Velkomin á vef Stjórnartíðinda
Setja síðu í 1024px vídd Setja síðu í 1280px vídd Setja síðu í 1400px vídd Fyrir sjónskerta Venjulegt letur Stækka letur Stækka letur enn meira

Sé munur á uppsetningu texta hér að neðan og í PDF skjali gildir PDF skjalið.
 86/2019

Nr. 86/2019 27. júní 2019

LÖG
um breytingu á lögum um loftslagsmál, nr. 70/2012, með síðari breytingum (styrking á stjórnsýslu og umgjörð).

Forseti Íslands
gjörir kunnugt: Alþingi hefur fallist á lög þessi og ég staðfest þau með samþykki mínu:

1. gr.

    Við 3. gr. laganna bætist nýr töluliður, 13. tölul., svohljóðandi: Kolefnisjöfnun: Þegar aðili hlutast til um aðgerðir annars aðila til að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda og/eða binda kolefni úr andrúmslofti og notar staðfestingu á slíkum samdrætti eða bindingu til að jafna út sína eigin losun að hluta eða öllu leyti. 

2. gr.

    II. kafli laganna, sem hefur fyrirsögnina Aðgerðaáætlun í loftslagsmálum og aðlögun að loftslagsbreytingum, orðast svo:

    a. (5. gr.) 

Aðgerðaáætlun.

    Ráðherra lætur gera aðgerðaáætlun í loftslagsmálum þar sem setja skal fram aðgerðir til að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda og auka kolefnisbindingu hér á landi. Í aðgerðaáætluninni skal koma fram mat á áætluðum kostnaði ásamt mati á loftslagsávinningi af framkvæmd aðgerð­anna sem þar eru lagðar til.

    Aðgerðaáætlunina skal endurskoða eigi sjaldnar en á fjögurra ára fresti, að teknu tilliti til alþjóð­legra skuldbindinga og yfirlýstra markmiða stjórnvalda. Við gerð hennar skal hafa samráð við hags­muna­aðila.

    Ráðherra skipar verkefnisstjórn sem mótar tillögur að aðgerðum og hefur umsjón með að þeim sé hrundið í framkvæmd. Ráðherra skipar formann verkefnisstjórnar án tilnefningar. Eftirfarandi aðilar tilnefna einn fulltrúa hver: ráðherra sem fer með mál er varða stjórnarfar almennt og sam­hæfingu innan Stjórnarráðs Íslands, ráðherra sem fer með mál er varða almennar fjárreiður ríkis­ins og fjármál, ráðherra sem fer með mál er varða iðnað, ráðherra sem fer með mál er varða fræðslu og vísindi, ráðherra sem fer með mál er varða samgöngur, ráðherra sem fer með mál er varða sjávar­útveg og landbúnað og Samband íslenskra sveitarfélaga. Tilnefningaraðilar bera kostnað hver af sínum fulltrúa í nefndinni.

    Verkefnisstjórn skal árlega skila skýrslu til ráðherra um framgang aðgerðaáætlunar. Í skýrslunni skal farið yfir þróun losunar og hvort hún er í samræmi við áætlanir, fjallað um framgang aðgerða og eftir atvikum settar fram ábendingar verkefnisstjórnar.

    Ráðherra er heimilt að kveða í reglugerð nánar á um störf verkefnisstjórnar og um efni árlegrar skýrslu.

    b. (5. gr. a.) 

Aðlögun að loftslagsbreytingum.

    Ráðherra lætur vinna áætlun um aðlögun íslensks samfélags að loftslagsbreytingum og setur reglugerð um gerð og eftirfylgni hennar. 

3. gr.

    Á eftir II. kafla laganna kemur nýr kafli, II. kafli A, Loftslagsráð, loftslagsstefna stjórnvalda og skýrsla um áhrif loftslagsbreytinga, með þremur nýjum greinum, 5. gr. b – 5. gr. d, ásamt fyrirsögnum, svohljóðandi:

    a. (5. gr. b.)

Loftslagsráð.

    Starfrækja skal loftslagsráð sem hefur það meginhlutverk að veita stjórnvöldum aðhald og ráð­gjöf um stefnumarkandi ákvarðanir og markmið Íslands sem tengjast loftslagsmálum.

    Verkefni ráðsins eru að: 

  1. veita ráðgjöf um samdrátt í losun gróðurhúsalofttegunda og aðgerðir til að auka kolefnis­bindingu, 
  2. veita ráðgjöf um aðlögun að loftslagsbreytingum, 
  3. rýna á undirbúningsstigi áætlanir stjórnvalda sem snerta loftslagsmál, 
  4. hafa yfirsýn yfir miðlun fræðslu og upplýsinga um loftslagsmál til almennings, fyrirtækja, stofnana og sveitarfélaga, 
  5. rýna tillögur sem berast frá fagstofnunum um vöktun og rannsóknir sem tengjast lofts­lags­breytingum, 
  6. vinna að öðrum verkefnum sem ráðherra felur ráðinu hverju sinni.

    Tryggt skal að í ráðinu eigi sæti fulltrúar atvinnulífsins, háskólasamfélagsins, sveitarfélaga og umhverfisverndarsamtaka auk annarra fulltrúa sem nauðsynlegt er talið að eigi sæti í ráðinu á hverjum tíma. Ráðherra skipar formann og varaformann loftslagsráðs.

    Loftslagsráð skal gæta óhlutdrægni og vera sjálfstætt í störfum sínum.

    Loftslagsráð skal skipað til fjögurra ára í senn. Ráðherra kveður í reglugerð nánar á um skipan, hlutverk og störf loftslagsráðs.

    b. (5. gr. c.) 

Loftslagsstefna ríkisins og sveitarfélaga.

    Stjórnarráð Íslands, stofnanir ríkisins, fyrirtæki í meirihlutaeigu ríkisins og sveitarfélög skulu setja sér loftslagsstefnu. Stefnan skal innihalda skilgreind markmið um samdrátt í losun gróður­húsa­lofttegunda og kolefnisjöfnun starfseminnar ásamt aðgerðum svo að þeim markmiðum verði náð.

    Stýrihópur loftslagsstefnu Stjórnarráðsins fylgir eftir loftslagsstefnu þess skv. 1. mgr. og kemur eftir atvikum með tillögur að úrbótum.

    Umhverfisstofnun hefur eftirlit með því að stofnanir ríkisins, fyrirtæki í meirihlutaeigu ríkisins og sveitarfélög setji sér loftslagsstefnu, sbr. 1. mgr., og innleiði aðgerðir samkvæmt henni og veitir stofnunum ríkisins og sveitarfélögum ráðgjöf varðandi mælingar á losun gróðurhúsalofttegunda og árangri aðgerða vegna innri reksturs.

    Árlega skilar Umhverfisstofnun skýrslu til ráðherra um árangur stofnana ríkisins og fyrirtækja í meirihlutaeigu ríkisins og sveitarfélaga í loftslagsmálum.

    c. (5. gr. d.)

Skýrsla um áhrif loftslagsbreytinga.

    Ráðherra lætur reglulega vinna vísindalegar skýrslur um áhrif loftslagsbreytinga á náttúrufar og samfélag á Íslandi. Skýrslurnar skulu taka mið af reglulegum úttektarskýrslum milliríkjanefndar Sameinuðu þjóðanna um loftslagsbreytingar og nýjustu og bestu upplýsingum um áhrif lofts­lags­breytinga á Íslandi hverju sinni. Veðurstofa Íslands leiðir vinnu við skýrslugerðina með aðkomu sér­fræðinga á sviði náttúruvísinda og samfélagslegra þátta sem fjallað er um.

    Ráðherra skal flytja Alþingi skýrslu um stöðu loftslagsmála með reglubundnum hætti þar sem m.a. skal gerð grein fyrir niðurstöðum skýrslna skv. 1. mgr.

4. gr.

    Í stað 2.–4. mgr. 6. gr. laganna koma tvær nýjar málsgreinar, svohljóðandi:

    Umhverfisstofnun er heimilt að krefja stjórnvöld, stofnanir ríkisins, fyrirtæki og einstaklinga í atvinnu­rekstri um gögn og upplýsingar sem varða sögulega og framreiknaða losun ásamt upp­lýsingum um stefnu og aðgerðir í loftslagsmálum hvað varðar starfsemi þeirra, rekstur og inn­flutn­ing á vörum sem stofnunin þarfnast vegna losunarbókhalds skv. 1. mgr. Skylt er að veita Umhverfis­stofnun upplýsingar á því formi sem stofnunin óskar eftir eða um er samið og innan þeirra tíma­marka sem kveðið er á um í reglugerð skv. 3. mgr., án þess að gjald komi fyrir. Umhverfis­stofnun skal upplýsa viðkomandi um í hvaða tilgangi gagna er aflað.

    Ráðherra setur reglugerð þar sem nánar er kveðið á um hvaða aðilum ber skylda til að taka saman gögn og hvaða gögnum ber að skila til Umhverfisstofnunar, form gagna og tímafresti.

5. gr.

    29. gr. laganna orðast svo:

    Loftslagssjóður er sérstakur sjóður sem heyrir undir ráðherra. Hlutverk sjóðsins er að styðja við nýsköpunarverkefni á sviði loftslagsmála og verkefni sem lúta að kynningu og fræðslu um áhrif loftslagsbreytinga. Styrkir til nýsköpunarverkefna eru ætlaðir m.a. til þess að styrkja rannsóknir og þróunarstarf í tengslum við aðlögun og innleiðingu á nýjum loftslagsvænum tæknilausnum og hönnun.

6. gr.

    30. gr. laganna fellur brott.

7. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 1. mgr. 31. gr. laganna:

  1. 1. og 2. málsl. orðast svo: Ráðherra skipar fimm fulltrúa í stjórn loftslagssjóðs til tveggja ára í senn. Formaður skal skipaður án tilnefningar og honum til viðbótar skipar ráðherra einn fulltrúa án tilnefningar, einn fulltrúa, sem hefur þekkingu á loftslagsmálum, samkvæmt til­nefningu háskólasamfélagsins, einn fulltrúa samkvæmt tilnefningu Samtaka atvinnulífsins og einn fulltrúa samkvæmt tilnefningu umhverfisverndarsamtaka. 
  2. 4. málsl. fellur brott.

8. gr.

    Í stað „4. mgr.“ í 1. tölul. 1. mgr. 40. gr. laganna kemur: 2. mgr.

9. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Gjört í Vestmannaeyjum, 27. júní 2019.

Guðni Th. Jóhannesson.
(L. S.)

Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir.


A deild - Útgáfud.: 5. júlí 2019