Velkomin á vef Stjórnartíðinda
Setja síðu í 1024px vídd Setja síðu í 1280px vídd Setja síðu í 1400px vídd Fyrir sjónskerta Venjulegt letur Stækka letur Stækka letur enn meira

Sé munur á uppsetningu texta hér að neðan og í PDF skjali gildir PDF skjalið.
 659/2020

Nr. 659/2020 16. júní 2020

SAMÞYKKT
um breytingu á samþykkt um stjórn sameinaðs sveitarfélags Borgarfjarðarhrepps, Djúpavogshrepps, Fljótsdalshéraðs og Seyðisfjarðarkaupstaðar, nr. 190/2020.

1. gr.

36. gr. samþykktarinnar hljóði svo:

Kosning og kjörgengi í heimastjórnir.

Kjósa skal til fjögurra heimastjórna sem fara með afmörkuð málefni og málaflokka í hluta sveitar­félagsins, skv. 38. gr. sveitarstjórnarlaga. Heimastjórnir eru eftirfarandi:

  1. Heimastjórn Borgarfjarðar.
  2. Heimastjórn Djúpavogs.
  3. Heimastjórn Fljótsdalshéraðs.
  4. Heimastjórn Seyðisfjarðar.

Valdmörk hverrar heimastjórnar miðast við sveitarfélagamörk Borgarfjarðarhrepps, Djúpavogs­hrepps, Fljótsdalshéraðs og Seyðisfjarðarkaupstaðar eins og þeim er lýst á sveitarfélagakorti Land­mælinga Íslands frá maí 2014.

Heimastjórnir skulu skipaðar þremur fulltrúum.

Einn fulltrúi og annar til vara eru kjörnir af sveitarstjórn og skulu þeir vera aðalfulltrúar í sveitar­stjórn. Kjör þeirra skal fara fram á sama fundi og sveitarstjórn kýs fulltrúa í fastanefndir og ráð, skv. 48. gr. samþykktarinnar. Sveitarstjórn kýs formann úr hópi aðalmanna í heimastjórn á þeim sama fundi.

Tveir fulltrúar og tveir til vara skulu kosnir beinni kosningu. Framkvæmd kosningarinnar er þannig að hver kjósandi kýs einn aðalmann í heimastjórn. Kjósandi skrifar á kjörseðil fullt nafn og heim­ilis­fang þess sem hann kýs. Þeir tveir einstaklingar sem fá flest atkvæði eru kjörnir aðalmenn og vara­menn þar á eftir í samræmi við fjölda atkvæða. Fái fulltrúar jafnmörg atkvæði skal varpa hlut­­kesti. Kosningarnar skulu fara fram samhliða sveitarstjórnarkosningum.

Komi til þess að heimastjórn verði ekki fullmönnuð og a.m.k. tveir varamenn tiltækir skal sveitar­stjórn kjósa fulltrúa í heimastjórn á eftir þeim einstaklingum sem hlotið hafa kosningu. Þetta getur t.d. átt við ef færri en fjórir einstaklingar fá atkvæði við kosningar eða ef fulltrúar missa kjörgengi síðar á kjörtímabili og varamenn ekki tiltækir. Reglur um kjörgengi við kosningu til heima­stjórnar skulu gilda um slíka fulltrúa.

Kosningarrétt og kjörgengi í kosningum til heimastjórna hafa íbúar viðkomandi hluta sveitar­félagsins í samræmi við þá afmörkun sem lýst er í 1. mgr. samkvæmt kjörskrá.

Undirbúningur og framkvæmd kosninga til heimastjórna skal taka mið af ákvæðum laga um kosningar til sveitarstjórna, nr. 5/1998, eftir því sem við getur átt, og eftirfarandi ákvæðum:

  1. Gerðar skulu sérstakar kjörskrár vegna kosninga til hverrar af fjórum heimastjórnum, byggðar á kjörskrárstofni sveitarfélagsins. Um breytingar á þeim kjörskrám skulu gilda sambæri­legar reglur og gilt hefðu samkvæmt lögum um kosningar til sveitarstjórna, ef hver kjör­skrá gilti um sérstakt sveitarfélag. Þótt kjósandi nýti á kjördegi heimild til að greiða atkvæði í sveitarstjórnarkosningum í annarri kjördeild en kjörskrá greinir, sbr. 56. gr. laga um kosningar til sveitarstjórna, hefur það ekki í för með sér breytingar á stöðu viðkomandi á kjörskrá vegna heimastjórnarkosninga.
  2. Yfirkjörstjórn annast undirbúning kosninga til heimastjórna, s.s. varðandi gerð kjörgagna og annað skipulag. Sérstakar gerðarbækur skulu haldnar vegna framkvæmdar kosninga í heima­­stjórnir.
  3. Atkvæðagreiðsla utan kjörfundar skal fara fram vegna heimastjórnarkosninga.
  4. Á kjörfundi skulu vera sérstakir atkvæðakassar vegna heimastjórnarkosninga.
  5. Atkvæðatalning skal fara fram á vegum yfirkjörstjórnar. Úrslit kosninga skulu kynnt þegar þau liggja fyrir. Yfirkjörstjórn skal tilkynna aðalmönnum og varamönnum um kosningu þeirra.

Ákvæði 44. gr. samþykktarinnar um áheyrnarfulltrúa á ekki við þar sem meirihluti fulltrúa í heima­stjórn er kjörinn af íbúum viðkomandi hluta sveitarfélagsins.

 

2. gr.

Í stað bráðabirgðaákvæðis samþykktarinnar kemur nýtt bráðabirgðaákvæði svohljóðandi:

Bráðabirgðaákvæði.

14. gr. samþykktarinnar sem fjallar um notkun fjarfundarbúnaðar og 36. gr. samþykktarinnar sem fjallar um heimastjórnir sem fara með fullnaðarákvörðunarvald vegna málefna nærsamfélagsins og framkvæmd heimastjórnarkosningar, eru staðfestar á grundvelli þess að um stjórnskipulagstilraun sé að ræða, sbr. 1. mgr. 132. gr. sveitarstjórnarlaga. Ákvæði 14. gr. og 36. gr. samþykktarinnar skulu gilda til loka kjörtímabilsins 2030 hið minnsta, sbr. 4. mgr. 132. gr. sveitarstjórnarlaga. Ákvæði þetta kemur ekki í veg fyrir breytingu á ákvæðum samþykktanna að öðru leyti.

 

3. gr.

Samþykkt þessi sem stjórn til undirbúnings sameiningar Borgarfjarðarhrepps, Djúpavogshrepps, Seyðisfjarðarkaupstaðar og Fljótsdalshéraðs hefur sett samkvæmt 2. mgr. 122. gr. sveitarstjórnar­laga, nr. 138/2011, staðfestist hér með til að öðlast gildi við gildistöku sameiningar sveitar­félaganna 4. október 2020, sbr. auglýsingu nr. 658/2020.

 

Samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytinu, 16. júní 2020.

 

F. h. r.

Ragnhildur Hjaltadóttir.

Hermann Sæmundsson.


B deild - Útgáfud.: 1. júlí 2020