Velkomin á vef Stjórnartíðinda
Setja síðu í 1024px vídd Setja síðu í 1280px vídd Setja síðu í 1400px vídd Fyrir sjónskerta Venjulegt letur Stækka letur Stækka letur enn meira

Sé munur á uppsetningu texta hér að neðan og í PDF skjali gildir PDF skjalið.
 1023/2009

Nr. 1023/2009 11. desember 2009
REGLUR
um Menntavísindastofnun Háskóla Íslands.

1. gr.

Almennt.

Menntavísindastofnun Háskóla Íslands er vísindaleg rannsókna- og fræðastofnun sem starf­rækt er á menntavísindasviði Háskóla Íslands.

2. gr.

Hlutverk.

Meginhlutverk Menntavísindastofnunar er að efla rannsóknir og rannsóknaumhverfi innan menntavísindasviðs. Stofnuninni er ætlað að styðja rannsóknastofur og einstaka rann­sak­endur með aðstoð við skipulag rannsókna, gerð umsókna í rannsóknasjóði, með ráðgjöf og aðstoð við birtingu á niðurstöðum rannsókna og með því að veita upplýsingar og ráðgjöf um innlenda og erlenda rannsóknasjóði og aðrar fjármögnunarleiðir.

Stofnunin skal gangast fyrir og greiða fyrir ráðstefnum, málstofum, fyrirlestrahaldi og útgáfustarfsemi sem tengjast rannsóknum og rannsóknastofum við sviðið og bera faglega ábyrgð á árlegu málþingi menntavísindasviðs um rannsóknir, nýbreytni og þróun.

Ennfremur skal stofnunin stuðla að samstarfi rannsakenda sviðsins við fræðimenn utan þess, bæði innlenda og erlenda, svo og samstarfi við tengdar stofnanir innan og utan Háskóla Íslands. Að auki skal stofnunin sinna rannsókna- og þjónustuverkefnum sem tengjast fræðasviðum menntavísindasviðs, stuðla að sýnileika rannsókna innan sviðsins og út á við og eiga samstarf við aðila innan sviðsins um kennslu í aðferðafræði, tengsl rannsókna við vettvang og þjálfun nemenda í vísindalegum vinnubrögðum.

3. gr.

Aðstaða.

Menntavísindasvið lætur stofnuninni í té starfsaðstöðu, svo sem húsnæði og búnað eftir því sem kostur er. Menntavísindastofnun útvegar rannsóknastofum, gestakennurum og starfsmönnum rannsóknaverkefna við sviðið aðstöðu eftir því sem kostur er.

4. gr.

Skipulag.

Innan vébanda Menntavísindastofnunar starfa rannsóknastofur og rannsóknahópar á vegum fastráðinna kennara við menntavísindasvið. Rannsakendur greiða fyrir þjónustu Menntavísindastofnunar í samræmi við veitta þjónustu og samkvæmt samkomulagi við forstöðumann. Leitast verður við að veita rannsakendum við sviðið ákveðna þjónustu án endurgjalds samkvæmt ákvörðun stjórnar hverju sinni. Stjórn Menntavísindastofnunar setur rannsóknastofum og rannsóknahópum við fræðasviðið starfsreglur í samvinnu við stjórn fræðasviðsins, þ. á m. um skipan stjórnar og val forstöðumanns.

5. gr.

Stjórn.

Forseti menntavísindasviðs skipar stjórn Menntavísindastofnunar til tveggja ára í senn og gegnir stjórnin jafnframt hlutverki rannsóknaráðs fræðasviðsins. Stjórninni er ætlað að fylgja stefnu fræðasviðsins í rannsóknum.

Í stjórn Menntavísindastofnunar skal vera formaður, sem jafnframt er formaður rann­sókna­ráðs, valinn án tilnefningar, fjórir úr hópi starfsmanna fræðasviðsins, valdir af stjórn fræðasviðsins, og einn fulltrúi nemenda sem valinn er til eins árs í senn af nemendum fræðasviðsins. Í stjórn skulu sitja bæði karlar og konur og skal þess gætt að hlutfall kynjanna sé ekki minna en 40%, sbr. 15. gr. laga nr. 10/2008 um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla.

Forstöðumaður Menntavísindastofnunar, auk eins fulltrúa starfsmanna stofnunarinnar og eins fulltrúa rannsóknastofa við sviðið, sem kosnir eru til eins árs í senn, skulu sitja fundi stjórnar, með tillögurétt, án atkvæðisréttar. Stjórnarfundi skal halda minnst þrisvar sinnum á ári. Jafnframt fundar stjórnin með stjórn menntavísindasviðs minnst einu sinni á ári.

6. gr.

Stjórnarfundir.

Formaður stjórnar boðar stjórnarfundi bréflega eða í tölvupósti með minnst þriggja daga fyrirvara. Fundarboð skal greina frá dagskrá fundar.

Skylt er að boða stjórnarfund óski tveir eða fleiri stjórnarmenn þess. Sama gildir er forseti menntavísindasviðs eða rektor ber fram slíka ósk, og hafa þeir þá málfrelsi og tillögurétt á fundinum, en ekki atkvæðisrétt.

Komi til atkvæðagreiðslu í stjórn ræður meiri hluti atkvæða. Rita skal fundargerð stjórnarfunda og staðfesta hana, ef unnt er, áður en fundi er slitið, þó eigi síðar en á næsta fundi. Afrit fundargerða skulu sett á vef fræðasviðsins.

Formaður stjórnar og forstöðumaður halda fundi með forsvarsmönnum rannsóknastofa við fræðasviðið a.m.k. einu sinni á ári.

7. gr.

Verkefni stjórnar.

Stjórn fjallar um öll málefni Menntavísindastofnunar, mótar starfsemi hennar, ber ábyrgð á fjármálum hennar gagnvart forseta fræðasviðs, semur fjárhagsáætlun og gerir tillögu til forseta fræðasviðs um fjárveitingar og skiptingu þeirra ásamt skiptingu annarra tekna. Stjórn sker úr vafaatriðum er upp kunna að koma og varða innri starfsemi stofnunar. Stjórn undirbýr ásamt forstöðumanni rekstrar- og fjárhagsáætlun og samþykkir þjónustu­verkefni sem stofnunin tekur að sér í samræmi við reglur þar um. Heimilt skal að framselja ákvörðunarvald um smærri verkefni til forstöðumanns.

Menntavísindastofnun efnir til ársfundar með forsvarsmönnum rannsóknastofa við fræðasviðið og stjórn sviðsins þar sem ársskýrsla er lögð fram og önnur mál svo sem kveðið er á um í reglum fyrir Háskóla Íslands.

8. gr.

Ráðgjafarráð.

Forseti fræðasviðs í samráði við stjórn fræðasviðsins skipar ráðgjafarráð Mennta­vísinda­stofnunar til þriggja ára í senn. Í því sitja sjö fulltrúar, áhugafólk og hagsmuna­aðilar, sem starfa utan Háskóla Íslands og hafa sterk tengsl við vettvang. Þeir skulu m.a. vera úr hópi þroskaþjálfa, skólastjórnenda, kennara og starfsfólks tengdra stofnana og að auki fulltrúar sveitarfélaga. Meðlimir ráðgjafarráðs skulu vera tilnefndir af stjórn stofnunarinnar. Í ráðgjafarráði skulu sitja bæði karlar og konur og skal þess gætt að hlutfall kynjanna sé ekki minna en 40%, sbr. 15. gr. laga nr. 10/2008 um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla.

Hlutverk ráðsins er að vera stjórn Menntavísindastofnunar til ráðgjafar og stuðnings. Ráðið heldur fund einu sinni á ári með stjórninni og fjallar m.a. um samstarf um rannsóknir, fjármögnunarleiðir, sterk og veik rannsóknasvið, gildi rannsókna fyrir þau verksvið sem fulltrúarnir koma frá og kynningu rannsókna. Þess á milli kallar forstöðu­maður eftir áliti ráðgjafarráðs eins og þurfa þykir. Helstu áhersluatriði ráðgjafar­ráðs eru kynnt fyrir stjórn fræðasviðsins og forsvarsmönnum rannsóknastofa.

9. gr.

Forstöðumaður og annað starfsfólk.

Forseti menntavísindasviðs ræður forstöðumann í samráði við stjórn Mennta­vísinda­stofnunar og stjórn fræðasviðsins. Forstöðumaður skal hafa doktorspróf eða rannsókna­tengt meistarapróf hið minnsta ásamt þekkingu á aðferðafræði og reynslu af vinnu við rannsóknir. Æskilegt er að forstöðumaður þekki styrkja- og rannsókna­umhverfi á Íslandi og erlendis og hafi reynslu af stjórnun rannsóknaverkefna og vinnu við umsóknir í rannsóknasjóði. Þekking á viðfangsefnum rannsakenda við mennta­vísinda­svið er einnig æskileg. Forseti fræðasviðs setur forstöðumanni erindisbréf þar sem nánar er kveðið á um verkefni hans. Forstöðumaðurinn tilheyrir stjórnsýslu sviðsins. Um ráðningu forstöðumanns og annars starfsfólks fer að öðru leyti eftir ákvæðum reglna fyrir Háskóla Íslands.

Forstöðumaður stýrir daglegum rekstri stofnunarinnar í samráði við stjórn og situr fundi stjórnar. Hann framfylgir markmiðum stofnunarinnar, en leggur sérstaka áherslu á stuðning við rannsóknir starfsmanna við sviðið og uppbyggingu rannsókna á verksviði menntavísindasviðs eins og fram kemur í 2. gr. Forseti fræðasviðs annast ráðningu annars starfsfólks í samræmi við III. kafla reglna Háskóla Íslands.

10. gr.

Fjármál.

Tekjur Menntavísindastofnunar Háskóla Íslands eru eftirfarandi:

  1. styrkir til einstakra verkefna,
  2. greiðslur fyrir þjónustustarfsemi,
  3. tekjur af fundum, námskeiðum og útgáfustarfsemi,
  4. aðrar tekjur, t.d. gjafir og framlög úr ríkissjóði eftir því sem kveðið kann að vera á um í fjárlögum,
  5. framlag frá menntavísindasviði.

Reikningshald stofnunarinnar skal vera hluti af reikningshaldi Háskóla Íslands og menntavísindasviðs. Stofnunin hefur sjálfstætt fjárhald, sem heyrir undir stjórn sviðsins. Stofur og verkefni skulu hafa sérstök bókhaldsnúmer. Fjárhagsáætlanir skulu bornar undir forseta fræðasviðs. Ef um er að ræða útselda þjónustu sem veitt er í samkeppni við einkaaðila, skal sú starfsemi fjárhagslega afmörkuð frá öðrum rekstri stofnunarinnar og þess gætt að sá rekstur sé ekki niðurgreiddur með öðrum tekjum í samræmi við ákvæði samkeppnislaga. Um stjórnunar- og aðstöðugjald af sértekjum fer eftir ákvæðum reglna fyrir Háskóla Íslands.

11. gr.

Gildistaka.

Reglur þessar, sem háskólaráð hefur sett á grundvelli heimildar í 3. mgr. 11. gr. laga nr. 85/2008 um opinbera háskóla, að fenginni tillögu stjórnar menntavísindasviðs, öðlast gildi 1. janúar 2010.

Háskóla Íslands, 11. desember 2009.

Kristín Ingólfsdóttir.

Þórður Kristinsson.

B deild - Útgáfud.: 22. desember 2009