1. gr.
Gildissvið.
Reglugerð þessi gildir um strandveiðar, þar sem fenginn afli telst ekki til aflamarks eða krókaaflamarks, samkvæmt 6. gr. a í lögum nr. 116/2006, um stjórn fiskveiða.
2. gr.
Strandveiðar.
Í maí, júní, júlí og ágúst 2022 er, að fengnu leyfi Fiskistofu, heimilt að veiða á handfæri, það aflamagn sem tiltekið er til strandveiða í töflu í 3. mgr. 2. gr. reglugerðar nr. 920/2021 um veiðar í atvinnuskyni fiskveiðiárið 2021/2022, sem ekki reiknast til aflamarks eða krókaaflamarks þeirra fiskiskipa sem stunda handfæraveiðar samkvæmt reglugerð þessari. Ráðherra er heimilt að auka heildarveiði í samræmi við 5. mgr. 8. gr. laga nr. 116/2006, til að unnt sé að nýta 12 daga til strandveiða í hverjum mánuði á hverju landsvæði.
3. gr.
Leyfi til veiða.
Fiskistofa skal auglýsa eftir umsóknum um leyfi til strandveiða.
Fiskistofu er eingöngu heimilt að veita fiskiskipi leyfi til strandveiða að fullnægðum ákvæðum 5. gr. laga nr. 116/2006.
Skal leyfið veitt á því svæði þar sem heimilisfesti útgerðar viðkomandi fiskiskips er skráð, samkvæmt þjóðskrá eða fyrirtækjaskrá ríkisskattstjóra, og skal öllum afla skips með leyfi til strandveiða landað í löndunarhöfn þess landsvæðis.
Einungis er heimilt að veita hverri útgerð, eiganda, einstaklingi eða lögaðila, leyfi til strandveiða fyrir eitt fiskiskip. Enginn eigenda lögaðila sem á bát með strandveiðileyfi getur átt aðild að nema einu strandveiðileyfi. Fiskistofa skal fella niður strandveiðileyfi fiskiskips, þá þegar, ef fyrir liggja gögn sem sýna fram á að skilyrði 1. og 2. ml. eru ekki uppfyllt.
Eigandi fiskiskips skal vera lögskráður á skipið. Þegar fiskiskip er í eigu lögaðila er fullnægjandi að einn eigenda lögaðilans sé lögskráður á skipið. Í umsókn lögaðila um leyfi til strandveiða skulu koma fram upplýsingar um eignarhald á lögaðilanum. Fiskistofu er heimilt að krefjast gagna um eignarhald á lögaðila, s.s. aðgangs að ársreikningum og upplýsingum úr hlutafélagaskrá til að staðreyna skilyrði 4. mgr.
Óheimilt er að veita fiskiskipi leyfi til strandveiða hafi aflamark í þorskígildum talið, umfram það aflamark sem flutt hefur verið til þess á fiskveiðiárinu, verið flutt af því. Eftir útgáfu leyfis til strandveiða er skipum óheimilt að flytja frá sér aflamark þess árs umfram það sem flutt hefur verið til skips.
Frá útgáfudegi strandveiðileyfis er fiskiskipi óheimilt til loka fiskveiðiárs að stunda veiðar í atvinnuskyni samkvæmt öðrum leyfum nema strandveiðileyfi hafi verið fellt úr gildi samkvæmt 8. mgr.
Þrátt fyrir ákvæði 7. mgr. er fiskiskipi sem hefur fengið strandveiðileyfi heimilt að óska eftir að leyfið verði fellt úr gildi, skal sú ósk berast Fiskistofu í síðasta lagi 20. dag mánaðarins á undan, og er fiskiskipi þá heimilt að stunda fiskveiðar í atvinnuskyni samkvæmt öðrum leyfum. Þó tekur slík niðurfelling strandveiðileyfis ekki gildi fyrr en mánuðinn eftir að ósk um niðurfellingu á sér stað. Hafi strandveiðileyfi fiskiskips verið fellt úr gildi, getur það fiskiskip ekki fengið strandveiðileyfi að nýju á umræddu strandveiðitímabili.
4. gr.
Svæðaskipting.
Heimildir til strandveiða samkvæmt þessari reglugerð skiptast á fjögur löndunarsvæði, sem eru:
- Eyja- og Miklaholtshreppur – Súðavíkurhreppur,
- Strandabyggð – Grýtubakkahreppur,
- Þingeyjarsveit – Djúpavogshreppur,
- Sveitarfélagið Hornafjörður – Borgarbyggð.
Heimilt er hverju skipi með strandveiðileyfi að stunda strandveiðar í 12 veiðidaga innan hvers mánaðar mánuðina maí, júní, júlí og ágúst, með takmörkunum samkvæmt 5. gr. Skipi á strandveiðum er einungis heimilt að landa afla innan síns löndunarsvæðis.
Fiskistofa skal, með auglýsingu í Stjórnartíðindum, stöðva strandveiðar þegar sýnt er að leyfilegum heildarafla samkvæmt 2. gr. verði náð samkvæmt reglugerð þessari. Skulu fiskiskip sem leyfi hafa til strandveiða þá hætta veiðum.
5. gr.
Veiðar.
Strandveiðileyfi samkvæmt reglugerð þessari eru bundin eftirfarandi skilyrðum:
- Óheimilt er að stunda veiðar föstudaga, laugardaga og sunnudaga. Þá eru strandveiðar bannaðar; uppstigningardag, annan í hvítasunnu og á frídegi verslunarmanna.
- Hver veiðiferð skal eigi standa lengur en 14 klukkustundir. Miðað er við þann tíma er fiskiskip lætur úr höfn til veiða til þess er það kemur til hafnar aftur til löndunar. Aðeins er heimilt að fara í eina veiðiferð á hverjum degi. Nái fiskiskip ekki af óviðráðanlegum ástæðum, s.s. vegna vélarbilunar, til hafnar innan 14 klukkustunda frá upphafi veiðiferðar getur Fiskistofa þó, að fengnum skýringum útgerðar, fallist á að skilyrði þessa töluliðar séu uppfyllt. Skipstjóri skal tilkynna brottför úr höfn til vaktstöðvar siglinga. Í tilkynningu skal ávallt koma fram úr hvaða höfn haldið er til strandveiða. Fiskiskip skal hafa um borð sjálfvirkan fjareftirlitsbúnað og skal hin sjálfvirka skráning lögð til grundvallar við útreikning sóknar. Óheimilt er að fara í veiðiferð nema fjareftirlitsbúnaður um borð sé virkur. Bili búnaður í veiðiferð, skal strax tilkynna það til Landhelgisgæslu og halda tafarlaust til hafnar til löndunar.
- Aldrei er heimilt að hafa fleiri en fjórar handfærarúllur um borð. Engin önnur veiðarfæri en handfærarúllur skulu vera um borð.
- Á hverju fiskiskipi er aðeins heimilt að draga 650 kg, í þorskígildum talið, af kvótabundnum tegundum, að ufsa undanskildum, í hverri veiðiferð. Heimilt er hverju strandveiðiskipi að landa ufsa án þess að sá afli telji til hámarksafla skv. 5. tölul. 5. mgr. 6. gr. a. Um ufsaafla sem ekki reiknast til heimilaðs afla í hverri veiðiferð strandveiðiskips gilda eftirtalin skilyrði:
- Að aflanum sé haldið aðskildum frá öðrum afla skipsins og hann veginn sérstaklega og skráður.
- Að aflinn sé seldur á viðurkenndum uppboðsmarkaði fyrir sjávarafurðir og andvirði hans renni til sjóðs, sbr. 3. mgr. 1. gr. laga nr. 37/1992, um sérstakt gjald vegna ólögmæts sjávarafla, með síðari breytingum, sbr. þó 2. málsl. 2. mgr. þessa töluliðar.
Sé heimild skv. 1. mgr. nýtt skulu forráðamenn uppboðsmarkaðarins þar sem aflinn er seldur standa skil á andvirði hins selda afla að frádregnum hafnargjöldum og kostnaði við uppboðið. Þá skal útgerð skipsins fá 80% af andvirði selds afla sem skiptist milli útgerðar og áhafnar samkvæmt samningum þar um.
- Skylt er að landa öllum afla í lok hverrar veiðiferðar og skal hann veginn og skráður endanlega hér á landi.
Fiskistofu er heimilt að krefjast gagna um eignarhald á lögaðila, aðgangs að ársreikningum og upplýsingum úr hlutafélagaskrá til að staðreyna skilyrði 3. mgr. 3. gr.
6. gr.
Viðurlög.
Brot gegn reglugerð þessari varða viðurlögum samkvæmt ákvæðum laga nr. 116/2006 um stjórn fiskveiða.
7. gr.
Gildistaka.
Reglugerð þessi er sett með heimild í 6. gr. a laga nr. 116/2006 um stjórn fiskveiða. Reglugerðin öðlast þegar gildi. Jafnframt fellur úr gildi reglugerð nr. 420/2021, um strandveiðar fiskveiðiárið 2020/2021.
Matvælaráðuneytinu, 25. apríl 2022.
Svandís Svavarsdóttir.
Áslaug Eir Hólmgeirsdóttir.
|