Velkomin á vef Stjórnartíðinda
Setja síðu í 1024px vídd Setja síðu í 1280px vídd Setja síðu í 1400px vídd Fyrir sjónskerta Venjulegt letur Stækka letur Stækka letur enn meira

Sé munur á uppsetningu texta hér að neðan og í PDF skjali gildir PDF skjalið.
 1101/2020

Nr. 1101/2020 30. október 2020

SAMÞYKKT
um fráveitu í Seltjarnarnesbæ.

I. KAFLI

Almennt.

1. gr.

Samþykkt þessi gildir um fráveitu í Seltjarnarnesbæ eins og hún er skilgreind í 3. gr. laga nr. 9/2009 um uppbyggingu og rekstur fráveitna.

Kröfur um söfnun, hreinsun og losun frárennslis byggjast á lögum nr. 7/1998 um hollustuhætti og mengunarvarnir, lögum nr. 9/2009 um uppbyggingu og rekstur fráveitna og reglugerð nr. 798/1999 um fráveitur og skólp.

 

2. gr.

Markmið samþykktar þessarar er að:

  1. afmarka skyldur sveitarfélagsins hvað varðar fráveitumál og fráveituframkvæmdir,
  2. tryggja uppbyggingu og starfrækslu fráveitna þannig að frárennsli valdi sem minnstum óæski­legum áhrifum á umhverfið,
  3. skýra réttindi og skyldur eigenda og notenda fráveitna og
  4. stuðla að hagkvæmni í uppbyggingu og starfrækslu fráveitna.

 

3. gr.

Seltjarnarnesbær ber ábyrgð á uppbyggingu fráveitna í sveitarfélaginu og rekstri þeirra í þéttbýli í samræmi við 1. og 2. mgr. 4. gr. laga nr. 9/2009, um uppbyggingu og rekstur fráveitna.

Fráveita Seltjarnarnesbæjar fellur undir Veitustofnun Seltjarnarness sem er rekin sem B-hluta fyrirtæki, með sjálfstæðan fjárhag, í eigu sveitarfélagsins. Rekstur hennar og framkvæmdir eru kost­aðar af eigin tekjum af fráveitu- og rotþróagjöldum eða lántökum eftir því sem bæjarstjórn ákveður á fjárhagsáætlun.

Umhverfissvið Seltjarnarnesbæjar fer með umsjón, hönnun, framkvæmdir og rekstur fráveit­unnar í umboði bæjarstjórnar.

Samkvæmt lögum nr. 7/1998, um hollustuhætti og mengunarvarnir, hefur heilbrigðisnefnd Kjósar­svæðis eftirlit með framkvæmd samþykktar þessarar eftir því sem við á og hefur eftirlit með fráveitu í Seltjarnarnesbæ í samræmi við reglugerð um fráveitur og skólp. Rekstur fráveitunnar er háður starfsleyfi heilbrigðisnefndar Kjósarsvæðis í samræmi við lög nr. 7/1998 um hollustuhætti og mengunarvarnir og reglugerðir settar samkvæmt þeim lögum.

 

4. gr.

Fráveita Seltjarnarnesbæjar veitir frárennsli um fráveitulagnir frá byggð til viðtaka. Einföld fráveita veitir skólpi og ofanvatni saman í einni fráveitulögn en tvöföld fráveita veitir skólpi og ofanvatni í tveimur aðskildum fráveitulögnum.

Fráveita Seltjarnarnesbæjar á allar holræsalagnir fráveitu, útrásir, stofnræsi, götuholræsi, ofan­vatns­ræsi í götum og opnum svæðum og götufráræsi að fráræsum húseigna. Enn fremur allan frá­veitubúnað, brunna, niðurföll, dælustöðvar, þrýstilagnir, hreinsistöðvar og settjarnir ásamt hverfis­rotþróm og viðeigandi siturlögnum og sandsíum.

 

5. gr.

Fráveita Seltjarnarnesbæjar skal sjá húseigendum fyrir götufráræsi frá götuholræsi að heimæð húseigna. Þar sem fráveitan liggur um lóðir skal séð fyrir tengigrein á holræsalögn. Umhverfissvið sveitarfélagsins ákveður legu götuholræsa og tengigreina.

 

6. gr.

Húseigendum sem eiga húseignir við vegi eða opin svæði þar sem fráveita sveitarfélagsins liggur er skylt að leggja á sinn kostnað frárennslislögn frá húseignum sínum og tengja hana við fráveituna. Þegar lögð er tvöföld fráveita skulu húseigendur halda skólpi aðskildu frá ofanvatni og bakrennslis­vatni hitaveitu.

Hafi fráveita ekki verið komin þegar húseign var byggð skal húseigandi kosta og tengja fráveitu húseignar sinnar við fráveitu sveitarfélagsins eftir að hún hefur verið lögð.

 

II. KAFLI

Fráveitur.

7. gr.

Þegar ekki er unnt að ná nægilegum halla á frárennslislögn húseignar að fráveitu sveitar­félags­ins skal húseigandi á eigin kostnað leiða frárennsli frá húseigninni að safnbrunni með sjálfvirkum dælubúnaði sem dælir fráveiturennslinu frá honum í fráveitu sveitarfélagsins.

 

8. gr.

Þegar tengja skal fráveitu húseignar við fráveitu sveitarfélagsins eða veita frárennsli frá þeim um rotþró með siturlögn eða önnur stök hreinsivirki skal tengja frárennslislagnir við veitukerfið í samræmi við samþykkta uppdrætti, byggingarreglugerð og leiðbeiningar um rotþrær og siturlagnir útgefnar af Umhverfisstofnun í samræmi við ákvæði reglugerðar um fráveitur og skólp.

 

9. gr.

Teikningar skulu fylgja almennum reglum um hönnun fráveitulagna í húsum, sbr. byggingar­reglugerð og byggingarskilmála. Allt efni skal standast kröfur um efni og vinnu sem gerðar eru á hverjum tíma. Á afstöðumynd skal sýna staðsetningu mengunarvarnabúnaðar vegna iðnaðarskólps, sbr. 10. gr.

 

10. gr.

Umhverfissvið sveitarfélagsins skal hafa eftirlit með því að fráveitulagnir frá húseignum séu lagðar á ábyrgð byggingarstjóra/pípulagningameistara samkvæmt samþykktum teikningum.

Áður en lagnir eru huldar skal byggingarfulltrúi taka út fráveitu frá húseignum og tengingar þeirra við fráveitu sveitarfélagsins eða rotþrær. Óheimilt er að hylja lagnir áður en þær hafa verið teknar út.

 

11. gr.

Eigendum fasteigna er skylt að hlíta því að lagnir fráveitu sveitarfélagsins séu lagðar um lóðir þeirra eða lönd, einnig að fram geti farið á þeim nauðsynlegt viðhald og hreinsun. Sveitarfélaginu er skylt að halda raski í lágmarki og ganga snyrtilega um og færa allt til fyrra horfs eins og við verður komið.

 

12. gr.

Húseigendum er skylt að halda vel við fráveitulögnum húseigna sinna og gæta þess að þær stíflist ekki og stuðla að réttri virkni fráveitumannvirkja og mengunarvarnabúnaðar þar sem það á við.

Óheimilt er að láta í fráveitu sveitarfélagsins hvers kyns spilliefni svo sem olíur, bensín, lífræn leysiefni eða annað það sem skemmt getur eða truflað rekstur fráveitukerfisins. Þar er t.d. átt við lífrænan úrgang frá húsdýrum, ómeðhöndlað iðnaðarskólp og hvers konar ólífrænan úrgang.

Iðnaðarskólp sem veitt er í fráveitu sveitarfélagsins skal forhreinsað í samræmi við ákvæði í reglugerð um fráveitur og skólp. Hitastig iðnaðarskólps skal ekki vera yfir 45°C og sýrustig ekki undir pH 5 miðað við 10 mínútna mælingu. Þegar hætta er á að fita geti borist í fráveitulagnir, s.s. þar sem matur er útbúinn fyrir marga eða þar sem matvælaframleiðsla á sér stað, skal tengja fitu­gildru við fráveitulagnir. Stærð og gerð fitugildru skal valin í samráði við heilbrigðisnefnd.

Um mengunarvarnir fer samkvæmt ákvæðum laga um hollustuhætti og mengunarvarnir nr. 7/1998, og reglugerða sem settar eru samkvæmt þeim.

 

13. gr.

Þar sem hætta er á að frárennsli frá fráveitu sveitarfélagsins flæði til baka um frárennslislagnir frá húseignum vegna vatnsborðsriss af völdum ofanvatns eða hárrar sjávarstöðu skulu húseigendur innan sinna lóða koma fyrir einstreymislokum á fráveitulögn eða sjálfvirkum flóðlokum við gólf­niðurföll.

 

14. gr.

Fráveitu sérhverrar húseignar í Seltjarnarnesbæ, sem ekki er unnt að tengja við fráveitu sveitar­félagsins, skal leiða gegnum tveggja þrepa hreinsun. Það er hægt að gera með rotþró og siturlögn, eða með öðru hreinsivirki sem skilar sambærilegri hreinsun. Frárennsli skal hreinsa samkvæmt ákvæðum samþykktar þessarar eða leiða í safntank. Stærð og staðsetning hreinsivirkis er háð sam­þykki og úttekt byggingarfulltrúa.

Stakt hreinsivirki, svo sem rotþró með siturlögn, safntankur og lagnir eru eign húseiganda sem kostar niðursetningu og annan frágang svo og viðhald þeirra, en bæjarstjórn getur sett sérstakar reglur um stuðning við framkvæmdirnar.

Umsókn um að fá að nota stakt hreinsivirki, s.s. rotþró og siturlögn eða safntank skal senda bygg­ingarfulltrúa Seltjarnarnesbæjar. Umsókn skal fylgja sérteikning sem sýnir gerð og staðsetn­ingu. Byggingarfulltrúi leitar eftir umsögn heilbrigðisnefndar.

 

15. gr.

Rotþrær skulu uppfylla kröfur og leiðbeiningar Umhverfisstofnunar um stærð og siturlagnir og vera samþykktar af heilbrigðisnefnd.

Hreinsivirki önnur en rotþrær með siturlögnum, sem geta hreinsað fráveituvatn jafn vel eða betur en rotþrær og siturlagnir, skulu samþykktar af Umhverfisstofnun eða heilbrigðisnefnd, eftir því sem við á.

Stöku hreinsivirki, þ.m.t. rotþró með siturlögn, skal valinn þannig staður að auðvelt sé að komast að því með tæki til hreinsunar. Hverja rotþró skal hreinsa og tæma eftir þörfum samkvæmt nánari ákvæðum samþykktar þessarar. Hreinsun fer fram á vegum Seltjarnarnesbæjar og skal heil­brigðis­nefnd hafa eftirlit með framkvæmd hennar.

Rotþró skal að jafnaði ekki staðsetja nær húseign en sem nemur tíu metrum. Sama gildir um fjarlægð rotþróar að nærliggjandi lóðarmörkum. Sé þörf á að hafa rotþró nær skal lofta hana með lögnum sem ná upp fyrir mæni húss. Verði rotþró og situr- eða sandsíulögn ekki komið niður innan lóðar viðkomandi húseignar skal leita samþykkis lóðarhafa aðliggjandi lóðar um að leggja mann­virkin þar.

 

16. gr.

Lagnir tengdar rotþró skulu lagðar í frostfría jörð. Að öðru leyti fer um stærð og frágang rotþróa samkvæmt leiðbeiningum Umhverfisstofnunar eins og þær eru á hverjum tíma.

 

17. gr.

Í rotþró skal leiða skólp, baðvatn og þvottavatn úr öllum niðurföllum innanhúss. Ekki skal leiða afrennsli frá ofnum eða afbræðslukerfum í rotþró nema með samþykki heilbrigðisnefndar Kjósar­svæðis. Ekki skal leiða þakvatn og annað yfirborðsvatn í rotþró.

 

18. gr.

Frárennsli frá rotþró skal leitt um siturlögn. Frárennslislögn frá rotþró skal hafa vatnshelt útloft­unar­op. Heilbrigðisnefnd Kjósarsvæðis getur í undantekningartilvikum leyft að afrennsli rot­þróar fari í grjótpúkk, verði öðru ekki við komið og ef ekki er hætta á mengun, en þó aldrei inni á vatns­verndarsvæðum.

 

19. gr.

Seltjarnarnesbær annast hreinsun hreinsivirkja, þ.e. tæmingu og alla meðhöndlun seyru, frá sam­þykktu íbúðarhúsnæði í bæjarfélaginu. Bæjarstjórn er heimilt að fela öðrum framkvæmd verks­ins. Eingöngu aðilar með starfsleyfi samkvæmt ákvæðum reglugerðar um losun frá atvinnurekstri og mengunarvarnaeftirlit, mega tæma hreinsivirki, þ.m.t. rotþrær, og meðhöndla seyru.

 

20. gr.

Stök hreinsivirki eins og rotþrær skal hreinsa í samræmi við ákvæði samþykktar þessarar að jafnaði annað hvert ár. Seyru úr rotþróm og öðrum hreinsivirkjum skal meðhöndla og farga á viður­kenndan hátt.

Húseigandi skal sjá um að greiður aðgangur sé fyrir hreinsitæki að stökum hreinsivirkjum, þ.m.t. rotþróm. Eigendur húseigna í Seltjarnarnesbæ sem ekki falla undir 19. gr. og eru tengdir við stök hreinsivirki, svo sem rotþrær, eru sjálfir ábyrgir fyrir reglubundinni tæmingu og hreinsun hreinsi­virkja sinna. Aðeins aðilar með starfsleyfi samkvæmt ákvæðum reglugerðar um losun frá atvinnu­rekstri og mengunarvarnaeftirlit, mega tæma rotþrær og önnur hreinsivirki og meðhöndla seyru. Eigendur skulu tryggja að við notkun hreinsivirkisins verði ekki mengun í nágrenni þess.

 

21. gr.

Um rotþrær staðsettar á verndarsvæðum vatnsbóla gilda ákvæði samþykktar nr. 555/2015 um verndarsvæði vatnsbóla innan lögsagnarumdæma Mosfellsbæjar, Reykjavíkurborgar, Seltjarnarnes­bæjar, Kópavogsbæjar, Garðabæjar og Hafnarfjarðarkaupstaðar.

 

III. KAFLI

Fráveitu- og tengigjald.

22. gr.

Seltjarnarnesbæ er heimilt að innheimta stofngjald vegna tengingar og lagningar frárennslis­lagna frá lóðamörkum við fráveitukerfi sveitarfélagsins, sbr. 1. mgr. 13. gr. laga nr. 9/2009, um upp­byggingu og rekstur fráveitna. Gjaldið og gjalddagi þess skal ákveðið í gjaldskrá sem sveitarstjórn setur í samræmi við ákvæði 15. gr. laga nr. 9/2009, um uppbyggingu og rekstur fráveitna, og lætur birta í B-deild Stjórnartíðinda.

 

23. gr.

Af þeim fasteignum í Seltjarnarnesbæ sem tengjast fráveitulögnum sveitarfélagsins skal árlega greiða fráveitugjald, sbr. 14. gr. laga nr. 9/2009 um uppbyggingu og rekstur fráveitna, og skal því varið til þess að standa straum af kostnaði við rekstur fráveitu sveitarfélagsins.

 

24. gr.

Álagningarstofn fráveitugjalds skal vera fasteignamat húsa, mannvirkja, lóða og landa, eða miðast við rúmmál mannvirkja á fasteign, samkvæmt lögum nr. 6/2001 um skráningu og mat fast­eigna, sbr. og 3., 4. og 5. mgr. 15. gr. laga nr. 9/2009 um uppbyggingu og rekstur fráveitna.

 

25. gr.

Fráveitugjald greiðist af þinglýstum eiganda fasteignar og ber hann ábyrgð á greiðslu gjaldsins. Gjald þetta skal ákveðið með sérstakri gjaldskrá samkvæmt 15. gr. laga nr. 9/2009 um upp­byggingu og rekstur fráveitna, sem sveitarstjórn setur og birtir í B-deild Stjórnartíðinda í sam­ræmi við ákvæði laga nr. 7/1998 um hollustuhætti og mengunarvarnir, sbr. 14. gr. laga nr. 9/2009 um uppbyggingu og rekstur fráveitna. Fráveitugjaldið innheimtist á sama hátt og önnur fasteigna­gjöld til sveitarfélagsins. Nýtur fráveitugjaldið lögveðsréttar í viðkomandi fasteign næstu tvö ár frá gjalddaga með forgangs­rétti fyrir hvers konar samningsveði og aðfararveði.

 

26. gr.

Bæjarstjórn Seltjarnarnesbæjar er heimilt að setja gjaldskrá á grundvelli samþykktar þessarar til að standa undir kostnaði við hreinsun og tæmingu rotþróa og annarra minni hreinsivirkja og við söfnun og meðhöndlun seyru á vegum bæjarfélagsins. Heildargjald þetta má þó aldrei vera hærra en svo að nemi sannanlegum kostnaði við veitta þjónustu eða framkvæmd eftirlits með einstökum þáttum. Gjöld skulu lögð á hverja fasteign, stofnun eða fyrirtæki sem nýtur framangreindrar þjón­ustu.

Gjald þetta skal ákveðið með sérstakri gjaldskrá í samræmi við lög nr. 7/1998, um hollustuhætti og mengunarvarnir, sbr. og ákvæði 23. gr. laga nr. 55/2003 um meðhöndlun úrgangs. Gjald hvers árs skal innheimt á sama hátt og fasteignagjöld til sveitarfélagsins. Sveitarfélagið skal láta birta gjald­skrána í B-deild Stjórnartíðinda

 

27. gr.

Fyrirtæki sem eru með starfsleyfi þar sem gerð er krafa um sérstaka hreinsun greiða ekki gjöld skv. 25. gr. Hreinsunin skal þá framkvæmd af aðila með starfsleyfi samkvæmt ákvæðum reglugerðar um losun frá atvinnurekstri og mengunarvarnaeftirlit. Eigandi skal geyma staðfestingu frá hreins­unar­aðila um að hreinsun hafi farið fram og skal sýna hana eftirlitsaðila ef eftir því er leitað.

Heimilt er að innheimta aukagjald af þeim húseignum þar sem um óvenjumikinn kostnað er að ræða við hreinsun og tæmingu eða þegar um sérstaka rotþró eða annað hreinsivirki við útihús eða safntank er að ræða eða þegar sérstakar aðstæður krefjast aukinnar tíðni hreinsunar. Seltjarnar­nes­bær annast eingöngu tæmingu rotþróa á deiliskipulögðum íbúðasvæðum og á lög­býlum.

 

IV. KAFLI

Málsmeðferð og gildistaka.

28. gr.

Hafi húsráðandi kvörtun fram að færa vegna tæmingar rotþróa og annarra hreinsivirkja skal hann koma slíkri kvörtun á framfæri við umhverfissvið Seltjarnarnesbæjar. Telji viðkomandi sig ekki fá fullnægjandi úrlausn hjá sveitarfélaginu, getur hann leitað til heilbrigðisnefndar Kjósar­svæðis.

 

29. gr.

Heimilt er að kæra stjórnvaldsákvarðanir samkvæmt þessari samþykkt til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála.

Brot gegn samþykkt þessari varða sektum rúmist þau jafnframt innan refsiákvæða hlutaðeigandi heimildarlaga, nema þyngri refsing liggi við samkvæmt öðrum lögum. Skulu þau brot sæta þeirri málsmeðferð, sem boðin er í lögum nr. 88/2008 um meðferð sakamála.

 

30. gr.

Samþykkt þessi staðfestist hér með samkvæmt 59. gr. laga nr. 7/1998 um hollustuhætti og mengunarvarnir, sbr. 2. mgr. 8. gr. laga nr. 55/2003, um meðhöndlun úrgangs, og samkvæmt 10. mgr. 4. gr. laga nr. 9/2009, um uppbyggingu og rekstur fráveitna, til þess að öðlast þegar gildi.

 

Umhverfis- og auðlindaráðuneytinu, 30. október 2020.

 

F. h. r.

Sigurbjörg Sæmundsdóttir.

Steinunn Elna Eyjólfsdóttir.


B deild - Útgáfud.: 13. nóvember 2020