Velkomin á vef Stjórnartíðinda
Setja síðu í 1024px vídd Setja síðu í 1280px vídd Setja síðu í 1400px vídd Fyrir sjónskerta Venjulegt letur Stækka letur Stækka letur enn meira

Sé munur á uppsetningu texta hér að neðan og í PDF skjali gildir PDF skjalið.
 637/2017

Nr. 637/2017 12. júlí 2017

REGLUGERÐ
um fjárhæð, álagningu og innheimtu veiðigjalds fiskveiðiárið 2017/2018.

1. gr.

Gjaldskyldir aðilar.

Eigendur íslenskra fiskiskipa sem stunda veiðar á nytjastofnum sjávar skulu greiða veiðigjald fiskveiðiárið 2017/2018, svo sem í reglugerð þessari segir.

Til nytjastofna sjávar samkvæmt lögum þessum teljast sjávardýr, svo og sjávargróður, sem nytjuð eru og kunna að verða nytjuð, hvort sem er innan eða utan íslenskrar fiskveiðilögsögu.

2. gr.

Fjárhæð veiðigjalds.

Veiðigjald hvers nytjastofns, í krónum á hvert kílógramm óslægðs afla, er sem hér segir:

  Veiðigjald   Veiðigjald
 Blágóma 2,53  Loðna 1,71
 Blálanga 8,73  Lýsa 6,66
 Búrfiskur 68,94  Makríll 3,27
 Djúpkarfi 15,17  Náskata 2,30
 Gjölnir 2,99  Rækja 1,61
 Grálúða 50,79  Sandkoli 2,53
 Grásleppa 8,73  Síld 3,27
 Gullkarfi 11,72  Skarkoli 14,94
 Gulllax 5,52  Skata 5,06
 Háfur 4,60  Skrápflúra 2,30
 Hákarl 1,15  Skötuselur 22,29
 Hámeri 4,60  Slétti langhali 8,50
 Hlýri 14,94  Snarphali 2,53
 Humar 17,69  Sólkoli 32,86
 Hvítskata 5,97  Steinbítur 11,26
 Hörpudiskur 8,96  Stinglax 7,12
 Ígulker 7,12  Stóra brosma 2,53
 Keila 6,20  Tindaskata 1,38
 Kolmunni 1,25  Ufsi 11,72
 Langa 10,11  Úthafskarfi 16,09
 Langlúra 5,52  Ýsa 26,20
 Litla brosma 1,61  Þorskur 22,98
 Litli-karfi 6,89  Öfugkjafta 15,86

Veiðigjald annarra nytjastofna en í töflunni greinir er 1,03 kr. á hvert kílógramm óslægðs afla.

Veiðigjald fyrir hval er sem hér segir: Langreyður 51.440 kr. og hrefna 8.230 kr.

3. gr.

Afsláttur af greiðslu veiðigjalds.

Hver gjaldskyldur aðili á rétt á því að veittur sé 20% afsláttur af fyrstu 4.630.000 kr. álagðs veiði­gjalds og 15% afsláttur af næstu 4.630.000 kr. álagningarinnar.

4. gr.

Álagning og innheimta veiðigjalds.

Fiskistofa leggur á veiðigjöld. Gjaldskyldir aðilar skulu greiða veiðigjöld fyrir landaðan afla fyrir hvert greiðslutímabil samkvæmt upplýsingum um skráningu afla í aflaskráningarkerfi Fiskistofu. Við álagningu skal leiðrétta fyrir slægingu eða annarri aflanýtingu fyrir löndun ef við á, sbr. 3. mgr. 7. gr. laga um veiðigjald.

Greiðslutímabil veiðigjalda er almanaksmánuður. Gjalddagi veiðigjalda er 1. hvers mánaðar vegna veiða þarsíðasta mánaðar.

Skráður eigandi skips við álagningu veiðigjalds er ábyrgur fyrir greiðslu þess. Ef fleiri en einn eigandi er að skipi bera allir eigendur þess óskipta ábyrgð á greiðslu veiðigjalds og er heimilt að ganga að hverjum þeirra sem er.

Innheimtumenn ríkissjóðs innheimta veiðigjald og fer tollstjóri með samræmingar- og eftir­lits­hlutverk við innheimtu þess, sbr. 1. mgr. 111. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt.

Sé veiðigjald ekki greitt innan 14 daga frá gjalddaga skal greiða ríkissjóði dráttarvexti af því sem gjaldfallið er. Þá skal Fiskistofa jafnframt fella almennt veiðileyfi hlutaðeigandi skips niður.

Kröfum um greiðslu veiðigjalds fylgir lögveð ríkissjóðs í hlutaðeigandi skipi í fjögur ár frá gjalddaga. Lögveðið nær einnig til dráttarvaxta og innheimtukostnaðar.

Fiskistofa birtir árlega upplýsingar um álagningu veiðigjalds. Upplýsingar um álagningu og inn­heimtu veiðigjalds á hvern og einn greiðanda eru opinberar upplýsingar sem öllum er heimill aðgangur að.

5. gr.

Gildistími o.fl.

Reglugerð þessi er sett með heimild í 2. mgr. 4. gr. og 16. gr. laga nr. 74/2012 um veiðigjöld, með síðari breytingum og lögum nr. 116/2006 um stjórn fiskveiða, með síðari breytingum og birtist til eftirbreytni öllum þeim, sem hlut eiga að máli.

Reglugerðin öðlast þegar gildi og kemur til framkvæmda við álagningu veiðigjalds á fiskveiðiárinu 2017/2018 sem hefst 1. september 2017.

Fyrirmæli reglugerðarinnar gilda fyrir almanaksárið 2018 í tilviki stofna sem stjórnað er með aflamarki sem gefið er út í upphafi árs.

Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytinu, 12. júlí 2017.

F. h. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra,

Baldur P. Erlingsson.

Hinrik Greipsson.


B deild - Útgáfud.: 13. júlí 2017