Velkomin á vef Stjórnartíðinda
Setja síðu í 1024px vídd Setja síðu í 1280px vídd Setja síðu í 1400px vídd Fyrir sjónskerta Venjulegt letur Stækka letur Stækka letur enn meira

Sé munur á uppsetningu texta hér að neðan og í PDF skjali gildir PDF skjalið.
 661/2016

Nr. 661/2016 5. júlí 2016

SAMÞYKKT
um meðhöndlun úrgangs í Seyðisfjarðarkaupstað.

1. gr.

Samþykkt þessi gildir fyrir meðhöndlun úrgangs, þ.m.t. hirðu, söfnun og förgun úrgangs, í Seyðisfjarðarkaupstað.

2. gr.

Seyðisfjarðarkaupstaður annast meðhöndlun úrgangs á Seyðisfirði. Undir þetta ákvæði fellur m.a. ábyrgð á móttöku spilliefna og meðferð úrgangs til vinnslu t.d. lífræns úrgangs, landbúnaðarplasts, brotamálma og annars flokkaðs úrgangs í samráði við og undir eftirliti heilbrigðisnefndar Austurlands.

Bæjarstjórn sér til þess í samráði við heilbrigðisnefnd og framkvæmdaraðila sorphirðu, að íbúar fái fræðslu um flokkun og aðra meðferð úrgangs, móttöku hans og förgun, t.d. með útgáfu leiðbeininga.

3. gr.

Markmið samþykktarinnar er:

a. að lágmarka það úrgangsmagn sem fer til förgunar með því að auka endurvinnslu og endurnýtingu úrgangs,
b. að lágmarka kostnað samfélagsins við meðhöndlun úrgangs og
c. að kostnaður vegna úrgangs greiðist af þeim sem úrganginum veldur.

Landsáætlun um meðhöndlun úrgangs er lögð til grundvallar samþykkt þessari.

4. gr.

Í samþykkt þessari er merking eftirfarandi orða og orðasambanda sem hér segir:

Böggun: þjöppun úrgangs í bagga til að minnka rúmmál hans.
Endurnotkun: hvers kyns aðgerð þar sem vörur eða íhlutir, sem ekki eru úrgangur, eru notuð í sama tilgangi og þau voru ætluð til í upphafi.
Endurnýting: aðgerð þar sem aðalútkoman er sú að úrgangur verður til gagns þar eð hann kemur í stað annars efniviðar sem hefði annars verið notaður í tilteknum tilgangi, eða hann er útbúinn til þeirrar notkunar, í stöðinni eða úti í hagkerfinu.
Endurvinnsla: hvers kyns endurnýtingaraðgerð sem felst í því að endurvinna úrgangsefni í vörur, efnivið eða efni, hvort sem er til notkunar í upphaflegum tilgangi eða í öðrum tilgangi. Undir þetta fellur uppvinnsla á lífrænum efniviði, en ekki orkuvinnsla og uppvinnsla sem skilar efni sem á að nota sem eldsneyti eða til fyllingar.
Flokkun: aðgreining úrgangstegunda til þess að hægt sé að endurnýta úrgangsefni og koma þeim úrgangi sem ekki nýtist til viðeigandi förgunar.
Flutningur: ferli þegar úrgangur er fluttur í atvinnuskyni til endurnýtingar eða förgunar.
Förgun: hvers kyns aðgerð sem er ekki endurnýting, jafnvel þótt aðgerðin hafi að auki í för með sér endurheimt efna eða orku.
Heimilisúrgangur (sorp): úrgangur frá heimilum, t.d. matarleifar, pappír, plast, garðaúrgangur, gler, timbur, málmar og sams konar leifar frá rekstraraðilum o.þ.h.
Meðferð úrgangs: meðhöndlun úrgangs önnur en endanleg förgun.
Meðhöndlun úrgangs (sorphirða):
söfnun, geymsla, böggun, flokkun, flutningur, endurnotkun, endurnýting, pökkun og förgun úrgangs, þ.m.t. eftirlit með slíkri starfsemi og umsjón með förgunarstöðvum eftir að þeim hefur verið lokað.
Pökkun: þegar úrgangur er settur í umbúðir til að gera hann flutningshæfan og/eða til að geyma í lengri eða skemmri tíma.
Rekstrarúrgangur: úrgangur frá framleiðslu, þjónustu og verslun, t.d. matarleifar, pappír, pappi, plast, gler, timbur, málmar, leifar frá framleiðslu o.þ.h. Nr. 661 5. júlí 2016

5. gr.

Seyðisfjarðarkaupstaður annast hirðu úrgangs frá öllu íbúðarhúsnæði í sveitarfélaginu.

Bæjarstjórn er heimilt að fela öðrum framkvæmd sorphreinsunar og móttöku annars úrgangs, þ.m.t. móttöku spilliefna, brotajárns og landbúnaðarplasts. Þeir aðilar sem þetta annast skulu hafa til þess tilskilin starfsleyfi í samræmi við lög nr. 55/2003, um meðhöndlun úrgangs, og reglugerð nr. 785/1999, um starfsleyfi fyrir atvinnurekstur sem getur haft í för með sér mengun.

Förgun úrgangs skal framkvæmd undir yfirstjórn og á ábyrgð bæjarstjórnar. Bæjarstjórn er heimilt að fela öðrum að sjá um alla meðhöndlun úrgangs og samskipti við þá aðila sem við á. Um meðhöndlun úrgangs fer í samræmi við reglugerð nr. 737/2003 um meðhöndlun úrgangs.

6. gr.

Seyðisfjarðarkaupstaður leggur íbúum til sorpílát undir venjulegan heimilisúrgang. Fyrir viðbótarílát greiðist gjald samkvæmt gjaldskrá. Þar sem stærri ílát henta betur svo sem við fjölbýlishús, getur bæjarstjórn ákveðið notkun þeirra. Íbúum er skylt að nota þær aðferðir og þau ílát við geymslu og hreinsun úrgangs sem bæjarstjórn ákveður. Sorpgeymslur skulu uppfylla ákvæði byggingarreglugerðar. Sorpgeymslur skulu vera aðgengilegar fyrir sorphirðumenn. Þær skulu staðsettar saman ef um fjölbýlishús er að ræða. Í deiliskipulagi nýrra hverfa skal tekið tillit til sorpgeymslna við skipulagningu. Húsráðendur skulu halda ílátum hreinum og í góðu ástandi. Húsráðendur skulu hreinsa snjó frá sorpgeymslum á vetrum og halda greiðfærri leið að þeim svo auðvelt sé að framkvæma hreinsun.

7. gr.

Í sorpílát fyrir heimilisúrgang má aðeins setja matarúrgang og annað sem ekki fer í endurnotkun eða endurnýtingu og fellur daglega til við venjulegt heimilishald. Í sorpílát fyrir endurvinnsluefni skal setja pappír, glerkrukkur, dósir og annan endurvinnanlegan úrgang í samræmi við nánari fyrirmæli sem kunna að verða sett um flokkun úrgangs. Annan úrgang er óheimilt að setja í sorptunnur. Sorphirðumönnum ber aðeins skylda til að losa viðurkennd sorpílát. Óheimilt er að láta garðaúrgang, jarðvegsefni, byggingaúrgang, brotajárn og annan grófan úrgang í sorpílát og gáma. Jarðvegsefni, þ.m.t. grjót, múrbrot o.þ.h. skal setja á viðurkennda losunarstaði samkvæmt leiðbeiningum frá yfirmanni áhaldahúss eða skipulags- og byggingarfulltrúa. Spilliefnum, lyfjum og öðrum hættulegum úrgangi skal skilað á viðurkennda móttökustaði. Glerbrotum og öðrum oddhvössum hlutum, sem hætta er á að skaði þá sem meðhöndla úrgang eða sorpílát, skal pakkað inn eða gengið frá þeim á annan tryggilegan hátt. Sorpílát skulu ekki fyllt meira en svo að auðveldlega megi loka þeim. Húsráðendum er heimilt að skila umframsorpi á viðurkennda móttökustaði á vegum sveitarfélagsins.

8. gr.

Hirða heimilisúrgangs skal fara fram eftir fyrirfram gerðri áætlun, staðfestri af bæjarstjórn og eigi sjaldnar en á 14 daga fresti. Allan úrgang sem að mati húsráðenda þarf að losa örar en gert er ráð fyrir samkvæmt áætlun þar um, skal húsráðandi sjálfur og á eigin kostnað losa flokkaðan á móttökustöð.

9. gr.

Rekstraraðilar bera ábyrgð á hirðu og förgun rekstrarúrgangs sem til fellur í starfsemi þeirra og bera af honum allan kostnað. Flokkun rekstarúrgangs skal vera í samræmi við leiðbeiningar sveitarfélagsins um leiðir til endurvinnslu og endurnýtingar. Ekki er heimilt að blanda saman spilliefnum, endurvinnanlegu efni og úrgangi sem fer til urðunar. Söfnun, frágangur og umgengni um sorpílát, svo og flutningur á úrgangi á vegum rekstraraðila skal vera í samræmi við fyrirmæli heilbrigðisnefndar og fulls þrifnaðar skal gætt. Staðsetning sorpgáma vegna úrgangs frá starfsemi fyrirtækja og stofnana skal vera í samræmi við ákvarðanir bæjarstjórnar þar um eða ákvæði deiliskipulags. Seyðisfjarðarkaupstaður tekur á móti og sér um förgun á rekstrarúrgangi frá þeim rekstraraðilum á Seyðisfirði sem þess óska samkvæmt gjaldskrá sem bæjarstjórn setur og auglýsir. Nr. 661 5. júlí 2016

10. gr.

Seyðisfjarðarkaupstaður tekur við öllum úrgangi sem til fellur á Seyðisfirði í móttökustöð að Fjarðargötu 8 eða á öðrum tilgreindum svæðum samkvæmt nánari ákvörðun bæjarstjórnar. Opnunartími móttökustöðvar skal auglýstur opinberlega. Úrgangur skal flokkaður við móttöku samkvæmt gildandi flokkunarkerfi. Spilliefni skulu aðskilin frá öðrum úrgangi og uppfylla skilyrði reglugerðar nr. 806/1999, um spilliefni. Heimilt er að undanþiggja gjaldskyldu minni háttar magn, sem komið er með til móttökustöðvar. Ávallt skal leggja gjald á allan rekstrarúrgang.

11. gr.

Óheimilt er að skilja eftir eða geyma rusl, garðaúrgang og annan úrgang á víðavangi, á götum, gangstígum eða opnum svæðum í sveitarfélaginu. Tæki og hluti sem ekki eru í stöðugri notkun skal geyma þannig að ekki sé íbúum og vegfarendum til ama. Bifreiðar og önnur skráningarskyld ökutæki skulu geymd á þar til gerðum stæðum. Óheimilt er að geyma skráningarskyld ökutæki án skráningarmerkja, kerrur, tæki, vinnuvélar, báta eða aðra hluti á almennum bifreiðastæðum, á götum eða á almannafæri.

12. gr.

Seyðisfjarðarkaupstaður innheimtir gjald fyrir förgun úrgangs í samræmi við ákvæði 1. mgr. 23. gr. laga nr. 55/2003, um meðhöndlun úrgangs.

Seyðisfjarðarkaupstaður innheimtir sorphirðugjald fyrir alla aðra meðhöndlun úrgangs og tengda starfsemi í samræmi við 2. mgr. 23. gr. laganna. Gjaldið skal ákveðið og innheimt samkvæmt gjaldskrá sem sett er samkvæmt ákvæðum 23. gr. laga nr. 55/2003 um meðhöndlun úrgangs og að fenginni umsögn heilbrigðisnefndar.

Heimilt er að leggja gjöld þessi á hverja fasteign, stofnun eða fyrirtæki sem nýtur þjónustunnar. Gjöld skal miða við fjölda sorphirðuíláta, hvort sem um er að ræða flokkaðan eða óflokkaðan úrgang og tíðni söfnunar. Heimilt er að innheimta sorphirðugjöld af fyrirtækjum og stofnunum samkvæmt magni úrgangs. Ávallt skal taka tillit til flokkunar- og minnkunarþátta, sem af flokkun leiðir. Gjöld mega aldrei vera hærri en nemur þeim kostnaði sem fellur til í sveitarfélaginu við meðhöndlun úrgangs og tengda starfsemi, svo og við veitta þjónustu og framkvæmd eftirlits með einstökum þáttum. Sveitarfélagið skal láta birta gjaldskrána í B-deild Stjórnartíðinda. Í gjaldskránni skal vísa til þessarar samþykktar. Bæjarstjórn er heimilt að haga gjaldskrá fyrir sorpgjöld með þeim hætti að það hvetji til að draga úr sorpmagni sem fer til urðunar.

13. gr.

Hafi húsráðandi fram að færa kvörtun vegna sorphirðunnar skal hann koma slíkri kvörtun skriflega til bæjarstjórans á Seyðisfirði eða heilbrigðisnefndar.

14. gr.

Brjóti húsráðandi ákvæði samþykktar þessarar um meðferð og geymslu úrgangs skulu sorphirðumenn tilkynna það bæjarstjórn eða heilbrigðisfulltrúa, sem hlutast þá til um að úr verði bætt með skriflegri aðvörun með ósk um úrbætur. Sorphirðumönnum er óheimilt að hnýsast í sorpílát eða hirða úr þeim.

15. gr.

Með brot á samþykkt þessari skal farið samkvæmt ákvæðum VIII. kafla laga nr. 7/1998, um hollustuhætti og mengunarvarnir og 68. gr. laga nr. 55/2003, um meðhöndlun úrgangs.

16. gr.

Samþykkt þessi staðfestist hér með samkvæmt 2. mgr. 8. gr. laga nr. 55/2003, um meðhöndlun úrgangs, sbr. 25. gr. laga nr. 7/1998, um hollustuhætti og mengunarvarnir, og öðlast þegar gildi. Nr. 661 5. júlí 2016

Umhverfis- og auðlindaráðuneytinu, 5. júlí 2016.

F. h. r.
Sigurbjörg Sæmundsdóttir.

Laufey Helga Guðmundsdóttir.


B deild - Útgáfud.: 19. júlí 2016