Velkomin á vef Stjórnartíðinda
Setja síðu í 1024px vídd Setja síðu í 1280px vídd Setja síðu í 1400px vídd Fyrir sjónskerta Venjulegt letur Stækka letur Stækka letur enn meira

Sé munur á uppsetningu texta hér að neðan og í PDF skjali gildir PDF skjalið.
 223/2019

Nr. 223/2019 5. mars 2019

REGLUR
um bindingu reiðufjár vegna nýs innstreymis erlends gjaldeyris.

1. gr.

Skilgreining hugtaka.

Í reglum þessum er merking hugtaka sem hér segir:

Bindingarmiðlari: Innlánsstofnun sem er aðili að stórgreiðslukerfi Seðlabanka Íslands.

Bindingarfjárhæð: Margfeldi bindingargrunns og bindingarhlutfalls.

Bindingarreikningur: Reikningur hjá innlánsstofnunum hér á landi, sem auðkenndur er með höfuð­bók 24.

Bindingartími: Það tímabil sem bindingarfjárhæð skal vera bundin á bindingarreikningi og tímalengd samnings um endurhverf viðskipti.

Endurhverf viðskipti: Kaup bindingarmiðlara á innstæðubréfi af Seðlabanka Íslands fyrir bind­ingar­fjárhæð að frumkvæði bindingarskylds aðila með sölurétti til Seðlabankans að bindingar­tíma liðnum á verði sem ákvarðast af vöxtum á innstæðubréfinu.

Fjárstreymisreikningur: Bundinn reikningur innlánsstofnunar hjá Seðlabanka Íslands sem varslar fjárhæð sem samsvarar heildarbindingarfjárhæðum sem viðkomandi innlánsstofnun varslar á bind­ingar­reikningum.

Innstæðubréf: Skuldabréf sem útgefin eru af Seðlabanka Íslands, sbr. ákvæði til bráðabirgða III í lögum um gjaldeyrismál.

Nýtt innstreymi erlends gjaldeyris: Erlendur gjaldeyrir sem berst hingað til lands eftir 4. júní 2016. Eftirfarandi telst ekki til nýs innstreymis erlends gjaldeyris: innstæður á gjaldeyrisreikningum hjá innlendum fjármálafyrirtækjum, sem urðu til fyrir 5. júní 2016, tekjur vegna útflutningsviðskipta og annar skilaskyldur erlendur gjaldeyrir, sbr. 13. gr. l laga um gjaldeyrismál.

2. gr.

Bindingarskylda.

Skylt er að binda reiðufé vegna nýs innstreymis erlends gjaldeyris samkvæmt reglum þessum. Til bindingarskyldu stofnast þegar bindingargrunnur myndast, sbr. þó 2. mgr. 4. gr.

3. gr.

Bindingargrunnur.

Nýtt innstreymi erlends gjaldeyris í tengslum við eftirfarandi fjármuni mynda bindingargrunn bind­ingarskylds aðila:

 1. Nýfjárfestingar og endurfjárfestingar þeirra skv. 13. gr. m laga um gjaldeyrismál í skulda­bréfum eða víxlum útgefnum í innlendum gjaldeyri, sem eru rafrænt skráð samkvæmt lögum um rafræna eignarskráningu verðbréfa, eða sem ráðstafað er í innstæður í innlendum gjaldeyri hjá innlánsstofnunum hér á landi sem bera 3,00% ársvexti eða hærri.
 2. Innstæður í innlendum gjaldeyri hjá innlánsstofnunum hér á landi, aðrar en þær sem eru til komnar vegna fjármuna sem:
  1. eru endurfjárfestanlegir skv. 13. gr. e laga um gjaldeyrismál;
  2. falla undir 13. gr. l eða 13. gr. m laga um gjaldeyrismál; eða
  3. bera lægri en 3,00% ársvexti og eru ekki nýttar, beint eða óbeint, til fjárfestinga í skuldabréfum eða víxlum, útgefnum í innlendum gjaldeyri, sem eru rafrænt skráð samkvæmt lögum um rafræna eignarskráningu verðbréfa, hlutdeildarskírteinum sjóða sem fjárfesta í skuldabréfum eða víxlum, útgefnum í innlendum gjaldeyri, sem eru rafrænt skráð samkvæmt lögum um rafræna eignarskráningu verðbréfa, eða eiga innstæður í innlendum gjaldeyri hjá innlánsstofnun hér á landi ef samanlagt hlutfall reiðufjár og innlána, sem bera 3,00% ársvexti eða hærri, í eignasamsetningu sjóða er 10% hærra, eða í eigin fé fyrirtækis sem ráðstafað er, beint eða óbeint, í framan­greindum fjárfestingum.
 3. Nýfjárfestingar og endurfjárfestingar þeirra skv. 13. gr. m laga um gjaldeyrismál í hlut­deildar­skírteinum sjóða sem fjárfesta í skuldabréfum eða víxlum útgefnum í innlendum gjald­eyri, sem eru rafrænt skráð samkvæmt lögum um rafræna eignarskráningu verðbréfa, eða eiga innstæður í innlendum gjaldeyri hjá innlánsstofnunum hér á landi ef samanlagt hlutfall reiðufjár og innlána, sem bera 3,00% ársvexti eða hærri, í eignasamsetningu sjóða er 10% eða hærra.
 4. Nýfjárfestingar og endurfjárfestingar þeirra skv. 13. gr. m laga um gjaldeyrismál í eigin fé fyrirtækis sem er gerð í þeim tilgangi að fjárfesta, beint eða óbeint, í skuldabréfum eða víxlum útgefnum í innlendum gjaldeyri, sem eru rafrænt skráð samkvæmt lögum um raf­ræna eignarskráningu verðbréfa, eða sem er gerð í þeim tilgangi að ráðstafa, beint eða óbeint, í innstæður í innlendum gjaldeyri, sem bera 3,00% ársvexti eða hærri.
 5. Lánveitingar til innlends aðila sem nýttar eru til fjárfestinga í innlendum gjaldeyri í þágu lánveitanda í skuldabréfum eða víxlum útgefnum í innlendum gjaldeyri, sem eru rafrænt skráð samkvæmt lögum um rafræna eignarskráningu verðbréfa, eða ráðstafað er í inn­stæður í innlendum gjaldeyri hjá innlánsstofnun hér á landi og sem bera 3,00% ársvexti eða hærri. Hið sama á við um slíkar lánveitingar sem nýttar eru til fjárfestinga í hlut­deildar­skírteinum sjóða sem fjárfesta í skuldabréfum eða víxlum, útgefnum í innlendum gjaldeyri, sem eru rafrænt skráð samkvæmt lögum um rafræna eignarskráningu verðbréfa, eða eiga innstæður í innlendum gjaldeyri hjá innlánsstofnunum hér á landi, ef samanlagt hlutfall reiðufjár og innlána, sem bera 3,00% ársvexti eða hærri, í eignasamsetningu sjóða er 10% eða hærra, eða í eigin fé fyrirtækis sem fjárfest eða ráðstafað er, beint eða óbeint, með þeim hætti sem lýst er í 1. málsl.

4. gr.

Bindingarskyldir aðilar.

Eftirfarandi aðilar eru bindingarskyldir á grundvelli reglna þessara:

 1. Skráður eigandi skuldabréfs eða víxils skv. 1., 2., 4. og 5. tölul. 3. gr.
 2. Skráður eigandi innstæðna skv. 1., 2., 4. og 5. tölul. 3. gr.
 3. Skráður eigandi hlutdeildarskírteinis skv. 2.–5. tölul. 3. gr.

Einstaklingi, sem er skráður eigandi skv. 1.–3. tölul. 1. mgr., skal heimilt að ráðstafa nýju inn­streymi erlends gjaldeyris skv. 3. gr., að samanlögðu jafnvirði allt að 100.000.000 kr. án þess að slík ráðstöfun verði háð bindingarskyldu samkvæmt reglum þessum. Heimild þessi er háð því skil­yrði að einstaklingur sé raunverulegur eigandi þeirra fjármuna sem um ræðir.

Ef samanlagt jafnvirði ráðstöfunar einstaklings skv. 3. gr. fer yfir fjárhæðarmark skv. 2. mgr. eins og það stendur á hverjum tíma er einungis sá hluti nýs innstreymis erlends gjaldeyris sem fer umfram fjárhæðarmarkið háður bindingarskyldu samkvæmt reglum þessum.

5. gr.

Bindingarhlutfall.

Bindingarhlutfall 0% á við um eftirfarandi liði í bindingargrunni:

 1. Skuldabréf eða víxlar skv. 1., 2., 4. og 5. tölul. 3. gr.
 2. Innstæður skv. 1., 2., 4. og 5. tölul. 3. gr.
 3. Hlutdeildarskírteini skv. 2.–5. tölul. 3. gr.

6. gr.

Framkvæmd bindingarskyldu.

Bindingarskyldu skal uppfylla innan tveggja vikna frá því til hennar stofnast, með öðrum hvorum eftirfarandi hætti:

 1. Með ráðstöfun bindingarskylds aðila á bindingarfjárhæð á bindingarreikning hjá innláns­stofnun hér á landi.
 2. Með endurhverfum viðskiptum bindingarmiðlara fyrir bindingarfjárhæð.

Bindingarfjárhæð helst óbreytt út upphaflegan bindingartíma.

Uppgjörsmynt bindingarfjárhæðar skal vera íslenskar krónur.

Óheimilt er að losa bindingarfjárhæð eða breyta samningi um endurhverf viðskipti á bindingartíma. Þrátt fyrir það er heimilt að framselja samning um endurhverf viðskipti milli bindingarmiðlara, enda sé slíkt framsal tilkynnt til Seðlabanka Íslands á sama tíma.

7. gr.

Bindingartími.

Bindingartími skal vera 12 mánuðir og hefst þann viðskiptadag sem bindingarskylda er uppfyllt.

Að bindingartíma liðnum er bindingarfjárhæð laus til ráðstöfunar af bindingarreikningi eða með nýtingu söluréttar samkvæmt samningi um endurhverf viðskipti og þar með ekki háð bind­ingar­skyldu samkvæmt reglum þessum.

8. gr.

Fjárstreymisreikningar.

Innlánsstofnun er skylt að ráðstafa bindingarfjárhæð sem vörsluð er á bindingarreikningi hjá henni skv. 1. tölul. 1. mgr. 6. gr. inn á fjárstreymisreikning hjá Seðlabanka Íslands.

Fjárhæð skv. 1. mgr. skal nema 100% af bindingarfjárhæð.

Innlánsstofnun skal uppfylla skyldu skv. 1. mgr. innan sama viðskiptadags og bindingarfjárhæð skv. 6. gr. er ráðstafað inn á bindingarreikning.

Innstæða fjárstreymisreiknings skal á hverjum tíma samsvara heildarfjárhæð bindingarfjárhæða sem varslaðar eru á bindingarreikningi hjá viðkomandi innlánsstofnun.

Fjárstreymisreikningar bera 0% vexti.

Uppgjörsmynt fjárstreymisreikninga er íslenskar krónur.

Óheimilt er að veðsetja fjárstreymisreikninga eða innlán þeirra.

9. gr.

Skilmálar og kjör innstæðubréfa og endurhverfra viðskipta með innstæðubréf.

Innstæðubréf bera 0% vexti.

Innstæðubréf eru án gjalddaga en innkallanleg af Seðlabanka Íslands í samræmi við ákvæði við­komandi bréfs. Nýti Seðlabankinn sér innköllunarrétt fellur niður söluréttur bindingarmiðlara sam­kvæmt samningi um endurhverf viðskipti um viðkomandi innstæðubréf.

Innstæðubréf verða ekki afhent bindingarmiðlara nema til að efna samning um endurhverf viðskipti milli bindingarmiðlara og Seðlabanka Íslands. Söluréttur bindingarmiðlara samkvæmt samningi um endurhverf viðskipti felur í sér rétt en ekki skyldu til að nýta söluréttinn. Seðlabanka Íslands ber að virða sölurétt bindingarmiðlara enda séu önnur skilyrði reglna þessara uppfyllt.

Seðlabanki Íslands ákveður að öðru leyti skilmála og kjör innstæðubréfa og samninga um endur­hverf viðskipti. Seðlabankinn tilkynnir tilhögun og skilmála viðskipta á vefsíðu sinni.

10. gr.

Tilkynningaskylda.

Bindingarskyldur aðili skal, með aðstoð fjármálafyrirtækis hér á landi, tilkynna Seðlabanka Íslands um ráðstafanir nýs innstreymis erlends gjaldeyris sem fellur undir 1.–5. tölul. 3. gr. innan tveggja vikna frá því nýju innflæði erlends gjaldeyris er skipt í innlendan gjaldeyri eða endurfjárfest hefur verið skv. 6. mgr. 13. gr. m laga um gjaldeyrismál. Þrátt fyrir það skal tilkynna Seðlabanka Íslands um ráðstafanir skv. 1. málsl. innan viku ef um endurfjárfestingu er að ræða.

Innlánsstofnun skal tilkynna Seðlabanka Íslands innan sama viðskiptadags, um innlögn bind­ingar­fjárhæðar á bindingarreikning eða kaup á innstæðubréfi Seðlabankans skv. 6. gr.

11. gr.

Viðurlög.

Brot gegn ákvæðum þessara reglna varða stjórnvaldssektum og refsingum samkvæmt 15. gr. a – 15. gr. d, 16. gr., 16. gr. a og 16. gr. b, sbr. 6. mgr. ákvæðis til bráðabirgða III við lög um gjald­eyrismál.

12. gr.

Gildistaka.

Reglur þessar, sem eru settar samkvæmt heimild í ákvæði til bráðabirgða III við lög um gjald­eyris­mál, nr. 87/1992, hafa verið samþykktar af fjármála- og efnahagsráðherra og öðlast þegar gildi. Jafnframt falla úr gildi reglur nr. 490/2016, um bindingu reiðufjár vegna nýs inn­streymis erlends gjaldeyris.

Reykjavík, 5. mars 2019

Seðlabanki Íslands,

  Már Guðmundsson
seðlabankastjóri.
Andri Egilsson
aðstoðarframkvstjóri gjaldeyriseftirlits.

Fylgiskjal.
(sjá PDF-skjal)


B deild - Útgáfud.: 5. mars 2019