Velkomin á vef Stjórnartíðinda
Setja síðu í 1024px vídd Setja síðu í 1280px vídd Setja síðu í 1400px vídd Fyrir sjónskerta Venjulegt letur Stækka letur Stækka letur enn meira

Sé munur á uppsetningu texta hér að neðan og í PDF skjali gildir PDF skjalið.
 460/2018

Nr. 460/2018 7. maí 2018

REGLUGERÐ
um starfsemi Fasteignasjóðs Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga.

1. gr.

Um úthlutun framlaga úr Fasteignasjóði til sveitarfélaga til uppbyggingar eða breytinga á fast­eignum sem nýttar eru í þjónustu við fatlað fólk fer eftir ákvæðum reglugerðar þessarar.

2. gr.

Heimilt er að úthluta sveitarfélögum framlögum úr Fasteignasjóði til eftirfarandi verkefna á grund­velli umsóknar þeirra:

  1. Til fjármögnunar á hlutdeild í stofnframlagi til byggingar búsetukjarna fyrir fatlaða íbúa með mjög miklar og/eða sértækar stuðningsþarfir á móti framlagi Íbúðalánasjóðs. Miðað er við að framlög Fasteignasjóðs takmarkist við hlutdeild í fjármögnun rýma sem nauðsynleg eru vegna sameiginlegs rekstrar og þjónustu enda veiti Íbúðalánasjóður framlög vegna rýma sem teljast til íbúða. Framlög vegna hlutdeildar í fjármögnun sameiginlegra rýma sem snúa að aðgengi og nýtast til samveru, sem og rýma sem teljast til hefðbundins hlutar íbúðar í sameign, skiptast jafnt milli Íbúðalánasjóðs og Fasteignasjóðs.
  2. Til jöfnunar á íþyngjandi kostnaði vegna langtímaleigusamninga um húsnæði fyrir fatlað fólk sem sveitarfélögin yfirtóku samhliða yfirfærslu málaflokksins 2011.
  3. Til stuðnings við nauðsynlegar endurbætur á eldra íbúðarhúsnæði fatlaðs fólks með veru­legar þjónustu og stuðningsþarfir sem gera því kleift að búa áfram á heimilum sínum.
  4. Til byggingar hæfingarstöðva til að sinna lögbundnu hlutverki þeirra til hæfingar fatlaðs fólks. Miða skal við að stærð hæfingarstöðvar nemi um 15 fermetrum á hvern einstakling sem njóta á þar þjónustu á hverjum tíma, byggingarkostnaður fari ekki fram úr kr. 450.000 á hvern fermetra og framlag Fasteignasjóðs nemi allt að 25% af þeim kostnaði.
  5. Í öðrum sérstökum undantekningartilvikum sem talin eru falla vel að hlutverki Fast­eigna­sjóðs en sem falla þó ekki undir liði a-d hér að framan.

3. gr.

Umsóknir sveitarfélaga um framlög úr Fasteignasjóði ásamt fullnægjandi gögnum skulu hafa borist Jöfnunarsjóði eigi síðar en 1. október vegna næsta úthlutunarárs.

Jöfnunarsjóður gerir tillögu til ráðherra um heildarúthlutanir ársins fyrir 1. febrúar að fenginni umsögn ráðgjafarnefndar ráðherra skv. 15. gr. laga um tekjustofna sveitarfélaga, nr. 4/1995, með síðari breytingum.

Heimilt er að ákveða veitingu framlaga til lengri tíma en eins árs ef nauðsyn krefur. Þá er heimilt að veita framlög vegna kostnaðar sem fallið hefur til allt að þremur árum fyrir úthlutunarár. Framlög skulu að jafnaði greidd út í samræmi við framvindu viðkomandi verkefna.

Þrátt fyrir ákvæði 1. og 2. mgr. skulu umsóknir vegna úthlutunar á árinu 2018 hafa borist Jöfn­unar­sjóði eigi síðar en 1. júní á því ári. Þá skal tillaga Jöfnunarsjóðs til ráðherra um úthlutun fram­laga á árinu 2018 liggja fyrir eigi síðar en 1. ágúst það ár.

4. gr.

Reglugerð þessi, sem sett er á grundvelli 4. mgr. 13. gr. b laga um tekjustofna sveitarfélaga, nr. 4/1995, sbr. lög nr. 9/2018, öðlast þegar gildi.

Samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytinu, 7. maí 2018.

Sigurður Ingi Jóhannsson.

Ragnhildur Hjaltadóttir.


B deild - Útgáfud.: 8. maí 2018