Velkomin á vef Stjórnartíðinda
Setja síðu í 1024px vídd Setja síðu í 1280px vídd Setja síðu í 1400px vídd Fyrir sjónskerta Venjulegt letur Stækka letur Stækka letur enn meira

Sé munur á uppsetningu texta hér að neðan og í PDF skjali gildir PDF skjalið.
 398/2006

Nr. 398/2006 4. maí 2006
SAMÞYKKT
fyrir búfjárhald í Sveitarfélaginu Ölfusi.

1. gr.

Í Sveitarfélaginu Ölfusi er búfjárhald heimilt á lögbýlum með þeim skilyrðum að ábúendur lögbýla tilkynni bæjarstjórn um búfjárhaldið þegar það hefst og þegar því lýkur, þannig að sveitarstjórn geti uppfyllt ákvæði 4. gr. II. kafla laga um búfjárhald nr. 103/2002. Sama gildir um búfjárhald utan lögbýla, svo sem í Þorlákshöfn.

Með búfé í samþykkt þessari er átt við alifugla, geitfé, hross, kanínur, loðdýr, nautgripi, sauðfé og svín.

2. gr.

Skilyrði fyrir búfjárhaldi í Sveitarfélaginu Ölfusi eru þau sömu og almennt gilda í landinu, þ.e. að allir þeir sem búfjárhald stunda, jafnt á lögbýlum sem utan þeirra, uppfylli ákvæði gildandi laga og reglugerða um búfjárhald, aðbúnað búfjár, sjúkdómavarnir, afréttarmál o.fl. í samræmi við aðild sveitarfélagsins að búfjáreftirlitssvæði nr. 30.

3. gr.

Lausaganga búfjár er óheimil í Sveitarfélaginu Ölfusi án leyfis bæjarstjórnar. Lausaganga sauðfjár er þó heimil á vegsvæði ógirts Krísuvíkurvegar um vor- og haustbeitarhólf í Selvogi og í eftirtöldum tveim sumarbeitarhólfum.

  1. Hellisheiðarhólf (Norðurhólf): Afmarkast af girðingu frá Laxá í Kjós suður að Fossvöllum við Suðurlandsveg, þaðan austur um Fóelluvötn, norðan vegar, um Hellisheiði að Kömbum og norðan við Hveragerði, um Grafningsfjöll og Ingólfsfjall að Sogi. Fé af bæjum norðan og austan Bjarnastaða skal rekið eða flutt norður fyrir girðingu þessa þar sem hún liggur um sveitarfélagið.
  2. Selvogshólf (Suðurhólf): Afmarkast að sunnan af vor- og haustbeitarhólfi í Selvogi, girðingu á hinum gömlu hreppamörkum Selvogs og Ölfuss, austan og norðan Geitafells, norðan Guðrúnarbotna, sunnan Heiðinnar há og í Hlíðarvatn að vestan. Fé frá Bjarnastöðum og bæjum vestan við þá, þar með úr Þorlákshöfn, og frá Vindási, skal rekið eða flutt í hólf þetta.

Sauðfjáreigendur skulu annast alla smölun og réttarhald í framangreindum tveim beitarhólfum, í Hellisheiðarhólfi í samvinnu við aðliggjandi sveitarfélög, í samræmi við ákvæði afréttarlaga. Lausaganga hrossa er bönnuð í báðum beitarhólfunum og skulu hross undanþegin fjallskilum. Fjallskilanefnd Ölfuss hefur umsjón með framkvæmd fjallskila í báðum beitarhólfunum í umboði sveitarstjórnar Ölfuss.

4. gr.

Sveitarfélagið Ölfus skuldbindur sig til að tryggja að vörslulínur beitarhólfanna beggja, innan sveitarfélagsmarka, séu fjárheldar fyrir 1. júní ár hvert, að haldið sé uppi reglubundnu eftirliti með girðingum þessum til hausts og búfé sem fram kann að koma utan beitarhólfa og annarra girðinga í sveitarfélaginu sé handsamað og skráð.

Sveitarfélagið Ölfus áskilur sér rétt til að innheimta hjá búfjáreiganda útlagðan kostnað við handsömun og vörslu lausagöngufénaðar þyki sannað að um ítrekuð tilvik eða vanrækslu sé að ræða.

5. gr.

Brot gegn samþykkt þessari varða sektum og með mál út af brotum skal farið að hætti opinberra mála.

6. gr.

Samþykkt þessi er samþykkt af bæjarstjórn Ölfuss og staðfestist hér með samkvæmt 5. gr. laga nr. 103/2002, ásamt síðari breytingum, til þess að öðlast gildi 1. júní 2006.

Landbúnaðarráðuneytinu, 4. maí 2006.

Guðni Ágústsson.

Atli Már Ingólfsson.

B deild - Útgáfud.: 18. maí 2006