Velkomin á vef Stjórnartíðinda
Setja síðu í 1024px vídd Setja síðu í 1280px vídd Setja síðu í 1400px vídd Fyrir sjónskerta Venjulegt letur Stækka letur Stækka letur enn meira

Sé munur á uppsetningu texta hér að neðan og í PDF skjali gildir PDF skjalið.
 969/2010

Nr. 969/2010 29. nóvember 2010
SAMÞYKKT
um kattahald í Kópavogi.

1. gr.

Almenn ákvæði.

Kattahald í Kópavogsbæ sætir þeim takmörkunum sem fram koma í samþykkt þessari.

Umhverfisstofnun fer með mál er varða dýravernd samkvæmt lögum nr. 15/1994 um dýra­vernd.

2. gr.

Tilgangur.

Markmið samþykktar þessarar er að stuðla að því að eigendur og umráðamenn katta fari vel með þá, tryggi þeim góða vist, sjái til þess að þeir séu ekki á flækingi og að af þeim stafi hvorki ónæði né tjón. Markmið hennar er einnig að stuðla að verndun á viðkvæmu fuglalífi Kópavogsbæjar.

3. gr.

Stjórnsýsla.

Heilbrigðisnefnd Hafnarfjarðar- og Kópavogssvæðis fer með eftirlit með framkvæmd sam­þykktar samkvæmt ákvæðum laga nr. 7/1998 um hollustuhætti og mengunarvarnir.

4. gr.

Kattahald í fjöleignarhúsum.

Um kattahald í fjöleignarhúsum gilda ákvæði laga nr. 26/1994 um fjöleignarhús.

5. gr.

Meðferð katta.

Eiganda og umráðamanni er skylt að sjá til þess að farið sé vel með ketti þeirra samkvæmt lögum nr. 15/1994 um dýravernd.

6. gr.

Merking katta.

Allir kettir sem eru eldri en fjögurra mánaða skulu örmerktir af dýralækni skv. stöðlum Alþjóða staðlaráðsins (ISO 11784 eða 11785). Kettir skulu bera hálsól með upplýsingum um heimilisfang og símanúmer eiganda.

7. gr.

Gelding fresskatta.

Gelda skal alla fressketti sex mánaða og eldri sem ganga lausir utandyra.

8. gr.

Tillit til fuglalífs á varptíma.

Eigendum og umráðamönnum katta ber að taka tillit til fuglalífs á varptíma, t.d. með því að hengja bjöllu á kettina og eftir atvikum takmarka útiveru þeirra.

9. gr.

Ormahreinsun.

Í þeim tilgangi að fyrirbyggja sýkingar hjá mönnum af völdum spóluorma í köttum er eig­anda eða umráðamanni kattar skylt, sbr. 58. gr. reglugerðar nr. 941/2002 um hollustu­hætti, að láta ormahreinsa kött sinn árlega frá fjögurra mánaða aldri. Ber viðkomandi eigandi eða umráðamaður allan kostnað af hreinsun kattarins. Til ormahreinsunar katta gegn spólu­ormum skal nota ormalyf sem Lyfjastofnun hefur viðurkennt til þeirra nota. Viðkomandi skal geyma hreinsunarvottorð í þrjú ár og framvísa því til eftirlitsaðila ef óskað er. Heilbrigðis­nefnd getur, í samráði við Matvælastofnun, heimilað að vottorð frá öðrum en dýra­lækni verði viðurkennd, ef sérstakar aðstæður krefjast þess.

10. gr.

Ónæði og óþrif af völdum katta.

Ketti skal halda þannig að ekki valdi hávaða, ónæði, óhollustu eða óþrifnaði.

Ef köttur veldur nágrönnum eða öðrum ítrekuðu ónæði, óþrifum eða tjóni, þá ber eiganda eða umráðamanni að leita leiða til að koma í veg fyrir slíkt. Foreldrar eru ábyrgir fyrir köttum ólögráða barna sinna.

11. gr.

Óheimilir staðir.

Köttum má hvorki hleypa inn í húsrými né inn á lóðir sem fjallað er um í fylgiskjali nr. 3 með reglugerð nr. 941/2002 um hollustuhætti. Heilbrigðisnefnd er þó heimilt að fenginni beiðni hlutaðeigandi stofnunar að veita undanþágu til að halda ketti sem gæludýr á heilbrigðis- og meðferðarstofnunum.

12. gr.

Handsömun katta.

Heilbrigðisnefnd gerir ráðstafanir til að fækka flækingsköttum og er heimilt að fanga ketti í búr og færa í sérstaka kattageymslu í eftirfarandi tilfellum:

  1. Sé köttur ómerktur.
  2. Sé ítrekað kvartað undan ágangi katta á tilteknu svæði.
  3. Sé köttur innandyra hjá nágranna í leyfisleysi, á óheimilum stað sbr. 11. gr. eða án samþykkis í fjöleignarhúsi, sbr. 4. gr.

Eigandi kattar sem fluttur eru í kattageymslu skal vitja hans innan 7 daga og greiða áfallinn kostnað vegna handsömunar, fóðurs og vistunar. Ef kattar er ekki vitjað innan einnar viku frá handsömun, er heimilt að ráðstafa honum til nýs eiganda með áföllnum kostnaði. Að öðrum kosti skal hann aflífaður.

Handsömunar- og vistunargjöld skal greiða samkvæmt gjaldskrá sem Kópavogsbær setur að fenginni umsögn heilbrigðiseftirlits.

Heilbrigðiseftirlit Hafnarfjarðar- og Kópavogssvæðis hefur heimild til að banna eiganda eða umráðamanni að halda kött í lögsagnarumdæmi Kópavogs ef fyrir liggja skriflegar kvartanir um ónæði eða hættu, sem köttur er sannanlega valdur að og eiganda eða umráðamanni tekst ekki að komast fyrir.

13. gr.

Gjaldtaka.

Heimilt er að innheimta handsömunar- og vistunargjöld í samræmi við gjaldskrá sem Kópavogsbær setur að fenginni umsögn heilbrigðisnefndar og í samræmi við ákvæði 25. gr. laga nr. 7/1998 um hollustuhætti og mengunarvarnir. Sveitarfélagið skal láta birta gjald­skrána í B-deild Stjórnartíðinda. Gjöld mega aldrei vera hærri en sem nemur rökstudd­um kostnaði við veitta þjónustu eða framkvæmd eftirlits með einstökum þáttum.

14. gr.

Viðurlög.

Um valdsvið og þvingunarúrræði vísast til VI. kafla laga nr. 7/1998 um hollustuhætti og mengunarvarnir.

Brot gegn samþykkt þessari varða sektum rúmist þau jafnframt innan refsiákvæða hlutaðeigandi laga, nema þyngri refsing liggi við samkvæmt öðrum lögum. Skulu þau brot sæta þeirri málsmeðferð sem boðin er í lögum nr. 88/2008 um meðferð sakamála.

15. gr.

Lagastoð og gildistaka.

Samþykkt þessi staðfestist hér með samkvæmt ákvæðum 25. gr. laga nr. 7/1998 um hollustuhætti og mengunarvarnir, með síðari breytingum og öðlast gildi 1. janúar 2011.

Umhverfisráðuneytinu, 29. nóvember 2010.

F. h. r.

Steinunn Fjóla Sigurðardóttir.

Sigurbjörg Sæmundsdóttir.

B deild - Útgáfud.: 13. desember 2010