Velkomin á vef Stjórnartíðinda
Setja síðu í 1024px vídd Setja síðu í 1280px vídd Setja síðu í 1400px vídd Fyrir sjónskerta Venjulegt letur Stækka letur Stækka letur enn meira

Sé munur á uppsetningu texta hér að neðan og í PDF skjali gildir PDF skjalið.
 330/2020

Nr. 330/2020 25. mars 2020

REGLUGERÐ
um gerð strandsvæðisskipulags.

I. KAFLI

Almenn ákvæði.

1. gr.

Markmið og gildissvið.

Reglugerð þessi gildir um gerð strandssvæðisskipulags og starf svæðisráða. Við gerð strand­svæðis­skipulags skal unnið að þeim markmiðum sem fram koma í lögum nr. 88/2018 um skipulag haf- og strandsvæða.

 

II. KAFLI

Hlutverk svæðisráða og Skipulagsstofnunar.

2. gr.

Ábyrgð á gerð strandsvæðisskipulags.

Svæðisráð ber ábyrgð á gerð strandsvæðisskipulags á tilteknu strandsvæði eða endurskoðun þess. Svæðisráð vinnur tillögu að strandsvæðisskipulagi í samræmi við lög um skipulag haf- og strandsvæða, reglugerð þessa og skipunarbréf ráðherra.

Skipulagsstofnun er svæðisráðum til ráðgjafar og annast gerð strandsvæðisskipulags í þeirra umboði og þá málsmeðferð sem kveðið er á um í lögum um skipulag haf- og strandsvæða og reglugerð þessari.

 

3. gr.

Samráð við gerð strandsvæðisskipulags.

Svæðisráð skal tryggja virkt samráð við gerð strandsvæðisskipulags. Í því felst að leita eftir sjónarmiðum og tillögum stjórnvalda, almennings og annarra þeirra sem hagsmuna eiga að gæta um mörkun stefnu og tryggja að þessir aðilar eigi þess kost að fylgjast með gerð strand­svæðis­skipulags og hafi tækifæri til þess að koma á framfæri ábendingum og athugasemdum í skipulags­ferlinu. Sérstakt samráð skal haft við aðliggjandi sveitarfélög sem og hafnarstjórnir vegna hafnar­svæða.

 

4. gr.

Gagnaöflun og ráðgjöf.

Við gerð lýsingar og mótun tillögu að strandsvæðisskipulagi skal leita upplýsinga og ráðgjafar hjá ráðgefandi aðilum eins og þeir eru skilgreindir í lögum um skipulag haf- og strandsvæða. Einnig skal afla umsagna ráðgefandi aðila um tillögu að strandsvæðisskipulagi þegar hún er auglýst til kynningar. Umsagnarfrestur skal vera eigi skemmri en átta vikur frá birtingu auglýsingar.

 

5. gr.

Samráðshópur.

Samráðshópur sem skipaður er samkvæmt lögum um skipulag haf- og strandsvæða er hverju svæðisráði til ráðgjafar og samráðs við gerð strandsvæðisskipulags.

Við mótun strandsvæðisskipulags skal svæðisráð leggja fram hugmyndir sínar til kynningar og umræðu í samráðshópnum og leita eftir ábendingum og tillögum hópsins.

Við gerð lýsingar og mótun tillögu að strandsvæðisskipulagi skal svæðisráð hafa samráð við samráðs­hópinn á boðuðum fundi. Svæðisráð skal einnig leita eftir umsögnum frá fulltrúum samráðs­­hópsins um lýsingu skipulagsverkefnisins, vinnslutillögu og auglýsta tillögu að strand­svæðis­­skipulagi.

 

6. gr.

Vefsetur.

Skipulagsstofnun skal á hverjum tíma sjá til þess að nýjar og uppfærðar upplýsingar séu aðgengi­legar á vefsetri um strandsvæðisskipulag, svo sem um starfandi svæðisráð, samráðshópa, vinnu að gerð strandsvæðisskipulags og um gildandi strandsvæðisskipulag. Þar skulu jafnframt birtar fundargerðir svæðisráða.

Á vefsetri skal vera hægt að koma á framfæri ábendingum, athugasemdum og fyrirspurnum í tengsl­um við gerð strandsvæðisskipulags.

 

III. KAFLI

Starf svæðisráða.

7. gr.

Starfsreglur svæðisráðs.

Fulltrúar í svæðisráði starfa í umboði þeirra sem þá tilnefna og ber að upplýsa þá um vinnu svæðisráðsins og ákvarðanatöku. Formaður svæðisráðs er í forsvari fyrir ráðið.

Skipulagsstofnun annast umsýslu vegna starfsemi svæðisráðs í samvinnu við formann, svo sem ritun fundargerða og framfylgd á ákvörðunum svæðisráðs um gerð strandsvæðisskipulags, þ.m.t. gagna­öflun, tillögugerð, samráð, auglýsingar og kynningar. Skipulagsstofnun ber ábyrgð á fjár­málum við gerð strandsvæðisskipulags og kynnir svæðisráði reglulega stöðu fjármála vegna vinnu við gerð strandsvæðisskipulags sem og fjárhagsáætlun.

Formaður boðar til funda með rafrænu fundarboði eða öðrum sannanlegum hætti með viku fyrirvara og ákveður dagskrá í samráði við Skipulagsstofnun. Dagskrá fundar skal fylgja fundarboði og þau gögn sem eru nauðsynleg til að fulltrúar í svæðisráði geti tekið upplýsta afstöðu til mála sem þar eru tilgreind.

Fulltrúar í svæðisráði eiga rétt á að tekið verði á dagskrá fundar svæðisráðs hvert það málefni sem varðar gerð strandsvæðisskipulags.

Ávallt ef við verður komið skal gefa kost á fjarfundum þegar svæðisráð funda. Fundur er lögmætur ef formaður og fimm fulltrúar að auki eru viðstaddir. Formaður stýrir fundum samkvæmt dagskrá. Starfsmaður Skipulagsstofnunar, einn eða fleiri, situr fundi svæðisráðs. Fundargerðir skulu jafnan lagðar fram til samþykktar í lok fundar.

Fundi svæðisráðs skal halda ef einn eða fleiri nefndarmanna óska þess eða telji formaður þess þörf. Ef ósk berst frá nefndarmanni um fund skal boðað til hans svo fljótt sem verða má. Fundi í svæðisráði skal halda að jafnaði eigi sjaldnar en þrisvar á ári.

Leitast skal við að ná einróma samkomulagi um ákvarðanir og afgreiðslur svæðisráðs. Sam­þykki að lágmarki sex fulltrúa þarf til að mál sem eru til afgreiðslu í svæðisráði teljist samþykkt.

 

IV. KAFLI

Strandsvæðisskipulag.

8. gr.

Efni lýsingar.

Þegar vinna við gerð strandsvæðisskipulags hefst skal svæðisráð taka saman lýsingu á skipu­lagsverkefninu þar sem fram kemur hvaða áherslur svæðisráð hafi við gerð skipulagsins, upp­lýsingar um forsendur og fyrirliggjandi stefnu og fyrirhugað skipulagsferli, svo sem um kynningu og sam­ráð við skipulagsgerðina gagnvart stjórnvöldum, almenningi og öðrum hagsmunaaðilum og hvernig staðið verður að umhverfismati við gerð strandsvæðisskipulagsins.

 

9. gr.

Kynning lýsingar.

Þegar svæðisráð vinnur að gerð lýsingar skal það hafa samráð við fagstofnanir og viðkomandi vatnasvæðisnefndir, sbr. 6. gr. laga um skipulag haf- og strandsvæða.

Að loknu samráði við fagstofnanir og vatnasvæðisnefndir og eftir atvikum að fengnum umsögnum þeirra og umfjöllun svæðisráðs um þær, samþykkir svæðisráð lýsingu til kynningar opinberlega.

Opinber kynning á lýsingu skal vera með áberandi hætti, svo sem með birtingu auglýsingar í víðlesnum fjölmiðli á landsvísu, svæðisbundnum fjölmiðli, með dreifibréfi og á opnum fundi. Lýsing skal vera aðgengileg á vefsetri um strandsvæðisskipulag. Jafnframt skal leita umsagnar aðliggj­andi sveitarfélaga um lýsinguna.

Í kynningu á lýsingu skal upplýst hvert skila megi ábendingum við efni hennar og innan hvaða tímafrests.

Að kynningartíma liðnum skal birta yfirlit yfir framkomnar ábendingar á vefsetri um strand­svæðis­skipulagið og jafnframt gera grein fyrir hvernig fyrirhugað er að vinna úr þeim við mótun strand­svæðisskipulagsins.

 

10. gr.

Viðfangsefni og efnistök strandsvæðisskipulags.

Í strandsvæðisskipulagi skal setja fram rökstudda stefnu og ákvæði varðandi orkuvinnslu á hafi, mannvirkjagerð, eldi eða ræktun nytjastofna, efnistöku, haugsetningu, verndarsvæði, vatnsvernd, umferð og samgöngur, náttúruvá, útivist, ferðaþjónustu o.fl., í samræmi við markmið laga um skipulag haf- og strandsvæða, þar á meðal með tilliti til sjálfbærrar þróunar, áhrifa á umhverfið og ásýnd þess, öryggissjónarmiða sem og annarra skipulagsforsendna sem þurfa að liggja fyrir vegna starfsemi eða framkvæmda á svæðinu. Þá skal byggt á stefnu um skipulag haf- og strandsvæða og gætt samræmis við skipulagsáætlanir aðliggjandi svæða og eftir því sem við á tenginga við aðrar áætlanir. Einnig ber að taka mið af stjórnvaldsfyrirmælum, öðrum lögum og lögbundnum ákvörð­unum um nýtingu og vernd haf- og strandsvæða þar sem tiltekin starfsemi er t.d. takmörkuð eða bönnuð.

Í strandsvæðisskipulagi skal m.a. lýsa umhverfi og aðstæðum á skipulagssvæðinu og forsendum þeirrar stefnu sem það felur í sér og gera grein fyrir áhrifum þess og einstakra stefnumiða á umhverfið með umhverfismati, sbr. 12. gr. Við gerð strandsvæðisskipulags skal þess gætt að hliðsjón sé höfð af umhverfismati og að það sé nýtt til að draga eins og kostur er úr neikvæðum áhrifum strandsvæðisskipulagsins á umhverfið, sbr. markmið laga um skipulag haf- og strand­svæða, og skal þar sérstaklega fjalla um mótvægisaðgerðir og aðlögun með tilliti til lofts­lags­breytinga.

 

11. gr.

Framsetning strandsvæðisskipulags.

Strandsvæðisskipulag skal setja fram í skipulagsgreinargerð og á skipulagsuppdrætti og eftir atvikum á þemauppdráttum. Í skipulagsgreinargerð strandsvæðisskipulags skal forsendum þess lýst og sett fram stefna og ákvæði skipulagsins og umhverfismat þess. Í skipulagsgreinargerð skal jafn­framt birt samantekt um efni strandsvæðisskipulagsins og niðurstöður umhverfismats. Á skipulags­uppdrætti strandsvæðisskipulags skal setja fram þá stefnu og ákvæði sem sett eru fram í skipulags­greinargerð fyrir skipulagssvæðið að svo miklu leyti sem það getur átt við. Í titli skipulagsáætlunar skal koma fram að um strandsvæðisskipulag sé að ræða og skal titillinn vera lýsandi fyrir skipulags­svæði og skipulagstímabil.

Þar til strandsvæðisskipulag hefur verið endanlega samþykkt skulu skipulagsgögn merkt sem til­laga.

Nákvæmni skipulagsuppdráttar skal að jafnaði miða við mælikvarða 1:50.000. Á uppdráttum skal samhengi við næsta nágrenni koma skýrt fram.

Strandsvæðisskipulag skal unnið á samræmdu stafrænu formi og skal Skipulagsstofnun gera það aðgengilegt með stafrænum hætti.

 

12. gr.

Umhverfismat strandsvæðisskipulags.

Um umhverfismat strandsvæðisskipulags fer samkvæmt lögum nr. 105/2006 um umhverfismat áætlana. Við umhverfismatið skal lögð áhersla á að bera saman þá kosti sem til greina koma um nýtingu á skipulagssvæðinu með tilliti til umhverfisáhrifa, sbr. markmið laga um skipulag haf- og strandsvæða. Tilgreina skal í umhverfisskýrslu hvort gerðar eru tillögur um skilyrði fyrir fram­kvæmdum í strandsvæðisskipulagi til að koma í veg fyrir neikvæð áhrif á umhverfið.

 

13. gr.

Kynning og afgreiðsla tillögu og breytingar á strandsvæðisskipulagi.

Um málsmeðferð vegna endanlegrar tillögu að strandsvæðisskipulagi fer samkvæmt 12. og 13. gr. laga um skipulag haf- og strandsvæða. Á það við um kynningu og auglýsingu tillögunnar og endan­lega afgreiðslu, þ.m.t. heimild til frestunar. Ákvarðanir svæðisráðs um að fresta gerð strand­svæðis­skipulags eru háðar samþykki ráðherra.

Strandsvæðisskipulag er háð staðfestingu ráðherra. Um gildistöku strandsvæðisskipulags er nánar fjallað í 13. gr. laga um skipulag haf- og strandsvæða.

Um samráð við gerð strandsvæðisskipulags fer að öðru leyti skv. 3. til 5. gr. reglugerðar þessarar.

Um breytingar á strandsvæðisskipulagi fer skv. 14. gr. laga um skipulag haf- og strandsvæða.

 

V. KAFLI

Gildistaka.

14. gr.

Gildistaka.

Reglugerð þessi er sett samkvæmt heimild í 1. og 2. mgr. 15. gr. laga nr. 88/2018 um skipulag haf- og strandsvæða og öðlast þegar gildi.

 

Umhverfis- og auðlindaráðuneytinu, 25. mars 2020.

 

Guðmundur Ingi Guðbrandsson.

Sigríður Auður Arnardóttir.


B deild - Útgáfud.: 8. apríl 2020