Velkomin á vef Stjórnartíðinda
Setja síðu í 1024px vídd Setja síðu í 1280px vídd Setja síðu í 1400px vídd Fyrir sjónskerta Venjulegt letur Stækka letur Stækka letur enn meira

Sé munur á uppsetningu texta hér að neðan og í PDF skjali gildir PDF skjalið.
 101/2022

Nr. 101/2022 12. janúar 2022

REGLUR
um styrki til náms, verkfæra- og tækjakaupa fatlaðs fólks hjá Múlaþingi.

I. KAFLI

Almenn atriði.

1. gr.

Markmið.

Samkvæmt 25. gr. laga nr. 38/2018 um þjónustu við fatlað fólk með langvarandi stuðningsþarfir er heimilt að veita fötluðu fólki styrki eða fyrirgreiðslu vegna félagslegrar hæfingar og endur­hæf­ingar sem hér segir:

Styrk til 18 ára og eldri vegna verkfæra- og tækjakaupa eða aðra fyrirgreiðslu vegna heima­vinnu eða sjálfstæðrar starfsemi að endurhæfingu lokinni.

Styrk til 16 ára og eldri vegna greiðslu námskostnaðar sem ekki er greiddur samkvæmt ákvæðum annarra laga.

Markmið styrkjanna er að auðvelda fötluðu fólki að verða sér úti um þekkingu og reynslu og til að auka möguleika sína til að vera virkir þátttakendur í samfélaginu. Í þeim tilgangi eru veittir styrkir til þess að fatlað fólk geti:

sótt sér menntun,
viðhaldið og aukið þekkingu og færni,
nýtt möguleika á aukinni þátttöku í félagslífi og atvinnu.

 

2. gr.

Markhópur.

Rétt til styrks samkvæmt reglum þessum á hver sá einstaklingur sem býr við andlega eða líkamlega fötlun, sbr. 25. gr. laga nr. 38/2018 um þjónustu við fatlað fólk með langvarandi stuðn­ings­þarfir, og þarf sérstakan stuðning af þeirri ástæðu til hæfingar, endurhæfingar eða starfs­endur­hæfingar.1

Styrkir eru ekki veittir í stað starfsendurhæfingarúrræða samkvæmt lögum eða reglum sem gilda á vinnumarkaði né í stað endurhæfingarúrræða sem heilbrigðisþjónustan ber ábyrgð á að veita.

_______________
1 Hæfing hefur það að markmiði að viðhalda og auka færni viðkomandi þannig að afleiðingar fötlunar eða áfalla leiði ekki til versnandi lífsgæða. Með félagslegri hæfingu er átt við að úrræðinu sé einkum ætlað að auka og viðhalda færni viðkomandi til almennrar samfélagslegrar þátttöku. Endurhæfingu er ætlað að stuðla að því að einstaklingur nái aftur eins góðri andlegri, félagslegri og líkamlegri færni og mögulegt er. Starfsendurhæfingu er einkum ætlað að endurhæfa einstaklinga til vinnu eða náms.

 

3. gr.

Mat á þörf og skilyrði fyrir greiðslu styrkja.

Styrkir vegna verkfæra- og tækjakaupa eru til að auðvelda fólki að skapa sér atvinnu með heima­vinnu eða sjálfstæðri starfsemi. Sýna þarf fram á að starfsemin skapi viðkomandi atvinnu.

Styrkir vegna náms eru veittir vegna námsgagna og námskeiðs- og skólagjalda.

Aðstoðin skal vera einstaklingsbundin og óheimilt er að styrkur renni til fyrirtækis.

Þörf fyrir styrki er metin hverju sinni út frá fötlun einstaklingsins og aðstæðum hans í heild. Við matið er horft til gagnsemi náms og/eða tækja fyrir umsækjanda, sem og gildi þess sem félagslegrar hæfingar, endurhæfingar eða starfsendurhæfingar.

Styrkir til náms ganga að öllu jöfnu fyrir styrkjum til verkfæra- og tækjakaupa.

Veita má árlega styrki til náms ef sýnt er fram á gildi námsins fyrir viðkomandi einstakling, góða námsástundun og áætluð námslok.

Við úthlutun á styrk til skóla- eða námskeiðsgjalda skal miða við tiltekinn tíma, svo sem námskeið eða skólaár.

Styrkur til verkfæra- og tækjakaupa er að öllu jöfnu ekki veittur til sama einstaklings oftar en á tveggja ára fresti.

 

4. gr.

Auglýsingar.

Félagsþjónusta Múlaþings vekur athygli á rétti fólks til umsókna með því að auglýsa eftir umsóknum einu sinni á ári, í byrjun mars ár hvert. Umsóknarfrestur er þrjár vikur frá birtingu aug­lýsingar. Félagsþjónusta annast afgreiðslu styrkjanna og afgreiðir umsóknir innan fjögurra vikna að loknum umsóknarfresti. Við meðferð og vinnslu umsókna ber að gæta jafnræðis umsækjenda, sýna þeim fyllstu virðingu og gæta trúnaðar um málefni þeirra.

 

5. gr.

Styrkupphæðir.

Styrkupphæðir ákvarðast af fjárhagsáætlun hverju sinni og taka mið af fjölda umsókna. Ef fjárheimildir eru ekki fullnýttar seinni hluta árs er heimilt að úthluta hærri styrkjum og/eða afgreiða nýjar umsóknir.

Styrkur skal greiddur samkvæmt framlagðri staðfestingu eða kvittun fyrir greiðslu á námi og/eða tækjum, innan fjárhagsársins.

 

II. KAFLI

Umsóknir.

6. gr.

Umsókn og fylgigögn.

Sótt er um rafrænt á mínum síðum hjá Múlaþingi á tilteknum eyðublöðum.

Við afgreiðslu umsóknar getur félagsþjónustan óskað eftir eftirfarandi gögnum:

Gögn vegna námskostnaðar:

  1. Örorkuskírteini eða vottorð frá fagaðila sem staðfestir fötlun.
  2. Greinargerð þar sem fram kemur gagnsemi styrkveitingar til umsækjanda til að auka virkni og möguleika til atvinnuþátttöku.
  3. Námsvottorð. Staðfesting frá skóla um skráningu í nám.
  4. Kvittun fyrir námskeiðs- eða skólagjöldum.

Gögn vegna verkfæra- og tækjakaupa:

  1. Örorkuskírteini eða vottorð frá fagaðila sem staðfestir fötlun.
  2. Greinagóð kostnaðaráætlun, tilboð frá söluaðila eða kvittun fyrir útlögðum kostnaði.
  3. Umsögn tölvumiðstöðvar ef við á og önnur umsögn ef við á.

 

7. gr.

Afgreiðsla.

Umsóknir um styrki vegna náms, verkfæra- og tækjakaupa skulu að jafnaði afgreiddar innan fjögurra vikna eftir að umsóknarfrestur rennur út, að því tilskyldu að allar upplýsingar liggja fyrir.

Þjónustuhópur um málefni fatlaðs fólks2 fjallar um og metur umsóknir um styrki og ákveður upphæð styrkja. Á meðferðarfundi félagsþjónustu eru umsóknir afgreiddar.

Allir umsækjendur fá skriflegt svar um afgreiðslu umsóknar innan tveggja vikna frá því að umsókn er afgreidd hjá félagsþjónustu Múlaþings.

Ef styrkur er samþykktur er tilskilin upphæð lögð inn á bankareikning viðkomandi umsækjanda skv. framlagðri staðfestingu eða kvittun fyrir greiðslu á námi og/eða tækjum.

Í svarbréfi til styrkþega skulu koma fram leiðbeiningar um hvar á að færa styrkupphæð á skattframtali.

Sé umsókn synjað skal synjun vera rökstudd í svarbréfi og fram skulu koma upplýsingar um áfrýjunarrétt.

_______________
2 Þjónustuhópur um málefni fatlaðs fólks er samráðsvettvangur félagsþjónustu Fjarðabyggðar og Múlaþings sem grundvallast á samningi um byggðasamlag um málefni fatlaðs fólks. Hlutverk þjónustuhóps er að samhæfa þjónustu og eiga samstarf um fagleg málefni.

 

III. KAFLI

Málsmeðferð.

8. gr.

Varðveisla gagna, trúnaður og aðgangur að gögnum.

Málsgögn er varða persónulega hagi einstaklinga skulu varðveitt með tryggilegum hætti. Umsækjandi á rétt á að kynna sér upplýsingar úr skráðum gögnum sem varða mál hans skv. stjórn­sýslulögum nr. 37/1993.

 

9. gr.

Leiðbeiningar til umsækjanda.

Við afgreiðslu umsóknar skal starfsmaður veita umsækjanda alla þá aðstoð sem hann þarf og leiðbeina um réttindi sem hann kann að eiga annars staðar. Berist skriflega erindi sem ekki snertir félagsþjónustu, skal starfsmaður í samráði við umsækjanda framsenda erindið á réttan stað svo fljótt sem auðið er.

 

10. gr.

Rangar eða villandi upplýsingar.

Styrkir sem veittir eru umsækjanda á grundvelli rangra eða villandi upplýsinga af hendi þess sem aðstoðina fær eru alla jafna endurkræfir og getur félagsþjónusta Múlaþings endurkrafið viðkom­andi um fjárhæðina samkvæmt almennum reglum kröfuréttar. Ef sannreynt er við vinnslu málsins að upplýsingar sem umsækjandi hefur veitt eru rangar eða villandi stöðvast meðferð umsóknarinnar og kemur hún þá ekki til afgreiðslu.

 

11. gr.

Málskotsréttur.

Telji umsækjandi á rétt sinn hallað skv. reglum þessum getur umsækjandi áfrýjað til fjölskylduráðs innan fjögurra vikna frá því honum barst vitneskja um ákvörðun. Fjölskylduráð skal fjalla um umsóknina og taka ákvörðun svo fljótt sem unnt er.

Umsækjandi getur skotið ákvörðun fjölskylduráðs til úrskurðarnefndar velferðarmála. Skal það gert innan þriggja mánaða frá því að umsækjanda barst vitneskja um ákvörðun fjölskylduráðs.

 

12. gr.

Gildistaka.

Reglur þessar eru settar á grundvelli 25. gr. laga um þjónustu við fatlað fólk með langvarandi stuðningsþarfir nr. 38/2018 og með hliðsjón af leiðbeinandi reglum félagsmálaráðuneytisins fyrir sveitarfélög um styrki til náms, verkfæra- og tækjakaupa fatlaðs fólks3 og öðlast þegar gildi.

_______________
3 https://www.stjornarradid.is/lisalib/getfile.aspx?itemid=d4e0a432-367a-11e9-9432-005056bc530c.

 

Samþykkt af sveitarstjórn Múlaþings, 12. janúar 2022.

 

Björn Ingimarsson sveitarstjóri.


B deild - Útgáfud.: 31. janúar 2022