Velkomin á vef Stjórnartíðinda
Setja síðu í 1024px vídd Setja síðu í 1280px vídd Setja síðu í 1400px vídd Fyrir sjónskerta Venjulegt letur Stækka letur Stækka letur enn meira

Sé munur á uppsetningu texta hér að neðan og í PDF skjali gildir PDF skjalið.
 1098/2008

Nr. 1098/2008 3. desember 2008
REGLUR
um gjaldeyrismarkað.

1. gr.

Aðild að millibankamarkaði með gjaldeyri.

Aðilar að millibankamarkaði með gjaldeyri (viðskiptavakar) geta þeir orðið, auk Seðla­banka Íslands, sem hafa ótakmarkað starfsleyfi til gjaldeyrisviðskipta á grundvelli 2. mgr. 8. gr. laga nr. 87/1992, sbr. 1. mgr. 9. gr. reglugerðar nr. 679/1994, enda taki þeir á sig ábyrgð og skyldur viðskiptavaka með evru gagnvart íslenskri krónu samkvæmt ákvæðum þessara reglna.

Viðskiptavaki sækir um aðild að gjaldeyrismarkaði samkvæmt reglum þessum á því formi sem Seðlabanki Íslands ákveður. Seðlabankinn afgreiðir umsókn innan tveggja vikna frá því að hún berst. Samþykki bankinn umsóknina tilkynnir hann það öllum aðilum á markaðnum fimm viðskiptadögum áður en aðild umsækjanda tekur gildi.

Um uppsögn viðskiptavaka er fjallað í 13. gr.

2. gr.

Skyldur viðskiptavaka.

Viðskiptavaka er skylt að gefa upp bindandi kaup- og söluverð evru ef annar markaðs­aðili óskar þess. Sé fjárhæð eigi tilgreind skal viðskiptavaki miða við 100.000 evrur, og er honum skylt að eiga viðskipti fyrir þá fjárhæð á tilgreindu verði. Hafi viðskiptavaki aðra fjárhæð í huga skal hann tilgreina hana, en þarf ekki að segja til um hvort hann vill kaupa eða selja. Viðskiptavaka er ekki skylt að láta uppi verð fyrir aðra fjárhæð en 100.000 evrur. Seðlabanki Íslands er undanþeginn þessu ákvæði og getur einnig átt viðskipti við viðskiptavaka utan hefðbundins markaðstíma skv. 3. gr.

Viðskipti í öðrum gjaldmiðli en evru eru háð samþykki beggja aðila.

3. gr.

Markaðstími.

Millibankamarkaður með gjaldeyri stendur frá kl. 9.15 til 16.00 hvern viðskiptadag.

4. gr.

Leiðbeinandi verðtilboð og tíðni viðskipta.

Viðskiptavakar skuldbinda sig til þess að uppfæra reglulega leiðbeinandi verðtilboð, þ.e. kaup- og sölugengi evru, á sérstakri síðu í upplýsingakerfi Reuters. Einungis viðskipta­vakar skulu hafa aðgang að þessum síðum. Leiðbeinandi verð skal uppfæra eigi sjaldnar en á 30 sekúndna fresti. Þar skal að öðru jöfnu sýnt það verð sem viðskiptavaki er reiðubúinn að kaupa og selja 100.000 evrur á.

Hafi viðskiptavaki fengið verðtilboð hjá öðrum viðskiptavaka og átt viðskipti þurfa að líða 5 mínútur þar til hann biður sama viðskiptavaka um verðtilboð á ný.

5. gr.

Upplýsingakvöð viðskiptavaka.

Viðskiptavakar skulu skila Seðlabanka Íslands þrenns konar yfirliti, innan dags, daglegu og mánaðarlegu, um gjaldeyrisviðskipti á millibankamarkaði og gjaldeyrisjöfnuð – í því formi sem Seðlabankinn mælir fyrir um. Innan dags upplýsingar um gjaldeyrisviðskipti viðskiptavaka á millibankamarkaði skulu skráðar í rauntíma í kerfum viðskiptavaka og sendar beint í kerfi hjá Seðlabanka Íslands. Upplýsingar vegna hvers viðskiptadags skulu berast fyrir kl. 14.00 næsta dag, en yfirlit um hvern mánuð eigi síðar en kl. 16.00 sjöunda virkan dag næsta mánaðar.

Seðlabanka Íslands er heimilt að óska eftir öðrum gögnum sem tengjast gjaldeyris­markaði og viðskiptum á honum. Allar upplýsingar sem Seðlabankinn óskar eftir skulu njóta eðlilegs forgangs hjá viðskiptavökum.

6. gr.

Upplýsingakvöð Seðlabanka Íslands.

Seðlabanki Íslands sendir reglulega öllum viðskiptavökum upplýsingar um heildar­viðskipti á millibankamarkaði með gjaldeyri.

7. gr.

Skráning opinbers viðmiðunargengis.

Seðlabanki Íslands skráir opinbert viðmiðunargengi íslensku krónunnar með hliðsjón af leiðbeinandi tilboðum viðskiptavaka, verði sem myndast hefur í viðskiptum við Seðla­banka Íslands. Hvern viðskiptadag milli kl. 10.45 og 11.00 skoðar Seðlabankinn tilboð allra viðskiptavaka, reiknar út miðgengi evru, skráir opinbert viðmiðunargengi á þeim grundvelli og reiknar út gengi annarra gjaldmiðla í hinni opinberu gengisskráningu sinni. Enn fremur getur Seðlabankinn skráð opinbert viðmiðunargengi á grundvelli síðasta viðskiptaverðs sama dags.

Seðlabanki Íslands ákveður fyrir hvaða gjaldmiðla opinbert viðmiðunargengi er skráð.

Seðlabanki Íslands birtir opinbert viðmiðunargengi á heimasíðu sinni og á erlendum upplýsinga­veitum.

8. gr.

Viðskipti Seðlabanka Íslands.

Seðlabanka Íslands er ekki skylt að eiga viðskipti við aðra markaðsaðila þótt eftir því sé leitað. Viðskiptavaka er hins vegar skylt að eiga viðskipti við bankann í samræmi við reglur þessar.

9. gr.

Fjöldi aukastafa í verðtilboðum.

Viðskiptavakar skulu nota sama fjölda aukastafa í verðtilboðum og gert er við skráningu opinbers viðmiðunargengis hjá Seðlabanka Íslands.

10. gr.

Gildisdagsetning viðskipta.

Í viðskiptum með erlendan gjaldeyri skulu gilda sömu reglur og á erlendum gjaldeyris­mörkuðum um gildisdagsetningar og millifærslur á erlenda bankareikninga.

11. gr.

Hæfniskröfur.

Viðskiptavakar skulu tilkynna Seðlabankanum um hverjir sinna gjaldeyrisviðskiptum á millibankamarkaði fyrir þeirra hönd. Skulu þeir sjá til þess að starfsmenn sem annast viðskipti á millibankamarkaði, hafi næga þekkingu til að annast gjaldeyrisviðskipti. Viðskipta­vakar skulu hafa yfir að ráða fullnægjandi innri eftirlitskerfum til að meta og stýra áhættu í gjaldeyrisviðskiptum. Þá skal innra skipulag viðskiptavaka vera þannig að skýr skil séu milli gjaldeyrisviðskipta og frágangs þeirra. Seðlabankanum skulu veittar upplýsingar um eftirlitskerfi og innri reglur sem viðskiptavaki hefur sett sér í gjaldeyrisviðskiptum sé þess óskað. Taki starfsemi viðskiptavaka breytingum eða skipt er um yfirmenn gjaldeyrisviðskipta skal Seðlabankanum tilkynnt um slíkt fyrirfram. Jafnframt skulu viðskiptavakar tilkynna Seðlabankanum um hverjir sinna gjaldeyris­viðskiptum á millibankamarkaði fyrir þeirra hönd.

12. gr.

Fundir markaðsaðila, siðareglur o.fl.

Viðskiptavakar skulu tilnefna tengiliði vegna samskipta við Seðlabanka Íslands og skal við það miðað að þeir séu yfirmenn gjaldeyrisviðskipta viðskiptavaka. Með reglulegu millibili skal Seðlabankinn efna til reglulegra samráðsfunda með viðskiptavökum. Viðskipta­vakar skulu stuðla að heilbrigðum viðskiptaháttum, m.a. með því að setja siðareglur fyrir millibankamarkað með gjaldeyri með hliðsjón af alþjóðlegum siðareglum.

Viðskiptavakar skulu fylgjast með öllum vísbendingum um óeðlilegt atferli að því er varðar umfang, tíðni og frágang viðskipta og tilkynna Seðlabanka Íslands um slíkt verði þeir þess áskynja og enn fremur um hvaðeina annað sem óeðlilegt gæti talist.

13. gr.

Uppsögn viðskiptavaka og viðurlög.

Viðskiptavaki, sem hyggst segja upp aðild að millibankamarkaði samkvæmt reglum þessum, skal tilkynna Seðlabanka Íslands þá ákvörðun skriflega með a.m.k. mánaðar fyrirvara.

Telji Seðlabanki Íslands að viðskiptavaki standi ekki við skuldbindingar sínar samkvæmt reglum þessum getur bankinn svipt hann rétti til viðskipta við sig.

14. gr.

Neyðarviðbrögð.

Verði gjaldeyrismarkaður óstarfhæfur um tíma, vegna bilana í búnaði eða vegna annarra óviðráðanlegra orsaka, getur Seðlabanki Íslands án fyrirvara ákveðið að viðskipti skuli fara fram með öðrum hætti en lýst er í reglum þessum og skal öllum aðilum að markaðnum tilkynnt um það án tafar. Ef upp koma tímabundnar bilanir á búnaði viðskiptavaka, sem valda því að hann hefur ekki aðgang að nauðsynlegum upplýsingum, getur hann vikist undan að gefa upp verð þótt þess sé óskað samkvæmt 2. gr.

15. gr.

Gildistaka.

Reglur þessar, sem settar eru skv. heimild í 18. gr. laga nr. 36/2001 um Seðlabanka Íslands, sbr. og ákvæði 8. gr. laga nr. 87/1992 um gjaldeyrismál, öðlast gildi hinn 4. desember 2008. Jafnframt falla þá úr gildi reglur nr. 913 frá 20. desember 2002 með síðari breytingum um gjaldeyrismarkað.

Ákvæði til bráðabirgða.

Þrátt fyrir 3. ml. 2. mgr. 1. gr. getur Seðlabanki Íslands fram til 1. janúar 2009 ákveðið að aðild umsækjanda að millibankamarkaði með gjaldeyri taki gildi um leið og Seðla­bankinn samþykkir umsókn viðskiptavaka.

Seðlabankinn skráir gengisvísitölu um leið og opinbert viðmiðunargengi og birtir á heima­síðu sinni og öðrum upplýsingaveitum til 31. desember 2008.

Reykjavík, 3. desember 2008.

Seðlabanki Íslands,

Davíð Oddsson,
formaður bankastjórnar.

Eiríkur Guðnason
bankastjóri.

Ingimundur Friðriksson
bankastjóri.

B deild - Útgáfud.: 3. desember 2008