Velkomin á vef Stjórnartíðinda
Setja síðu í 1024px vídd Setja síðu í 1280px vídd Setja síðu í 1400px vídd Fyrir sjónskerta Venjulegt letur Stækka letur Stækka letur enn meira

Sé munur á uppsetningu texta hér að neðan og í PDF skjali gildir PDF skjalið.
 180/2015

Nr. 180/2015 9. febrúar 2015
REGLUR
um hönnun þjóðvega sem opnir eru almenningi til frjálsrar umferðar.

1. gr.

Gildissvið.

Reglur þessar gilda um veghönnunarreglur sem nota skal í samræmingarskyni við skipu­lagningu og lagningu þjóðvega.

2. gr.

Skilgreiningar.

Í reglum þessum er merking eftirfarandi hugtaka sem hér segir:

  1. Hönnunarumferð: Sú umferð sem ætlað er að nota veginn í í framtíðinni, oft eftir 20 ár miðað við umferðarspá.
  2. Hönnunarökutæki: Viðmið fyrir ökutæki sem notað er við hönnun vegamannvirkja og ákvörðun á minnstu radíum og nauðsynlegri breiddaraukingu í beygjum.
  3. Umferð: Með umferð í reglum þessum er fyrst og fremst átt við akandi umferð. Ríðandi, hjólandi og gangandi umferð getur þó eftir atvikum fallið undir hugtakið ef slík umferð fer um það mannvirki sem fellur undir skilgreiningu 5. tölul. 1. mgr. þessarar greinar.
  4. Veghönnunarreglur: Reglur sem settar eru til að tengja saman veghönnun, ökulag, aflfræði ökutækja og umferðaröryggi.
  5. Vegur: Akbraut, sem er sá hluti vegar sem er fyrst og fremst ætlaður fyrir umferð ökutækja, öll önnur mannvirki og vegsvæði sem að staðaldri eru nauðsynleg til þess að vegur sé varanlegur, unnt sé að halda honum við og hafa af honum sem fyllst not.

3. gr.

Hönnunarumferð og hönnunarökutæki.

Vegir skulu lagðir í samræmi við gildandi skipulag.

Við hönnun nýrra vega sem gerðir eru fyrir umferð þungra ökutækja, skal gera ráð fyrir ökutæki með allt að 10 tonna ásþunga, 11,5 tonn á drifás og 19 tonn á tvöfaldan ás, 4,5 m hæð og 2,6 m breidd. Vegina skal hanna þannig að sporferill ytra hjóls vagnlestar rúmist innan 12,5 m radía og sporvídd rúmist innan 7,8 m breiddar við 180° snúning.

Þar sem ekki er veruleg þörf fyrir umferð stórra og þungra ökutækja, skal að lágmarki gera nýja vegi þannig að þeir séu hannaðir fyrir ökutæki með allt að 6 tonna ásþunga, 10 tonn á tvöfaldan ás, 3,75 m hæð og 2,55 m breidd. Nýir vegir eru þá hannaðir þannig að hægt sé að aka vagnlest innan snúningsboga með 12 m radía í ytri hring og 4,8 m sporvídd við 180° snúning.

Vegagerðin gefur út fyrirmæli um umferðarálag á vegbrýr, brýr fyrir göngu- og reiðleiðir, ferjubrýr og önnur mannvirki, sem eru hluti af þjóðvegakerfinu. Fyrirmæli um umferðarálag á brýr eru lágmarksgildi, gilda fyrir allt þjóðvegakerfið og eru tilgreind í íslenskum staðli; ÍST EN 1991–2.

4. gr.

Veghönnunarreglur.

Vegagerðin gefur út veghönnunarreglur á grundvelli reglna þessara. Tilgangur reglnanna er að tryggja fullnægjandi og samræmd gæði vegakerfisins með því að vega saman öryggi, afköst, umhverfi og fjárhagslega hagkvæmni hverju sinni.

5. gr.

Birting.

Vegagerðin skal birta reglur sem stofnunin gefur út á grundvelli reglna þessara á vefsíðu sinni. Koma skal fram hvenær reglurnar tóku gildi.

6. gr.

Gildistaka.

Reglur þessar sem settar eru samkvæmt 2. mgr. 29. gr. og 42. gr. vegalaga nr. 80/2007, með síðari breytingum, öðlast þegar gildi.

Innanríkisráðuneytinu, 9. febrúar 2015.

Ólöf Nordal.

Ragnhildur Hjaltadóttir.

B deild - Útgáfud.: 24. febrúar 2015