Velkomin á vef Stjórnartíðinda
Setja síðu í 1024px vídd Setja síðu í 1280px vídd Setja síðu í 1400px vídd Fyrir sjónskerta Venjulegt letur Stækka letur Stækka letur enn meira

Sé munur á uppsetningu texta hér að neðan og í PDF skjali gildir PDF skjalið.
 490/2016

Nr. 490/2016 4. júní 2016

REGLUR
um bindingu reiðufjár vegna nýs innstreymis erlends gjaldeyris.

1. gr.

Skilgreining hugtaka.

Í reglum þessum er merking hugtaka sem hér segir:

Bindingarreikningur: Reikningur hjá innlánsstofnunum hér á landi, sem auðkenndur er með höfuðbók 24.

Bindingarskylda: Skylda bindingarskylds aðila til að binda bindingarfjárhæð inn á bindingarreikningi hjá innlánsstofnun hér á landi yfir bindingartíma.

Bindingartími: Það tímabil sem bindingarfjárhæð skal vera bundin á bindingarreikningi.

Fjárstreymisreikningur: Bundinn reikningur innlánsstofnunar hjá Seðlabanka Íslands sem varslar fjárhæð sem samsvarar heildar­bindingar­fjárhæðum sem viðkomandi innlánsstofnun varslar á bindingarreikningum.

Nýtt innstreymi erlends gjaldeyris: Erlendur gjaldeyrir sem berst hingað til lands eftir 4. júní 2016. Innstæður á erlendum gjaldeyrisreikningum hjá innlendum fjármálafyrirtækjum, sem urðu til fyrir 5. júní 2016, tekjur vegna útflutningsviðskipta og annar skilaskyldur erlendur gjaldeyrir, sbr. 13. gr. l. laga um gjaldeyrismál, teljast ekki til nýs innstreymis erlends gjaldeyris.

2. gr.

Bindingargrunnur.

Nýtt innstreymi erlends gjaldeyris í tengslum við eftirfarandi fjármuni mynda bindingargrunn bindingarskylds aðila:

 1. Nýfjárfestingar og endurfjárfestingar þeirra skv. 13. gr. m laga um gjaldeyrismál í skuldabréfum eða víxlum útgefnum í innlendum gjaldeyri, sem eru rafrænt skráð samkvæmt lögum um rafræna eignarskráningu verðbréfa, eða sem ráðstafað er í innstæður í innlendum gjaldeyri.
 2. Innstæður í innlendum gjaldeyri hjá innlánsstofnunum hér á landi aðrar en þær sem eru til komnar vegna fjármuna sem eru endurfjárfestanlegir skv. 13. gr. e eða 13. gr. f laga um gjaldeyrismál eða sem falla undir 13. gr. l eða 13. gr. m laga um gjaldeyrismál, þó ekki ef þær eru til komnar vegna 5. tölul. þessarar málsgreinar.
 3. Nýfjárfestingar og endurfjárfestingar þeirra skv. 13. gr. m laga um gjaldeyrismál í hlutdeildarskírteinum sjóða sem fjárfesta í skuldabréfum eða víxlum útgefnum í innlendum gjaldeyri, sem eru rafrænt skráð samkvæmt lögum um rafræna eignarskráningu verðbréfa, eða eiga innstæður í innlendum gjaldeyri.
 4. Nýfjárfestingar og endurfjárfestingar þeirra skv. 13. gr. m laga um gjaldeyrismál í eigin fé fyrirtækis sem er gerð í þeim tilgangi að fjárfesta, beint eða óbeint, í skuldabréfum eða víxlum útgefnum í innlendum gjaldeyri, sem eru rafrænt skráð samkvæmt lögum um rafræna eignarskráningu verðbréfa, eða sem ráðstafað er í innstæður í innlendum gjaldeyri.
 5. Lánveitingar til innlends aðila sem nýttar eru til fjárfestinga í innlendum gjaldeyri í þágu lánveitanda í skuldabréfum eða víxlum útgefnum í innlendum gjaldeyri, sem eru rafrænt skráð samkvæmt lögum um rafræna eignarskráningu verðbréfa, eða ráðstafað er í innstæður í innlendum gjaldeyri. Hið sama á við um slíkar lánveitingar sem nýttar eru til fjárfestinga í hlutdeildarskírteinum sjóða eða í eigin fé fyrirtækis sem fjárfest eða ráðstafað er, beint eða óbeint, með þeim hætti sem lýst er í 1. málsl.

3. gr.

Bindingarskyldir aðilar.

Eftirfarandi aðilar eru bindingarskyldir á grundvelli reglna þessara:

 1. Skráður eigandi skuldabréfs eða víxils skv. 1., 4. og 5. tölul. 2. gr.
 2. Skráður eigandi innstæðna skv. 1., 2., 4. og 5. tölul. 2. gr.
 3. Skráður eigandi hlutdeildarskírteinis skv. 3. - 5. tölul. 2. gr.

4. gr.

Bindingarhlutfall.

Bindingarhlutfall 40% á við um eftirfarandi liði í bindingargrunni:

 1. Skuldabréf eða víxlar skv. 1., 4. og 5. tölul. 2. gr.
 2. Innstæður skv. 1., 2., 4. og 5. tölul. 2. gr.
 3. Hlutdeildarskírteini skv. 3. - 5. tölul. 2. gr.

5. gr.

Framkvæmd bindingarskyldu.

Bindingarskyldu skal uppfylla með því að ráðstafa bindingarfjárhæð inn á bindingarreikning innan tveggja vikna frá því nýju innflæði erlends gjaldeyris er skipt í innlendan gjaldeyri eða endurfjárfest hefur verið skv. 6. mgr. 13. gr. m laga um gjaldeyrismál.

Bindingarfjárhæð skal vera margfeldi bindingargrunns og bindingarhlutfalls skv. 2. og 4. gr. reglna þessara.

Uppgjörsmynt bindingarfjárhæðar skal vera íslenskar krónur.

Óheimilt er að losa bindingarfjárhæð innan bindingartíma.

Óheimilt er að veðsetja bindingarreikninga eða bindingarfjárhæð.

6. gr.

Bindingartími.

Bindingartími skal vera 12 mánuðir og hefst þann viðskiptadag er bindingarfjárhæð er lögð inn á bindingarreikning.

Ef nýfjárfest hefur verið skv. 1., 3. og 4. tölul. 2. gr. og endurfjárfest er í fjármunum sem háðir eru bindingarskyldu samkvæmt sömu ákvæðum hefst bindingartími endurfjárfestingarinnar sama viðskiptadag og bindingartími nýfjárfestingarinnar hófst.

Ef nýfjárfesting fellur ekki undir 1., 3. og 4. tölul. 2. gr. og endurfjárfest er í fjármunum sem háðir eru bindingarskyldu samkvæmt sömu ákvæðum hefst bindingartími sama dag og bindingarfjárhæð vegna endurfjárfestingarinnar var ráðstafað á bindingarreikning.

7. gr.

Fjárstreymisreikningar.

Innlánsstofnun er skylt að ráðstafa bindingarfjárhæð sem vörsluð er á bindingarreikningi hjá henni inn á fjárstreymisreikning hjá Seðlabanka Íslands.

Fjárhæð skv. 1. mgr. skal nema 100% af bindingarfjárhæð.

Innlánsstofnun skal uppfylla skyldu skv. 1. mgr. innan sama viðskiptadags og bindingarfjárhæð skv. 5. gr. er ráðstafað inn á bindingarreikning.

Innstæða fjárstreymisreiknings skal á hverjum tíma samsvara heildarfjárhæð bindingarfjárhæða sem varslaðar eru hjá viðkomandi innlánsstofnun.

Fjárstreymisreikningar bera 0% vexti.

Uppgjörsmynt fjárstreymisreikninga er íslenskar krónur.

Óheimilt er að veðsetja fjárstreymisreikninga eða innlán þeirra.

8. gr.

Tilkynningaskylda.

Bindingarskyldur aðili skal, með aðstoð fjármálafyrirtækis hér á landi, tilkynna Seðlabanka Íslands um ráðstafanir nýs innstreymis erlends gjaldeyris sem fellur undir 1. – 5. tölul. 2. gr. innan tveggja vikna frá því nýju innflæði erlends gjaldeyris er skipt í innlendan gjaldeyri eða endurfjárfest hefur verið skv. 6. mgr. 13. gr. m laga um gjaldeyrismál. Þrátt fyrir það skal tilkynna Seðlabanka Íslands um ráðstafanir skv. 1. málsl. innan viku ef um endurfjárfestingu er að ræða.

Innlánsstofnun skal tilkynna Seðlabanka Íslands innan sama viðskiptadags, um innlögn bindingarfjárhæðar á bindingarreikning skv. 5. gr.

9. gr.

Viðurlög.

Brot gegn ákvæðum þessara reglna varða stjórnvaldssektum og refsingum samkvæmt 15. gr. a – 15. gr. d, 15. gr. h, 16. gr., 16. gr. a og 16. gr. b, sbr. 6. mgr. ákvæðis til bráðabirgða III við lög um gjaldeyrismál.

10. gr.

Gildistaka.

Reglur þessar, sem eru settar samkvæmt heimild í ákvæði til bráðabirgða III við lög um gjaldeyrismál, nr. 87/1992, hafa verið samþykktar af fjármála- og efnahagsráðherra og öðlast þegar gildi. Þrátt fyrir ákvæði 2. mgr. 8. gr. laga um Stjórnartíðindi og Lögbirtingarblað öðlast reglurnar gildi við birtingu.

 

Reykjavík, 4. júní 2016.

Seðlabanki Íslands,

  Már Guðmundsson Ingibjörg Guðbjartsdóttir,
  seðlabankastjóri. framkvæmdastjóri gjaldeyriseftirlits.

Fylgiskjal.
(sjá PDF-skjal)


B deild - Útgáfud.: 4. júní 2016