Velkomin á vef Stjórnartíðinda
Setja síðu í 1024px vídd Setja síðu í 1280px vídd Setja síðu í 1400px vídd Fyrir sjónskerta Venjulegt letur Stækka letur Stækka letur enn meira

Sé munur á uppsetningu texta hér að neðan og í PDF skjali gildir PDF skjalið.
 31/2011

Nr. 31/2011 17. janúar 2011
REGLUR
um greiðsluuppgjör kortaviðskipta.

1. gr.

Uppgjörsfyrirkomulag vegna innlendrar notkunar greiðslukorta.

Þeir aðilar sem ábyrgir eru fyrir færsluhirðingu og skilum á greiðslum fyrir vöru og þjón­ustu skulu láta greiðsluuppgjör (e. settlement) vegna greiðslukorta fara fram í íslenskum krónum. Þetta á við í þeim tilvikum að bæði útgefandi korts og söluaðili er íslenskur auk þess sem verð fyrir vöru og þjónustu er tilgreint í íslenskum krónum. Kortafyrirtæki sem annast færsluhirðingu skulu við þessar aðstæður láta uppgjör kortaviðskipta (e. settlement) fara fram í íslenskum krónum. Heimilt er þó að nota færsluvísingu (e. clearing) erlendra kortasamsteypa enda ábyrgist kortafyrirtækin hnökralausa daglega framkvæmd færsluvísingarinnar og greiðsluuppgjör á grundvelli hennar.

2. gr.

Undanþáguákvæði.

Seðlabanki Íslands getur veitt erlendum færsluhirðum sem uppfylla skilyrði til að starfa á íslenskum markaði undanþágu frá 1. gr. um uppgjör í íslenskum krónum. Skilyrði fyrir undanþágu er að erlendir færsluhirðar sýni fram á og ábyrgist að uppgjör fari fram án truflunar. Seðlabankinn endurskoðar veittar undanþágur á sex mánaða fresti.

Yfirlýsing Seðlabanka Íslands um aðgang að gjaldeyri til uppgjörs greiðslukorta sbr. 2. mgr. 3. gr. nær ekki til uppgjörs innlendra færslna í erlendum gjaldmiðlum.

3. gr.

Uppgjör.

Útgefendur korta eru ábyrgir fyrir uppgjöri við færsluhirða sem eru aftur ábyrgir fyrir uppgjöri gagnvart söluaðilum. Draga skal úr uppgjörsáhættu og tryggja öryggi greiðslna kortaútgefanda til færsluhirðis og áfram til söluaðila. Taki færsluhirðar við greiðslum frá kortaútgefendum örar en nemur skilum þeirra til söluaðila, skulu fjármunir varðveittir með sem minnstri áhættu, t.d. sem innlán hjá viðskiptabanka eða sparisjóði eða í öðrum áhættulitlum og auðseljanlegum eignum.

Komi upp sú staða að kortafyrirtæki (uppgjörsaðili/útgefandi) sem hefur með höndum uppgjör vegna greiðslukorta, getur ekki keypt gjaldeyri á markaði til uppgjörs á skuldbindingum sem rekja má til notkunar íslenskra korta erlendis mun Seðlabanki Íslands tryggja aðgengi kortafyrirtækis að gjaldeyri sem nemur nettó gjaldeyrisþörf þess umfram notkun erlendra korta á Íslandi.

4. gr.

Gildistaka o.fl.

Reglur þessar eru settar með tilvísun til 38. gr., sbr. 4. gr. laga nr. 36/2001 um Seðlabanka Íslands með síðari breytingum, og taka gildi frá og með 24. janúar 2011. Jafnframt falla þá úr gildi reglur nr. 849 frá 1. október 2009.

Reglurnar skal endurskoða fyrir 1. september 2011 m.a. með hliðsjón af gildistíma ákvæðis til bráðabirgða í lögum nr. 87/1992 um gjaldeyrismál með síðari breytingum.

Reykjavík, 17. janúar 2011.

Seðlabanki Íslands,

Már Guðmundsson
seðlabankastjóri.

Guðmundur Kr. Tómasson
aðstoðarframkvæmdastjóri.

B deild - Útgáfud.: 21. janúar 2011