Velkomin á vef Stjórnartíðinda
Setja síðu í 1024px vídd Setja síðu í 1280px vídd Setja síðu í 1400px vídd Fyrir sjónskerta Venjulegt letur Stækka letur Stækka letur enn meira

Sé munur á uppsetningu texta hér að neðan og í PDF skjali gildir PDF skjalið.
 1030/2020

Nr. 1030/2020 22. október 2020

REGLUR
um millibankagreiðslukerfi Seðlabanka Íslands.

I. KAFLI

Almenn ákvæði.

1. gr.

Gildissvið og löggjöf.

Reglur þessar gilda um millibankagreiðslukerfi Seðlabanka Íslands, hér eftir nefnt millibankakerfi, en samkvæmt 1. mgr. 2. gr. laga nr. 92/2019 um Seðlabanka Íslands skal bankinn sinna greiðslumiðlun í landinu.

Um millibankakerfið gilda lög nr. 90/1999 um öryggi fyrirmæla í greiðslukerfum og verðbréfauppgjörskerfum.

 

2. gr.

Orðskýringar.

Í reglum þessum er merking eftirfarandi hugtaka sem hér segir:

Aðalreikningur: Reikningur á nafni þátttakanda í millibankakerfi Seðlabanka Íslands sem notaður er við framkvæmd greiðslna og uppgjörs í stórgreiðsluhluta millibanka­kerfisins. Tengdir aðalreikningi geta verið sértækir uppgjörs­reikningar og lánareikningur sem gerðir eru upp á aðalreikningi. Aðalreikningur getur ekki verið í neikvæðri stöðu. Aðalreikningur þátttakenda sem geta átt viðskipti við Seðlabankann, skv. reglum um viðskipti fjármálafyrirtækja við Seðlabanka Íslands, eins og þær eru birtar hverju sinni, ber vexti. Seðlabankinn ákveður hvort aðalreikningur annarra þátttakenda skuli vera vaxtalaus eða bera vexti sem bankinn ákveður sérstak­lega.

Atvik: Truflun í rekstri millibankakerfisins sem getur verið rakin til villna í högun eða hugbúnaði kerfisins, hegðunar þátttakenda eða samþættingar við önnur kerfi.

Daglán: Lán veitt til næsta viðskiptadags gegn veði sem Seðla­bankinn metur hæft til tryggingar.

Greiðslufyrirmæli: Fyrirmæli samkvæmt skilgreiningu í a-lið 7. tl. 2. gr. laga nr. 90/1999.

Greiðslumörk: Þau fjárhæðarmörk sem gilda fyrir hvorn hluta millibankakerfisins.

Heimild: Sú fjárhæð sem þátttakanda er heimilt að taka út af reikningi umfram innstæðu.

Lágmarksheimild: Sú heimild sem Seðlabankinn telur að þátttakandi þurfi að lágmarki að hafa í millibankakerfinu.

Lánareikningur: Reikningur sem heldur utan um þá heimild sem er nýtt hverju sinni í stór­greiðslu­hlutanum.

Millibankakerfi: Kerfi samkvæmt skilgreiningu 1. tl. 2. gr. laga nr. 90/1999. Í millibankakerfinu fer fram rauntímauppgjör með íslenskar krónur milli þátttakenda þess. Millibanka­kerfið skiptist í tvo hluta, stórgreiðsluhluta og smá­greiðslu­hluta.

Óbeinn þátttakandi: Stofnun, milligönguaðili, greiðslujöfnunarstöð, uppgjörs­aðili eða kerfis­stjóri með samningssamband við þátt­takanda í millibankakerfinu sem gerir þeim kleift að senda greiðslufyrirmæli í gegnum kerfið.

Ráðstöfunarfjárhæð: Ráðstöfunarfjárhæð þátttakanda í stórgreiðslu­hlutanum er inn­stæða á aðal­reikningi að viðbættri óráðstafaðri heimild.

Ráðstöfunarfjárhæð þátttakanda í smágreiðsluhlutanum er staða á smágreiðslureikningi að viðbættri óráðstaf­aðri heimild.

Smágreiðsluhluti: Sá hluti kerfisins sem jafnar greiðslur undir stórgreiðslu­mörkum, þ.e. umbreytir mörgum kröfum og skuld­bindingum í eina kröfu eða skuldbindingu, um greiðslu eða greiðsluskyldu þátttakenda, og færir til uppgjörs í stórgreiðslu­hlutanum á fyrirfram ákveðnum tímum.

Smágreiðslureikningur: Reikningur þátttakanda í smágreiðsluhluta kerfisins. Bókun greiðslu á smágreiðslureikning þátttakanda jafn­gildir staðfestingu þess að greiðsla hafi verið innt af hendi.

Stórgreiðsluhluti: Sá hluti kerfisins þar sem stórgreiðslur fara fram, af einum reikningi yfir á annan. Stórgreiðsla er greiðsla yfir ákveðnum fjárhæðarmörkum sem Seðlabankinn skil­greinir. Uppgjör greiðslu í stórgreiðsluhlutanum á sér stað samhliða bókun fyrirmæla á aðalreikningi, þ.e. rauntíma­brúttóuppgjör.

Uppgjörsreikningur: Reikningur þátttakanda í stórgreiðsluhluta kerfisins þar sem greiðslu­uppgjör fara fram. Uppgjörsreikningur saman­stendur af aðalreikningi, uppgjörsreikningi smá­greiðslna og verðbréfauppgjörsreikningi.

Verðbréfauppgjörskerfi: Kerfi sem uppfyllir skilyrði laga nr. 90/1999. Kerfið tekur við staðfest­ingum viðskiptaskilmála vegna verðbréfa­viðskipta, ákvarðar réttindi og skyldur vegna viðskiptanna og gerir upp viðskiptin með því að afhenda verðbréf gegn tryggðri greiðslu (e. DvP).

Viðmiðunarheimild: Sú upphafsheimild sem smágreiðsluhlutanum er veitt eftir hvert uppgjör.

Viðmiðunarverð verðbréfa: Verð verðbréfa á skipulegum verðbréfamarkaði eða verð sem Seðlabankinn ákveður hverju sinni.

Viðskiptadagur: Virkur afgreiðsludagur fjármálafyrirtækja.

Þátttakandi: Stofnun eða annar aðili sem Seðlabankinn samþykkir sem þátttakanda í millibankakerfinu.

 

II. KAFLI

Þátttaka.

3. gr.

Þátttakendur.

Seðlabanki Íslands tekur ákvörðun um aðild nýrra þátttakenda að millibankakerfinu og útilokun á þátttöku aðila í kerfinu.

Þátttakendur geta verið stofnanir samkvæmt skilgreiningu 2. tl. 2. gr. laga nr. 90/1999 og aðrir aðilar sem Seðlabankinn samþykkir, enda uppfylli þátttakendur þátttökuskilyrði skv. 4. gr. þessara reglna.

Fjármálafyrirtæki með staðfestu og starfsleyfi erlendis, en starfsemi hér á landi, skal eingöngu veitt aðild að millibankakerfinu ef það sætir sambærilegu eftirliti í heimaríki sínu og lög nr. 87/1998 um opinbert eftirlit með fjármálastarfsemi kveða á um.

Milligönguaðilar, uppgjörsaðilar og greiðslujöfnunarstöðvar samkvæmt 3., 4. og 8. tl. 2. gr. laga nr. 90/1999 geta með samþykki Seðlabanka Íslands verið þátttakendur í millibankakerfinu. Um réttindi og skyldur þeirra, auk annarra óbeinna þátttakenda, fer samkvæmt ákvæðum laga nr. 90/1999 og 3. og 4. gr. þessara reglna eftir því sem við á.

Seðlabanki Íslands er beinn þátttakandi í millibankakerfinu.

Seðlabanki Íslands getur ákveðið að líta á óbeinan þátttakanda í millibankakerfinu sem beinan þátttakanda ef Seðlabankinn metur það æskilegt með tilliti til kerfisáhættu. Það takmarkar ekki ábyrgð þess beina þátttakanda sem gerir óbeina þátttakandanum kleift að senda greiðslufyrirmæli í gegnum kerfið, sbr. 3. gr. b. laga nr. 90/1999.

 

4. gr.

Þátttökuskilyrði.

Auk skilyrða 3. gr. skal aðili sem óskar eftir að gerast þátttakandi í millibankakerfinu sýna fram á við umsókn að hann uppfylli öll eftirtalin skilyrði:

  1. Lúti opinberu eftirliti skv. lögum nr. 87/1998 um opinbert eftirlit með fjármálastarfsemi eða ef um er að ræða útibú erlendra fjármálafyrirtækja opinberu eftirliti á Evrópska efnahagssvæðinu eða sambærilegu eftirliti ef um ræðir fjármálafyrirtæki utan Evrópska efnahagssvæðisins.
  2. Hafi gilt starfsleyfi eftirlitsstofnunar og uppfylli kröfur hennar m.a. að því er varðar eiginfjárhlutfall og lausafjárhlutfall.
  3. Hafi sett sér skriflegar reglur og viðhafi innra eftirlit sem miðar að því að koma í veg fyrir að starfsemin sé notuð til peningaþvættis eða fjármögnunar hryðjuverka, sbr. ákvæði laga nr. 140/2018 um aðgerðir gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka og viðeigandi tilmæli og reglur. Útibú fjármálafyrirtækja utan Evrópska efnahagssvæðisins skulu sýna fram á að reglur og innra eftirlit sé með sambærilegum hætti og áskilið er í lögum nr. 140/2018.
  4. Hafi á hverjum tíma yfir að ráða nauðsynlegri stjórnunarlegri getu og tækniþekkingu starfsmanna fyrir þátttökuna að mati Seðlabankans.
  5. Hafi yfir að ráða tryggu eftirlitskerfi með áhættu í tengslum við þátttöku í kerfinu, þ.m.t. er varðar netöryggismál og aðra rekstraráhættuþætti, að mati Seðlabanka Íslands.
  6. Hafi samið um heimild og lagt fram fullnægjandi uppgjörstryggingar í Seðlabanka Íslands sbr. nánar V. kafla reglnanna.
  7. Hafi greitt eða samið um greiðslu þátttökugjalds.
  8. Leggi fram eigin viðbúnaðaráætlun verði áföll í starfsemi millibankakerfisins.

Ákvæði 1., 2., 3. og 6. tl. 1. mgr. eiga ekki við um Seðlabanka Íslands sem þátttakanda í kerfinu.

Skilyrði samkvæmt ákvæði þessu skulu ávallt uppfyllt af hálfu þátttakenda svo lengi sem þátttaka í millibankakerfinu varir og getur Seðlabankinn ávallt óskað eftir upplýsingum eða yfirlýsingu frá þátttakendum um þau atriði sem mælt er fyrir um í 1.-8. tl.

 

5. gr.

Skyldur þátttakenda.

Á meðan þátttaka varir í millibankakerfinu ber þátttakanda að uppfylla skilyrði 4. gr. þessara reglna ásamt eftirfarandi:

  1. Hafa á hverjum tíma yfir að ráða nauðsynlegum tæknibúnaði og uppfylla kröfur eftirlitsaðila um öryggisstaðla upplýsingakerfa vegna þátttöku í millibankakerfinu, að mati Seðlabankans, sbr. einnig 25. gr. reglna þessara.
  2. Hafa ávallt starfsmann á vakt meðan stórgreiðsluhlutinn er opinn þ.m.t. fram yfir hefðbundinn opnunartíma skv. 8. gr.
  3. Þátttakendum er skylt að taka þátt í prófunum á uppfærslum í millibankakerfinu, ef Seðla­bankinn óskar þess, og viðbúnaðaræfingum.
  4. Að í gildi sé þátttökusamningur að millibankakerfinu sbr. 14. gr.

 

6. gr.

Lok þátttöku.

Nú uppfyllir þátttakandi ekki lengur skilyrði skv. 3.-5. gr., brýtur reglur þessar eða önnur þátttökuskilyrði sem birt eru á vefsíðu Seðlabankans og sem tilkynnt hafa verið þátttakanda eða hann ógnar stöðugleika millibankakerfisins á einhvern hátt, allt að mati Seðlabankans, og getur þá Seðlabankinn synjað honum, án fyrirvara eða tilkynningar, um frekari þátttöku í millibankakerfinu.

Sé þátttakanda synjað um áframhaldandi þátttöku í millibankakerfinu ber honum að gera upp reikninga sína hjá Seðlabankanum samdægurs.

 

III. KAFLI

Opnunartími og greiðslumörk.

7. gr.

Opnunartími.

Hvor hluti millibankakerfisins hefur eigin opnunartíma. Upplýsingar um opnunartíma og uppgjörstíma hvors hluta má nálgast á vefsíðu Seðlabankans.

Seðlabankinn getur heimilað fleiri uppgjör en auglýst eru, t.d. vegna atvika eða ef markaðsaðstæður krefjast þess.

 

8. gr.

Lenging opnunartíma.

Við ófyrirséðar aðstæður eða atvik getur Seðlabankinn framlengt opnunartíma stór­greiðsluhluta millibankakerfisins og skal þátttakendum tilkynnt um það fyrirfram. Komi til lengingar á opnunartíma er þátttakanda skylt að vakta stórgreiðsluhluta kerfisins meðan hann er opinn.

Af sömu ástæðum og greinir í 1. mgr. getur Seðlabankinn lokað millibankakerfinu tíma­bundið.

 

9. gr.

Fjárhæðarmörk greiðslna (greiðslumörk).

Seðlabankinn skilgreinir fjárhæðarmörk og eru þau birt á vefsíðu bankans. Seðlabankinn getur hækkað eða lækkað stórgreiðslumörk tímabundið ef bankinn telur ástæðu til. Tilkynna skal þátttakendum um breytingu á stórgreiðslumörkum með tölvupósti og á vefsíðu bankans.

Óheimilt er að skipta niður greiðslufyrirmælum yfir stórgreiðslumörkum í þeim tilgangi að koma í veg fyrir að þau falli undir stórgreiðsluhluta kerfisins.

Færslur undir stórgreiðslumörkum vegna uppgjörs á sértækum uppgjörsreikningum falla undir stórgreiðsluhlutann.

 

IV. KAFLI

Greiðslufyrirmæli og réttaráhrif.

10. gr.

Greiðslufyrirmæli.

Greiðslufyrirmæli í millibankakerfinu teljast þau greiðslufyrirmæli þátttakanda, sem kerfið hefur móttekið um að tilgreindum mótaðila skuli afhentir fjármunir með því að leggja með reikningsfærslu tiltekna fjárhæð inn á reikning hans.

Í millibankakerfinu skal skrá og varðveita nöfn og reikninga þátttakenda þ.e. greiðanda og mótaðila. Upplýsingar í millibankakerfinu eru ekki persónugreinanlegar.

 

11. gr.

Beiðni um framkvæmd greiðslufyrirmæla.

Beiðni um framkvæmd greiðslufyrirmæla skal berast millibankakerfinu í gegnum rafræna tengingu þátttakanda við kerfið.

Seðlabankinn getur heimilað aðrar leiðir en kveðið er á um í 1. mgr., t.d. ef tenging þátttakanda við kerfið hefur rofnað. Skal Seðlabankinn látinn vita án tafar ef rof verður hjá einum eða fleiri þátttakendum.

 

12. gr.

Staðfesting greiðslufyrirmæla.

Greiðslufyrirmæli teljast komin til millibankakerfisins um leið og kerfið hefur skráð þau sem móttekin með tímastimpli. Millibankakerfið heldur nákvæma tímaskrá yfir móttekin og staðfest greiðslufyrirmæli og endanlegt uppgjör greiðslufyrirmæla.

 

13. gr.

Réttaráhrif staðfestingar á móttöku greiðslufyrirmæla.

Greiðslufyrirmæli staðfest með tímastimpli í millibankakerfinu eru þar með staðfest af millibankakerfinu og eru greiðslufyrirmælin bindandi gagnvart þriðja aðila og afturköllun þeirra óheimil, sbr. nánar ákvæði II. kafla laga nr. 90/1999. Greiðslufyrirmæli teljast uppgerð og óafturkræf með bókun fyrirmæla á reikning þátttakanda í millibankakerfinu. Kröfur sem færðar eru úr smágreiðsluhluta millibankakerfisins til uppgjörs í stórgreiðsluhluta þess hafa ekki áhrif á endanlegt uppgjör í skilningi laga nr. 90/1999.

 

V. KAFLI

Heimildir og uppgjörstryggingar.

14. gr.

Samningur um heimild og uppgjörstryggingar.

Þátttakandi gerir skriflegan samning við Seðlabankann um heimild í millibankakerfinu. Heimildin gildir fyrir þátttakandann samanlagt í stórgreiðsluhluta kerfisins sem og smágreiðsluhluta þess. Seðlabankinn mælir fyrir um lágmarksheimild þátttakanda í kerfinu, m.a. með hliðsjón af sveiflum á aðalreikningum og nýttum heimildum viðkomandi þátttakanda síðastliðna 12 mánuði.

Þátttakandi skal leggja fram nægar tryggingar fyrir  heimildinni sem Seðlabankinn metur og samþykkir samkvæmt nánari ákvæðum í reglum þessum. Fjárhæð trygginga að teknu tilliti til frádrags skal eigi vera lægri en fjárhæð heimildar viðkomandi þátttakanda.

Um uppgjörstryggingar vegna heimilda í millibankakerfinu fer skv. lögum nr. 46/2005 um fjárhagslegar tryggingarráðstafanir.

 

15. gr.

Skipting heimildar milli stórgreiðslu- og smágreiðsluhluta.

Sú heimild sem þátttakandi hefur gert samning um í millibankakerfinu skv. 14. gr. er skráð í stórgreiðsluhluta kerfisins. Hluta heimildarinnar er með samningnum ráðstafað til smágreiðslu­hluta þess.

Þegar smágreiðslureikningur nálgast veitta heimild mun kerfið sjálfvirkt sækja viðbótar­heimild til stórgreiðsluhluta kerfisins. Sé næg heimild til staðar er umbeðin viðbótarheimild veitt smágreiðsluhlutanum. Við uppgjör smágreiðslna er heimild endurstillt í viðmiðunarheimild smágreiðslu­hlutans.

Í samningi skv. 14. gr. reglna þessara er ákveðið hver viðmiðunarheimild þátttakanda er í smágreiðslu­hlutanum og hversu hátt nýtingarhlutfall gangsetur sjálfvirka hækkun heimildar sem og hækkunarhlutfallið.

 

16. gr.

Breyting á fjárhæð heimildar.

Seðlabankinn endurmetur fjárhæðir lágmarksheimildar og viðmiðunarheimildar hvers þátt­takanda skv. 14. gr. og 15. gr. að lágmarki árlega, m.a. með hliðsjón af sveiflum á stöðu aðal­reiknings viðkomandi þátttakanda síðastliðna tólf mánuði.

Við endurmat heimildar skal þess gætt að viðkomandi þátttakandi hafi ávallt svigrúm til að mæta óvæntum sveiflum í greiðslustöðu.

Seðlabankinn getur krafið þátttakanda um að heimild í millibankakerfinu sé hækkuð ef ástæða þykir til.

Þátttakandi getur óskað eftir breytingu á fjárhæð heimildar gegn því skilyrði að tryggingar skv. 14. og 18. gr. verði í samræmi við þá ósk. Breyting á fjárhæð heimildar er háð samþykki Seðlabankans.

 

17. gr.

Greiðslufyrirmæli umfram heimildir.

Hafna skal greiðslufyrirmælum þátttakanda sem myndu leiða til þess að hann færi yfir heimild sína. Sjálfvirk tilkynning berst þátttakanda þess efnis að greiðslufyrirmælum hafi verið hafnað þar sem heimildarmörkum sé náð.

 

18. gr.

Hæfar tryggingar fyrir heimildum.

Listi yfir tryggingar sem Seðlabankinn metur hæfar í millibankakerfinu er birtur á vefsíðu Seðlabankans.

 

19. gr.

Takmarkanir á tryggingarhæfi verðbréfa.

Þátttakandi ábyrgist að verðbréf lögð fram til tryggingar séu veðbanda- og kvaðalaus.

Liggi viðmiðunarverð verðbréfa ekki fyrir á skipulegum verðbréfamarkaði, ákveður Seðlabankinn viðmiðunarverðið.

Seðlabankinn getur hafnað því að taka á móti verðbréfum fyrir samning um fjárhagslega tryggingarráðstöfun telji bankinn vafa leika á um að skilyrði um tryggingarhæfi þeirra séu uppfyllt.

 

20. gr.

Verðmat tryggingarhæfra verðbréfa.

Við mat á verðmæti verðbréfa og annarra trygginga sem Seðlabankinn metur fullnægjandi, sem lögð eru fram vegna samnings um fjárhagslega tryggingaráðstöfun skal reikna frádrag frá viðmiðunarverði. Frádrag verðbréfa og annarra hæfra trygginga er birt á vefsíðu Seðlabankans. Seðlabankinn getur reiknað frádrag umfram það sem fram kemur á vefsíðu Seðlabankans ef bankinn telur það nauðsynlegt t.d. vegna markaðsaðstæðna.

 

21. gr.

Viðbótartryggingar.

Seðlabankinn endurmetur verðmæti trygginga jafn oft og þurfa þykir og a.m.k. daglega. Seðlabankinn getur fyrirvaralaust krafist viðbótartrygginga lækki virði trygginga. Verðmæti trygginga skal ávallt vera hærra eða jafn hátt heimild þátttakanda. Lækki verðmætið niður fyrir hið skilgreinda lágmark skal þátttakandi, að kröfu Seðlabankans, leggja fram viðbótartryggingu þannig að skilgreindu lágmarki verði náð á ný.

Telji Seðlabankinn þörf á viðbótartryggingu sbr. 1. mgr. skal viðkomandi þátttakandi leggja fram fullnægjandi tryggingar innan þeirra tímamarka sem Seðlabankinn ákveður en þó aldrei síðar en innan viðskiptadagsins. Seðlabankinn getur lækkað tímabundið heimildarstöðu viðkomandi þátttakanda um samsvarandi fjárhæð þar til viðbótartrygging hefur verið lögð fram.

 

22. gr.

Vörslur verðbréfa.

Verðbréf sem lögð eru fram til tryggingar skulu skráð hjá verðbréfamiðstöð sem hlotið hefur starfsleyfi skv. lögum nr. 7/2020 um verðbréfastöðvar, uppgjör og rafræna eignarskráningu fjármálagerninga. Heimilt er að leggja fram verðbréf rafrænt skráð í erlendri verðbréfamiðstöð sem hlotið hefur starfsleyfi í heimaríki sínu og sætir sambærilegu eftirliti og lög nr. 87/1998 um opinbert eftirlit með fjármálastarfsemi kveða á um.

Verðbréf sem skráð eru í íslenskri verðbréfamiðstöð skulu vistuð og eignarskráð á viðkomandi þátttakanda í verðbréfamiðstöð og skal eignin veðsett Seðlabankanum með sérstakri yfirlýsingu þar að lútandi.

Um skráningu trygginga fer skv. IV. kafla laga nr. 7/2020 um verðbréfastöðvar, uppgjör og rafræna eignarskráningu fjármálagerninga.

 

23. gr.

Daglán.

Þátttakanda sem hefur heimild til að taka daglán skv. reglum um viðskiptareikninga við Seðlabanka Íslands, eins og þær eru birtar hverju sinni, mun sjálfkrafa verða veitt daglán við dagslok sé staða á lánareikningi óuppgerð, enda meti Seðlabankinn undirliggjandi tryggingar hæfar.

Þátttakanda ber að greiða vexti af daglánum og eru þeir skuldfærðir sjálfvirkt að morgni næsta dags.

 

VI. KAFLI

Vöktun, viðbúnaður o.fl.

24. gr.

Hæfni starfsmanna þátttakanda.

Starfsmenn þátttakanda skulu hljóta fræðslu og þjálfun í notkun millibankakerfisins.

Seðlabankinn heldur a.m.k. árlega námskeið sem öllum starfsmönnum þátttakenda sem nota millibankakerfið er skylt að sækja.

 

25. gr.

Tæknilegur búnaður og eftirlitskerfi með áhættu.

Þátttakendur skulu á hverjum tíma hafa yfir að ráða fullnægjandi tæknilegum búnaði samkvæmt viðmiðum og kröfum Seðlabankans til þátttöku í millibankakerfinu.

Þátttakendur skulu ávallt hafa yfir að ráða tryggu eftirlitskerfi með áhættu í tengslum við notkun millibankakerfisins, þ.m.t. er varðar netöryggi, peningaþvætti og aðra rekstraráhættuþætti.

Seðlabankinn skráir öll atvik sem upp koma í millibankakerfinu.

Þátttakendur skulu tilkynna tafarlaust til Seðlabankans öll atvik sem upp koma í þeirra eigin kerfum, hjá hýsingaraðilum þeirra og allt það sem getur haft áhrif á millibankakerfið.[1]

  [1] Sjá nánar á vefsíðu Seðlabankans hvernig ferli við tilkynningu atvika er háttað.

26. gr.

Vöktun og viðbrögð vegna greiðslustöðu.

Sérhver þátttakandi skal hafa yfir að ráða tæknibúnaði til að vakta greiðslustöðu sína á reikningum í millibankakerfinu.

Þátttakanda ber að fylgjast með greiðslustöðu sinni í millibankakerfinu í því skyni að koma tímanlega í veg fyrir að greiðslufyrirmælum verði hafnað vegna þess að heimild hans sé fullnýtt.

 

27. gr.

Viðbúnaðaráætlun þátttakanda.

Sérhver þátttakandi skal við umsókn um þátttöku í millibankakerfinu leggja fram viðbúnaðaráætlun þar sem gerð er grein fyrir viðbrögðum þátttakanda ef áföll verða í starfsemi millibankakerfisins og þeim ferlum sem tengjast áætluninni. Viðbúnaðaráætlun skal uppfæra og afhenda Seðlabankanum árlega og oftar ef breytingar eru gerðar á henni.

 

28. gr.

Viðbúnaðaráætlun Seðlabankans.

Seðlabankinn útbýr og viðheldur viðbúnaðaráætlun þar sem gerð er grein fyrir viðbrögðum Seðlabankans við áföllum í starfsemi millibankakerfisins.

 

29. gr.

Þátttaka í viðbúnaðaræfingum.

Sérhverjum þátttakanda er skylt að taka þátt í viðbúnaðaræfingum sem Seðlabankinn skipuleggur í samvinnu við tækniþjónustuaðila og þátttakendur og boðar til með hæfilegum fyrirvara. Slíkar æfingar skulu haldnar reglubundið í því skyni að láta reyna á rekstraröryggi og viðbrögð við vanda sem upp getur komið í tengslum við rekstur millibankakerfisins eða ef sérstakt tilefni er til að mati Seðlabankans.

Ferli viðbúnaðaræfinga og niðurstöður skal skjalfesta. Niðurstöðurnar skal greina og ef úrbóta er þörf skal slíkt jafnframt skjalfest og leitast við tryggja að þær gangi eftir.

 

VII. KAFLI

Gjaldskrá, eftirlit o.fl.

30. gr.

Gjaldskrá og gjaldtaka.

Seðlabanki Íslands ákveður gjaldskrá vegna rekstrar millibankakerfisins í samræmi við 43. gr. laga nr. 92/2019 um Seðlabanka Íslands. Gjaldskráin er endurskoðuð árlega og birt á vefsíðu Seðlabankans. Kveða skal nánar á um framkvæmd gjaldtöku í samningi þátttakanda við Seðlabanka Íslands.

 

31. gr.

Yfirsýn og eftirlit.

Seðlabankinn ber ábyrgð á daglegum rekstri millibankakerfisins og hefur með höndum yfirsýn með rekstri þess á grundvelli laga og alþjóðlega viðurkenndra viðmiða í reglum um bestu framkvæmd[2] er varðar rekstraröryggi, skilvirkni og hagkvæmni.

[2] Kjarnareglur Alþjóðagreiðslubankans (BIS) um kerfislega mikilvæga fjármálainnviði - PFMI kjarna­reglur CPMI/IOSCO.

 

32. gr.

Upplýsingagjöf.

Seðlabankinn og þátttakendur skulu láta tímanlega í té upplýsingar um allar breytingar á kerfum hvors annars, sem með einum eða öðrum hætti geta haft áhrif á rekstur, og annað sem varðar öryggi eða skilvirkni millibankakerfisins.

Þátttakendur skulu upplýsa um þátttöku sína í millibankakerfinu til þeirra sem þess óska og hafa lögmætra hagsmuna að gæta, sbr. 10. gr. laga nr. 90/1999.

Seðlabankinn auglýsir í Lögbirtingablaði og á vefsíðu bankans hverjir eru þátttakendur í millibankakerfinu og skulu þær upplýsingar uppfærðar ef breytingar verða á þátttöku.

Nánar er mælt fyrir um upplýsingagjöf í samningi skv. 14. gr.

 

33. gr.

Skilmálar.

Seðlabankinn setur nánari skilmála um millibankakerfið. Slíkt efni kynnir Seðlabankinn þátttakendum með tölvupósti og á vefsíðu bankans.

 

34. gr.

Gildistaka.

Reglur þessar eru settar með heimild í 2. mgr. 46. gr. laga nr. 92/2019 um Seðlabanka Íslands og taka gildi 26. október 2020.

 

Ákvæði til bráðabirgða.

Nýtt millibankagreiðslukerfi Seðlabanka Íslands verður tekið í notkun hinn 26. október 2020 og kemur það í stað stórgreiðslukerfis bankans og jöfnunarkerfisins. Þrátt fyrir gildistöku reglna þessara skulu reglur um stórgreiðslukerfi Seðlabanka Íslands nr. 703 frá 13. ágúst 2009, með áorðnum breytingum, og reglur um starfsemi jöfnunarkerfa nr. 704 frá 13. ágúst 2009, með áorðnum breytingum, gilda um færslur sem færðar hafa verið, eða færðar verða, í stórgreiðslukerfi Seðlabanka Íslands og jöfnunarkerfinu.

 

Seðlabanka Íslands, 22. október 2020.

 

  Ásgeir Jónsson
seðlabankastjóri.
Rannveig Júníusdóttir,
framkvstjóri skrifstofu bankastjóra.

B deild - Útgáfud.: 23. október 2020