1. gr.
Þinggjöld sem leggja skal á tekjur ársins 2018 og ekki hafa verið innheimt í staðgreiðslu skulu greidd á tíu gjalddögum á árinu 2019. Eru gjalddagar fyrsti dagur hvers mánaðar nema í janúar og í þeim mánuði sem álagningu lýkur samkvæmt ákvörðun fjármála- og efnahagsráðherra. Eindagi er mánuði eftir gjalddaga, sbr. þó 2. mgr. 4. gr.
2. gr.
Þar til álagning ársins 2019 liggur fyrir skal hver gjaldandi greiða fyrirfram upp í álagningu ársins. Fyrirframgreiðslan skal á hverjum gjalddaga nema 8,5% af þinggjöldum ársins 2018 og 8,5% af jöfnunargjaldi vegna alþjónustu sem greiða bar á árinu 2018. Við skiptingu fyrirframgreiðsluskyldu og eftirstöðva álagningar skal við það miðað að ekki sé til innheimtu lægri fjárhæð en 5.000 kr. á hverjum gjalddaga.
Þau þinggjöld sem lögaðilar skulu greiða í fyrirframgreiðslu eru tekjuskattur, sérstakur fjársýsluskattur og jöfnunargjald alþjónustu.
Menn skulu fyrirframgreiða tekjuskatt, útsvar og jöfnunargjald alþjónustu eftir því sem kveðið er á um.
3. gr.
Árlegir gjalddagar eftirtalinna gjalda eru sem hér segir:
Gjalddagar einstaklinga vegna sérstaks gjalds til Ríkisútvarpsins ohf. eru 1. júní, 1. júlí og 1. ágúst. Gjalddagi vegna gjalds í framkvæmdasjóð aldraðra, slysatryggingar vegna heimilisstarfa og ógreidds fjársýsluskatts, sem ríkisskattstjóri ákvarðar vegna hlunninda, og fjársýsluskatts, sem undanþeginn er staðgreiðslu skal vera einn, 1. júní.
Gjalddagi lögaðila vegna sérstaks gjalds til Ríkisútvarpsins ohf., sérstaks fjársýsluskatts, sérstaks skatts á fjármálafyrirtæki og ógreidds fjársýsluskatts, sem ríkisskattstjóri ákvarðar vegna hlunninda, og fjársýsluskatts, sem undanþeginn er staðgreiðslu er 1. október.
Gjalddagi tryggingagjalds utan staðgreiðslu er 1. júní.
4. gr.
Hafi skattar, þ.e. fyrirframgreiðsla og álögð gjöld, ekki verið greiddir innan mánaðar frá gjalddaga skal greiða ríkissjóði dráttarvexti af því sem gjaldfallið er frá gjalddaga.
Vanskil gjaldanda að hluta á álögðum sköttum og gjöldum valda því að allir skattar gjaldandans falla í eindaga mánuði eftir gjalddaga vangoldinnar greiðslu, en þó ekki fyrr en mánuði eftir að álagningu er lokið.
5. gr.
Heimilt er gjaldanda að sækja um lækkun á þeirri fjárhæð þinggjalda, sem honum hefur verið gert að greiða fram að álagningu ársins 2019 skv. 2. gr. Umsókn um slíka lækkun skal senda ríkisskattstjóra til ákvörðunar.
6. gr.
Ríkisskattstjóri skal að jafnaði ekki taka til greina umsókn gjaldanda, sbr. 5. gr., nema þeir skattstofnar sem um ræðir fyrir tekjuárið 2018 séu meira en 25% lægri en þeir voru á tekjuárinu 2017. Frá þessari reglu má þó víkja ef sérstaklega stendur á að mati ríkisskattstjóra.
Ríkisskattstjóra er heimilt að setja nánari reglur um ákvörðun á takmörkun greiðsluskyldu og önnur atriði varðandi framkvæmd þessarar greinar.
7. gr.
Ákvörðun varðandi umsókn um lækkun á fyrirframgreiðslu skal ríkisskattstjóri tilkynna gjaldanda eins fljótt og unnt er og ef fallist er á umsókn skal niðurstaða einnig tilkynnt innheimtuaðila. Ákvörðun ríkisskattstjóra skal vera endanleg á stjórnsýslustigi.
8. gr.
Um greiðslur þinggjalda á árinu 2019 fer að öðru leyti samkvæmt ákvæðum XIII. kafla laga nr. 90/2003, um tekjuskatt, með síðari breytingum.
9. gr.
Reglugerð þessi, sem sett er samkvæmt heimild í 112., 114. og 121. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt, með síðari breytingum, og 22. gr. laga nr. 81/2003, um fjarskipti, með síðari breytingum, öðlast þegar gildi.
Fjármála- og efnahagsráðuneytinu, 18. desember 2018.
F. h. r.
Maríanna Jónasdóttir.
Ingibjörg Helga Helgadóttir.
|