Velkomin á vef Stjórnartíðinda
Setja síðu í 1024px vídd Setja síðu í 1280px vídd Setja síðu í 1400px vídd Fyrir sjónskerta Venjulegt letur Stækka letur Stækka letur enn meira

Sé munur á uppsetningu texta hér að neðan og í PDF skjali gildir PDF skjalið.
 488/2024

Nr. 488/2024 8. apríl 2024

REGLUR
um doktorsnám á félagsvísindasviði Háskóla Íslands.

I. KAFLI

Almennar reglur félagsvísindasviðs.

1. gr.

Doktorsnám á félagsvísindasviði.

Á félagsvísindasviði er unnt að stunda nám til doktorsprófs á fræðasviðum þar sem deildir meta að nauðsynleg aðstaða og sérþekking sé fyrir hendi, enda sé viðkomandi deild heimilt að bjóða upp á slíkt nám samkvæmt ákvæðum X. kafla reglna nr. 569/2009 fyrir Háskóla Íslands. Markmið doktors­náms er að veita nemendum víðtæka og trausta rannsóknarþjálfun og gera þá færa um að stunda sjálfstæð vísindastörf.

Reglur um doktorsnám á félagsvísindasviði eru settar í samræmi við 47., 68. og 69. gr. reglna nr. 569/2009 fyrir Háskóla Íslands og viðmið og kröfur um gæði doktorsnáms.

Miðstöð framhaldsnáms við Háskóla Íslands hefur umsjón með og fylgir eftir settum viðmiðum og kröfum um gæði framhaldsnáms við Háskóla Íslands, sbr. 66. gr. reglna nr. 569/2009 fyrir Háskóla Íslands. Standa ber skil á upplýsingum og gögnum sem Miðstöð framhaldsnáms við Háskóla Íslands kallar eftir.

 

2. gr.

Vísindanefnd félagsvísindasviðs og fastanefndir deilda.

Vísindanefnd félagsvísindasviðs fer með málefni doktorsnáms á fræðasviðinu, s.s. almenna stefnu­mótun, samstarf, upplýsingamiðlun, samræmingu og önnur málefni sem deildir og stjórn félags­vísindasviðs kunna að fela henni.

Í vísindanefnd sitja formenn þeirrar fastanefndar hverrar deildar sem fer með málefni fram­halds­náms. Forseti félagsvísindasviðs skipar formann nefndarinnar til þriggja ára í senn. Forseti skipar auk þess einn doktorsnema í nefndina til sama tíma. Forseta er heimilt að fela hagsmuna­samtökum doktorsnema á sviðinu að tilnefna hann, enda sé ekki skilyrði að fulltrúinn sé þar félags­maður. Fulltrúi doktorsnema tekur ekki þátt í meðferð mála eða ákvörðunum um einstaka doktors­nema, þ.m.t. ákvörðunum um inntöku nemenda.

Með nefndinni starfa rannsóknastjóri félagsvísindasviðs, verkefnisstjóri doktorsnáms og rann­sókna, sem og gæðastjóri sviðsins sem er starfsmaður nefndarinnar, eða aðrir, samkvæmt ákvörðun sviðsforseta.

Formaður vísindanefndar félagsvísindasviðs á sæti í vísindanefnd háskólaráðs. Sviðsforseti getur ákveðið að hann sé jafnframt tengiliður fræðasviðsins við Miðstöð framhaldsnám.

Fastanefndir deilda fara með málefni doktorsnáms, nema ákveðið sé í reglum þessum að tiltekinni deild sé heimilt að fela vísindanefnd félagsvísindasviðs að gegna því hlutverki að hluta eða öllu leyti, sbr. 69. gr. reglna nr. 569/2009 fyrir Háskóla Íslands. Fastanefndir deilda, eða vísinda­nefnd félags­vísinda­sviðs ef við á, hafa umsjón með inntöku og eftirliti með námsframvindu, skipan doktorsnefndar og fylgist með að samræmis sé gætt í verklagi og viðmiðum, kröfum og skyldum sem móta námið og umgjörð þess. Áður en skipaður er leiðbeinandi, eða tillaga gerð um slíka skipun, skal haft samráð við deildarforseta. Hafi deild falið vísindanefnd félagsvísindasviðs að gegna hlutverki fastanefndar skal vísindanefnd sviðs hafa samráð við fulltrúa viðkomandi deildar eftir því sem við á og getur nefndin fundað með fulltrúum fastanefndar eða námsbrautar til að ræða mál sem tengjast einstökum málum og doktorsverkefnum.

 

3. gr.

Umsóknarfrestur.

Um umsóknarfrest fer eftir reglum Háskóla Íslands. Nánari upplýsingar eru birtar í kennsluskrá Háskóla Íslands og á vef Háskóla Íslands.

 

4. gr.

Meðferð umsókna.

Umsókn skal skilað í viðeigandi innritunargátt Háskóla Íslands á sérstöku rafrænu eyðublaði. Fylgi­skjölum skal skilað á sama stað.

Stjórnsýsla félagsvísindasviðs fer yfir umsóknir og staðfestir að öll gögn fylgi umsókn. Fasta­nefndir deilda félagsvísindasviðs, eða vísindanefnd félagsvísindasviðs ef við á, fjalla um umsóknir og afgreiða þær í samræmi við sérreglur deilda. Fulltrúar deilda í vísindanefnd félagsvísindasviðs eru í forsvari fyrir umsóknir í eigin deildum, að höfðu samráði við deildarforseta í samræmi við 16. gr. reglna nr. 569/2009 fyrir Háskóla Íslands.

 

5. gr.

Almenn inntökuskilyrði.

Einstaklingur sem hefur lokið meistaraprófi (kandídatsprófi) með fyrstu einkunn að jafnaði eða sambærilegu prófi við viðurkenndan háskóla getur sótt um doktorsnám við deild á félagsvísinda­sviði. Að jafnaði skal meistaraprófið innihalda 30 ECTS lokaritgerð. Hafi umsækjandi ekki lokið meistaraprófi (kandídatsprófi) eða sambærilegu prófi með fyrstu einkunn skal viðkomandi sýna fram á hæfni sem er sambærileg að mati fastanefnda deilda eða vísindanefndar félagsvísindasviðs. Ein­stökum deildum félagsvísindasviðs er heimilt að setja skilyrði til viðbótar ofangreindum inntöku­skilyrðum.

Heimilt er að sækja um doktorsnám áður en meistaraprófi er lokið enda liggi fyrir staðfesting um námslok með fullnægjandi árangri áður en doktorsnám hefst. Doktorsnám getur þó aldrei hafist fyrr en meistaranámi er lokið.

Umsókn er samþykkt eða henni synjað á grundvelli undirstöðuþekkingar og faglegs bakgrunns umsækjanda ásamt mati á rannsóknarverkefninu, raunhæfni þess (svo sem tíma, umfangi, bjarg­ráðum, áhættuþáttum og fjármögnun) sem og sérþekkingu innan deildarinnar. Við inntöku skal taka mið af aðstöðu og svigrúmi innan deilda til að taka inn doktorsnema.

 

6. gr.

Einingafjöldi og tímalengd náms.

Doktorsnám á félagsvísindasviði er að lágmarki 180 einingar (ECTS) og að hámarki 210 einingar (ECTS) og samanstendur af doktorsritgerð og námskeiðum og öðru vinnuframlagi, sam­kvæmt nánari tilgreiningu í reglum þessum varðandi einstakar deildir. Námskeiðum skal almennt lokið á fyrstu tveimur árum doktorsnámsins, eða áður en 2/3 hlutum doktorsritgerðar er lokið.

Doktorsnemi skal ljúka doktorsnámi sínu við félagsvísindasvið á þremur til fimm árum en hámarks­námstími getur þó verið lengri ef sérstakar ástæður eiga við. Heimilt er að stunda hluta­nám hluta námstímans að fengnu samþykki doktorsnefndar og fastanefndar deildar eða eftir atvikum vísinda­nefndar félagsvísindasviðs og getur hámarksnámstími þá verið sjö ár, nema sérstakar ástæður eigi við. Telji doktorsnemi að sérstakar ástæður eigi við og óski eftir undanþágu frá framangreindum tímamörkum skal hann leggja fram beiðni um undanþágu til eins árs í senn til fasta­nefndar deildar eða eftir atvikum vísindanefndar félagsvísindasviðs eigi síðar en sex mánuðum áður en hámarks­námstíma er náð.

 

7. gr.

Tengsl meistara- og grunnnáms við doktorsnám.

Óheimilt er að nota meistararitgerð sem uppistöðu í doktorsritgerð. Þó er heimilt að halda áfram rannsóknum sem eru á sama eða skyldu rannsóknarsviði. Námskeið í grunnnámi BA- eða BS-námi eða samsvarandi námi geta aldrei verið hluti af bóknámi doktorsnema.

 

8. gr.

Leiðbeinandi.

Doktorsnemi skal frá upphafi náms hafa leiðbeinanda. Leiðbeinandi doktorsnema skal að jafnaði vera akademískur starfsmaður (prófessor, dósent eða lektor) viðkomandi deildar félags­vísinda­sviðs Háskóla Íslands. Leiðsögn með doktorsnemum eiga þeir einir að hafa sem lokið hafa doktorsprófi eða jafngildi þess. Leiðbeinendur skulu uppfylla kröfur sem gerðar eru til leiðbeinenda samkvæmt viðmiðum og kröfum um gæði doktorsnáms við Háskóla Íslands. Á félagsvísindasviði gegnir leið­beinandi að jafnaði hlutverki og skyldum umsjónarkennara samkvæmt reglum nr. 569/2009 fyrir Háskóla Íslands. Þegar við á getur doktorsnemi haft tvo leiðbeinendur, aðal­leiðbein­anda og með­­leiðbeinanda. Annar þeirra skal vera akademískur starfsmaður í viðkomandi grein og gegna skyldum umsjónarkennara.

Hlutverk leiðbeinanda er að veita doktorsnema leiðsögn við vinnslu doktorsverkefnis og fylgjast með vinnu hans. Doktorsnemi ráðfærir sig við leiðbeinanda um gerð rannsóknaráætlunar, skipulag námsins, val námskeiða og annað sem tengist náminu.

Komi upp ágreiningur milli nemanda og leiðbeinanda (eða doktorsnefndar) getur nemandi vísað málinu til deildarforseta, sbr. 16. gr. reglna nr. 569/2009 fyrir Háskóla Íslands. Fastanefnd deildar, eða vísindanefnd sviðs ef við á, skal benda nemanda á að unnt er að leita til umboðsmanns doktors­nema.

Hætti leiðbeinandi (eftir atvikum meðleiðbeinandi) störfum skal deild leitast við að útvega nýjan leiðbeinanda eftir því sem kostur er. Deildir eru þó ekki skuldbundnar til að útvega nýjan leið­beinanda.

 

9. gr.

Doktorsnefnd: skipan og hlutverk.

Doktorsnefnd skal skipuð leiðbeinanda, sem er formaður nefndarinnar og tveimur til fjórum sér­fræðingum á fræðasviði ritgerðar. Að minnsta kosti einn nefndarmanna skal vera utan háskólans (æski­legt er að hann sé frá erlendum háskóla eða rannsóknastofnun). Nefndarmenn skulu búa yfir sérfræði­þekkingu á sviði doktorsefnis og hafa doktorspróf eða jafngildi þess. Einn nefndarmann­anna, hið minnsta, skal skipaður áður en rannsóknaráætlun er skilað. Að öðru jöfnu skal doktors­nefnd vera fullskipuð að loknu miðbiksmati doktorsnema, sbr. 10. gr.

Hlutverk doktorsnefndar er að fylgjast með að framgangur námsins sé í samræmi við rann­sóknar- og námsáætlun og tryggja fagleg gæði. Doktorsnefnd fundar með doktorsnema eftir því sem þurfa þykir meðan á náminu stendur, þó ekki sjaldnar en einu sinni á ári. Doktorsnefnd ber ábyrgð á framkvæmd miðbiksmats doktorsnema, sbr. 10. gr. Áður en til doktorsvarnar getur komið skilar doktorsnefnd rökstuddu áliti til fastanefndar deildar, eða vísindanefndar sviðs ef við á, um hvort veita skuli doktorsnema heimild til þess að leggja ritgerð fram til doktorsvarnar.

 

10. gr.

Tilhögun náms og námsframvinda.

Doktorsnemi gerir, í samráði við leiðbeinanda, nákvæma rannsóknaráætlun og tímaáætlun, ásamt áætlun um dvöl erlendis eða alþjóðlega skírskotun doktorsnámsins með öðrum hætti.

Rannsóknaráætlun skal liggja fyrir eins fljótt og unnt er og eigi síðar en þremur mánuðum eftir upphaf náms. Áætlunin skal lögð fyrir doktorsnefnd til samþykktar sem þá er skipuð a.m.k. einum nefndarmanni auk leiðbeinanda. Náminu verður því aðeins fram haldið að nefndin samþykki áætlun­ina. Veigamiklar breytingar á rannsóknaráætlun og/eða tímaáætlun eru háðar samþykki doktors­nefndar og fastanefndar deildar, eða vísindanefndar félagsvísindasviðs ef við á.

Doktorsnemi skal virða samþykkta rannsóknaráætlun og tímamörk í námi. Doktorsnemar gangast undir miðbiksmat sem fer að jafnaði fram við lok annars námsárs. Vísindanefnd félags­vísinda­sviðs hefur eftirlit með námsframvindu doktorsnema og annast miðbiksmat í þeim deildum sem fela henni það.

Ef nemandi stundar hlutanám er heimilt að miðbiksmat fari fram í lok þriðja námsárs. Í miðbiks­mati er framkvæmt ítarlegt mat á þekkingu doktorsnemans. Athugasemdir doktorsnefndar skulu vera skriflegar og þeim skulu fylgja leiðbeiningar um úrbætur ef við á. Ef staða verkefnisins þykir óviðunandi að mati doktorsnefndar getur nefndin gefið nemandanum frest, að hámarki sex mánuði, til að gera úrbætur, að öðrum kosti verður námi ekki fram haldið. Ef doktorsnemi telur að athuga­semdir doktorsnefndar eigi ekki við rök að styðjast getur hann óskað eftir því að deildar­forseti fjalli um málið, sbr. 50. gr. reglna Háskóla Íslands nr. 569/2009.

Æskilegt er að doktorsnemar taki virkan þátt í málstofum doktorsnáms í sinni eigin deild, í mál­stofum doktorsnema á félagsvísindasviði, eða hvoru tveggja. Doktorsnemi kynni þannig eigin verk einu sinni á ári hið minnsta og taki virkan þátt í umfjöllun um verkefni annarra. Æskilegt er að doktors­­nemar komi rannsóknarverkefni sínu á framfæri erlendis og leggi af mörkum í fræðilegri umræðu á sínu fræðasviði.

Doktorsnemi skal skila skýrslu um námsframvindu samkvæmt reglum skólans. Rannsóknar­áætlun, tímaáætlun og virkni, svo sem þátttaka í málstofum og framlag til umræðu á eigin fræða­sviði, liggja til grundvallar þegar framvinda er metin.

 

11. gr.

Mat á námskeiðum og öðru vinnuframlagi doktorsnema.

Leiðbeinandi, í samráði við doktorsnefnd, samþykkir námskeið innan Háskóla Íslands og nám­skeið sem tekin eru við aðra háskóla. Eingöngu námskeið sem eru vottuð af háskólum og eru til eininga koma til greina. Nánar er mælt fyrir um mat á námskeiðum og öðru vinnuframlagi í ákvæðum er varða einstakar deildir í reglum þessum.

 

12. gr.

Kröfur til doktorsritgerða.

Doktorsnemi lýkur rannsókn með ritgerð. Doktorsritgerð er ýmist eitt heildstætt verk eða saman­stendur af vísindagreinum sem mynda samstæða heild. Hún skal uppfylla kröfur um vísinda­leg vinnu­brögð og vera sjálfstætt framlag til þekkingarsköpunar á fræðasviðinu. Doktorsritgerð skal að öðru jöfnu ekki vera lengri en 100 þúsund orð. Hún skal vera á ensku nema sérstök rök mæli gegn því. Sé sú leið valin að leggja fram doktorsritgerð sem samanstendur af vísindagreinum skal semja yfirlit (kápu) þar sem fjallað er um kenningar viðfangsefnis rannsóknarinnar og aðferðafræðilega nálgun ásamt því að dregnar eru saman heildarniðurstöður rannsóknarinnar. Samsett doktors­ritgerð skal, að yfirliti (kápu) undanskildu, að lágmarki vera þrjár vísindagreinar. Doktors­nemi skal vera aðalhöfundur tveggja greina hið minnsta. Fyrir aðrar greinar gildir að framlag doktors­nemans sé veigamikið. Gera skal grein fyrir framlaginu í yfirlýsingu sem fylgja skal ritgerð og er í samræmi við siðareglur háskólanna um vísindarannsóknir. Allar greinar skulu standast kröfur um alþjóðleg gæða­viðmið. Að öðru leyti er mælt fyrir um kröfur til doktorsritgerða í ákvæðum reglna þessara er gilda fyrir einstakar deildir.

 

13. gr.

Andmælendur.

Andmælendur við doktorsvörn skulu vera tveir óháðir aðilar, sem ekki eiga sæti í doktorsnefnd. Þeir skulu valdir af fastanefnd deildar eða vísindanefnd félagsvísindasviðs ef við á og samþykktir af Miðstöð framhaldsnáms. Viðkomandi nefnd getur óskað eftir tillögum frá leiðbeinanda og doktors­nefnd. Einungis þeir sem hafa lokið doktorsprófi eða jafngildi þess geta verið andmælendur við doktors­vörn á félagsvísindasviði. Báðir andmælendur skulu vera utan sviðs og er æskilegt, ef fært er vegna tungumáls, að þeir komi frá erlendum háskóla eða vísindastofnun.

 

14. gr.

Skil og frágangur doktorsritgerða.

Þegar doktorsnemi hefur lokið ritgerð sinni skal doktorsnefnd senda fastanefnd deildar, eða vísinda­nefnd sviðs ef við á, rökstutt erindi þess efnis að ritgerð sé tilbúin til varnar.

Telji fastanefnd deildar, eða vísindanefnd sviðs ef við á, ritgerð uppfylla formkröfur er hún send andmælendum í vel frágengnu lokahandriti a.m.k. þrem mánuðum áður en áformað er að vörn fari fram. Innan sex vikna skulu andmælendur hafa sent skrifstofu félagsvísindasviðs rökstudda umsögn um hvort ritgerðin sé tæk til varnar og ef við á ábendingar um það sem betur má fara og hvort nauðsynlegt er að gera tilteknar breytingar áður en vörn getur farið fram.

Forsendur þess að doktorsvörn fari fram er að doktorsefnið hafi gert nauðsynlegar lagfæringar og breytingar að dómi andmælenda og doktorsnefndar áður en vörn fer fram. Uni doktorsefni ekki niðurstöðu andmælenda og doktorsnefndar getur hann skotið máli sínu til deildarforseta, sbr. 50. gr. reglna nr. 569/2009 fyrir Háskóla Íslands.

Við skil og frágang á doktorsritgerð skal fylgt leiðbeiningum félagsvísindasviðs þar að lútandi og verklagsreglum um rafræn skil og vistun doktorsritgerða. Í ritgerðinni skal koma skýrt fram að rit­gerðin hafi verið unnin við Háskóla Íslands ásamt nafni deildar og fræðasviðs. Geta skal þeirra sjóða háskólans og annarra aðila sem hafa styrkt verkefnið. Hverri doktorsritgerð skal fylgja útdráttur á íslensku og ensku. Doktorsefni ber ábyrgð á prentun og útgáfu ritgerðar og skal hún liggja fyrir fjórum vikum fyrir vörn.

 

15. gr.

Námsferilsyfirlit.

Þegar doktorsritgerð er lögð fram skal jafnframt leggja fram námsferilsyfirlit doktorsnema sem deild og nemendaskrá ganga frá og staðfesta.

 

16. gr.

Skyldur nemenda.

Um réttindi og skyldur nemenda gilda ákvæði reglna nr. 569/2009 fyrir Háskóla Íslands, viðmiða og krafna um gæði doktorsnáms við Háskóla Íslands, siðareglna háskólanna um vísinda­rannsóknir og siðareglna Háskóla Íslands.

 

17. gr.

Doktorsvörn.

Doktorsefni skal verja ritgerð sína opinberlega á þeim degi sem viðkomandi deild ákveður. Rit­gerð skal dæmd og varin samkvæmt reglum Háskóla Íslands um doktorspróf. Ekki eru gefnar einkunnir fyrir doktorspróf, sbr. 61. gr. reglna fyrir Háskóla Íslands nr. 569/2009. Félagsvísindasvið setur nánari verklagsreglur um framkvæmd doktorsvarna.

 

II. KAFLI

Félagsfræði-, mannfræði- og þjóðfræðideild.

18. gr.

Vísindanefnd.

Vísindanefnd félagsfræði-, mannfræði- og þjóðfræðideildar gegnir hlutverki fastanefndar, sbr. 2. gr. Í vísindanefnd deildar eiga sæti einn fulltrúi frá hverri námsbraut deildar, eftir því sem við á.

Félagsfræði-, mannfræði- og þjóðfræðideild er heimilt á fundi að fela vísindanefnd félags­vísinda­sviðs að gegna hlutverki fastanefndar að hluta eða öllu leyti.

 

19. gr.

Einingafjöldi og tímalengd náms.

Doktorsnám við félagsfræði-, mannfræði- og þjóðfræðideild er 180 ECTS doktorsritgerð og 30 ECTS í námskeiðum á fræðasviðum doktorsverkefnis.

 

20. gr.

Doktorsnefnd.

Doktorsnefnd skal skipuð að tillögu leiðbeinanda og samþykkt af vísindanefnd félagsfræði-, mannfræði- og þjóðfræðideildar eða eftir atvikum vísindanefnd félagsvísindasviðs.

 

21. gr.

Doktorsritgerð.

Samsett doktorsritgerð skal að lágmarki vera þrjár vísindagreinar. Tvær greinar skulu hafa verið samþykktar til birtingar í ritrýndum viðurkenndum alþjóðlegum tímaritum. Þriðja greinin skal hafa verið send til birtingar í samsvarandi tímarit sem og, eftir atvikum, aðrar greinar. Doktorsnemi skal að lágmarki vera fyrsti höfundur tveggja greina og skal að minnsta kosti önnur þeirra vera sam­þykkt til birtingar.

 

III. KAFLI

Félagsráðgjafardeild.

22. gr.

Vísindanefnd.

Vísindanefnd félagsráðgjafardeildar gegnir hlutverki fastanefndar, sbr. 2. gr. Í vísindanefnd deildar eiga sæti þrír fulltrúar frá deild og skal formaður hennar vera fulltrúi deildar í vísindanefnd félagsvísindasviðs. Nefndin er kosin af deildarfundi. Félagsráðgjafardeild er heimilt á fundi að fela vísindanefnd félagsvísindasviðs að gegna hlutverki fastanefndar að hluta eða öllu leyti.

 

23. gr.

Einingafjöldi og tímalengd náms.

Doktorsnám við félagsráðgjafardeild er samsett úr 180 ECTS doktorsritgerð og 30 ECTS í nám­skeiðum í aðferðafræði og á fræðasviði doktorsverkefnis.

 

24. gr.

Málstofur í doktorsnámi.

Á meðan á doktorsnámi stendur skal nemandi gera grein fyrir eða kynna verkefni sitt á þremur málstofum sem hver um sig er forsenda fyrir næsta áfanga. Að málstofunum standa vísindanefnd deildar, leiðbeinandi og fastir kennarar deildar.

Fyrsta málstofa er haldin á fyrsta misseri doktorsnáms. Þar kynnir nemandi og ver rannsóknar­áætlun sína. Vísindanefnd deildar skipar andmælanda. Að kynningu lokinni þurfa nefndin og leið­beinandi að samþykkja rannsóknaráætlun. Að því búnu skipar vísindanefndin doktorsnefnd.

Önnur málstofa skal haldin þegar leiðbeinandi og doktorsnemi telja að verkið sé hálfnað. Þessi málstofa getur komið í stað miðbiksmats. Vísindanefnd skipar andmælanda, sem ekki er í doktors­nefnd en er kennari við annan háskóla eða aðra deild. Að lokinni málstofu skilar andmælandi skrif­legri greinargerð um efnið, efnistök og gagnasöfnun.

Þriðja málstofa skal haldin þegar doktorsnefnd telur að doktorsritgerð sé á lokastigi. Vísinda­nefnd skipar andmælanda sem er ekki í doktorsnefnd og utan deildar. Hann skilar munnlegri og skriflegri greinargerð um hvað megi betur fara í lokahandriti til doktorsnema og doktorsnefndar. Að því búnu tekur doktorsnefnd ákvörðun um hvort ritgerð er tæk til varnar.

 

25. gr.

Leiðbeinandi og doktorsnefnd.

Doktorsnefnd skal skipuð af deild að tillögu leiðbeinanda og samþykkt af vísindanefnd félags­ráðgjafardeildar. Doktorsnefnd skal skipuð leiðbeinanda og tveimur til fjórum sérfræðingum á fræða­sviðinu. Að minnsta kosti einn þeirra skal vera utan deildar. Leiðbeinandi er formaður doktors­­nefndar.

 

26. gr.

Doktorsritgerð.

Doktorsritgerð skal vera á ensku nema sérstök rök mæli gegn því. Ef doktorsnemi óskar eftir að skrifa ritgerð á öðru tungumáli þarf hann að sækja um undanþágu til vísindanefndar deildar með rökstuðningi. Ef doktorsritgerð er samsett skal hún að lágmarki vera þrjár vísindagreinar. Doktors­nemi skal vera aðalhöfundur (þ.e. að jafnaði fyrsti höfundur) tveggja greina hið minnsta. Tvær greinar skulu hafa verið samþykktar til birtingar og hinar skulu hafa verið sendar til birtingar í ritrýndum viður­kenndum alþjóðlegum tímaritum. Doktorsnemi skal vera fyrsti höfundur hið minnsta að annarri sam­þykktu greininni.

 

IV. KAFLI

Hagfræðideild.

27. gr.

Vísindanefnd.

Í hagfræðideild starfar vísindanefnd sem gegnir hlutverki fastanefndar, sbr. 2. gr. Í vísindanefnd hagfræðideildar sitja fulltrúi deildar í vísindanefnd félagsvísindasviðs og a.m.k. tveir aðilar sem kosnir eru á deildarfundi. Samráð skal haft við deildarforseta eftir því sem við á. Skipað skal í nefndina til þriggja ára í senn. Hagfræðideild er heimilt að fela vísindanefnd félagsvísindasviðs að gegna hlutverki fastanefndar að hluta eða öllu leyti.

 

28. gr.

Inntökuskilyrði.

Meistarapróf í hagfræði með góðum árangri er að jafnaði skilyrði fyrir inntöku í doktorsnám við hagfræðideild. Ef um þverfaglegt doktorsnám er að ræða er heimilt að samþykkja umsókn umsækj­anda með meistarapróf af öðru fræðasviði. Í slíkum tilvikum skal inntaka nemanda byggjast á sér­stökum rökstuðningi fyrir því að skráning í hagfræðideild sé hinu þverfaglega doktorsnámi til framdráttar. Við inntöku ákveða leiðbeinandi og vísindanefnd félagsvísindasviðs hvort nemandi þurfi að taka námskeið á fræðasviði doktorsverkefnis.

 

29. gr.

Uppbygging doktorsnáms.

Doktorsnám felst að jafnaði í sérhæfingu í námskeiðum og sjálfstæðri rannsókn sem lýkur með doktorsritgerð. Doktorsnám við hagfræðideild er 180 ECTS doktorsritgerð, auk allt að 30 ECTS í námskeiðum á fræðasviði doktorsverkefnis samkvæmt ákvörðun leiðbeinanda og vísindanefndar félagsvísindasviðs við inntöku. Vísindanefnd félagsvísindasviðs getur, að höfðu samráði við leið­beinanda, gert kröfu um að nemandi ljúki tilteknum námskeiðum. Verði ágreiningur á milli leið­beinanda og doktorsnefndar, ræður álit vísindanefndar félagsvísindasviðs. Hluti námskeiðanna geta verið lesnámskeið og skal þá vísindanefnd félagsvísindasviðs tilnefna umsjónarmann eða menn með hverju námskeiði í samráði við deildarforseta. Umsjónarmenn ákveða kröfur í viðkomandi nám­skeiðum og skera úr um hvort nemandi hafi staðist þær. Æskilegt er að doktorsnemi stundi hluta náms síns við viðurkennda erlenda mennta- eða rannsóknastofnun.

 

30. gr.

Doktorsnefnd.

Vísindanefnd félagsvísindasviðs skipar doktorsnema doktorsnefnd eftir að hann hefur lagt fram rannsóknaráætlun. Doktorsnefnd skal skipuð að tillögu umsjónarkennara (aðalleiðbeinanda). Í doktors­nefnd skal vera a.m.k. einn prófessor.

 

31. gr.

Námsmat og eftirlit með námsframvindu.

Vísindanefnd félagsvísindasviðs hefur eftirlit með námsframvindu doktorsnema hagfræðideildar og annast miðbiksmat þeirra.

Nemar í doktorsnámi skulu halda hið minnsta eina málstofu á ári í deildinni. Æskilegt er að doktors­efni reyni að koma vinnu sinni á framfæri erlendis og taki þátt í fræðilegum fundum og ráð­stefnum sem tengjast efni hans eða hennar.

Leiðbeinandi, doktorsnefnd og vísindanefnd félagsvísindasviðs geta, saman eða hver í sínu lagi, kannað almenna fræðilega þekkingu doktorsefnis á viðkomandi sviði.

 

32. gr.

Kröfur til doktorsritgerða.

Efni lokaritgerða skal vera hæft til útgáfu í alþjóðlegum ritrýndum tímaritum í hagfræði.

 

V. KAFLI

Lagadeild.

33. gr.

Skipan og hlutverk vísindanefndar.

Deildarfundur í lagadeild kýs þriggja manna vísindanefnd sem gegnir hlutverki fastanefndar, sbr. 2. gr.

 

34. gr.

Viðbótarinntökuskilyrði.

Sá sem hefur lokið grunnnámi og meistaraprófi (kandídatsprófi) eða sambærilegum prófum í lögfræði frá Háskóla Íslands eða öðrum viðurkenndum háskóla getur sótt um að hefja doktorsnám við lagadeild.

Vísindanefnd getur gert það að skilyrði að umsækjandi sanni færni sína í því tungumáli sem hann óskar eftir að skrifa doktorsritgerð á með því að láta hann gangast undir próf eða leggja fram sérstakt vottorð þar að lútandi.

Sá sem hefur stundað doktorsnám í lögfræði við annan viðurkenndan háskóla getur sótt um að hefja doktorsnám við lagadeild enda liggi fyrir mat vísindanefndar á fyrra námi.

 

35. gr.

Einingafjöldi og tímalengd náms.

Doktorsnám við lagadeild er 180 einingar (ECTS). Samhliða samningu ritgerðar skal doktors­nemi stunda nám eins og gert er ráð fyrir í rannsóknaráætlun. Námskeið, verkefni og annað framlag doktors­nema skal jafngilda 30 af 180 einingum (ECTS) en doktorsritgerð 150 einingum (ECTS).

Námskeið sem doktorsnema er skylt að sækja skulu m.a. vera fólgin í fræðslu um undirstöðu­þekkingu á sviði lögfræðirannsókna, þ. á m. rannsóknaraðferðir. Ef, að mati leiðbeinanda og doktors­nefndar, er talin þörf á að bæta enn frekar við undirstöðuþekkingu doktorsnema er heimilt að gera kröfu um að hann leggi stund á bóknám sem svari til allt að 30 eininga (ECTS), auk framan­greindra 180 eininga.

 

36. gr.

Mat á námskeiðum og öðru vinnuframlagi doktorsnema.

Við mat á námskeiðum og öðru vinnuframlagi doktorsnema skal fylgja eftirfarandi viðmiðum:

 1. Námskeið ætluð doktorsnemum sem haldin eru á vegum norræna samstarfsnetsins Jurforsk Nordic (e. Nordic Network for Legal Research Education) skulu metin til eininga (ECTS) í samræmi við það sem tilgreint er í námskeiðslýsingu og/eða kennsluáætlun.
 2. Einnig er hægt að meta til eininga:
  1. Námskeið, ráðstefnur, málstofur og sumarskóla sem beint er að doktors­nemum/rann­sak­endum, þ. á m. doktorsnámskeið sem haldin eru fyrir doktorsnema annarra háskóla en þeirra sem falla undir norræna samstarfsnetið sem tilgreint er í 1. tölul.
  2. Námskeið á vegum viðurkenndrar menntastofnunar á háskólastigi á öðru fræðasviði en lögfræði og kynnir doktorsnema fyrir nýju fræðasviði sem þýðingu hefur fyrir rannsókn hans, t.d. á sviði tölfræði, hagfræði, félagsfræði, stjórnmálafræði, mál­fræði, lýð­heilsu o.s.frv.
  3. Kennsla við lagadeild viðurkennds háskóla að hámarki til 6 eininga (ECTS).
  4. Að öðru leyti skal kennsla og fræðslustarf að jafnaði ekki metið til eininga nema því sé beint að doktorsnemum/rannsakendum og hafi þýðingu fyrir rannsókn doktorsnemans.
 3. Mat á einingum fyrir þátttöku í námskeiðum og öðru samkvæmt 2. tölul. skal ákveðið með svofelldum hætti:
  1. Hver eining (ECTS) svarar til 25 vinnustunda, þar sem unnt er að meta til eininga undirbúning (t.d. skyldulesefni), mætingu, virka þátttöku (t.d. fyrirlestur eða fram­sögu) og eftirfylgni (t.d. skýrslugjöf).
  2. Styttri kynningar doktorsnema á eigin rannsókn eru ekki metnar til eininga.
  3. Formleg fræðileg kynning á rannsókn doktorsnema (t.d. undanfarandi kynning fyrir doktorsvörn) skal metin til 1–2 eininga (ECTS) eftir umfangi.
  4. Sjálfstæður fyrirlestur eða kynning á ráðstefnu skal metin til 1–2 eininga (ECTS) eftir umfangi.
  5. Að jafnaði skal hver heill dagur á námskeiði, ráðstefnu o.s.frv. metinn til 1 einingar (ECTS). Í undantekningartilvikum er heimilt að veita 2 einingar (ECTS) eða meira fyrir hvern dag af námskeiðum sem krefjast mikils undirbúnings og/eða mikillar virkrar þátttöku af hálfu þátttakenda.
 4. Að lágmarki 12 einingar (ECTS) skulu vera vegna þátttöku í námskeiðum um undir­stöðu­þekkingu á sviði lögfræðirannsókna, þ. á m. rannsóknaraðferðir.
 5. Að öðru leyti skal við mat á einingum samkvæmt þessari grein styðjast við leiðbeiningar JurForsk.

Doktorsnemi ber ábyrgð á að halda saman öllum gögnum sem máli skipta, s.s. bréfum, lýsing­um á námskeiðum, dagskrám ráðstefna og málstofa, viðurkenningum, staðfestingum og öðru sem máli getur skipt vegna matsins.

Doktorsnemi leitar bréflega eftir því að vísindanefnd meti vinnu til eininga. Beiðni skal fylgja stutt greinargerð og rökstuðningur ef 2. eða 3. liður 1. mgr. á við.

Að fenginni tillögu vísindanefndar um afgreiðslu tekur deildarfundur ákvörðun um hvort doktors­nemi hafi lagt fram fullnægjandi gögn og skýringar og skal deild tilkynna ákvörðunina bréf­lega.

 

37. gr.

Afgreiðsla umsóknar og leiðbeinandi.

Deildarfundur tekur afstöðu til umsóknar um doktorsnám, að fenginni skriflegri umsögn vísinda­nefndar. Ef fallist er á umsókn skal deildarfundur skipa leiðbeinanda samhliða þeirri afgreiðslu, að fenginni tillögu vísindanefndar.

Deildarfundur getur heimilað, að tillögu vísindanefndar, að doktorsnemi hafi tvo leiðbeinendur, aðalleiðbeinanda og meðleiðbeinanda. Aðalleiðbeinandi er þá jafnframt umsjónarkennari doktors­nemans. Skipun aðalleiðbeinanda og meðleiðbeinanda ef við á er háð samþykki vísindanefndar og skal kynnt á deildarfundi.

Mögulegt er að sækja um undanþágu frá reglu um að aðalleiðbeinandi sé fastráðinn akadem­ískur starfsmaður (prófessor, dósent eða lektor) við lagadeild. Skal þá sótt um það til deildar. Skal þá með­leiðbeinandi vera fastur akademískur starfsmaður deildar og gegna hlutverki og skyldum umsjónar­kennara.

 

38. gr.

Kröfur til doktorsritgerða.

Doktorsritgerð í lagadeild getur verið ritgerð eða safn fræðigreina sem mynda samstæða heild. Lengd ritgerða skal taka mið af efni og uppbyggingu hverju sinni. Ef doktorsritgerð er skrifuð á íslensku skal útdráttur og samantekt vera á ensku eða öðru tungumáli.

Ef doktorsritgerð samanstendur af fræðigreinum skulu þær að lágmarki vera þrjár, að jafnaði þrjár til fimm, eða fleiri ef um fjölhöfundagreinar er að ræða, og skal a.m.k. hluti þeirra birtur á erlendum vettvangi. Að jafnaði skulu greinarnar vera birtar áður en vörn doktorsritgerðar fer fram. Þó er heimilt að ljúka doktorsnámi þó birting greina hafi ekki átt sér stað enda liggi fyrir staðfesting ritstjórnar viðkomandi tímarits eða bókar á því að ritrýni sé lokið og greinin sé samþykkt til birtingar.

Í upphafi doktorsritgerðar sem samanstendur af fræðigreinum skal vera sérstök yfirlitsgrein (kápa), sbr. 6. málslið 12. gr.

 

VI. KAFLI

Stjórnmálafræðideild.

39. gr.

Vísindanefnd.

Vísindanefnd stjórnmálafræðideildar gegnir hlutverki fastanefndar. Stjórnmálafræðideild er heimilt á fundi að fela vísindanefnd félagsvísindasviðs að gegna hlutverki fastanefndar að hluta eða öllu leyti.

 

40. gr.

Einingafjöldi.

Doktorsnám við stjórnmálafræðideild samanstendur af 180 ECTS doktorsritgerð og 30 ECTS í námskeiðum á fræðasviðum doktorsverkefnis.

 

41. gr.

Doktorsnefnd.

Doktorsnefnd skal skipuð að tillögu leiðbeinanda og samþykkt af vísindanefnd deildar, eða eftir atvikum vísindanefnd félagsvísindasviðs.

 

42. gr.

Doktorsritgerð.

Samsett doktorsritgerð skal að lágmarki vera þrjár vísindagreinar. Tvær greinar skulu hafa verið samþykktar til birtingar í ritrýndum viðurkenndum alþjóðlegum tímaritum viðkomandi fræðasviðs. Doktorsnemi skal vera aðalhöfundur hið minnsta að annarri samþykktu greininni. Ein grein til við­bótar, hið minnsta, skal hafa verið send til ritrýningar.

 

VII. KAFLI

Viðskiptafræðideild.

43. gr.

Doktorsnámsnefnd.

Doktorsnámsnefnd viðskiptafræðideildar gegnir hlutverki fastanefndar. Viðskipafræðideild er heimilt á fundi að fela vísindanefnd félagsvísindasviðs að gegna hlutverki fastanefndar að hluta eða öllu leyti.

 

44. gr.

Einingafjöldi.

Doktorsnám við viðskiptafræðideild er 180 einingar (ECTS), þ.e. doktorsritgerð sem er 180 einingar og eftir atvikum doktorsnámskeið sem ákveðin eru af leiðbeinanda í samráði við nemanda. Námskeiðseiningar eru ekki hluti af einingafjölda doktorsnáms. Málstofur doktorsnema í viðskipta­fræðideild eru skyldunámskeið meðan á doktorsnámi stendur. Leiðbeinandi getur jafnframt farið fram á að doktorsnemi taki námskeið á meistarastigi sem lið í undirbúningi sínum.

 

45. gr.

Málstofur.

Doktorsnemendur í viðskiptafræðideild þurfa á meðan doktorsnámi stendur að kynna verkefni sín, að lágmarki, einu sinni á ári á doktorsmálstofu deildar. Kynning verkefna á doktorsmálstofu er skylda og fá nemendur 2 ECTS einingar fyrir hverja málstofu. Fullnægjandi námsárangri hvers árs telst ekki náð fyrr en lágmarkskrafan er uppfyllt.

 

46. gr.

Doktorsritgerð.

Um samsettar doktorsritgerðir gildir eftirfarandi:

Fjöldi greina: Fjórar.

Samþykktar til birtingar: Af þessum fjórum skulu tvær greinar vera samþykktar til birtingar og þriðja greinin komin vel áleiðis í ritrýniferli, þ.e. samþykki fyrir endurvinnslu og endursendingu til ritstjórnar tímarits (e. revise and resubmit) og sú fjórða send á tímarit.

Greinar birtar í alþjóðlegum viðurkenndum tímaritum: Birtingarvettvangur greinanna skal standast viðmið Scopus, Web of Science eða efsta flokks í norrænum gagnagrunnum.

Doktorsritgerð sem heildstætt verk: Ef nemandi velur að skrifa eitt heildstætt verk (e. mono­graph) skal framlag að baki því verki vera sambærilegt ofantöldum kröfum.

 

47. gr.

Gildistaka.

Reglur þessar eru settar í samræmi við 47. og 68.–69. gr. reglna nr. 569/2009 fyrir Háskóla Íslands og með heimild í lögum nr. 85/2008 um opinbera háskóla. Reglurnar hafa verið samþykktar af deildum félagsvísindasviðs og stjórn fræðasviðsins og Miðstöð framhaldsnáms, sbr. 66. og 69. gr. reglna fyrir Háskóla Íslands nr. 569/2009. Reglurnar öðlast þegar gildi og falla þá jafnframt úr gildi reglur nr. 500/2011 um doktorsnám við félagsvísindasvið Háskóla Íslands. Reglurnar gilda um doktors­nema sem skráðir eru til náms eftir gildistöku þeirra og einnig um alla doktorsnema sem skráðir eru til náms við gildistöku reglnanna, nema að því leyti sem eldri reglur eru nemandanum hagfelldari.

 

Háskóla Íslands, 8. apríl 2024.

 

Jón Atli Benediktsson.

Þórður Kristinsson.


B deild - Útgáfud.: 22. apríl 2024