Velkomin á vef Stjórnartíðinda
Setja síðu í 1024px vídd Setja síðu í 1280px vídd Setja síðu í 1400px vídd Fyrir sjónskerta Venjulegt letur Stækka letur Stækka letur enn meira

Sé munur á uppsetningu texta hér að neðan og í PDF skjali gildir PDF skjalið.
 325/2021

Nr. 325/2021 25. mars 2021

REGLUGERÐ
um starfsemi, hlutverk og ábyrgð embættis ríkislögreglustjóra.

I. KAFLI

Almenn ákvæði.

1. gr.

Tilgangur þessarar reglugerðar er að kveða nánar á um starfsemi, hlutverk og ábyrgð ríkis­lögreglu­stjóra samkvæmt lögreglulögum nr. 90/1996.

 

II. KAFLI

Æðsta stjórn lögreglu.

2. gr.

Ráðherra er æðsti yfirmaður lögreglu á grundvelli lögreglulaga. Í því felst að ráðherra fer með almennar yfirstjórnunar- og eftirlitsheimildir gagnvart lögreglu á grundvelli laga um Stjórnarráð Íslands, lögreglulaga og laga um meðferð sakamála, en hefur ekki afskipti af einstökum lögreglu­aðgerðum eða rannsókn einstakra sakamála.

 

3. gr.

Ríkislögreglustjóri fer með málefni lögreglu í umboði ráðherra, í samræmi við ákvæði lögreglu­laga og reglugerð þessa. Ríkislögreglustjóri hefur með höndum samhæfingu og samræmingu í störfum lögreglu og annast ákveðna miðlæga þjónustu við lögregluembættin. Ríkislögreglustjóri hefur einnig með höndum sérstök verkefni samkvæmt lögreglulögum og í samræmi við nánari ákvörðun ráðherra.

 

4. gr.

Lögreglustjórar fara með stjórn lögregluliðs í sínu umdæmi, annast daglega stjórn og rekstur lögreglu í umdæminu og bera ábyrgð á framkvæmd lögreglustarfa innan þess, sbr. 6. mgr. 6. gr. lögreglulaga.

 

5. gr.

Ríkislögreglustjóri starfrækir lögregluráð, sbr. reglur um lögregluráð, en lögregluráð er form­legur samstarfsvettvangur lögreglustjóra á Íslandi.

Ríkislögreglustjóri vinnur, í samráði við lögregluráð, tillögur til ráðherra um hvers kyns lög­reglu­málefni, þar með talið vegna stefnumótunar, undirbúnings lagabreytinga og setningu reglu­gerða og málefna sem varða samræmingu, framþróun og öryggi í starfi lögreglunnar.

Til undirbúnings slíkum tillögum skulu lögreglustjórar veita ríkislögreglustjóra aðgang að þeim upp­lýsingum sem nauðsynlegar eru, að uppfylltum skilyrðum laga um persónuvernd og miðlun persónu­upplýsinga.

 

6. gr.

Ríkislögreglustjóri er ráðherra til ráðgjafar um afbrotavarnir, löggæslu- og öryggismálefni. Ríkis­lögreglustjóri lætur ráðherra í té upplýsingar um hvers konar löggæslumálefni sem ráðherra óskar eftir við undirbúning ákvarðana.

 

7. gr.

Ríkislögreglustjóri veitir ráðherra aðstoð varðandi eftirfylgni áætlana um starfsemi lögreglu, þar sem meðal annars eru sett markmið og mælikvarðar um starfsemi lögreglu og skilgreind þjónustu- og öryggisstig.

Ríkislögreglustjóri skal taka saman, í samráði við lögregluráð, skýrslu fyrir ráðherra fyrir febrúar­lok ár hvert þar sem gerð er grein fyrir og lagt mat á hvernig gengið hefur að ná markmiðum áætlana um starfsemi lögreglu.

Lögreglustjórar og hluteigandi stjórnvöld skulu veita ríkislögreglustjóra aðgang að þeim upp­lýsingum sem nauðsynlegar eru til þess að ríkislögreglustjóri geti uppfyllt skyldur sínar samkvæmt grein þessari, að uppfylltum skilyrðum laga um persónuvernd og miðlun persónuupplýsinga.

 

8. gr.

Ríkislögreglustjóri flytur og kynnir lögreglustjórum boð og ákvarðanir æðstu handhafa ríkis­valdsins sem varða starfsemi lögreglunnar. Ríkislögreglustjóri skal jafnframt kynna lögreglustjórum með skipulögðum hætti fordæmisgefandi dóma og úrskurði sem varða lögreglu.

 

9. gr.

Lögreglustjórar geta leitað til ríkislögreglustjóra til aðstoðar og stuðnings í lögreglustörfum, sbr. f-lið 1. mgr. 5. gr. lögreglulaga, en aðstoð eða stuðningur ríkislögreglustjóra getur m.a. falist í upplýs­inga­miðlun og ráðgjöf. Ríkislögreglustjóri getur stofnað sérstakan samráðsvettvang milli embættisins og lögreglustjóranna í þessum tilgangi þegar þess er talin þörf.

 

III. KAFLI

Samhæfing og samræming.

10. gr.

Ríkislögreglustjóri ber ábyrgð á að gefnar séu út samræmdar verklagsreglur, þ. á m. viðbragðs­áætlanir um viðbúnað og framkvæmd lögreglustarfa, að frumkvæði lögreglustjóra eða ríkislögreglu­stjóra eftir því sem við á. Útgefnar verklagsreglur, sem taka til þess með hvaða hætti lögreglustörf skulu framkvæmd, skulu almennt gilda í öllum lögregluumdæmum.

Við ákvörðun um efni verklagsreglna og forgangsröðun útgáfu skal ríkislögreglustjóri leita samráðs við lögreglustjóra. Lögreglustjórar eða fulltrúar þeirra skulu jafnframt hafa aðkomu að gerð verklagsreglna og endanleg útgáfa þeirra vera borin undir lögregluráð, í samræmi við reglur um lögregluráð.

 

11. gr.

Ríkislögreglustjóri skal hafa forystu um að siðareglur lögreglu verði endurskoðaðar með reglu­bundnum hætti. Endurskoðun siðareglna lögreglu skal gerð í samstarfi við starfsmenn lögreglu og endanleg útgáfa þeirra vera borin undir lögregluráð í samræmi við reglur um lögregluráð.

 

12. gr.

Ríkislögreglustjóri skal samræma ferli við ráðningar í störf og framgang innan lögreglu sem og við endurskipanir lögreglumanna í embætti. Verkferlar vegna ráðninga og endurskipana í störf innan lögreglu skulu bornir undir lögregluráð í samræmi við reglur um lögregluráð. Þá skal ríkislögreglu­stjóri innleiða heilindamat sem lögreglustjórar skulu styðjast við þegar um ráðningar, framgang í starfi og endurskipanir er að ræða.

 

IV. KAFLI

Þjónusta.

13. gr.

Ríkislögreglustjóri ákveður hvaða kröfur og skilyrði ökutæki, einkennisfatnaður og búnaður lög­reglu skuli uppfylla, í samráði við lögregluráð og í samræmi við skilyrði viðeigandi laga og reglu­gerða.

Ríkislögreglustjóri skal fylgjast með reglubundnum hætti með því að húsnæði og búnaður lögreglu­embætta uppfylli kröfur og séu í samræmi við skilyrði laga og reglna.

Óski lögreglustjóri eftir því getur ríkislögreglustjóri haft milligöngu um tilfærslu ökutækja, búnaðar og einkennisfatnaðar á milli lögregluembætta í þeim tilgangi að auka hagkvæmni og sveigjanleika í rekstri þeirra.

 

14. gr.

Ríkislögreglustjóri samræmir innkaup og langtímaleigu lögregluembætta á ökutækjum, sér­hæfðum búnaði vegna verkefna lögreglu og einkennisfatnaði lögreglu.

Á vettvangi lögregluráðs skal árlega farið yfir fyrirhuguð innkaup lögregluembættanna vegna næsta rekstrarárs, þannig að innkaup geti farið fram sameiginlega fyrir lögregluembættin í þeim til­gangi að auka hagkvæmni og hagræði í rekstri embætta. Fari fyrirhuguð innkaup yfir viðmiðunar­fjárhæð útboðsskyldu samkvæmt lögum um opinber innkaup, skulu lögreglustjórar upplýsa önnur lög­reglu­embætti og gefa þeim kost á að taka þátt í útboðinu. Á vettvangi lögregluráðs er einnig hægt að óska þess að ríkislögreglustjóri annist útboðið.

Áformi lögreglustjóri að kaupa sérhæfðan búnað vegna verkefna lögreglu fyrir sitt embætti, þá skal hann upplýsa ríkislögreglustjóra.

 

15. gr.

Ríkislögreglustjóri skal reka og bera ábyrgð á upplýsingakerfum lögreglu, þar með talið mið­lægu málakerfi sem heldur utan um öll verkefni lögreglunnar. Í því felst meðal annars að ríkis­lög­reglu­stjóri á og rekur miðlægan tölvubúnað og netkerfi sem lögregluembættin tengjast, ber ábyrgð á þróun kerfanna og annast þjónustu við notendur þeirra.

Ríkislögreglustjóri skal, í samráði við lögregluráð, leggja mat á það hvernig þjónustu við lögreglu­embættin vegna upplýsingakerfa lögreglu verði sinnt með sem hagkvæmustum hætti.

 

16. gr.

Ríkislögreglustjóri gerir ráðstafanir til þess að við skráningu í upplýsingakerfi lögreglu sé gætt að því að upplýsingar séu réttar og áreiðanlegar og að fullnægt sé skilyrðum laga fyrir skráningu.

Ríkislögreglustjóri gerir jafnframt ráðstafanir til þess að tryggja með skipulögðum og kerfis­bundnum hætti öryggi upplýsingakerfa lögreglu þannig að óviðkomandi fái ekki aðgang að þeim eða geti haft áhrif á skráningu.

Hvert lögregluembætti fyrir sig ber ábyrgð á öryggi við vinnslu persónuupplýsinga, að meðferð þeirra samrýmist reglum og á því að komið verði í veg fyrir óheimilan aðgang, breytingu eða miðlun upplýsinga.

Ríkislögreglustjóri skráir upplýsingar um uppflettingar í málakerfi lögreglu og getur miðlað þeim upp­lýsingum til viðkomandi lögreglustjóra, annaðhvort samkvæmt beiðni eða að eigin frum­kvæði, að uppfylltum skilyrðum laga um persónuvernd og miðlun persónuupplýsinga.

 

17. gr.

Ríkislögreglustjóri tekur saman og vinnur úr tölfræðiupplýsingum lögreglu. Í því sambandi skal ríkislögreglustjóri taka sérstakt mið af þörfum lögregluembættanna og taka meðal annars saman og setja fram gögn sem nýtast við stefnumiðaða löggæslu og rekstur embættanna.

Þá skal ríkislögreglustjóri hafa umsjón með því að taka saman og birta afbrotatölfræði og þróun afbrota milli ára. Ríkislögreglustjóri skal einnig taka saman tölfræði sem miðar að afbrotavörnum og miðla til lögregluembættanna og annarra stjórnvalda eftir því sem við á.

Ríkislögreglustjóri skal jafnframt hafa forystu um að þróa verklag við skráningu, meðhöndlun og úrvinnslu gagna sem miðar að auðveldu aðgengi að tölfræðiupplýsingum fyrir aðila á borð við lögregluembættin, ráðuneyti, erlenda úttektaraðila og almenning, eftir því sem við á.

 

V. KAFLI

Sérstök verkefni.

18. gr.

Ríkislögreglustjóri hefur með höndum sérstök verkefni samkvæmt 2. mgr. 5. gr. lögreglulaga og í samræmi við nánari ákvörðun ráðherra, sbr. 3. mgr. 5. gr. lögreglulaga. Í þeim tilgangi starfrækir ríkislögreglustjóri sérdeildir sem hafa hlutverk á landsvísu og eru miðstöðvar sérhæfingar og sér­þekkingar á sínum sviðum, til stuðnings starfsemi lögregluembætta og í samræmi við lög og reglu­gerðir. Ríkislögreglustjóri getur einnig falið lögreglustjórum ákveðin verkefni á grundvelli samnings milli embættisins og viðkomandi lögregluumdæmis.

 

19. gr.

Ríkislögreglustjóri annast málefni almannavarna í umboði ráðherra og starfrækir samhæfingar- og stjórnstöð í samræmi við lög um almannavarnir.

 

20. gr.

Ríkislögreglustjóri annast alþjóðasamvinnu og samstarf á sviði löggæslu- og öryggismála, svo sem innan Norðurlandanna, evrópsku lögreglunnar Europol og samtaka alþjóðalögreglunnar Inter­pol. Ríkislögreglustjóri er tengiliður lögreglu í lögreglu- og öryggisþjónustusamstarfi við önnur ríki.

Ríkislögreglustjóri er þjónustu- og tengslaskrifstofa fyrir íslensk og erlend lögregluembætti vegna alþjóðlegs lögreglu- og landamærasamstarfs. Embætti ríkislögreglustjóra starfrækir Schengen-upplýsingakerfin, eins og nánar er kveðið á um í viðeigandi reglugerðum, fer með SIRENE-skrif­stofu vegna Schengen-samstarfsins og er landsskrifstofa Íslands vegna Interpol, Europol og Landa­mæra- og strandgæslustofnunar Evrópu (Frontex).

 

21. gr.

Ríkislögreglustjóri sinnir verkefnum sem hafa það að markmiði að efla öryggi æðstu stjórnar ríkisins, samkvæmt b-lið 2. mgr. 5. gr. lögreglulaga.

Ríkislögreglustjóri fer með yfirstjórn mála varðandi öryggi ríkisins vegna viðburða, tilvika eða ástands sem stofnað geta öryggi stjórnskipunarinnar, ríkisstofnana svo og almennings í hættu. Framangreint tekur til forseta Íslands, Alþingis, ríkisstjórnar, ráðuneytis, dómstóla, ríkissaksóknara og fleiri mikilvægra opinberra eininga sem teljast hluti af innviðum landsins. Ríkislögreglustjóri ber ábyrgð á öryggismálum varðandi opinberar heimsóknir og heimsóknir erlendra sendimanna.

 

22. gr.

Ríkislögreglustjóri starfrækir mennta- og starfsþróunarsetur lögreglu, samkvæmt h-lið 2. mgr. 5. gr. lögreglulaga og í samræmi við reglugerð um mennta- og starfsþróunarsetur lögreglu.

 

23. gr.

Ríkislögreglustjóri annast framkvæmd brottvísana og frávísana umsækjenda um alþjóðlega vernd og framsal og fangaflutninga, á grundvelli sérstaks samnings við dómsmálaráðuneytið, sbr. 3. mgr. 5. gr. lögreglulaga.

 

24. gr.

Ríkislögreglustjóri starfrækir sérsveit sem tekst á við vopnuð lögreglustörf og öryggismál, sbr. g-lið 1. mgr. 5. gr. lögreglulaga og reglugerð um sérsveit ríkislögreglustjóra.

Sérsveit lýtur yfirstjórn ríkislögreglustjóra, sbr. reglugerð um sérsveit ríkislögreglustjóra. Þar sem sérsveit lögreglunnar er kölluð út vegna vopnaðra lögreglustarfa og öryggismála er forræði vopnaðra aðgerða í höndum ríkislögreglustjóra frá því að sérsveit kemur á vettvang og þar til vopnuðum aðgerðum lýkur. Lögreglustjórn hvað aðrar lögregluaðgerðir varðar helst hjá viðkomandi lögreglustjóra.

 

25. gr.

Ríkislögreglustjóri starfrækir greiningardeild sem rannsakar landráð og brot gegn stjórnskipan ríkisins og æðstu stjórnvöldum þess og leggur mat á hættu á hryðjuverkum og skipulagðri glæpa­starfsemi, sbr. b-lið 2. mgr. 5. gr. lögreglulaga og reglugerð um greiningardeild.

Ríkislögreglustjóri fer með lögreglustjórn aðgerða greiningardeildar ríkislögreglustjóra vegna rannsókna landráða og brota gegn stjórnskipan ríkisins og æðstu stjórnvöldum þess.

 

26. gr.

Ríkislögreglustjóri starfrækir fjarskiptamiðstöð sem veitir lögreglumönnum á vettvangi leið­bein­ingar, sbr. g-lið 1. mgr. 5. gr. lögreglulaga og reglugerð um fjarskiptamiðstöð ríkislögreglu­stjóra.

Fjarskiptamiðstöðin starfar jafnframt í ákveðnum tilvikum sem aðgerðarstjórnstöð ríkislögreglu­stjóra, þar á meðal þegar um er að ræða útköll sérsveitar ríkislögreglustjóra eða opinberar heim­sóknir.

 

27. gr.

Ríkislögreglustjóri starfrækir landamærasvið sem er samhæfingaraðili í málefnum landamæra og er ætlað að tryggja heildstæða og samræmda nálgun við framkvæmd landamæravörslu ásamt því að styðja við lögregluembætti í verkefnum sem tengjast því.

Landamærasvið ber ábyrgð á eftirliti og umsjón með því að Ísland uppfylli alþjóðlegar skuld­bindingar sínar er varða landamæraeftirlit, með því m.a. að framkvæma gæðaúttektir og gefa út leið­beiningar og fyrirmæli.

Ríkislögreglustjóri starfrækir einnig farþegaupplýsingadeild í samstarfi við viðeigandi stjórn­völd sem annast söfnun, vinnslu og miðlun á farþegaupplýsingum í löggæslutilgangi.

 

VI. KAFLI

Gildistaka.

28. gr.

Reglugerð þessi er sett samkvæmt heimild í 3. mgr. 5. gr., sbr. 43. gr. lögreglulaga nr. 90/1996 með síðari breytingum og öðlast þegar gildi.

 

Dómsmálaráðuneytinu, 25. mars 2021.

 

Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir.

Haukur Guðmundsson.


B deild - Útgáfud.: 25. mars 2021