Velkomin á vef Stjórnartíðinda
Setja síðu í 1024px vídd Setja síðu í 1280px vídd Setja síðu í 1400px vídd Fyrir sjónskerta Venjulegt letur Stækka letur Stækka letur enn meira

Sé munur á uppsetningu texta hér að neðan og í PDF skjali gildir PDF skjalið.
 124/2023

Nr. 124/2023 25. janúar 2023

REGLUR
um breytingu á reglum nr. 155/2011 um val nemenda í tannlæknisfræði og tannsmíði við tannlæknadeild Háskóla Íslands.

1. gr.

2. mgr. 1. gr. reglnanna orðast svo:

Ef fjöldatakmörkun er ákveðin fer val stúdenta til náms fram í samræmi við ákvæði reglna þessara. Í tannlæknisfræði fer val nemenda fram í tveimur skrefum: inntökupróf er haldið í júní ár hvert í samráði við læknadeild þar sem tiltekinn fjöldi, ákveðinn skv. 1. mgr., öðlast rétt til náms í tannlæknisfræði á næsta haustmisseri. Samkeppnispróf fer svo fram við lok haustmisseris í desember þar sem tiltekinn fjöldi, ákveðinn skv. 1. mgr., öðlast rétt til náms í tannlæknisfræði á komandi vor­misseri. Í tannsmíði fer fram samkeppnispróf í desember þar sem tiltekinn fjöldi, ákveðinn skv. 1. mgr., öðlast rétt til náms í tannsmíði á komandi vormisseri.

 

2. gr.

Á eftir 1. gr. reglnanna bætast við fjórar nýjar greinar, svohljóðandi:

 

2. gr.

Inntökupróf í tannlæknisfræði.

Inntökupróf í tannlæknisfræði er haldið í júní ár hvert, samkvæmt nánari ákvörðun læknadeildar og tannlæknadeildar að höfðu samráði við sviðsstjóra kennslusviðs Háskóla Íslands. Prófið er haldið á vegum Háskóla Íslands og í húsnæði á hans vegum.

Tannlæknadeild auglýsir inntökuprófið í tannlæknisfræði og er framkvæmd þess lýst á heimasíðu deildarinnar.

Nemendur skulu vera skráðir sérstaklega til inntökuprófsins, hjá nemendaskrá Háskóla Íslands, áður en þeir ganga til prófsins. Tiltekinn fjöldi, ákveðinn skv. 1. gr., þeirra nemenda sem bestum árangri ná í prófinu, fær rétt til náms í tannlæknadeild Háskóla Íslands á næsta haustmisseri eftir prófið, sbr. 4. gr. Nemandi sem öðlast rétt til náms í tannlæknadeild, að loknu inntökuprófi, skal hefja námið á næsta haustmisseri eftir prófið. Að öðrum kosti hefur hann fyrirgert rétti sínum til náms í tannlækna­deild á grundvelli þessa inntökuprófs, en þann rétt öðlast þá sá nemandi sem næstur var því að öðlast rétt til náms á grundvelli sama inntökuprófs. Ef tveir eða fleiri nemendur eru jafnir með lægstu einkunn sem hefði dugað einum nemanda með þá einkunn til að öðlast rétt til námsins, öðlast báðir eða allir rétt til náms á næsta haustmisseri þótt nýnemar verði þar af leiðandi fleiri en ákveðið var skv. 1. gr. Hafi hópurinn sem á rétt á inngöngu stækkað á grundvelli 5. málsliðar þessarar málsgreinar og ákveði síðan nemandi að nýta sér ekki rétt sinn, verður ekki bætt við nem­anda í hans stað.

 

3. gr.

Skráning til inntökuprófs.

Skráningu til inntökuprófsins skal lokið fyrir 20. maí. Skráning getur farið fram, enda þótt nemandi hafi þá ekki lokið stúdentsprófi, en þegar inntökuprófið er þreytt skal nemandinn hafa lokið stúdentsprófi eða öðru sambærilegu prófi.

Heimilt er, á grundvelli 2. mgr. 24. gr. laga nr. 85/2008 um opinbera háskóla, að inn-heimta próftökugjald til að kosta gerð, fyrirlögn og yfirferð inntökuprófa. Ef próftökugjald er innheimt, fer um fjárhæð þess og innheimtu eftir sameiginlegum reglum fyrir Háskóla Íslands. Ef próftökugjald er innheimt, skal koma fram á heimasíðu tannlæknadeildar hvenær greiðslu þess skuli lokið. Hafi greiðsla próftökugjalds ekki borist fyrir þann tíma, fellur réttur til að þreyta inntökuprófið niður.

 

4. gr.

Skrásetning til náms í Háskóla Íslands.

Skrásetningu þeirra, sem þreyta inntökupróf skv. þessum reglum og öðlast rétt til náms á næsta haustmisseri í tannlæknadeild, skal lokið fyrir 20. júlí. Þeir, sem ekki öðlast rétt til náms í tannlækna­deild, eiga þess kost að skrásetja sig, innan sömu tímamarka, í aðrar deildir gegn greiðslu skrásetn­ingar­gjalds skv. reglum Háskóla Íslands.

 

5. gr.

Framkvæmd og inntak inntökuprófs.

Undirbúningur prófsins fer fram af hálfu læknadeildar í samráði við tannlæknadeild með sérstakri ráðgjöf, m.a. frá kennurum framhaldsskóla. Inntökuprófið tekur tvo daga, og samanstendur af sex tveggja tíma próflotum.

Prófið er að hluta til mat á almennri þekkingu, ytri rökfærslu, upplýsingalæsi og lesskilningi, nálgun og úrlausn vandamála, auk spurninga um siðfræðileg álitaefni. Gildi þessara prófhluta er 30% af heild. Þessir prófhlutar verða á formi krossaprófs, en stuttar ritgerðir geta einnig verið í spurn­ingum um siðfræðileg álitamál. Þessir prófhlutar byggja ekki á ákveðnu námsefni. Nemandi skal ná lágmarks­­einkunn 5,0 að meðaltali í spurningum um siðfræðileg álitaefni.

Í hinum prófhlutunum, sem gilda 70% af heildinni, verða lagðar fyrir krossaspurningar. Þessi hluti miðast við framhaldsskólanám, svo sem lýst er hér á eftir.

Við gerð inntökuprófsins er aðalnámskrá framhaldsskóla frá 2011 höfð til hliðsjónar.

Tannlæknadeild mælir með að nemendur búi yfir þekkingu, leikni og hæfni sem einkennir hæfni­þrep 2–3 fyrir eftirfarandi námsgreinar:

  • íslensku
  • ensku
  • stærðfræði
  • líffræði
  • efnafræði

auk þekkingar, leikni og hæfni sem einkennir hæfniþrep 1–2 í eftirfarandi námsgreinum:

  • eðlisfræði
  • náttúruvísindi
  • félagsfræði
  • saga
  • sálfræði

Læknadeild og tannlæknadeild tilnefna umsjónarmenn með samningu prófsins og til að fara yfir prófúrlausnir. Forseti heilbrigðisvísindasviðs skipar, að fengnum tillögum deildanna, prófdómara, einn eða fleiri eftir atvikum.

Í þeim hluta þar sem ekki er um að ræða krossapróf dæma umsjónarmenn annars vegar og próf­dómari hins vegar úrlausnir og gefa sjálfstætt einkunn fyrir úrlausnir. Endanleg niðurstaða er meðal­tal þeirra einkunna.

Einkunnir verða reiknaðar með tveimur aukastöfum.

Á heimasíðu tannlæknadeildar skal birta sýnishorn af prófspurningum úr hverjum prófhluta fyrir sig til glöggvunar fyrir þá sem hyggjast þreyta prófið.

 

3. gr.

Á eftir núverandi 5. gr. reglnanna (sem verður 9. gr.) bætist svohljóðandi ákvæði til skýringar:

Ákvæði til skýringar.

Inntökuprófið er próf til inntöku nýnema í nám á næsta haustmisseri í tannlæknisfræði við tann­lækna­deild. Hugtakið „almenn þekking“, í skilningi reglna þessara, miðast því við það markmið, og er í sjálfu sér ekki takmarkað. Þannig verður t.d. leitað eftir þekkingu á málefnum líðandi stundar, s.s. á sviði mannlegra þátta, sögu og menningar hvers konar, félagsfræði og heilbrigðis­umræðu. Verði ritgerðaspurningar um siðfræðileg álitamál á inntökuprófi, verða þær settar fram sem sjúkra­tilfelli eða annars konar vandamál til úrlausnar. Höfundar prófsins munu, við gerð þess, ákveða fyrir fram hvaða áherslum er verið að sækjast eftir til að byggja ramma utan um einkunnagjöf. Komi fram galli í prófspurningum verður tekið tillit til þess við úrvinnslu en ekki á prófstað.

 

4. gr.

Reglur þessar, sem samþykktar hafa verið í háskólaráði Háskóla Íslands að fenginni tillögu heil­brigðis­vísindasviðs, eru settar með heimild í 3. og 4. mgr. 18. gr. laga nr. 85/2008 um opinbera háskóla, öðlast þegar gildi.

 

Háskóla Íslands, 25. janúar 2023.

 

Jón Atli Benediktsson.

Þórður Kristinsson.


B deild - Útgáfud.: 10. febrúar 2023