Velkomin á vef Stjórnartíðinda
Setja síðu í 1024px vídd Setja síðu í 1280px vídd Setja síðu í 1400px vídd Fyrir sjónskerta Venjulegt letur Stækka letur Stækka letur enn meira

Sé munur á uppsetningu texta hér að neðan og í PDF skjali gildir PDF skjalið.
 1036/2018

Nr. 1036/2018 7. nóvember 2018

REGLUGERÐ
um eftirlit og eftirfylgni vegna þjónustu við fatlað fólk með langvarandi stuðningsþarfir.

I. KAFLI

Almenn ákvæði.

1. gr.

Gildissvið.

Reglugerð þessi gildir um eftirlit með framkvæmd laga nr. 38/2018, um þjónustu við fatlað fólk með langvarandi stuðningsþarfir, framkvæmd þjónustu við fatlað fólk og eftirfylgni vegna hennar.

2. gr.

Markmið.

Eftirlit með framkvæmd þjónustu við fatlað fólk skal miða að því að fatlað fólk fái nauðsynlegan stuðning til þess að geta notið fullra mannréttinda til jafns við aðra og að því séu sköpuð skilyrði til sjálfstæðs lífs á eigin forsendum. Með virku eftirliti er stuðlað að því að skuldbindingar á sviði mannréttindamála og lög og reglugerðir settar samkvæmt þeim nái markmiði sínu auk þess að tryggja réttindi fatlaðs fólks. Markmið eftirlitsins er jafnframt að safna og miðla upplýsingum til að tryggja fötluðum einstaklingum sambærilega þjónustu í ljósi ólíkra þarfa og óháð búsetu.

II. KAFLI

Eftirlit.

3. gr.

Kerfisbundin söfnun upplýsinga og gagnagrunnar.

Ráðuneytið annast gagnasöfnun, gagnavinnslu og umsýslu í þeim mæli sem þörf krefur vegna eftirlits þess. Meðal gagna sem afla skal vegna eftirlits og úttekta eru gögn úr matstækjum og tölfræðiupplýsingar. Við eftirlit skal einnig horfa til rannsóknarniðurstaðna og gagna sem safnað er af hálfu þriðja aðila.

Sveitarfélögum er skylt að láta ráðuneytinu í té þær upplýsingar og gögn sem nauðsynleg eru vegna eftirlits.

4. gr.

Eftirlit með þjónustu.

Ráðuneytið getur framkvæmt úttekt á tiltekinni þjónustu sem veitt er á grundvelli laga um þjónustu við fatlað fólk með langvarandi stuðningsþarfir. Úttekt getur meðal annars verið unnin í kjölfar ábendinga eða til að ganga úr skugga um að þjónusta sé í samræmi við kröfur í kröfulýsingu eða gæðaviðmið séu uppfyllt.

Til að unnt sé að viðhafa skilvirkt eftirlit með því að framkvæmd samninga sveitarfélaga við einka­aðila samræmist markmiðum laganna skal kröfulýsing fylgja samningi eða ítarleg þjón­ustu­lýsing koma fram í samningi. Við framkvæmd eftirlits skal meðal annars horfa til samn­inga, kröfu­lýsinga, gæðaviðmiða og árangursmælikvarða, eftir því sem við á. Til að auðvelda mat á þjónustu og gera það markvissara skal sérstaklega vanda til gerðar þessara þátta og þeir settir fram á eins skýran og einfaldan hátt og mögulegt er.

Eftirlit ráðuneytisins kemur ekki í stað eftirlitsskyldu sveitarfélags gagnvart starfsemi á vegum sveitarfélagsins, hvort sem um er að ræða samning um þjónustu þriðja aðila eða þjónustustarfsemi í rekstri sveitarfélagsins.

Ábyrgðaraðili skal skila umbeðnum gögnum um starfsemina til ráðuneytisins innan fjögurra vikna frá dagsetningu beiðni þar um.

III. KAFLI

Eftirfylgni.

5. gr.

Miðlun niðurstaðna eftirlits.

Leiði eftirlit í ljós vankanta á þjónustu sem hindra að markmið laganna náist, óskar ráðuneytið eftir tillögum þjónustuveitanda um úrbætur eða gerir tillögur um úrbætur á þjónustu. Þjónustuveitandi skal bregðast við ábendingum um úrbætur og stuðla þannig að bestu framkvæmd þjónustu á hverjum tíma. Þjónustuveitandi skal, innan 10 virkra daga frá ábendingu um það sem betur má fara, gera grein fyrir tímasettri áætlun um úrbætur. Telji þjónustuveitandi sér ekki skylt að bregðast við skal hann rökstyðja þá ákvörðun sína.

Ráðuneytið skal ávallt miðla niðurstöðum úttekta og eftirlits til viðkomandi sveitarfélags og þjón­ustu- og rekstraraðila innan fjögurra vikna frá lokum gagnaöflunar.

6. gr.

Önnur úrræði.

Komi upp tilvik þar sem eftirlit leiðir í ljós að sveitarfélag vanrækir lögbundnar skyldur, svo sem skil á upplýsingum, að framkvæmd þjónustu við fatlað fólk sé ábótavant eða að reglur sveitarfélags samræmist ekki markmiðum laganna, skal ráðuneytið gera viðkomandi sveitarstjórn viðvart. Ráðu­neytið skal koma með ábendingar og tillögur um úrbætur og gefa sveitarfélagi frest til þess að bæta úr.

Bregðist sveitarfélag ekki við ábendingum með úrbótum er ráðherra heimilt að leggja til við ráðherra sveitarstjórnarmála að stjórnsýslueftirliti með sveitarfélaginu verði framfylgt í samræmi við ákvæði XI. kafla sveitarstjórnarlaga, nr. 138/2011.

7. gr.

Gildistaka.

Reglugerð þessi, sem er sett með stoð í 4. og 40. gr. laga nr. 38/2018, um þjónustu við fatlað fólk með langvarandi stuðningsþarfir, öðlast gildi 7. nóvember 2018.

Velferðarráðuneytinu, 7. nóvember 2018.

Ásmundur Einar Daðason
félags- og jafnréttismálaráðherra.

Ellý Alda Þorsteinsdóttir.


B deild - Útgáfud.: 26. nóvember 2018