Velkomin á vef Stjórnartíðinda
Setja síðu í 1024px vídd Setja síðu í 1280px vídd Setja síðu í 1400px vídd Fyrir sjónskerta Venjulegt letur Stækka letur Stækka letur enn meira

Sé munur á uppsetningu texta hér að neðan og í PDF skjali gildir PDF skjalið.
 1270/2015

Nr. 1270/2015 14. desember 2015

REGLUR
um hámarksútgreiðslufjárhæð og takmarkanir á útgreiðslum fjármálafyrirtækja vegna eiginfjárauka.

1. gr.

Gildissvið.

Reglur þessar taka til fjármálafyrirtækja sem viðhalda skulu eiginfjáraukum á grundvelli 84. gr. a – 84. gr. e laga um fjármálafyrirtæki, nr. 161/2002.

Reglur þessar gilda einungis um útgreiðslur sem hafa í för með sér lækkun á eiginfjárþætti A eða minni hagnað. Reglurnar gilda ekki um tilvik þar sem frestun greiðslu gæti leitt til endur­skipulagn­ingar fjárhags eða slita skv. XII. kafla laga um fjármálafyrirtæki. 

2. gr.

Skilgreiningar.

Í reglum þessum er merking eftirfarandi hugtaka sem hér segir:

Samanlögð krafa um eiginfjárauka: Samanlagt gildi eiginfjárauka sem fjármálafyrirtæki skal halda á grundvelli 84. gr. b – 84. gr. e laga um fjármálafyrirtæki.

Eiginfjárþáttur A: Eiginfjárliðir sem taldir eru upp í 1. málsl. 5. mgr. 84. gr. laga um fjár­mála­fyrirtæki: innborgað hlutafé, innborgað stofnfé, varasjóðir, yfirverðsreikningur hlutafjár, yfirverðs­reikningur stofnfjár, endurmatsreikningur samkvæmt verðbólgureikningsskilum og óráðstafað eigið fé.

Útgreiðslur: Með útgreiðslum er í reglum þessum átt við þær aðgerðir sem taldar eru upp í 2. mgr. 3. gr. þessara reglna.

3. gr.

Takmarkanir á útgreiðslum fjármálafyrirtækja.

Fjármálafyrirtæki sem uppfyllir samanlagða kröfu um eiginfjárauka er óheimilt að framkvæma útgreiðslur sem hafa þau áhrif að samanlagða krafan um eiginfjárauka er ekki lengur uppfyllt.

Fjármálafyrirtæki sem uppfyllir ekki samanlagða kröfu um eiginfjárauka er óheimilt að grípa til eftirfarandi aðgerða áður en hámarksútgreiðslufjárhæð, skv. 4. gr. þessara reglna, hefur verið reiknuð út:

  1. Framkvæma útgreiðslur vegna liða sem teljast til eiginfjárþáttar A. Til þeirra útgreiðslna teljast:
    1. arðgreiðsla með reiðufé,
    2. útgreiðsla sem að hluta eða öllu leyti er greidd með innborguðu hlutafé eða stofnfé, sbr. 5. mgr. 84. gr. laga um fjármálafyrirtæki,
    3. niðurfærsla á eða kaup á eigin hlutabréfum eða stofnfjárbréfum,
    4. endurgreiðsla á innborguðu hlutafé eða stofnfé, eða
    5. útgreiðsla í tengslum við eiginfjárliði eiginfjárþáttar A, önnur en hlutabréf eða stofnfjárbréf.
  2. Stofna til skuldbindingar um að ákvarða starfsmanni kaupauka eða greiða starfsmanni kaup­auka ef stofnað var til skuldbindingarinnar á þeim tíma þegar fjármálafyrirtækið upp­fyllti ekki samanlagða kröfu um eiginfjárauka.
  3. Framkvæma útgreiðslur vegna blendingsbréfa á grundvelli reglna um viðbótareiginfjárliði fjármálafyrirtækja.

Ef fjármálafyrirtæki uppfyllir ekki samanlagða kröfu um eiginfjárauka er því óheimilt að greiða út meira en sem nemur hámarksútgreiðslufjárhæð, skv. 4. gr. þessara reglna, vegna aðgerða skv. 2. mgr. þessarar greinar.

4. gr.

Hámarksútgreiðslufjárhæð.

Fjármálafyrirtæki sem uppfyllir ekki samanlagða kröfu um eiginfjárauka skal reikna út hámarks­útgreiðslufjárhæð og tilkynna Fjármálaeftirlitinu um fjárhæðina, sbr. 7. gr. þessara reglna.

Fjármálafyrirtæki skal reikna út hámarksútgreiðslufjárhæð með því að margfalda samtölu skv. 5. gr. með stuðlinum sem reiknaður er skv. 6. gr. í þessum reglum. Frá hámarksútgreiðslufjárhæð skal draga útgreiðslur sem teljast til aðgerða skv. 2. mgr. 3. gr. þessara reglna.

5. gr.

Samtala vegna hámarksútgreiðslufjárhæðar.

Samtala vegna hámarksútgreiðslufjárhæðar ákvarðast af eftirfarandi þáttum:

  1. hagnaði samkvæmt árshlutauppgjöri sem ekki er talinn til eiginfjárþáttar A á grundvelli 4. mgr. 84. gr. laga um fjármálafyrirtæki, nr. 161/2002, og hefur myndast síðan síðast var tekin ákvörðun um útgreiðslu hagnaðar eða aðgerðir skv. 2. mgr. 3. gr. þessara reglna, ásamt
  2. hagnaði ársins sem ekki er talinn til eiginfjárþáttar A og hefur myndast síðan síðast var tekin ákvörðun um útgreiðslu hagnaðar eða aðgerðir skv. 2. mgr. 3. gr. þessara reglna.

Frá samtölu samkvæmt hagnaðarliðum 1. mgr. skal draga þá fjárhæð sem yrði greidd í skatt ef þeim útgreiðslum sem felast í aðgerðum skv. 2. mgr. 3. gr. yrði haldið eftir sem óráðstöfuðu eigin fé. Til slíkra skattgreiðslna teljast tekjuskattur, sérstakur fjársýsluskattur og, eftir atvikum, aðrir þeir skattar sem eru reiknaðir af hagnaði fjármálafyrirtækja.

6. gr.

Stuðull vegna hámarksútgreiðslufjárhæðar.

Stuðul skv. 2. mgr. 4. gr. þessara reglna skal reikna út með því að bera saman i) eigið fé eiginfjárþáttar A sem fjármálafyrirtækið viðheldur og er ekki nýtt til að mæta eiginfjárkröfu skv. 1. málsl. 1. mgr. 84. gr. laga um fjármálafyrirtæki og viðbótar eiginfjárkröfu skv. a-lið 1. mgr. 84. gr. sömu laga og ii) samanlagða kröfu um eiginfjárauka á hverjum ársfjórðungi.

Gildi stuðulsins ræðst af hlutfalli eigin fjár eiginfjárþáttar A skv. 1. mgr., af samanlagðri kröfu um eiginfjárauka sem hér segir:

  1. Ef eigið fé eiginfjárþáttar A skv. 1. mgr. er í fyrsta fjórðungi (0 – 25%) af samanlagðri kröfu um eiginfjárauka, þá fær stuðullinn gildið 0.
  2. Ef eigið fé eiginfjárþáttar A skv. 1. mgr. er í öðrum fjórðungi (25 – 50%) af samanlagðri kröfu um eiginfjárauka, þá fær stuðullinn gildið 0,2.
  3. Ef eigið fé eiginfjárþáttar A skv. 1. mgr. er í þriðja fjórðungi (50 – 75%) af samanlagðri kröfu um eiginfjárauka, þá fær stuðullinn gildið 0,4.
  4. Ef eigið fé eiginfjárþáttar A skv. 1. mgr. er í fjórða fjórðungi (75 – 100%) af samanlagðri kröfu um eiginfjárauka, þá fær stuðullinn gildið 0,6.

Reikna skal út neðri og efri mörk hvers fjórðungs samkvæmt eftirfarandi forskrift:

      a.   neðri mörk fjórðungs =  Forskrift sem sýnir neðri mörk fjórðungs og

      b.   efri mörk fjórðungs =Forskrift sem sýnir efri mörk fjórðungs,

þar sem „Qn“ stendur fyrir raðnúmer á hverjum fjórðungi fyrir sig.

7. gr.

Tilkynningarskylda og gagnaskil.

Fjármálafyrirtæki sem ekki uppfyllir samanlagða kröfu um eiginfjárauka og hefur í hyggju að greiða út af hagnaði eða framkvæma aðgerðir skv. 2. mgr. 3. gr. þessara reglna, skal tilkynna Fjármála­eftirlitinu um það.

Í tilkynningu skulu koma fram eftirfarandi upplýsingar:

  1. Fjárhæð eiginfjárgrunns fjármálafyrirtækis sundurliðuð með eftirfarandi hætti:
    1. Eigið fé eiginfjárþáttar A,
    2. blendingsbréf sem gefin eru út á grundvelli reglna um viðbótareiginfjárliði fjármála­fyrirtækja og
    3. eigið fé eiginfjárþáttar B.
  2. Fjárhæð hagnaðar samkvæmt árshlutauppgjöri og fjárhæð hagnaðar samkvæmt árs­uppgjöri.
  3. Hámarksútgreiðslufjárhæð reiknuð skv. 4. gr. þessara reglna.
  4. Fjárhæð sem fjármálafyrirtæki hyggst greiða út, sundurliðuð með eftirfarandi hætti:
    1. Arðgreiðslur,
    2. kaup á eigin bréfum,
    3. greiðslur af blendingsbréfum, sbr. reglur um viðbótareiginfjárliði fjármálafyrirtækja og
    4. ákvörðun um greiðslu kaupauka, hvort sem um er að ræða nýja skuldbindingu, eða greiðslu sem fjármálafyrirtæki skuldbatt sig til að inna af hendi á þeim tíma sem það uppfyllti ekki samanlagða kröfu um eiginfjárauka.

Fjármálafyrirtæki skal hafa til staðar fullnægjandi og skjalfesta innri ferla, sbr. 17. gr. laga um fjármálafyrirtæki til að tryggja að fjárhæð, skv. 4. tölul. 2. mgr. þessarar greinar, og hámarks­útgreiðslufjárhæð séu reiknaðar nákvæmlega. Fjármálafyrirtæki skal geta sýnt fram á verklag við útreikninga á hámarksútgreiðslufjárhæð.

Fjármálafyrirtæki skal senda Fjármálaeftirlitinu gögn varðandi útreikninga á hámarks­útgreiðslu­fjárhæð og takmörkunum á útgreiðslum fjármálafyrirtækja á því formi sem eftirlitið ákveður. Regluleg gögn ber að senda í samræmi við yfirlit yfir gagnaskil fjármálafyrirtækja sem birt er á heimasíðu Fjármálaeftirlitsins.

8. gr.

Áætlun um verndun eigin fjár.

Viðhaldi fjármálafyrirtæki ekki nægjanlegu eigin fé, til samræmis við samanlagða kröfu um eigin­fjár­auka, skal stjórn fjármálafyrirtækis útbúa og afhenda Fjármálaeftirlitinu áætlun um verndun eigin fjár.

Áætlun um verndun eigin fjár skal m.a. innihalda:

  1. Áætlun um tekjur og gjöld fyrirtækisins og spá um þróun efnahagsreiknings þess.
  2. Upplýsingar um til hvaða úrræða fyrirtækið hyggst grípa til þess að hækka eiginfjárhlutfall sitt.
  3. Tímasetta áætlun um það hvernig fyrirtækið ráðgerir að hækka eiginfjárhlutfall sitt þannig að það uppfylli á ný samanlagða kröfu um eiginfjárauka.
  4. Aðrar upplýsingar sem Fjármálaeftirlitið telur nauðsynlegar til þess að leggja mat á áætl­un­ina.

Áætlun um verndun eigin fjár skal afhent Fjármálaeftirlitinu innan fimm virkra daga frá því að ljóst er að eigið fé fór niður fyrir samanlagða kröfu um eiginfjárauka. Fjármálaeftirlitið getur veitt viðbótar­frest til að afhenda áætlunina í sérstökum tilvikum.

9. gr.

Innleiðing og gildistaka.

Með reglum þessum eru tekin upp ákvæði um hámarksútgreiðslufjárhæð og takmarkanir á út­greiðsl­um fjármálafyrirtækja vegna eiginfjárauka skv. 4. kafla tilskipunar Evrópuþingsins og ráðs­ins 2013/36/ESB, um aðgang að starfsemi lánastofnana og varfærniseftirlit með lánastofnunum og fjár­fest­ingarfyrirtækjum.

Reglur þessar, sem settar eru samkvæmt heimild í 7. mgr. 84. gr. a laga um fjármálafyrirtæki nr. 161/2002, með síðari breytingum, öðlast þegar gildi.

Fjármálaeftirlitinu, 14. desember 2015.

Unnur Gunnarsdóttir.

Halldóra E. Ólafsdóttir.


B deild - Útgáfud.: 11. janúar 2016