhlutfall lánastofnana, með síðari breytingum.

 

Seðlabanka Íslands, 22. desember 2022.

 

  Ásgeir Jónsson
seðlabankastjóri. 
Haukur C. Benediktsson
framkvæmdastjóri fjármálastöðugleika.

                                                      

                                                     


B deild - Útgáfud.: 28. desember 2022