Velkomin á vef Stjórnartíðinda
Setja síðu í 1024px vídd Setja síðu í 1280px vídd Setja síðu í 1400px vídd Fyrir sjónskerta Venjulegt letur Stækka letur Stækka letur enn meira

Sé munur á uppsetningu texta hér að neðan og í PDF skjali gildir PDF skjalið.
 1165/2017

Nr. 1165/2017 12. desember 2017

REGLUR
um aukastörf héraðsdómara, landsréttardómara og hæstaréttardómara og eignarhlut þeirra í félögum og atvinnufyrirtækjum og skráningu þeirra.

1. gr.

Reglur þessar eru settar samkvæmt ákvæðum 1. og 2. tl. 1. mgr. 10. og 45. gr. laga um dómstóla nr. 50/2016 og taka til skipaðra dómara, settra dómara og aðstoðarmanna dómara sem fara með dómsvald.

2. gr.

Reglur þessar fjalla um almennar og sértækar undanþágur sem nefnd um dómarastörf getur veitt þeim sem taldir eru upp í 1. gr., sbr. 45. gr. laga nr. 50/2016. Ber að leita samþykkis nefndarinnar fyrirfram óski dómari að taka að sér aukastarf sem ekki er fjallað um í 4. og 5. gr. þessara reglna. Dómari skal tilkynna nefndinni þegar hann lætur af aukastarfi, sem hann hefur heimild til að sinna í óákveðinn tíma og sé tímabundið starf framlengt.

3. gr.

Dómara er óheimilt að taka að sér önnur störf. Frá því getur nefnd um dómarastörf veitt undan­þágu, ef ljóst er að slíkt er ekki ósamrýmanlegt stöðu dómara eða leiðir af sér hættu á að hann geti ekki sinnt embættisstarfi sínu sem skyldi.

Umsókn um að mega gegna aukastarfi skulu fylgja tiltækar upplýsingar um eðli starfsins, hvað ætla megi um umfang þess og tímalengd, hvort endurgjald fylgi því og hver greiði það.

Ef aukastarf, sem heimild hefur fengist fyrir, breytist þannig að hugsanlegt sé að það samrýmist ekki lengur stöðu dómara, ber honum að gera nefnd um dómarastörf grein fyrir því. Hið sama á við ef umfang aukastarfs eykst verulega.

Nefnd um dómarastörf getur krafið dómara upplýsinga um hve miklum tíma hann hafi varið í fram­kvæmd aukastarfs.

Ákvörðun nefndarinnar um hvort heimila skuli dómara að gegna tilteknu aukastarfi skal byggð á heildarmati á aðstæðum dómarans og eðli þeirra starfa sem um ræðir í hvert eitt sinn.

4. gr.

Dómara er heimilt í takmörkuðum mæli að taka að sér kennslu- og prófdómarastörf án þess að leita fyrirfram leyfis nefndar um dómarastörf. Sama gildir um setu í dómstólasýslunni eða önnur trún­aðar­störf í þágu dómskerfisins og dómara, setu í dómnefndum, svo sem um hæfi umsækjenda um stöðu háskólakennara og embætti dómara, og nefnd sem sér um prófraun sem veitir löggildingu eða réttindi til annarra lögfræðilegra starfa eða embætta.

Dómara ber að tilkynna nefnd um dómarastörf um störf, sem um ræðir í þessari grein, áður en hann tekur við þeim.

5. gr.

Dómara er heimilt að taka að sér ólaunuð störf í þágu áhugamannasamtaka og þarf hvorki að tilkynna nefnd um dómarastörf um slík viðfangsefni né leita samþykkis hennar fyrir þeim. Sama gildir um skráningu dómara í trú- eða lífsskoðunarfélög, stjórnmálaflokka og samtök sem starfa í almannaþágu. Sjái nefnd um dómarastörf sérstakt tilefni til að kanna umfang eða eðli slíkra starfa skal dómari þó gera grein fyrir þeim.

Dómari skal tilkynna nefndinni ef hann tekur þátt í starfi systra- eða bræðrafélaga, svo sem frímúrara­reglunnar, reglu Oddfellowa eða annarra slíkra samtaka.

6. gr.

Dómara er ekki heimilt að sitja í gerðardómi samkvæmt tilnefningu eins eða einungis sumra málsaðila. Bannið á ekki við ef tilnefning í gerðardóm er sameiginleg af hendi beggja eða allra málsaðila eða stafar frá þeim, sem falið er í gerðarsamningi eða með lögum að tilnefna dómara, en leita skal heimildar nefndarinnar samkvæmt 2. og 3. gr. þessara reglna.

Dómara er óheimilt að taka að sér málflutningsstörf. Sama máli gegnir um önnur hefðbundin lög­manns­störf ef endurgjald kemur fyrir.

Dómara er óheimilt að gegna stjórnunarstörfum í félagi eða hjá lögaðila, sem hefur þann megin­tilgang að stunda atvinnustarfsemi í hagnaðarskyni.

7. gr.

Dómara er óheimilt að eiga hlut í félagi eða atvinnufyrirtæki. Frá því getur nefnd um dómarastörf veitt undanþágu, ef ljóst er að slíkt er ekki ósamrýmanlegt stöðu dómara eða leiðir af sér hættu á að hann geti ekki sinnt embættisstarfi sínu sem skyldi.

Dómara er heimilt að eiga hlut í félagi eða atvinnufyrirtæki sem rekið er í hagnaðarskyni en er skylt að tilkynna það nefnd um dómarastörf. Sama á við um önnur félög sem dómari á eignarhlut í.

Dómari skal leita heimildar nefndar um dómarastörf til að eiga áfram eða eignast hlut í félagi eða atvinnufyrirtæki sem rekið er í hagnaðarskyni, sé eignarhluturinn að verðmæti 5.000.000 krónur eða meira þegar heimildar er leitað, eða ef hann nemur 5% eða meira.

Hvort sem tilkynnt er um eignarhlut eða leitað heimildar til að eiga hlut skal tilgreina fjölda hluta, nafnverð og markaðsverð.

Leggi dómari fé í fjárfestingarsjóð, verðbréfasjóð eða sambærilegan sjóð sem veitir dómara hlut­deild í sjóði um sameiginlega fjárfestingu, samanber lög nr. 128/2011 um verðbréfasjóði, fjár­fest­ingar­sjóði og fagfjárfestasjóði, er honum ekki skylt að tilkynna nefnd um dómarastörf þá ráð­stöfun fjár.

8. gr.

Nefnd um dómarastörf heldur skrá samkvæmt reglum þessum, sbr. 2. tl. 10. gr. laga nr. 50/2016. Í skránni skulu koma fram upplýsingar um:

  1. Aukastörf sem dómara ber að leita samþykkis fyrir hjá nefnd um dómarastörf til samræmis við ákvæði 2. gr.
  2. Störf, sem dómara ber að tilkynna, samkvæmt ákvæði 4. gr.
  3. Tilkynningarskylda þátttöku í bræðra- og systrafélögum samkvæmt ákvæði 2. mgr. 5. gr.
  4. Hvort dómari hafi tekið sæti í gerðardómi sl. þrjú ár, til samræmis við ákvæði 6. gr.
  5. Eignarhluti dómara í félagi eða atvinnufyrirtæki samkvæmt ákvæði 7. gr.

Skrá skal upplýsingar um heiti starfs samkvæmt a-lið, í hvers þágu það er unnið, hvort endurgjald kemur fyrir og um lok starfs. Einnig hvenær heimild var veitt eða starf tilkynnt. Afmá skal upp­lýsingar úr skránni þegar liðin eru þrjú ár frá því að dómari lét af starfinu.

Í skránni skulu auk þess koma fram upplýsingar um aðalstarf og helstu aukastörf sem dómari gegndi þegar hann var skipaður dómari. Afmá skal upplýsingar þegar þrjú ár eru liðin frá skipun.

Sérstakar reglur um opinbera birtingu upplýsinga sem skráin geymir skulu settar í samráði við dómstólasýsluna, sbr. 2. tl. 1. mgr. 10. gr. laga nr. 50/2016.

9. gr.

Aðili dómsmáls á rétt á að fá upplýsingar um aukastörf dómara, sem fer með mál hans, sem og um eignarhluti dómara í félagi eða atvinnufyrirtæki, telji nefndin tilefni til þess. Nefndin ákveður hvaða upplýsingar eru gefnar og í hvaða formi. Sama gildir hafi máli sem viðkomandi dómari hefur dæmt verið áfrýjað til æðra dómstigs, beðið hefur verið um endurupptöku þess, eða kvörtun vegna meints brots á 6. gr. mannréttindasáttmála Evrópu hafi verið beint til Mannréttindadómstóls Evrópu. Nefnd um dómarastörf getur krafist þess að beiðni um framangreindar upplýsingar sé sérstaklega rökstudd.

10. gr.

Nefnd um dómarastörf getur með rökstuddri ákvörðun meinað dómara að gegna aukastarfi eða eignast hlut í félagi eða atvinnufyrirtæki, einnig að taka þátt í ólaunaðri starfsemi sem er aug­ljós­lega ósamrýmanleg starfi dómara. Dómara ber að hlíta slíku banni, en heimilt er að leita úrlausnar dómstóla um lögmæti þess, sbr. 3. mgr. 45. gr. laga nr. 50/2016. Hafi dómari þegar tekið að sér starf eða eignast hlut í félagi eða atvinnufyrirtæki skal hann laga sig að ákvörðun nefndarinnar innan sex mánaða að því er aukastarfið varðar, en tólf mánaða að því er varðar eignarhlutann.

11. gr.

Nefnd um dómarastörf ákveður hvað skal koma fram í og í hvaða formi tilkynningar dómara til nefndarinnar skulu vera.

12. gr.

Reglur þessar öðlast gildi 1. janúar 2018. Með því falla úr gildi reglur nr. 463/2000 um aukastörf héraðs- og hæstaréttardómara og eignarhlut þeirra í félögum og atvinnufyrirtækjum.

Reykjavík, 12. desember 2017.

Nefnd um dómarastörf,

Hjördís Hákonardóttir.

  Ása Ólafsdóttir. Friðgeir Björnsson.

B deild - Útgáfud.: 28. desember 2017