Velkomin á vef Stjórnartíðinda
Setja síðu í 1024px vídd Setja síðu í 1280px vídd Setja síðu í 1400px vídd Fyrir sjónskerta Venjulegt letur Stækka letur Stækka letur enn meira

Sé munur á uppsetningu texta hér að neðan og í PDF skjali gildir PDF skjalið.
 1090/2018

Nr. 1090/2018 19. nóvember 2018

REGLUR
um vátryggingafélög sem undanþegin eru tilteknum ákvæðum laga um vátryggingastarfsemi.

I. KAFLI

Almennt.

1. gr.

Gildissvið.

Reglur þessar gilda um félög sem falla undir undanþáguákvæði 1.–5. tölul. 3. mgr. 3. gr. laga nr. 100/2016 um vátryggingastarfsemi.

Með vátryggingafélögum í reglum þessum er átt við slík félög.

2. gr.

Áætlun um starfsemi vátryggingafélags.

Áætlun um fyrirhugaða starfsemi, sem fylgja skal umsókn um starfsleyfi, skal ná til þeirra atriða sem fjallað er um í 1., 3. og 4. tölul. 1. mgr. 24. gr. laga um vátryggingastarfsemi. Til viðbótar skal eftirfarandi koma fram í áætluninni:

 1. Eignir sem eiga að vera til staðar í félaginu til þess að kröfum um lágmarksgjaldþol, skv. 18. gr. í reglum þessum, sé fullnægt.
 2. Áætlun um hvernig vátryggingafélag hyggst fullnægja gjaldþolskröfu 15. gr. reglna þessara fyrstu þrjú heilu reikningsárin.

3. gr.

Nýir greinaflokkar.

Uppfylli vátryggingafélag skilyrði um gjaldþolskröfu, skv. 15. gr. reglna þessara, að teknu tilliti til hinnar nýju starfsemi og sé að öðru leyti fallist á umsóknina veitir Fjármálaeftirlitið leyfi fyrir nýju starfseminni.

II. KAFLI

Eftirlit.

4. gr.

Eftirlitsferlið.

Fjármálaeftirlitið skal, við framkvæmd eftirlits skv. lögum um vátryggingastarfsemi og reglum þessum, meta og hafa eftirlit með hvernig vátryggingafélag fullnægir:

 1. kröfum til stjórnkerfis,
 2. kröfum til vátryggingaskuldar,
 3. kröfum til gjaldþols,
 4. kröfum til fjárfestinga.

Fjármálaeftirlitið fylgist með breytingum á fjárhagslegri stöðu vátryggingafélags og hefur eftirlit með því að brugðist sé við neikvæðri þróun á viðeigandi hátt.

Fjármálaeftirlitið getur krafist þess að vátryggingafélag bæti úr veikleikum eða annmörkum sem koma í ljós við eftirlit.

5. gr.

Gagnaskil til Fjármálaeftirlitsins.

Vátryggingafélag skal afhenda Fjármálaeftirlitinu gögn og upplýsingar sem nauðsynlegar eru til eftirlits, samkvæmt lögum um vátryggingastarfsemi og reglum þessum, meðal annars til að meta stjórnkerfi vátryggingafélags, starfsemi, gjaldþol, áhættu, áhættustýringu, uppbyggingu eigin fjár, eiginfjárþörf og eiginfjárstýringu.

III. KAFLI

Stjórn og stjórnkerfi.

6. gr.

Stjórnarmenn og forstjóri.

Í vátryggingafélagi, sem fengið hefur starfsleyfi hér á landi, skal stjórn kjörin á aðalfundi sam­kvæmt ákvæðum samþykkta félagsins og vera skipuð þremur mönnum hið fæsta.

Stjórn vátryggingafélags skal ekki taka þátt í ákvörðunum um einstök viðskipti nema umfang þeirra sé verulegt miðað við stærð félagsins. Stjórnarmenn skulu ekki hafa afskipti af ákvörðunum um einstök viðskipti nema þau komi til afgreiðslu á vettvangi stjórnar.

Stjórnarmenn vátryggingafélags skulu ekki taka þátt í meðferð máls ef mál varðar:

 1. viðskipti þeirra sjálfra eða fyrirtækja sem þeir sitja í stjórn hjá, eru fyrirsvarsmenn fyrir eða eiga að öðru leyti verulegra hagsmuna að gæta í,
 2. viðskipti samkeppnisaðila þeirra aðila sem um ræðir í a-lið.

Hið sama skal gilda um viðskipti aðila sem eru tengdir stjórnarmönnum persónulega eða fjár­hags­lega.

Viðskiptaerindi stjórnarmanna, sem og fyrirtækja sem þeir eru í fyrirsvari fyrir, skulu lögð fyrir stjórn vátryggingafélags til samþykktar eða synjunar. Stjórn vátryggingafélags er þó heimilt að setja almennar reglur um afgreiðslu slíkra mála þar sem fyrir fram er ákveðið hvaða viðskiptaerindi þurfi, eða þurfi ekki, sérstaka umfjöllun stjórnar áður en til afgreiðslu þeirra kemur.

Stjórnarmenn skulu vera búsettir í aðildarríki, eins og þau eru skilgreind í lögum um vátrygg­inga­starfsemi, eða ríki sem er aðili að Efnahags- og framfarastofnuninni (OECD). Forstjóri skal vera búsettur í aðildarríki.

Fái stjórnarmenn eða forstjóri þóknun eða aðrar tekjur af vátryggingum, sem félagið yfirtekur eða lætur af hendi, vegna þátttöku í umboðs- eða miðlunarstarfsemi eða vegna fjárhagslegra hagsmuna í slíkri starfsemi skal Fjármálaeftirlitinu send tilkynning þar að lútandi.

Stjórn og forstjóri skulu án tafar gera Fjármálaeftirlitinu viðvart hafi þeir vitneskju um málefni sem hafa úrslitaþýðingu fyrir áframhaldandi starfsemi félagsins.

7. gr.

Almennar kröfur til stjórnkerfis.

Vátryggingafélag skal hafa til staðar skilvirkt stjórnkerfi sem tryggir að því sé stjórnað á traustan og varfærinn hátt. Stjórnkerfið skal vera í samræmi við eðli, umfang og margbreytileika starf­sem­innar og skal rýnt eigi sjaldnar en árlega.

Stjórnkerfið skal að lágmarki fela í sér gagnsætt og viðeigandi stjórnskipulag með skýrri dreifingu og aðgreiningu ábyrgðar ásamt skilvirkri miðlun upplýsinga.

Stjórn skal setja skriflega stefnu sem tekur a.m.k. til áhættustýringar, innra eftirlits, innri endur­skoðunar og útvistunar ef við á. Stjórn skal tryggja innleiðingu framangreindra stefna og að þær séu rýndar eigi sjaldnar en árlega.

Vátryggingafélag skal gera ráðstafanir, þ.m.t. viðbragðsáætlun, til að tryggja rekstrarsamfellu í starf­seminni.

Telji Fjármálaeftirlitið að stjórnkerfi vátryggingafélags sé óviðunandi getur það krafist úrbóta.

8. gr.

Áhættustýring.

Vátryggingafélag skal á hverjum tíma hafa yfir að ráða skilvirku kerfi áhættustýringar sem gerir félaginu kleift að greina, mæla, stjórna og hafa eftirlit með og tilkynna um yfirvofandi hættur sem geta haft áhrif á starfsemi félagsins og víxltengsl á milli þeirra.

Áhættustýring skal vera skilvirk og vel samþætt skipulagi og ákvarðanatöku vátryggingafélags.

Vátryggingafélag skal tilnefna starfsmann hjá félaginu til að bera ábyrgð á áhættustýringu og skal tilnefningin tilkynnt Fjármálaeftirlitinu. Láti sá starfsmaður af störfum skal það jafnframt tilkynnt Fjármálaeftirlitinu. Áhættustýring vátryggingafélags skal vera óháð öðrum starfseiningum félagsins.

Áhættustýring skal hið minnsta taka til eftirfarandi þátta:

 1. áhættutöku vegna sölu vátrygginga og meðhöndlunar tjóna,
 2. eigna- og skuldastýringar,
 3. fjárfestingaráhættu,
 4. lausafjáráhættu og samþjöppunaráhættu,
 5. rekstraráhættu,
 6. endurtrygginga og annarra áhættuvarna.

9. gr.

Mat á vátryggingaskuld.

Vátryggingaskuld líftryggingafélags skal metin af tryggingastærðfræðingi sem skal starfa í samræmi við 3.–6. mgr. 48. gr. laga um vátryggingastarfsemi.

Stjórn skaðatryggingafélags skal sjá til þess að vátryggingaskuld félagsins sé metin af aðila sem hefur til þess næga sérþekkingu. Fjármálaeftirlitið getur krafist þess að slíkt mat fari fram telji það stjórn félagsins ekki hafa sinnt þessu hlutverki sínu með fullnægjandi hætti.

10. gr.

Innra eftirlit.

Stjórn vátryggingafélags skal tryggja að til staðar sé skilvirkt kerfi innra eftirlits sem hefur a.m.k. stjórnunar- og reikningsskilaferla, skipulag og tilhlýðilega skýrslugjöf á öllum sviðum starfseminnar.

Sé ekki unnt að tryggja viðeigandi aðskilnað starfa, sökum smæðar vátryggingafélags, skal vátrygg­inga­félagið tryggja að innra eftirlit sé nægilega ítarlegt til að lágmarka líkur á hagsmuna­árekstrum.

 

11. gr.

Innri endurskoðun.

Vátryggingafélag skal hafa virka innri endurskoðun sem felur í sér mat á skilvirkni og gæðum innra eftirlitskerfis og annarra þátta stjórnkerfisins.

Innri endurskoðun heyrir beint undir stjórn og skal vera hlutlæg og óháð öllum einingum vátrygg­inga­félagsins.

Innri endurskoðun skal upplýsa stjórn um allar niðurstöður og ábendingar innri endurskoðunar. Stjórn tekur ákvörðun um aðgerðir og ber ábyrgð á að þeim sé framfylgt. Eigi sjaldnar en árlega skal innri endurskoðun gera Fjármálaeftirlitinu grein fyrir niðurstöðum kannana sinna.

12. gr.

Útvistun.

Vátryggingafélag sem útvistar hluta af starfsemi sinni ber ábyrgð á því að farið sé að lögum um vátryggingastarfsemi og reglum þessum.

Útvistun mikilvægra verkefna skal ekki leiða til skerðingar á þeim kröfum sem gerðar eru til félags­ins í lögum um vátryggingastarfsemi og reglum þessum. Þá skal útvistun ekki leiða til tak­mörkunar á möguleikum Fjármálaeftirlitsins til að sinna eftirliti með því hvort vátryggingafélag upp­fylli skyldur sínar.

Vátryggingafélag skal upplýsa Fjármálaeftirlitið fyrir fram um útvistun mikilvægra verkefna svo og um breytingar sem verða á þeirri útvistun.

13. gr.

Upplýsinga- og tilkynningarskylda endurskoðanda.

Endurskoðandi vátryggingafélags skal gera Fjármálaeftirlitinu tafarlaust viðvart fái hann vitneskju um að gjaldþolskröfu eða kröfu um lágmarksgjaldþol, skv. IV. kafla reglna þessara, sé ekki full­nægt.

IV. KAFLI

Gjaldþol og gjaldþolskrafa.

14. gr.

Gjaldþol.

Gjaldþol vátryggingafélags er samtala eftirtalinna gjaldþolsliða:

 1. Innborgað hlutafé að frádregnum eigin hlutabréfum félagsins.
 2. Varasjóðir sem ekki eru til að mæta skuldbindingum félagsins og óráðstöfuð ágóðaskuld líftryggingafélags.
 3. Óráðstafaður hagnaður að frádregnu ójöfnuðu tapi, ráðgerðum arðgreiðslum og óefnislegum eignum.
 4. Nauðsynlegar afskriftir og niðurfærslur. Sé nauðsynlegt að afskrifa eða niðurfæra eignaliði umfram það sem gert er í efnahagsreikningi skal það koma til lækkunar gjaldþoli. Meðal annars skal hafa hliðsjón af atriðum utan efnahags.
 5. Hlutdeild í hlutdeildarfélagi sem vátryggingafélag á í öðrum vátryggingafélögum, eignar­halds­félögum á vátryggingasviði, fjármálafyrirtækjum eða fyrirtækjum á fjármálasviði.

Gjaldþol vátryggingafélags er reiknað með því að leggja saman fjárhæðir skv. 1.–3. tölul. 1. mgr. og draga frá fjárhæðir skv. 4.–5. tölul. 1. mgr. Ef horfur eru á að gjaldþol verði einhvern tímann á næstu þremur árum lægra en gjaldþol reiknað skv. 1.–5. tölul. 1. mgr. skal til viðbótar færa gjald­þolið niður um muninn á framantöldum liðum og áætluðu lægsta gjaldþoli á næstu þremur árum.

15. gr.

Gjaldþolskrafa.

Gjaldþolskrafa vátryggingafélags er samtala gjaldþolskröfu vegna starfsemi í greinaflokkum skaða­trygginga og gjaldþolskröfu vegna starfsemi í greinaflokkum líf- og heilsutrygginga.

16. gr.

Gjaldþolskrafa vegna starfsemi í greinaflokkum skaðatrygginga.

Gjaldþolskrafa vátryggingafélags vegna starfsemi í greinaflokkum skaðatrygginga er ákvörðuð sem samtala lækkunar á gjaldþoli samkvæmt 2. mgr. að viðbættum 15 prósentum af fjárhæð vátrygg­inga­skuldar miðað við eigin áhættu vátryggingafélags.

Við ákvörðun gjaldþolskröfu vátryggingafélags skal reikna út lækkun gjaldþols miðað við að eftir­farandi atburðir ættu sér stað á sama tíma:

 1. Gangvirði eignarhluta vátryggingafélags í fasteignum, lóðum og byggingum og eignarhlutum í félögum, sem eiga slíkar eignir, lækkar um 20 prósent.
 2. Gangvirði eignarhluta vátryggingafélags í hlutabréfum, sem falla ekki undir 1. tölulið, lækkar um 40 prósent.
 3. Gangvirði eignarhluta vátryggingafélags í verðbréfasjóðum, fjárfestingasjóðum og fagfjárfestasjóðum lækkar um 40 prósent.
 4. Gangvirði eignarhluta vátryggingafélags í skuldabréfum og öðrum skuldaskjölum útgefnum af öðrum en aðildarríkjum, eins og þau eru skilgreind í lögum um vátryggingastarfsemi, lækkar um 20 prósent.

Við útreikning á lækkun gjaldþols samkvæmt 2. mgr. má beita gegnsæisaðferð eins og félagið ætti þær eignir sem það á hlutdeild í í gegnum verðbréfasjóði, fjárfestingasjóði og fagfjárfestasjóði.

17. gr.

Gjaldþolskrafa vegna starfsemi í greinaflokkum líf- og heilsutrygginga.

Gjaldþolskrafa vátryggingafélags vegna starfsemi í greinaflokkum líf- og heilsutrygginga er ákvörðuð sem samtala lækkunar á gjaldþoli samkvæmt ákvæðum 2. mgr. að viðbættum 5 prósentum af fjárhæð vátryggingaskuldar miðað við eigin áhættu vátryggingafélags auk 0,3 prósent af samtölu vátryggingafjárhæða í eigin hlut.

Við ákvörðun gjaldþolskröfu vátryggingafélags skal reikna út lækkun gjaldþols miðað við að eftir­farandi atburðir ættu sér stað á sama tíma:

 1. Gangvirði eignarhluta vátryggingafélags í fasteignum, lóðum og byggingum og eignarhlutum í félögum, sem eiga slíkar eignir, lækkar um 20 prósent.
 2. Gangvirði eignarhluta vátryggingafélags í hlutabréfum, sem falla ekki undir 1. tölulið, lækkar um 40 prósent.
 3. Gangvirði eignarhluta vátryggingafélags í verðbréfasjóðum, fjárfestingasjóðum og fagfjárfestasjóðum lækkar um 40 prósent.
 4. Gangvirði eignarhluta vátryggingafélags í skuldabréfum og öðrum skuldaskjölum útgefnum af öðrum en aðildarríkjum, eins og þau eru skilgreind í lögum um vátryggingastarfsemi, lækkar um 20 prósent.

Við útreikning á lækkun gjaldþols samkvæmt 2. mgr. má beita gegnsæisaðferð eins og félagið ætti þær eignir sem það á hlutdeild í í gegnum verðbréfasjóði, fjárfestingasjóði og fagfjárfestasjóði.

18. gr.

Lágmarksgjaldþol.

Gjaldþol vátryggingafélags skal á hverjum tíma nema að lágmarki gjaldþolskröfu félagsins.

Þrátt fyrir ákvæði 1. mgr. skal gjaldþol vátryggingafélags með starfsemi í greinaflokkum skaða­trygginga aldrei nema lægri fjárhæð en 120 milljónum króna.

Þrátt fyrir ákvæði 1. mgr. skal gjaldþol vátryggingafélags með starfsemi í greinaflokkum líf- og heilsutrygginga aldrei nema lægri fjárhæð en 180 milljónum króna.

V. KAFLI

Sérstakar ráðstafanir.

19. gr.

Verklagsreglur vegna versnandi fjárhagsstöðu.

Vátryggingafélag skal hafa verklagsreglur sem gera því kleift að greina versnandi fjárhagsstöðu og skal það gera Fjármálaeftirlitinu viðvart án tafar ef hætta er talin á að gjaldþolskröfu eða kröfu um lágmarksgjaldþol verði ekki fullnægt.

20. gr.

Ráðstafanir vegna ófullnægjandi vátryggingaskuldar.

Telji Fjármálaeftirlitið mat vátryggingafélags á vátryggingaskuld ekki vera fullnægjandi til að mæta skuldbindingum vegna gerðra vátryggingasamninga getur Fjármálaeftirlitið krafist þess að það hækki vátryggingaskuldina.

Fjármálaeftirlitið getur takmarkað eða bannað ráðstöfun vátryggingafélags á fjármunum og eignum þess uppfylli það ekki skilyrði um mat á vátryggingaskuld.

21. gr.

Ráðstafanir ef vátryggingafélag fullnægir ekki gjaldþolskröfu.

Fullnægi vátryggingafélag ekki gjaldþolskröfu eða telji það hættu á að slíkt gerist innan þriggja mánaða skal það tilkynna Fjármálaeftirlitinu um stöðuna, án tafar.

Vátryggingafélagið skal, að kröfu Fjármálaeftirlitsins, gera áætlun um endurreisn fjárhags þar sem fram kemur hvenær og með hvaða hætti gjaldþolskröfunni verður fullnægt. Fjármálaeftirlitið leggur mat á hvort áætlunin teljist fullnægjandi.

Áætlun samkvæmt 2. mgr. skal miðast við að endurreisn fjárhags taki ekki lengri tíma en sex mánuði og skal tilgreina hvernig aukið er við viðurkennda gjaldþolsliði eða dregið úr áhættu þannig að gjaldþolskröfu verði fullnægt. Fjármálaeftirlitið getur framlengt frestinn um þrjá mánuði ef það telur þess þörf.

22. gr.

Ráðstafanir ef vátryggingafélag fullnægir ekki kröfu um lágmarksgjaldþol.

Fullnægi vátryggingafélag ekki kröfum um lágmarksgjaldþol eða telji það hættu á að slíkt gerist innan þriggja mánaða skal félagið án tafar tilkynna Fjármálaeftirlitinu um stöðuna.

Vátryggingafélagið skal, að kröfu Fjármálaeftirlitsins, gera áætlun um fjármögnun til skamms tíma um það hvenær og á hvaða hátt markinu verði náð. Fjármálaeftirlitið ákveður hvort þær ráðstafanir sem ráðast á í teljist fullnægjandi. Slík áætlun skal miðast við að endurfjármögnun taki ekki lengri tíma en þrjá mánuði og í henni skal gerð grein fyrir hvernig aukið er við viðurkennda gjaldþolsliði eða dregið úr áhættu félagsins þannig að kröfu um lágmarksgjaldþol verði fullnægt.

Fjármálaeftirlitið getur takmarkað eða bannað ráðstöfun vátryggingafélags á fjármunum sínum og eignum sé það liður í endurfjármögnun félagsins. Fjármálaeftirlitið skal þá tilgreina hvaða eignum vátryggingafélaginu er óheimilt að ráðstafa. Jafnframt getur Fjármálaeftirlitið takmarkað eða bannað útgáfu nýrra vátryggingaskírteina og gripið til annarra aðgerða sem það telur nauðsynlegar.

23. gr.

Heimildir Fjármálaeftirlitsins vegna versnandi fjárhagslegrar stöðu.

Þrátt fyrir ákvæði 21. og 22. gr. getur Fjármálaeftirlitið, þegar fyrirséð er að fjárhagsstaða vátrygg­inga­félags muni enn versna, gripið til frekari aðgerða sem það telur nauðsynlegar til að verja hagsmuni vátryggingartaka.

Aðgerðir Fjármálaeftirlitsins skulu endurspegla hversu alvarlegt ástandið er og hversu lengi það varir.

24. gr.

Áætlanir um endurreisn fjárhags og endurfjármögnun.

Áætlanir skv. 21. og 22. gr. skulu að lágmarki fela í sér:

 1. áætlaðan rekstrarkostnað, m.a. almennan kostnað vegna daglegs reksturs og umboðslauna,
 2. sundurliðaða áætlun um tekjur og gjöld í frumtryggingum og gjöld í endurtryggingum sem félagið kaupir,
 3. áætlaðan efnahagsreikning,
 4. greinargerð um fjármagn sem ætlað er að mæta vátryggingaskuld, gjaldþolskröfu og lág­marks­gjaldþoli,
 5. endurtryggingastefnu félagsins.

Á því tímabili sem áætlanir samkvæmt 21. og 22. gr. eru í gildi skal Fjármálaeftirlitið ekki heimila félaginu að taka við vátryggingastofni frá öðru félagi ef það telur hagsmunum vátryggingartaka ógnað.

25. gr.

Gildistaka.

Reglur þessar eru settar samkvæmt heimild í 5. mgr. 3. gr. laga nr. 100/2016 um vátrygg­inga­starfsemi og öðlast gildi þegar í stað.

Fjármálaeftirlitinu, 19. nóvember 2018.

Unnur Gunnarsdóttir.

Anna Mjöll Karlsdóttir.


B deild - Útgáfud.: 3. desember 2018