Velkomin á vef Stjórnartíðinda
Setja síðu í 1024px vídd Setja síðu í 1280px vídd Setja síðu í 1400px vídd Fyrir sjónskerta Venjulegt letur Stækka letur Stækka letur enn meira

Sé munur á uppsetningu texta hér að neðan og í PDF skjali gildir PDF skjalið.
 59/2018

Nr. 59/2018 19. júní 2018

LÖG
um breytingu á lögum um virðisaukaskatt, nr. 50/1988 (kaup og sala þjónustu milli landa, áskriftir og sala fréttablaða o.fl.).

FORSETI ÍSLANDS
gjörir kunnugt: Alþingi hefur fallist á lög þessi og ég staðfest þau með samþykki mínu:

1. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 12. gr. laganna:

 1. 1. tölul. 1. mgr. orðast svo: Vara sem seld er úr landi.
 2. 10. tölul. 1. mgr. orðast svo: Vinna og þjónusta sem veitt er erlendis. Þjónusta telst veitt erlendis þegar hún er seld frá Íslandi til atvinnufyrirtækis sem hvorki hefur heimilisfesti hér á landi né stundar hér atvinnustarfsemi frá fastri starfsstöð.
      Sala á þjónustu til annarra en atvinnufyrirtækja skv. 1. mgr. telst vera veitt erlendis þegar hún er seld frá Íslandi til aðila sem hafa ekki heimilisfesti, lögheimili, varanlega búsetu eða dveljast ekki að jafnaði hér á landi. Eftirtalin þjónusta fellur undir þessa málsgrein:
  1. þjónusta sem veitt er rafrænt, þ.e. þjónusta sem veitt er á netinu, sjálfvirkt með lágmarksinngripi þar sem notkun upplýsingatækni er nauðsynlegur þáttur í veitingu þjónustunnar,
  2. fjarskiptaþjónusta, sem felur í sér þjónustu, miðlun, útsendingu eða viðtöku á boðum, orðum, myndum, hljóði eða öðrum upplýsingum í gegnum þráð, útvarp, ljósboð eða annars konar rafsegulkerfi; fjarskiptaþjónusta felur einnig í sér þjónustu frá þeim aðilum sem veita aðgang að framangreindri þjónustu auk aðgangs að rafrænum fjarskiptanetum og samtengingu þeirra,
  3. útvarps- og sjónvarpsþjónusta, þ.e. þjónusta sem samanstendur af hljóði eða mynd og miðlað er til almennings um samskiptamiðla í rauntíma samkvæmt ákveðinni dagskrá á ritstjórnarlegri ábyrgð viðkomandi fjölmiðils,
  4. framsal á höfundarétti, rétti til einkaleyfis, vörumerkis og hönnunar, svo og framsal annarra sambærilegra réttinda,
  5. auglýsingaþjónusta,
  6. ráðgjafarþjónusta, verkfræðiþjónusta, lögfræðiþjónusta, þjónusta endurskoðenda og önnur sambærileg sérfræðiþjónusta, sem og gagnavinnsla og upplýsingamiðlun,
  7. þjónusta banka, fjármálafyrirtækja og tryggingafélaga, önnur en sú þjónusta sem talin er undanþegin virðisaukaskatti skv. 9. og 10. tölul. 3. mgr. 2. gr.,
  8. atvinnumiðlun,
  9. leiga lausafjármuna, þó ekki neins konar flutningatækja,
  10. kvaðir og skyldur varðandi atvinnu- eða framleiðslustarfsemi eða hagnýtingu réttinda sem kveðið er á um í þessari málsgrein.
      Þrátt fyrir ákvæði 2. mgr. telst þjónusta sem seld er til annarra en atvinnufyrirtækja ávallt vera veitt hér á landi og þar með skattskyld hér þegar raunveruleg nýting hennar á sér stað á Íslandi.
      Þjónusta ferðaskrifstofa og ferðaskipuleggjenda telst veitt utan Íslands samkvæmt þessum tölulið að því leyti sem hún varðar fólksflutninga milli landa. Sama gildir um vöru eða þjónustu sem ferðamaður nýtir utan Íslands.
      Vinna eða þjónusta sem varðar lausafjármuni eða fasteignir hér á landi telst ávallt veitt hér á landi. Sama gildir um þjónustu sem veitt er í tengslum við menningarstarfsemi, listastarfsemi, íþróttastarfsemi, kennslustarfsemi og aðra hliðstæða starfsemi sem fram fer hér á landi og er undanþegin skattskyldu skv. 3. mgr. 2. gr.
 3. 2. mgr. orðast svo:
      Ráðherra er heimilt með reglugerð að setja nánari skilyrði fyrir undanþágum og fram­kvæmd þessarar greinar, þ.m.t. um nánari skilgreiningu á hugtökum.

2. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 2. mgr. 14. gr. laganna:

 1. 4. tölul. orðast svo: Áskriftargjöld útvarps- og sjónvarpsstöðva.
 2. 5. tölul. orðast svo: Sala, þ.m.t. áskrift, tímarita, dagblaða og landsmála- og héraðs­fréttablaða á prentuðu og á rafrænu formi.

3. gr.

    Á eftir orðunum „leigu bifreiða“ í 6. mgr. 16. gr. laganna kemur: og rekstraraðilum fólksbifreiða sem fengið hafa sérstakt leyfi Samgöngustofu til farþegaflutninga í ferðaþjónustu.

4. gr.

    Við 34. gr. laganna bætast tvær nýjar málsgreinar, svohljóðandi:

    Erlend atvinnufyrirtæki sem selja í áskrift hingað til lands blöð og tímarit á pappírsformi skulu innheimta og skila virðisaukaskatti af þeirri sölu hér á landi að því gefnu að ákvæði 3. tölul. 4. gr. um veltumörk eigi ekki við.

    Aðilar sem ber skylda til að greiða virðisaukaskatt skv. 4. mgr. skulu ótilkvaddir gera ríkis­skattstjóra grein fyrir kaupunum í sérstakri skýrslu í því formi sem hann ákveður. Gjalddagi er fimmti dagur annars mánaðar frá lokum þess almenna uppgjörstímabils sem viðskiptin falla undir. Greiðslu ásamt skýrslu skal skila til innheimtumanns ríkissjóðs eigi síðar en á gjalddaga. Um skattverð, uppgjör, álagningu, áætlun, endurákvörðun, álag, dráttarvexti og kærur skal, eftir því sem við getur átt, fara eins og í viðskiptum innan lands.

5. gr.

    35. gr. laganna orðast svo:

    Hver sá sem stundar starfsemi sem undanþegin er virðisaukaskatti skv. 3. mgr. 2. gr. skal greiða virðisaukaskatt af þjónustu sem fellur undir skattskyldusvið laga þessara og keypt er til starfseminnar eða eftir atvikum veitt til starfseminnar frá atvinnufyrirtæki með heimilisfesti erlendis, útibúi eða fastri starfsstöð erlendis.

    Hver sá sem er skattskyldur samkvæmt lögum þessum skal greiða virðisaukaskatt af þjónustu sem fellur undir skattskyldusvið laga þessara og keypt er til starfseminnar eða eftir atvikum veitt til starfseminnar frá atvinnufyrirtæki með heimilisfesti erlendis, útibúi eða fastri starfsstöð erlendis að því leyti sem virðisaukaskatt af þjónustunni er ekki heimilt að telja til innskatts samkvæmt ákvæðum 3. og 4. mgr. 15. gr. og 16. gr. Þó skal ávallt greiða virðisaukaskatt samkvæmt þessari grein ef þjónusta er veitt eða hennar notið í tengslum við innflutning á vöru.

    Aðili sem fellur ekki undir 1. og 2. mgr. og kaupir þjónustu skv. d–j-lið 2. mgr. 10. tölul. 1. mgr. 12. gr. frá atvinnufyrirtæki með heimilisfesti erlendis, útibúi eða fastri starfsstöð erlendis skal greiða virðisaukaskatt hér á landi af kaupum á slíkri þjónustu, nemi andvirði þeirra 10.000 kr. án virðisaukaskatts eða meira á hverju almennu uppgjörstímabili skv. 24. gr.

    Greiðsluskylda skv. 1.–3. mgr. á ekki við ef erlenda atvinnufyrirtækið, umboðsmaður þess eða annar aðili sem er í fyrirsvari fyrir það er skráður á grunnskrá virðisaukaskatts vegna starfsemi þess hér á landi.

    Atvinnufyrirtæki með heimilisfesti eða fasta starfsstöð erlendis sem selur þjónustu sem veitt er rafrænt, fjarskiptaþjónustu eða útvarps- og sjónvarpsþjónustu til annarra en atvinnufyrirtækja hér á landi skal innheimta og skila virðisaukaskatti af þeirri þjónustu hér á landi. Sama skylda hvílir á umboðsmanni eða öðrum þeim sem eru í fyrirsvari fyrir hið erlenda atvinnufyrirtæki. Seljandi, umboðsmaður hans eða annar sá sem er í fyrirsvari fyrir hið erlenda atvinnufyrirtæki skal ótil­kvaddur tilkynna starfsemi sína til ríkisskattstjóra skv. 5. gr. að því gefnu að ákvæði 3. tölul. 4. gr. eigi ekki við.

    Aðilar sem ber skylda til að greiða virðisaukaskatt skv. 1.–3. mgr. skulu ótilkvaddir gera ríkisskattstjóra grein fyrir kaupum á þjónustu í sérstakri skýrslu í því formi sem hann ákveður. Gjalddagi er fimmti dagur annars mánaðar frá lokum þess almenna uppgjörstímabils sem viðskiptin falla undir. Greiðslu ásamt skýrslu skal skila til innheimtumanns ríkissjóðs eigi síðar en á gjalddaga. Um skattverð, uppgjör, álagningu, áætlun, endurákvörðun, álag, dráttarvexti og kærur skal, eftir því sem við getur átt, fara eins og í viðskiptum innan lands.

    Ráðherra er heimilt með reglugerð að setja nánari ákvæði um framkvæmd þessarar greinar, þ.m.t. um nánari skilgreiningu á hugtökum.

6. gr.

    Lög þessi öðlast gildi 1. júlí 2018.

    Þrátt fyrir 1. mgr. öðlast ákvæði 1., 4. og 5. gr. gildi og koma til framkvæmda 1. janúar 2019.

Gjört á Bessastöðum, 19. júní 2018.

Guðni Th. Jóhannesson.
(L. S.)

Bjarni Benediktsson.


A deild - Útgáfud.: 22. júní 2018