Velkomin á vef Stjórnartíðinda
Setja síðu í 1024px vídd Setja síðu í 1280px vídd Setja síðu í 1400px vídd Fyrir sjónskerta Venjulegt letur Stækka letur Stækka letur enn meira

Sé munur á uppsetningu texta hér að neðan og í PDF skjali gildir PDF skjalið.
 362/2020

Nr. 362/2020 21. apríl 2020

REGLUR
um sóttkví og einangrun vegna COVID-19.

1. gr.

Gildissvið.

Reglur þessar gilda um alla þá einstaklinga sem sóttvarnalæknir skyldar í sóttkví eða einangrun á grundvelli sóttvarnalaga nr. 19/1997, með síðari breytingum, hvort sem það er gert með almennri ákvörðun eða ákvörðun sem beint er sérstaklega að viðkomandi.

Með reglum þessum er kveðið á um afkvíun landsins alls eins og nánar er útfært í reglunum samkvæmt 12. gr. sóttvarnalaga nr. 19/1997 í samræmi við tillögu sóttvarnalæknis til heilbrigðis­ráðherra.

 

2. gr.

Markmið.

Sóttkví og einangrun eru opinberar sóttvarnaráðstafanir sem beitt er til að draga úr útbreiðslu farsótta, hvort sem er til eða frá Íslandi, innanlands eða til að varna útbreiðslu smits frá einstak­lingum. Sóttkví er beitt þegar einstaklingur hefur mögulega smitast af sjúkdómi en er ekki með einkenni. Einangrun er beitt þegar einstaklingur er með smitandi sjúkdóm.

 

3. gr.

Skylda til að fara í sóttkví.

Öllum þeim, sem koma til Íslands frá löndum sem skilgreind eru af sóttvarnalækni sem há­áhættusvæði, er skylt að fara í sóttkví í 14 daga frá komu til landsins. Sóttvarnalæknir skal reglu­lega endurmeta hvaða lönd og svæði teljist hááhættusvæði, s.s. með hliðsjón af skilgreiningu alþjóða­­stofnana.

Til að tryggja rétta framkvæmd sóttkvíar getur sóttvarnalæknir gert kröfu til flytjenda að farþegar sem koma til landsins fylli út þar til gert eyðublað eða veiti upplýsingar meðal annars um dvalar­stað hér á landi og afhendi þar til bærum yfirvöldum á landamærum.

Allir þeir sem hafa umgengist einstaklinga með COVID-19 skulu fara í sóttkví í 14 daga frá því að þeir umgengust síðast smitaðan einstakling. Sóttvarnalæknir, eða þeir sem hann hefur falið að sinna því verkefni, getur gefið fyrirmæli um að einstaklingur fari í sóttkví ef möguleiki er á því að viðkomandi hafi smitast af COVID-19 og er skylt að hlýða þeim fyrirmælum.

Einstaklingar sem búsettir eru hér á landi skulu sjálfir tilkynna um að þeir séu komnir í sóttkví í gegnum Heilsuveru á veffangið heilsuvera.is eða með tilkynningu til sinnar heilsugæslustöðvar.

 

4. gr.

Skyldur einstaklinga sem eru í sóttkví.

Þeim sem gert hefur verið að sæta sóttkví, hvort sem er á grundvelli 1. eða 2. mgr. 3. gr., er skylt að halda sig heima við eða á þeim stað þar sem þeir eru í sóttkví og hafa bein samskipti við sem fæsta einstaklinga, sbr. leiðbeiningar sóttvarnalæknis.

Í sóttkví felst eftirfarandi:

  1. Einstaklingur má ekki fara út af heimili nema brýna nauðsyn beri til, svo sem til að sækja nauðsynlega heilbrigðisþjónustu. Einstaklingur má þó fara í gönguferðir en þarf að halda sig í a.m.k. 2 metra fjarlægð frá öðrum vegfarendum.
  2. Einstaklingur má ekki taka á móti gestum á heimili sínu meðan sóttkví stendur yfir.
  3. Einstaklingur má ekki nota almenningssamgöngur og einungis sérútbúna leigubíla.
  4. Einstaklingur má ekki fara til vinnu eða skóla þar sem aðrir eru.
  5. Einstaklingur má hvorki fara á mannamót né á staði þar sem margir koma saman, þ.m.t. í verslanir eða lyfjabúðir.
  6. Einstaklingur má ekki dvelja í sameiginlegum rýmum fjölbýlishúsa, svo sem stigagöngum, þvottahúsum eða sameiginlegum görðum/útivistarsvæðum, nema á leið inn og út.

 

5. gr.

Nánar um framkvæmd sóttkvíar.

Einstaklingar á sama heimili, sem voru útsettir fyrir smiti á sama tíma, geta verið í sóttkví saman á sama stað.

Sé hluti heimilismanna í sóttkví geta aðrir heimilismenn sinnt sínum daglegu störfum og börn farið í skóla hafi þau þroska og getu til að halda fjarlægð við þann sem er í sóttkví og sinna eigin hrein­læti. Gestir mega aftur á móti ekki koma á heimilið.

Vilji eða geti einstaklingar sem ekki hafa verið útsettir fyrir smiti ekki fara af heimilinu ættu þeir að takmarka snertingu við þann sem er í sóttkví eins og hægt er.

Ef sá sem er í sóttkví veikist verða aðrir heimilismenn að fara í sóttkví.

Sóttvarnalæknir hefur gefið út nánari leiðbeiningar fyrir almenning um sóttkví, sbr. fylgiskjal 1 með reglum þessum. Einnig getur hann mælt sérstaklega fyrir um hvernig sóttkví skuli háttað í einstaka tilfellum, telji hann tilefni til.

 

6. gr.

Undanþágur.

Sóttvarnalæknir getur veitt undanþágu frá sóttkví vegna samfélagslega ómissandi innviða sem mega ekki stöðvast, svo sem á sviði raforku, fjarskipta, samgangna, sorphirðu, heilbrigðisstarfsemi, löggæslu, sjúkraflutninga eða slökkviliða.

Þá getur sóttvarnalæknir veitt undanþágu frá sóttkví vegna kerfislega og efnahagslega mikil­vægrar starfsemi, svo sem til að tryggja fæðuöryggi, dreifingu nauðsynjavara eða efnahagslegt öryggi ríkisins með útflutningi.

 

7. gr.

Sérstakar reglur um einangrun.

Einstaklingar sem eru með staðfesta sýkingu af COVID-19 eða ætla má að þeir kunni að vera smitaðir, en þurfa ekki á sjúkrahúsdvöl að halda skulu vera í einangrun í heimahúsi eða á stað sem almannavarnir og heilsugæsla á hverjum stað tilgreina.

Einstaklingur í einangrun á að halda sig heima við og hafa bein samskipti við sem fæsta, sbr. leiðbeiningar sóttvarnalæknis. Ákvæði 4. og 5. gr. eiga einnig við um þá sem sæta einangrun nema strangari reglur eigi við. Þannig má einstaklingur í einangrun t.a.m. ekki fara í gönguferðir og ekki nota leigubíla.

Að jafnaði skal einstaklingur sem er smitaður vera einsamall í einangrun. Aðrir heimilismenn geta þó verið í sóttkví á sama stað ef þeir vilja ekki eða geta ekki farið af heimilinu en þeir eiga að takmarka snertingu við þann sem er í einangrun eins og raunhæft er og helst að halda sig í a.m.k. 1 m fjarlægð frá hinum smitaða. Ef fleiri veikjast á heimilinu lengir það tíma sem aðrir heimilismenn þurfa að vera í sóttkví og mögulega einangrun.

Sóttvarnalæknir hefur gefið út nánari leiðbeiningar fyrir almenning um einangrun, sbr. fylgi­skjal 2 með reglum þessum. Einnig getur hann mælt sérstaklega fyrir um hvernig einangrun skuli háttað í einstaka tilfellum, telji hann tilefni til.

Einangrun vegna COVID-19 má læknir aflétta þegar 14 dagar eru liðnir frá greiningu og sjúklingur hefur verið einkennalaus í a.m.k. sjö daga.

 

8. gr.

Viðurlög.

Brot gegn reglum þessum varða sektum eða fangelsi skv. 19. gr. sóttvarnalaga nr. 19/1997 eða 175. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.

 

9. gr.

Gildistaka.

Reglur þessar sem settar eru á grundvelli 18. gr., sbr. 12. gr., sóttvarnalaga nr. 19/1997, með síðari breytingum, öðlast þegar gildi. Frá sama tíma falla úr gildi reglur nr. 259/2020, um sótttkví og einangrun vegna COVID-19.

Reglur þessar falla úr gildi 15. maí 2020.

 

Heilbrigðisráðuneytinu, 21. apríl 2020.

 

Svandís Svavarsdóttir.

Ásta Valdimarsdóttir.

 

Fylgiskjöl.
(sjá PDF-skjal)


B deild - Útgáfud.: 22. apríl 2020