Velkomin á vef Stjórnartíðinda
Setja síðu í 1024px vídd Setja síðu í 1280px vídd Setja síðu í 1400px vídd Fyrir sjónskerta Venjulegt letur Stækka letur Stækka letur enn meira

Sé munur á uppsetningu texta hér að neðan og í PDF skjali gildir PDF skjalið.
 1060/2015

Nr. 1060/2015 14. október 2015

REGLUR
um ársreikninga verðbréfasjóða og fjárfestingarsjóða.

1. gr.

Gildissvið.

Reglur þessar gilda um verðbréfasjóði og fjárfestingarsjóði, sbr. II. og III. kafla í lögum um verðbréfasjóði, fjárfestingarsjóði og fagfjárfestasjóði, nr. 128/2011. Reglurnar ná til sérgreindra upplýsinga um framangreinda sjóði í ársreikningum og árshlutauppgjörum rekstrarfélaga verð­bréfa­sjóða.

Sé ekki annað tekið fram í reglum þessum gilda ákvæði laga um ársreikninga, nr. 3/2006, um ársreikninga verðbréfasjóðs eða fjárfestingarsjóðs, eftir því sem við á.

2. gr.

Samning ársreiknings og árshlutauppgjörs.

Stjórn og framkvæmdastjóri rekstrarfélags verðbréfasjóða skulu, fyrir hvert reikningsár, semja ársreikning fyrir hvern verðbréfasjóð eða fjárfestingarsjóð í rekstri þess, sem fylgir ársreikningi rekstrarfélagsins og er hluti hans, sbr. reglur um reikningsskil rekstrarfélaga verðbréfasjóða, nr. 97/2004. Ársreikningar verðbréfasjóða og fjárfestingarsjóða skulu undirritaðir af stjórn og fram­kvæmda­stjóra, en undirritun skv. 3. gr. reglna um reikningsskil rekstrarfélaga verðbréfasjóða, telst fullgild undirritun fyrir alla sjóði í stýringu rekstrarfélags verðbréfasjóða. Telji stjórnarmaður eða fram­kvæmda­stjóri að ekki skuli samþykkja ársreikning verðbréfasjóðs eða fjárfestingarsjóðs, eða hefur mótbárur fram að færa við ársreikning, skal hann undirrita með fyrirvara þar sem mót­bárurnar eru tilgreindar.

Semja skal árshlutauppgjör verðbréfasjóða og fjárfestingarsjóða, sbr. 7. gr. þessara reglna, miðað við 30. júní ár hvert og birta eigi síðar en 31. ágúst ár hvert.

3. gr.

Upplýsingar í ársreikningi.

Í ársreikningum verðbréfasjóða eða fjárfestingarsjóða skal tilgreina allar upplýsingar sem fjárfestar þurfa til að gera sér grein fyrir þróun á starfsemi sjóðsins og niðurstöðu reksturs hans á árinu. Ársreikningur verðbréfasjóðs eða fjárfestingarsjóðs skal að lágmarki innihalda þær upplýsingar sem fram koma í þessum reglum.

4. gr.

Rekstrarreikningur og yfirlit um breytingu á hreinni eign.

Rekstrarreikningur og yfirlit um breytingu á hreinni eign verðbréfasjóðs eða fjárfestingarsjóðs skulu gefa glögga mynd af því hvernig hagnaður eða tap reikningsársins hefur myndast og hvernig eignir sjóðsins hafa breyst á árinu. Í rekstrarreikningi og yfirliti um breytingu á hreinni eign skal veita upplýsingar um öll efnisatriði sem koma fyrir í fylgiskjali 1 með reglum þessum. Heimilt er að bæta við fleiri liðum til að sérgreina upplýsingar um tekjur og gjöld sjóðsins eða annað sem máli skiptir fyrir fjárfesta sjóðsins við mat á rekstrarafkomu og breytingu á hreinni eign. Einnig er heimilt að víkja frá niðurröðun efnisatriða og breyta framsetningu í formi sem kemur fram í fylgiskjali 1, vegna liða sem ekki teljast mikilvægir.

Í rekstrarreikningi og yfirliti um breytingu á hreinni eign verðbréfasjóðs eða fjárfestingarsjóðs skal sérgreina hvern sjóð í rekstri rekstrarfélags verðbréfasjóða. Ef verðbréfasjóður eða fjár­festingar­sjóður er deildaskiptur, skal sýna allar sjóðsdeildir hvers sjóðs fyrir sig sundurliðaðar í ársreikningi. Heimilt er að bæta við samandregnu yfirliti fyrir alla verðbréfasjóði eða fjárfestingar­sjóði í rekstri rekstrarfélags.

5. gr.

Efnahagsreikningur.

Efnahagsreikningur verðbréfasjóðs eða fjárfestingarsjóðs skal gerður þannig að hann gefi glögga mynd af eignum og skuldum í lok reikningsárs. Í efnahagsreikningi skal veita upplýsingar um öll efnisatriði sem koma fyrir í fylgiskjali 2 með reglum þessum. Heimilt er að bæta við fleiri liðum til að sundurgreina efnahagsreikning sjóðs. Einnig er heimilt að víkja frá niðurröðun efnisatriða og breyta framsetningu í formi sem kemur fram í fylgiskjali 2, vegna liða sem ekki teljast mikilvægir.

Efnahagsreikningur verðbréfasjóðs eða fjárfestingarsjóðs skal vera sérgreindur fyrir hvern sjóð í rekstri rekstrarfélags verðbréfasjóða. Ef verðbréfasjóður eða fjárfestingarsjóður er deildaskiptur, skal sýna allar sjóðsdeildir hvers sjóðs fyrir sig sundurliðaðar í ársreikningi. Heimilt er að bæta við samandregnu yfirliti fyrir alla verðbréfasjóði eða fjárfestingarsjóði í rekstri rekstrarfélags.

6. gr.

Matsaðferðir.

Meta skal eignir verðbréfasjóðs eða fjárfestingarsjóðs í samræmi við III. kafla reglugerðar um fjárfestingarheimildir verðbréfasjóða, innlausn, markaðssetningu erlendra sjóða og upplýsingagjöf, nr. 1166/2013.

7. gr.

Gerð árshlutauppgjörs.

Við gerð árshlutareiknings verðbréfasjóðs eða fjárfestingarsjóðs skal að lágmarki veita annars vegar þær upplýsingar sem koma fyrir í fylgiskjali 2 með þessum reglum og hins vegar þær skýringar sem fjallað er um í 2.-4. mgr. 8. gr. og 1.-3. og 7. tölul. 5. mgr. 8. gr. í reglum þessum. Heimilt er að veita sömu upplýsingar í árshlutauppgjöri og eiga að koma fram í ársreikningi.

Hafi verðbréfa- eða fjárfestingarsjóður á tímabilinu greitt eða hyggst greiða arð, skulu tölur sýna niðurstöðu tímabilsins eftir skatta og þann arð sem greiddur hefur verið eða til stendur að greiða.

8. gr.

Skýringar.

Í skýringum með ársreikningi skal gefa upplýsingar um reikningsskilaaðferðir og annað sem máli skiptir við mat á rekstrarafkomu og fjárhagsstöðu sjóðsins á tímabilinu.

Veita skal í skýringum upplýsingar um þau atriði sem talin eru upp í 3. mgr. þessarar greinar með vísan til viðeigandi liða í ársreikningi. Upplýsingarnar skulu sérgreindar fyrir hvern verðbréfasjóð, fjárfestingarsjóð eða sjóðsdeild þar sem fram komi sundurliðun fjármálagerninga undir hverjum flokki.

Gera skal grein fyrir hlutfallslegri skiptingu á eignasafni sjóðsins á milli:

 1. Framseljanlegra verðbréfa og peningamarkaðsgerninga sem skráðir eru á skipulegum verðbréfamarkaði, sbr. 1. tl. 30. gr. laga um verðbréfasjóði, fjárfestingarsjóði og fag­fjárfesta­sjóði, nr. 128/2011. Greina skal á milli hlutabréfa, skuldabréfa og annarra verð­bréfa.
 2. Annarra framseljanlegra verðbréfa og peningamarkaðsgerninga en þeirra sem vísað er til í 1. tl. þessarar málsgreinar. Greina skal á milli hlutabréfa, skuldabréfa og annarra verðbréfa.
 3. Nýútgefinna verðbréfa, sbr. 2. tl. 30. gr. laga nr. 128/2011.
 4. Hlutdeildarskírteina verðbréfasjóða og sambærilegra erlendra sjóða, sbr. 3. tl. 30. gr. laga nr. 128/2011.
 5. Annarra hlutdeildarskírteina, sbr. 3. tl. 30. gr. og 2. mgr. 59. gr. laga nr. 128/2011.
 6. Innlána hjá fjármálafyrirtækjum, sbr. 3. tl. 30. gr. laga nr. 128/2011.
 7. Reiðufjár, sbr. 2. mgr. 31. gr. laga nr. 128/2011.
 8. Afleiðusamninga skráða á skipulegum verðbréfamarkaði, sbr. 5. tl. 30. gr. laga nr. 128/2011.
 9. Afleiðusamninga utan skipulegra verðbréfamarkaða, sbr. 6. tl. 30. gr. laga nr. 128/2011.

Eignir sem taldar eru upp í 3. mgr. þessarar greinar skal greina niður á helstu áherslur í fjár­fest­ingar­stefnu sjóðsins, svo sem atvinnugreinar, landsvæði eða gjaldmiðla. Sýna skal virði eigna og hlutfall þeirra af heildareignum sjóðsins. Upplýsingarnar skal sundurgreina á útgefanda og flokka skv. liðum 1-9 í 3. mgr. þessarar greinar. Upplýsingarnar skal setja fram í töflum þar sem áherslur sjóðsins koma fram, sbr. fylgiskjal 3 með þessum reglum, og skal hver tafla einungis innihalda upplýsingar um eina áherslu úr fjárfestingarstefnunni.

Einnig skal í skýringum veita eftirfarandi upplýsingar:

 1. Sundurliðun á breytingu á tíu stærstu eignum sjóðsins á milli tímabila. Sýna skal breyt­ingarnar bæði með tilliti til virðis eigna og hlutfalls þeirra af heildareignum sjóðsins.
 2. Gera skal grein fyrir uppsöfnuðum heildarkaupum og heildarsölum á öllum framseljanlegum verðbréfum og fjárfestingum sjóðsins á reikningsárinu.
 3. Setja skal fram samanburðartölur fyrir þrjú næstliðin reikningsár, sem skulu hafa að geyma miðað við lok hvers reikningsárs:
  1. bókfært verðmæti hlutdeildarskírteina,
  2. gengi hlutdeildarskírteina og
  3. nafn- og raunávöxtun sjóðsins.
 4. Gera skal lýsingu á því hvernig afleiðuviðskiptum er háttað hjá sjóðnum og veita upplýsingar um aðferðir og gerninga sem sjóðurinn notar til að auka skilvirkni í stýringu eignasafna. Í lýsingunni skulu koma fram upplýsingar um tegundir afleiðuviðskipta, undirliggjandi eignir og, ef við á, upplýsingar um eðli áhættuvarna við að minnka mótaðilaáhættu og kostnað sem af þeim hefur hlotist. Einnig skal koma fram hver sé tilgangur afleiðuviðskipta sjóðsins ásamt upplýsingum um þá áhættu sem fylgir viðskiptunum og áhrif þeirra á sjóðinn. Upplýsa skal um hvaða aðferð sjóðurinn notar við útreikning á heildaráhættu sjóðsins.
 5. Setja skal fram lista yfir gengi gjaldmiðla vegna erlendra eigna sjóðsins, eftir því sem við á.
 6. Vísitölusjóður skal veita upplýsingar um hversu mikið fylgnifrávik (e. tracking error) frá vísi­tölunni, sem sjóðurinn fylgir, var við lok tímabilsins ásamt útskýringum á muninum á væntu fylgni­fráviki og raunverulegu fylgnifráviki. Vísitölusjóður skal einnig veita upplýsingar um fylgnifrávik á ávöxtun sjóðsins og vísitölunni sem hann fylgir.
 7. Veita skal upplýsingar um helstu atriði sem varða starfsemi sjóðsins á tímabilinu, svo sem breytingar sem gerðar eru á reglum sjóðsins, breytingar á áherslum í fjárfestingum eða markmiðum sjóðsins. Heimilt er að veita slíkar upplýsingar í formi skýrslu sem fylgir árs­reikningi hvers verðbréfasjóðs eða fjárfestingarsjóðs, eða í formi greinargerðar sem hluti árs­skýrslu rekstrarfélags verðbréfasjóða, sbr. 1. mgr. 3. gr. reglna um reikningsskil rekstrar­félaga verðbréfasjóða, nr. 97/2004.

9. gr.

Innleiðing og gildistaka.

Með reglum þessum eru tekin upp ákvæði um ársreikninga verðbréfasjóða samkvæmt IX. kafla til­skipunar Evrópuþingsins og ráðsins 2009/65/EB, um samræmingu á lögum og stjórn­sýslu­fyrirmælum að því er varðar verðbréfasjóði (UCITS), svo og fylgiskjali B við sömu tilskipun.

Reglur þessar eru settar með heimild í 2. mgr. 88. gr. laga um fjármálafyrirtæki, nr. 161/2002, sbr. 49. og 57. gr. laga um verðbréfasjóði, fjárfestingarsjóði og fagfjárfestasjóði, nr. 128/2011, sbr. ennfremur 24. gr. reglugerðar um fjárfestingarheimildir verðbréfasjóða, innlausn, markaðssetningu erlendra sjóða og upplýsingagjöf, nr. 1166/2013.

Reglurnar öðlast gildi 1. janúar 2016 og koma fyrst til framkvæmda við gerð árshlutauppgjörs miðað við 30. júní 2016 og við gerð ársreikninga fyrir árið 2016. Jafnframt falla úr gildi 2. málsl. 2. mgr. 2. gr. og 16.-18. gr. reglna um reikningsskil rekstrarfélaga verðbréfasjóða, nr. 97/2004, með áorðnum breytingum.

Þrátt fyrir 3. mgr. er verðbréfasjóðum og fjárfestingarsjóðum heimilt að tilgreina ekki upplýsingar um innleystan hagnað/tap af fjárfestingum og óinnleystan hagnað/tap af fjárfestingum, samkvæmt fylgiskjali 1 með þessum reglum, fyrr en við gerð árshlutauppgjörs miðað við 30. júní 2017 og við gerð ársreikninga fyrir árið 2017. Sjóðum sem nýta sér þessa heimild ber þess í stað að tilgreina gengisbreytingar eigna við gerð árshlutauppgjörs og ársreikninga fyrir árið 2016.

Fjármálaeftirlitinu, 14. október 2015.

Jón Þór Sturluson.

Halldóra E. Ólafsdóttir.

Fylgiskjöl.
(sjá PDF-skjal)


B deild - Útgáfud.: 27. nóvember 2015