Velkomin á vef Stjórnartíðinda
Setja síðu í 1024px vídd Setja síðu í 1280px vídd Setja síðu í 1400px vídd Fyrir sjónskerta Venjulegt letur Stækka letur Stækka letur enn meira

Sé munur á uppsetningu texta hér að neðan og í PDF skjali gildir PDF skjalið.
 604/2012

Nr. 604/2012 4. júlí 2012
SAMÞYKKT
um búfjárhald í Akureyrarkaupstað.

1. gr.

Samþykkt þessi er sett til að tryggja skipulag, stjórn og eftirlit með búfjárhaldi utan lögbýla í Akureyrarkaupstað, koma í veg fyrir ágang á lóðir íbúanna og vernda gróður í sveitarfélaginu.

Framkvæmdaráð fer með búfjárhaldsmál í umboði bæjarstjórnar. Framkvæmdaráð felur framkvæmdadeild að vinna samkvæmt samþykkt þessari.

2. gr.

Búfjárhald, s.s. nautgripa, hrossa, svína, sauðfjár, kanína, geita, loðdýra og alifugla, er óheimilt í Akureyrarkaupstað öðrum en þeim sem á lögbýlum búa. Búfjárhald utan lögbýla er þó leyft í sérstaklega skipulögðum hverfum eða að fengnu sérstöku samþykki framkvæmdadeildar. Heimilt er að halda allt að 15 hænsni á lóð hverju sinni. Þó eru hanar með öllu bannaðir utan lögbýla.

Liggja þarf fyrir samþykkt byggingarleyfi fyrir það húsnæði sem nota skal til búfjárhaldsins ásamt samþykki næstu nágranna ef húsnæðið er utan skipulegra svæða fyrir búfjárhald. Sjá nánar 9. gr. um byggingarleyfi.

3. gr.

Sá sem stunda vill búfjárhald utan lögbýla, sbr. 2. gr., skal senda skriflega umsókn til framkvæmdadeildar. Í umsókninni skal gera grein fyrir fjölda búfjár, sem halda skal, tegund þess, hvaða húsnæði sé til umráða og öðru sem máli kann að skipta um öryggi þess og vörslu.

4. gr.

Telji framkvæmdadeild að umsækjandi uppfylli þau skilyrði sem krafist er veitir deildin leyfi til búfjárhalds. Leyfisveiting búfjárhalds skuldbindur þó Akureyrarkaupstað ekki til að sjá búfjáreigendum fyrir beitilandi handa búfé né veita þeim aðra aðstöðu til búfjárhalds.

Með leyfi öðlast sauðfjáreigendur þó rétt til upprekstrar sauðfjár á afrétt Akureyrarkaupstaðar á Glerárdal.

Leyfi til búfjárhalds er veitt til ákveðins tíma en er uppsegjanlegt með eins árs fyrirvara miðað við 15. júní ár hvert.

Leyfið er háð gildandi lögum og reglum um búfjárhald eins og þær eru á hverjum tíma og er gefið út á nafn og er ekki framseljanlegt. Sá sem fær leyfi til búfjárhalds samkvæmt samþykkt þessari skal hafa búféð í öruggri vörslu og ber hann að öllu leyti ábyrgð á því.

5. gr.

Allar lögskipaðar læknismeðferðir á búfénaði, svo sem garnaveikibólusetning og annað sem upp gæti komið, skulu framkvæmdar á ábyrgð og kostnað búfjáreiganda.

Um fjallskil af búfé og landi í Akureyrarkaupstað fer eftir lögum nr. 6/1986 um afréttamálefni, fjallskil o.fl., með síðari breytingum, svo og ákvæðum í fjallskilasamþykkt fyrir sveitarfélög við Eyjafjörð nr. 173/2011.

6. gr.

Óheimilt er að halda búfé, nema þar til gerður húsakostur sé í samræmi við reglugerðir um aðbúnað búfjár. Sama gildir um allt umhverfi húsanna.

Leyfishafi ber einn ábyrgð á því að hann hafi beitiland og fóður fyrir búfé sitt og skal hann tryggja góða meðferð þess.

Gangi búfé úti á vetrarbeit skal eigandi eða umráðamaður þess ábyrgjast nægilegt fóður, viðunandi skjól og örugga vörslu.

7. gr.

Forstöðumaður umhverfismála heldur skrá yfir lönd í eigu sveitarfélagsins, sem leigð eru til beitar og/eða slægna. Umsóknum um land til beitar eða slægna skal senda til forstöðumanns umhverfismála sem úthlutar landi í umboði framkvæmdaráðs.

8. gr.

Lausaganga búfjár er bönnuð innan þéttbýlismarka Akureyrarkaupstaðar. Mörkin eru samkvæmt gildandi aðalskipulagi hverju sinni. Komist búfé inn á friðuð svæði þrátt fyrir viðurkennda griphelda vörslu skulu vörsluaðilar lands ábyrgjast handsömun og ráðstöfun þess í samræmi við almenn ákvæði laga nr. 6/1986 um afréttamálefni, fjallskil o.fl., með síðari breytingum, svo og sérstök ákvæði í viðkomandi fjallskilasamþykkt. Ennfremur geta þeir, sem fyrir ágangi verða, látið handsama ágangsfénað og skulu þeir tilkynna forstöðumanni umhverfismála um það tafarlaust.

9. gr.

Bygging gripahúsa annarra en hænsnakofa er einungis leyfð á ákveðnum svæðum sem skipulögð eru fyrir búfjárhald. Byggingarleyfi fyrir hænsnakofa er háð gildandi ákvæðum byggingarreglugerðar, með síðari breytingum. Þau gripahús sem fyrir eru í sveitarfélaginu utan bújarða og svæða sem ekki eru ætluð til búfjárhalds samkvæmt aðalskipulagi, skulu fjarlægð þegar bæjarstjórn ákveður slíkt, með eins árs fyrirvara. Óheimilt er að byggja við þau, endurnýja eða endurbyggja og gæta skal þess að þau líti vel út.

10. gr.

Einstaklingar og félög búfjáreigenda, sem hafa lönd í eigu sveitarfélagsins á leigu til beitar eða slægna skulu leitast við að viðhalda gróðri landsins og efla hann, meðal annars með árlegri áburðargjöf. Í leigusamningi fyrir beiti- og slægjulönd eru tilgreindar reglur um umgengni um landið.

11. gr.

Brot gegn samþykkt þessari varða sektum. Með mál út af brotum skal farið samkvæmt ákvæðum laga um meðferð sakamála nr. 88/2008 og skv. 18. gr. laga um búfjárhald o.fl. nr. 103/2002, með síðari breytingum.

12. gr.

Samþykkt þessi, sem samin er og samþykkt af bæjarstjórn Akureyrarkaupstaðar, staðfestist hér með samkvæmt lögum nr. 103/2002, um búfjárhald o.fl., með síðari breytingum, til þess að öðlast gildi þegar í stað og birtast til eftirbreytni öllum þeim sem hlut eiga að máli.

Jafnframt fellur úr gildi reglugerð um búfjárhald í Akureyrarkaupstað nr. 129/1990.

Ákvæði til bráðabirgða.

Þeir sem við gildistöku samþykktar þessarar eiga eða hafa í umsjá sinni búfé og sótt hafa um búfjárleyfi, sem fellur undir samþykkt þessa, teljast hafa samþykki til búfjárhalds.

Sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytinu, 4. júlí 2012.

F. h. r.

Óskar Páll Óskarsson.

Hrafn Hlynsson.

B deild - Útgáfud.: 11. júlí 2012