Velkomin á vef Stjórnartíðinda
Setja síðu í 1024px vídd Setja síðu í 1280px vídd Setja síðu í 1400px vídd Fyrir sjónskerta Venjulegt letur Stækka letur Stækka letur enn meira

Sé munur á uppsetningu texta hér að neðan og í PDF skjali gildir PDF skjalið.
 89/2020

Nr. 89/2020 10. júlí 2020

LÖG
um breytingu á lögum um svæðisbundna flutningsjöfnun, nr. 160/2011, með síðari breytingum (niðurlagning flutningsjöfnunarsjóðs olíuvara).

Forseti Íslands
gjörir kunnugt: Alþingi hefur fallist á lög þessi og ég staðfest þau með samþykki mínu:

 

1. gr.

    Við 1. gr. laganna bætist nýr málsliður, svohljóðandi: Markmið laganna er enn fremur að veita styrki til að tryggja framboð olíuvara með því að jafna flutningskostnað á olíuvörum sem eru til notkunar innan lands til svæða sem búa við skerta samkeppnisstöðu vegna landfræðilegra og lýðfræðilegra aðstæðna.

 

2. gr.

    Við 2. gr. laganna bætist ný málsgrein, svohljóðandi:

    III. kafli nær til jöfnunarstyrkja vegna flutningskostnaðar á olíuvörum, þó ekki olíum ætluðum til útflutnings, svo sem til millilandasiglinga og erlendra skipa. Ráðherra skal setja nánari reglur um þá flokka olíuvara sem heimilt er að styrkja.

 

3. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 3. gr. laganna:

  1. Við 2. tölul. bætist nýr málsliður, svohljóðandi: Flutningsjöfnun getur einnig átt við aðgerð sem miðar að því að veita söluaðilum olíuvara styrki vegna flutnings á olíuvörum til svæða sem búa við skerta samkeppnisstöðu vegna landfræðilegra og lýðfræðilegra aðstæðna.
  2. Við 3. tölul. bætist nýr málsliður, svohljóðandi: Flutningsjöfnunarstyrkur getur einnig átt við styrk sem veittur er söluaðilum olíuvara sem starfrækja sölustaði á svæðum sem búa við skerta samkeppnisstöðu vegna landfræðilegra og lýðfræðilegra aðstæðna.

 

4. gr.

    Fyrirsögn II. kafla laganna verður: Flutningsjöfnunarstyrkir til framleiðenda.

 

5. gr.

    Á eftir II. kafla laganna kemur nýr kafli, III. kafli, Flutningsjöfnunarstyrkir vegna sölu olíu­vara, með einni nýrri grein, 7. gr., ásamt fyrirsögn, svohljóðandi, og breytast númer annarra kafla og greina samkvæmt því:

 

Styrkir til jöfnunar á flutningskostnaði olíuvara.

    Byggðastofnun skal veita styrki til jöfnunar á flutningskostnaði olíuvara til söluaðila sem starf­rækja sölustaði á svæðum sem búa við skerta samkeppnisstöðu vegna landfræðilegra og lýðfræði­legra aðstæðna.

    Úthlutun styrkja skal ákvörðuð í samræmi við þá heildarfjárhæð sem fyrirhugað er að veita til jöfnunar á flutningskostnaði olíuvara í fjárlögum ár hvert, selt magn olíuvara á viðkomandi sölustað og byggðastuðul sem skal endurspegla samkeppnisstöðu svæðis í byggðalegu tilliti að mati Byggða­stofnunar.

    Að fenginni umsögn Byggðastofnunar skal ráðherra setja nánari reglur um ákvörðun, fyrir­komu­lag og útreikning styrkja samkvæmt ákvæði þessu. Í reglunum skal landsvæðum eða byggðar­lögum ákvarðaður sérstakur byggðastuðull sem útreikningur flutningsjöfnunarstyrks skal m.a. byggjast á, sbr. 2. mgr. Reglurnar skulu tryggja að við úthlutun styrkja sé gætt að sjónar­miðum um jafnræði, hlutlægni og gagnsæi.

 

6. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 7. gr. laganna:

  1. 1. mgr. orðast svo:
        Byggðastofnun annast framkvæmd styrkveitinga skv. II. og III. kafla. Umsókn um flutn­ings­jöfnunarstyrk til framleiðenda skv. II. kafla skal fylgja greinargerð um flutn­ings­jöfnun, líkt og nánar er kveðið á um í reglugerð, þar sem fram koma allar upplýs­ingar og tekur endurgreiðsla vegna flutningskostnaðar mið af henni. Ráðherra skal í reglu­gerð kveða á um þau gögn sem fylgja skulu umsókn um flutningsjöfnunarstyrk til sölu­aðila olíuvara skv. III. kafla.
  2. Við 4. mgr. bætist: vegna styrkja skv. II. kafla.
  3. 5. mgr. orðast svo:
        Styrkveitingar skv. II. kafla eru í formi endurgreiðslu gegn framlögðum reikningum. Styrk­veitingar skv. III. kafla eru í formi fjárgreiðslu.
  4. Við 6. mgr. bætist: og jöfnun flutningskostnaðar olíuvara.

 

7. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 8. gr. laganna:

  1. Á eftir orðinu „flutningsjöfnunarstyrk“ í 1. mgr. kemur: skv. II. og III. kafla.
  2. Á eftir orðunum „fjárhæð flutningsjöfnunarstyrks“ í 2. mgr. kemur: skv. II. kafla.

 

8. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 9. gr. laganna:

  1. Á eftir orðinu „flutningskostnaðar“ kemur: skv. II. kafla.
  2. Við bætast tveir nýir málsliðir, svohljóðandi: Í skýrslunni skal einnig fjallað um flutn­ings­jöfnunar­styrki til söluaðila olíuvara skv. III. kafla, fjölda umsækjenda á styrk­tímabil­inu, fjölda samþykktra styrkumsókna, heildarfjárhæð styrkveitinga og fjárhæð tíu hæstu styrkja. Upplýsingarnar skulu jafnframt vera sundurliðaðar eftir landshlutum.

 

9. gr.

    Lög þessi öðlast gildi 1. janúar 2021.

    Við gildistöku laga þessara falla úr gildi lög um jöfnun á flutningskostnaði olíuvara, nr. 103/1994.

 

Gjört á Bessastöðum, 10. júlí 2020.

 

Guðni Th. Jóhannesson.
(L. S.)

Sigurður Ingi Jóhannsson.


A deild - Útgáfud.: 21. júlí 2020