Velkomin á vef Stjórnartíðinda
Setja síðu í 1024px vídd Setja síðu í 1280px vídd Setja síðu í 1400px vídd Fyrir sjónskerta Venjulegt letur Stækka letur Stækka letur enn meira

Sé munur á uppsetningu texta hér að neðan og í PDF skjali gildir PDF skjalið.
 299/2009

Nr. 299/2009 3. mars 2009
FJALLSKILASAMÞYKKT
fyrir Austur-Húnavatnssýslu.

I. KAFLI

Stjórn fjallskilamála.

l. gr.

Samkvæmt lögum um afréttarmálefni, fjallskil o.fl., nr. 6/1986, með síðari breytingum, fer búfjáreftirlits- og fjallskilanefnd Austur-Húnavatnssýslu með yfirstjórn allra fjall­skila­mála, en hreppsnefnd eða fjallskilastjórnir, kosnar af hreppsnefndum innan við­komandi upprekstrarfélaga, annast alla stjórn og framkvæmd á þeim, hver á sínu svæði.

2. gr.

Upprekstrarfélög í Austur-Húnavatnssýslu eru:

 1. Fjallskiladeild Skagamanna.
 2. Upprekstrarfélag Skagastrandar.
 3. Fjallskiladeild Vindhælinga.
 4. Fjallskiladeild Blönduósbæjar.
 5. Fjallskiladeild Bólstaðarhlíðarhrepps og Upprekstrarfélag Eyvindarstaðaheiðar.
 6. Fjallskiladeild Auðkúluheiðar.
 7. Fjallskiladeild Grímstungu- og Haukagilsheiða.

Hvert upprekstrarfélag sér um leitir og önnur fjallskil innan sinna takmarka. Samningar milli hreppa eða upprekstrarfélaga skulu í fullu gildi, þótt þeir fari að einhverju leyti í bága við þessa skipan, enda hafi þeir verið samþykktir af búfjáreftirlits- og fjallskilanefnd Austur-Húnavatnssýslu. Slíkum samningum má ekki breyta nema með samþykki búfjáreftirlits- og fjallskilanefndar Austur-Húnavatnssýslu og skulu þeir skráðir í sérstaka bók er nefndin geymir og sér um færslu á.

3. gr.

Eigi tveir eða fleiri hreppar aðild að sama upprekstrarfélagi, skulu hreppsnefndir í við­kom­andi hreppum vinna sameiginlega að stjórn upprekstrar- og fjallskilamála í upprekstrarfélaginu. Hlutaðeigandi hreppsnefndir skulu eiga fund með sér um ágreinings­mál. Oddviti í þeim hreppi þar sem skilarétt stendur kveður til þess fundar. Hafi hann ekki orðið við ósk um það innan 14 daga, öðlast aðrir oddvitar í upprekstrarfélaginu heimild til slíkrar fundarboðunar í réttri röð eftir eignarhlutföllum. Atkvæðisréttur á sameiginlegum fundum skal reiknast á hvern hreppsnefndarmann í hverjum hreppi eftir eignarhlutföllum viðkomandi hrepps í upprekstrarfélaginu og gildir ákvörðun meirihluta. Heimilt er hreppsnefndum að kjósa í stjórn fyrir upprekstrarfélagið, sem fer í umboði hrepps­nefnda með sameiginleg málefni og hefur á hendi framkvæmd fjallskila. Sam­eigin­legur fundur hreppsnefnda ákveður fjölda fulltrúa hvers hrepps í fjallskilastjórn. Þótt hluti afréttarlandsins sé í eigu einstaklings, stofnana eða félagasamtaka, skapar það ekki rétt þeirra til setu í fjallskilastjórn. Fjallskilastjórn kýs sér formann.

4. gr.

Þar sem tvö eða fleiri upprekstrarfélög þurfa að láta smölun fara fram á sama tíma vegna legu afréttarlandsins, skulu fjallskilastjórnir viðkomandi fjallskiladeilda ákveða sameiginlega smölunartíma.

II. KAFLI

Sameiginleg beitilönd og notkun þeirra.

5. gr.

Land sem fjallskilaframkvæmd tekur til, skiptist í afrétti og heimalönd. Þar sem almenningur (óbyggðir) þurfa hreinsunar við, tekur fjallskilaframkvæmd til þeirra eftir því sem þörf krefur og nánar er fyrir mælt í lögum um fjallskil og samþykkt þessari. Land sem notað er til upprekstrar, en er í eigu annarra aðila en viðkomandi upprekstrarfélags eða hreppa innan þess, fellur undir yfirumsjón fjallskiladeildar þess hrepps sem landið er í, án tillits til þess hvort eigendur landsins eru búsettir innan hreppsins eða utan hans.

6. gr.

Upprekstrarrétt eiga þeir einir, sem hafa afnot af jörð eða jarðarhluta innan takmarka upprekstrarfélagsins. Þessi réttur er óframseljanlegur og er öllum óheimilt að taka til upp­rekstrar sauðfé eða hross af öðrum nema með fullu samþykki viðkomandi fjall­skila­stjórnar, sem tekur þá fullt hagagjald. Þó hafa ábúendur upprekstrarrétt fyrir fjallskilaskyldan fénað sem þeir hafa á fóðrum samkvæmt forðagæsluskýrslum.

7. gr.

Upprekstri sauðfjár og hrossa í afrétt skal haga í samræmi við ákvarðanir hreppsnefndar. Hreppsnefndir og fjallskilastjórar í umboði þeirra, að fengnum tillögum gróður­verndar­nefndar, skulu ákveða hve snemma sumars má reka á afrétt og mega hlutaðeigendur ekki flytja búfé á afrétt fyrr en hreppsnefndir eða fjallskilastjórar leyfa það. Afréttarfénaður skal rekinn á miðjan afrétt, nema fjallskilastjórar hafi ákveðið annað. Hrúta, veturgamla og eldri, má eigi reka á afrétt, enda eru þeir undanþegnir fjall­skila­gjöldum.

Þannig skal reka gegnum heimalönd, að sem minnstur bagi verði að, og er hreppsnefnd heimilt að ákveða hverjar leiðir skuli reka á afrétt. Aldrei má, án leyfis eigenda, reka annarra manna fénað á afrétt, nema víst sé að á afrétt eigi að vera.

Ef afréttur er girtur og afréttarfénaður safnast við þá girðingu síðari hluta sumars, skal hreppsnefnd og fjallskilastjóri sjá um, að það búfé verði fjarlægt þaðan.

8. gr.

Setji einhver fénað sinn á afrétt eða geri ráðstafanir til þess að búfénaður hans eigi greiðan aðgang að afrétt áður en hreppsnefnd hefur heimilað upprekstur, varðar það viðurlögum.

Búfjáreftirlits- og fjallskilanefnd Austur-Húnavatnssýslu, eða hreppsnefnd í viðkomandi upprekstrarfélagi geta og krafist þess að viðkomandi hreppsnefnd láti smala fénaðinum saman og flytja aftur til byggða.

9. gr.

Heimilt er umráðamanni lands, sem verður fyrir ágangi af afréttarfénaði að sumrinu eða fénaði sem á að vera í heimahögum, að kvarta um það til hlutaðeigandi oddvita eða fjallskilastjóra, og skal hann ráðstafa honum á þann hátt er hreppsnefnd ákveður.

Enginn má reka fénað þann, sem úr afrétt gengur, til sveitar eða nágranna.

Enginn má sleppa fénaði sínum á afrétt eftir fyrstu réttir.

10. gr.

Eigi má ónáða búfénað á afrétt eða taka hann þaðan, nema með leyfi sveitarstjórnar og fjallskilastjóra.

III. KAFLI

Um fjallskil.

11. gr.

Fjallskilaskyldur er hver fjáreigandi og hver sem á stóðhross. Skal hver leggja til fjallskil á þann hátt, sem fjallskilastjórn ákveður. Fjallskilastjóri metur allan fjallskilakostnað upprekstrarfélagsins til peningaverðs og jafnar honum á sauðfjár- og stóðhrossabændur upprekstrarfélagsins. Hross skal meta til jafns við allt að sjö vetrarfóðruðum kindum. Skyldur er hver húsbóndi að inna af hendi fjallskil fyrir heimilismenn sína og aðra, sem eiga hjá honum fjallskilaskylt búfé. Fjallskilastjóri skal leggja forðagæsluskýrslur til grundvallar niðurjöfnun fjallskila, þó með leiðréttingum vegna vanhalda eða eigenda­skipta, sem tilkynning hefur borist um, eigi síðar en 10. júlí.

Heimilt er þó að leggja allt að einn þriðja hluta fjallskilakostnaðar á landverð jarða, að frá­dregnu verði ræktaðs lands og hlunninda. Ef heimild þessi er notuð skal vera sama álagningarhlutfall á landverð allra jarða.

12. gr.

Sveitarstjórn eða fjallskilastjórn geta ákveðið að hross séu ekki rekin á afrétt og skal þá taka fullt tillit til þess við álagningu fjallskilagjalda.

13. gr.

Skyldur er hver umráðamaður búfjár að gera fjallskil í þeirri fjallskiladeild þar sem hann á upprekstrarrétt. Heimilt er þó að semja um upprekstur í annarri fjallskiladeild og greiða þar fjallskil. Ekki er heimilt að semja um lægri fjallskilagjöld en gilda þar sem viðkomandi á rétt á upprekstri. Einnig geta þeir sem ekki eiga upprekstrarrétt samið við fjall­skila­deildir um upprekstur.

Sá sem notar land utan upprekstrarfélags síns, skal leita samþykkis fyrir 10. júlí í fjall­skila­deild sinni.

14. gr.

Þar sem tvær eða fleiri fjallskiladeildir nota sama afrétt, skulu hlutaðeigandi fjall­skila­stjórnir eiga fund með sér eigi síðar en 10. ágúst, til að semja um hvernig leitum skuli hagað. Fjallskilastjóri í þeirri fjallskiladeild, þar sem skilarétt stendur, kveður til þessa fundar. Skal þá hver fjallskilastjórn leggja fram skýrslu um tölu fjár og stóðhrossa í fjallskiladeildunum og fer eftir því hvernig fjallskilin skiptast milli deilda.

15. gr.

Göngur skulu hið fæsta vera tvennar haust hvert. Skal þá smala til réttar afréttarlönd og heimalönd, er afréttarfénaður gengur í að jafnaði. Eftirleit skal fara fram fyrir fjár­skila­dag.

16. gr.

Allri skylduvinnu og öðrum kostnaði við fjallskil skal fjallskilastjórn jafna niður á búfjár­eigendur í tæka tíð. Athugasemdir við niðurjöfnunina skal bera fram skriflega fyrir fjall­skila­stjóra fyrir 20. október.

Upprekstrarfélög skulu hafa sérstakan fjallskilasjóð og renna í hann allar tekjur og úr honum greiðast öll gjöld, sem af fjallskilum stafa og lög ákveða. Reikningar sjóðanna skulu fylgja sveitarsjóðsreikningum til endurskoðunar og úrskurðar.

17. gr.

Hreppsnefnd eða fjallskilastjóri, kveður hreppsbúa með gangnaboði til fjallskila átta dögum fyrir göngur. Í gangnaboðinu skal tilgreina nákvæmlega, hvað hverjum ber að leggja til fjallskila það haust. Ef einhver vanrækir að gera fjallskil, sem honum ber, skal hann greiða samsvarandi kostnað, auk sektar í fjallskilasjóð, allt að helmingi af mats­verði fjallskilanna, sbr. 44. gr. laga um afréttarmálefni, fjallskil o.fl., nr. 6/1986.

18. gr.

Fjallskilastjórnir skipa gangnastjóra fyrir hvern gangnaflokk. Hann skipar fyrir um tilhögun leitar og stjórnar henni. Skal hann sjá um að búfénaður sé rekin til réttar og kveðja menn til að gæta safnsins þar til búfénaður er kominn í nátthaga eða vökumenn hafa tekið við honum. Hver gangnamaður er skyldur að hlýða gangnastjóra sínum.

Ef gangnamaður er óhæfur um að inna gangnaskil af hendi að mati gangnastjóra er fjallskilastjórn heimilt að beita ákvæðum 17. gr. um greiðslu í fjallskilasjóð.

19. gr.

Gangnastjóri skal minna gangnamenn á að fara vel með sauðfé og hross í göngunum. Komi sauðfé og hross fyrir, sem ekki verður komið lifandi til réttar, skal gangnastjóri ákveða hverju sinni hversu með skuli fara. Óheimilt er að aflífa skepnur í leitum án fyrir­sagnar gangnastjóra eða eftir umboði hans nema brýna nauðsyn beri til, svo sem ef skepnan er mikið slösuð eða sjúk.

Skylt er gangnastjóra að hafa skotvopn meðferðis í leitum.

Hann skal sjá um að greinilega sé skráð eyrnamark þeirra kinda og hrossa sem lógað er, svo og önnur einkenni, svo sem kyn, litur og einstaklingsmerki. Slíkri greinargerð skilar gangnastjóri til oddvita upprekstrarfélagsins þegar leitum er lokið.

20. gr.

Hafi búfjáreigandi engan hæfan mann til fjallskila og getur eigi útvegað hann, skal hann tilkynna hreppsnefnd eða fjallskilastjóra það skriflega fjórum dögum áður en fjallskilin eiga að vinnast, en þessir aðilar útvega mann eða annað sem vantar, svo sem hesta eða fæði, og borgar þá búfjáreigandi allan kostnað, sem af fjallskilum leiðir, án tillits til mats á þeim.

IV. KAFLI

Smölun heimalanda.

21. gr.

Ábúanda eða eiganda er skylt að smala land sitt svo oft sem fjallskilastjórn fyrirskipar, þótt hann eigi þar ekki fjárvon sjálfur. Geri hann það ekki, skal hreppsnefnd láta smala landið á kostnað eiganda.

22. gr.

Fjallskilastjórn skal skipa fyrir um smalanir heimalanda. Heimilt er að haustsmölun heimalanda verði metin til aðalfjallskila eftir því sem hreppsnefnd ákveður. Allan óskila­fénað, sem kemur fyrir, skal fara með samkvæmt ákvörðun fjallskilastjórnar.

V. KAFLI

Um réttun sauðfjár og hrossa.

23. gr.

    Skilaréttir eru:

 

    Aukaréttir eru:

1. Fossárrétt

 

1. Kjalarlandsrétt

2. Spákonufellsrétt

 

2. Kirkjuskarðsrétt

3. Skrapatungurétt

 

3. Sveinsstaðarétt

4. Hlíðarrétt

 

4. Beinakeldurétt

5. Stafnsrétt

 

6. Auðkúlurétt

 

7. Undirfellsrétt

  

Aðalréttardagar austan Blöndu eru eftirfarandi: Í Fossárrétt, Spákonufellsrétt, Kjalar­lands­rétt og Stafnsrétt, laugardag á tímabilinu 6. til 12. september. Í Skrapa­tungu­rétt og Hlíðarrétt, sunnudag á tímabilinu 7. til 13. september.

Seinni réttardagar í öllum réttum austan Blöndu eru viku eftir aðalréttir.

Fjárskil austan Blöndu fari fram fyrsta mánudag í október.

Aðalréttardagar vestan Blöndu eru eftirfarandi: Í Auðkúlurétt laugardag, á tímabilinu 6. til 12. september. Í Undirfellsrétt, föstudag og laugardag á tímabilinu 5. til 12. september.

Seinni réttardagar vestan Blöndu eru á þriðja mánudegi eftir aðalréttir.

Fjárskil vestan Blöndu fari fram á þriðjudegi á tímabilinu 12. til 18. október.

Heimilt er hreppsnefndum að ákveða smalanir á tilteknum svæðum fyrir venjulegar leitir, ef þurfa þykir og rétta það fé í viðkomandi réttum. Úr slíkum réttum skal úrtíningi komið í góðan haga til næstu réttar.

Hreppsnefndum er heimilt að gera breytingar á gangna- og réttardögum ef meirihluti fjallskilastjórna í samliggjandi upprekstrarfélögum ákveður og búfjáreftirlits- og fjall­skila­nefnd Austur-Húnavatnssýslu samþykkir.

24. gr.

Stjórnir fjallskiladeilda ákveða, hver á sínu svæði, hvaða lönd smala skuli til hverrar réttar. Rísi ágreiningur út af þeim, sker búfjáreftirlits- og fjall­skila­nefnd Austur-Húna­vatns­sýslu úr þeim ágreiningi.

25. gr.

Hreppsnefnd ber skylda til að sjá um byggingu rétta og sjá um viðhald þeirra.

Við hverja skilarétt skal vera ómerkingadilkur og sérstakur dilkur fyrir sjúkt fé. Ennfremur skulu vera til nægilega margir dilkar fyrir fé úr öðrum sveitarfélögum.

26. gr.

Fjallskilastjórnir skipa réttarstjóra við hverja rétt og má réttarstjórnin teljast með fjall­skilum. Réttarstjóri skal vera kominn til réttar í tæka tíð hvern réttardag. Skipar hann fyrir hvernig búfjárdrætti skuli hagað og heldur mönnum til starfs. Hann bannar stranglega alla óreglu, er veldur töf við réttarstörfin. Vanræki einhver réttarstörfin, skal réttarstjóri ráða mann til starfans á hans kostnað.

27. gr.

Fjallskilastjórn skal skipa marklýsingamenn við hverja skilarétt. Þeir skulu skoða úrtíning vandlega eftir markaskrá og úrskurða um búfjármörk í fyrri sem síðari réttum og á fjár­skilum.

28. gr.

Réttarstjóri skal láta taka allar sjúkar kindur úr safninu eða réttinni strax og þeirra verður vart og einangra þær. Hann skal og annast um að ómörkuð lömb séu hirt í réttinni og dregin í sér dilk, svo eigendum gefist kostur á að láta lambsmæður helga sér þau.

Helgi hryssur eða ær sér ekki ómerkinga innan sólarhrings, eru þeir eign viðkomandi fjallskilasjóðs, nema að ótvírætt vottorð óvilhallra manna liggi fyrir um eiganda. Enginn má helga sér marklausa kind af fjárbragði.

Að afloknum réttarstörfum afhendir réttarstjóri fjallskilastjóra allt óskilafé til ráðstöfunar.

29. gr.

Frá hverri aukarétt skulu kvaddir menn til að koma úrtíningi tafarlaust til skilaréttar, svo að hann sé þangað kominn áður en sundurdrætti er lokið.

VI. KAFLI

Hirðing sauðfjár og hrossa.

30. gr.

Hreppsnefnd eða fjallskilastjórn skal skipa hæfa menn til að fara í réttir og á fjárskil annarra sveita, þar sem helst eru fjársamgöngur, til að hirða þar sauðfé og hross fyrir sveitunga sína. Sá maður sem sendur er má ekki fara þaðan fyrr en búið er að skoða úrtíning vandlega eftir markaskrá. Fjallskilastjórn ákveður hvert reka skuli fénað þennan og hvernig haga skuli skilum á honum.

VII. KAFLI

Smölun og réttun hrossa.

31. gr.

Í síðari göngum á haustum skal, ásamt sauðfé, smala stóðhrossum af afréttum og heima­löndum og rétta þau í síðari rétt.

Fjallskilastjórnum er þó heimilt að ákveða sérstaka daga á sínu svæði til að smala og rétta hross.

Fyrsta sunnudag í vetri skal fara fram almenn smölun á hrossum og óskilahrossum komið til skilaréttar.

Þau hross sem ekki þekkjast og enginn hirðir, skal fara með sem óskilafénað og þau seld.

32. gr.

Stóðhross skulu dregin í sundur í aukaréttum og skilaréttum. Skal úrtíningur sá er verður í aukaréttum rekinn tafarlaust til aðalréttar. Meðan á réttum stendur skal réttarstjóri gæta þess að hryssum gefist kostur á að helga sér folöld og skal hann kappkosta að haga allri meðferð á hrossunum þannig, að ekki hljótist slys af.

VIII. KAFLI

Meðferð óskilafénaðar.

33. gr.

Frá aukaréttum gangi ómerkingar til aðalréttar með öðrum úrtíningi. Allir fjáreigendur skulu gæta þess að fé þeirra verði ekki eftir í úrtíningi.

Ómerkingar og óskilakindur sem koma fyrir í skilaréttum og ekki finnast eigendur að, skal fara með í sláturhús og sér fjallskilastjóri um að svo sé gert. Áður en slíku fé er lógað skal skrifa nákvæma lýsingu á því, þar sem geta skal marks og annarra einkenna er eigendur gætu helgað sér það eftir. Óskilafé sem kemur fram eftir réttir og ekki finnast eigendur að eða kemst ekki til eigenda vegna fjarlægðar, skal fara með á sama hátt. Andvirði alls óskilafjár sem fargað er, skal lagt inn á sérstakan reikning þannig að greiða megi út verð hverrar kindar, ef eigandi finnst.

Annan óskilapening svo sem hross og nautgripi, skal sýslumaður selja á opinberu upp­boði með 4 vikna innlausnarfresti.

Óskilafénaður sem seldur er með innlausnarfresti, er í vöktun kaupanda, en ekki á ábyrgð hans fyrr en að innlausnarfresti liðnum.

34. gr.

Þær óskilakindur sem koma fyrir eftir fjárskiladag og eru af nærliggjandi svæði, skal eigendum gefinn kostur á að hirða, annars skal ráðstafa þeim sem öðru óskilafé. Hafi umráðamenn lands ekki hreinsað ókunnugt fé rækilega úr heimalöndum sínum fyrir fjárskiladag, skulu þeir koma fénaði sem kemur fyrir eftir fjárskiladag til réttra eigenda.

35. gr.

Komi óskilahross fyrir eftir almennar smalanir skal landráðandi gera fjallskilastjórn aðvart. Lætur hún síðan skoða mörk þeirra og skrifa upp lýsingu á þeim og auglýsa, ef þörf krefur. Skal landráðanda skylt að annast hrossin til söludags án endurgjalds nema hann þurfi að taka þau á gjöf, þá gegn hæfilegri borgun fyrir fóður. Þau hross sem ekki þekkjast og enginn hirðir, skal fara með sem óskilafénað og þau seld.

36. gr.

Af andvirði óskilafénaðar greiðist eftir því sem við á:

 1. Gæslukostnaður
 2. Sölukostnaður (sölulaun og vottalaun)
 3. Auglýsingakostnaður
 4. Fundarlaun eða björgunarlaun.

Að öðru leyti greiðist andvirði fénaðarins til eigenda, ef þeir sanna eignarrétt sinn innan innlausnarfrests. Annars fellur verðið í fjallskilasjóð.

Finnist hross eða sauðfé óheimt á afréttum, eftir að eftirleitir hafa farið fram, skulu fjallskilasjóðir upprekstrarfélaga greiða sanngjörn björgunarlaun eftir mati fjall­skila­stjórnar.

IX. KAFLI

Um sauðfjár- og hrossamörk.

37. gr.

Búfé skal draga eftir mörkum. Búfjármörk eru: örmerki, frostmerki, brennimörk, plötumerki og eyrnamörk. Skylt er hverjum búfjáreiganda að hafa glöggt mark á búfé sínu. Lömb skulu eyrnamörkuð fyrir lok 12. viku sumars. Skylt er að merkja allt ásett sauðfé og geitfé með einstaklingsmerki með númeri lögbýlis eða eiganda, sýslutákni og númerum sveitarfélags. Að auki er heimilt að brennimerkja sömu númer og tákn á horn. Ef einhver vanrækir að hafa brennimark á fé sínu eða merkja með plötu í eyra, getur hann ekki krafist skaðabóta þótt fé hans verði eftir í útréttum, í úrtíningi eða fari skakka leið í fjárskilum.

Mark helgar markeiganda eignarrétt, nema sannist að annar eigi. Enginn má draga sér búpening sem eigi ber hans rétta mark. Við sönnun á eign á búfé er örmerki rétthæst, þar næst frostmerki, síðan brennimark, þá plötumerki og síðast eyrnamark.

Búfjáreftirlits- og fjallskilanefnd Austur-Húnavatnssýslu skal svo oft sem þurfa þykir, og a.m.k. áttunda hvert ár, láta prenta markaskrá fyrir alla sýsluna. Skal sérhver markeigandi koma marki sínu í hana og borga fyrir það eftir því sem búfjáreftirlits- og fjallskilanefnd Austur-Húnavatnssýslu ákveður, en hvert heimili skal fá ókeypis eitt eintak af markaskránni. Komi fyrir hross eða sauðfé með óglöggu marki eða skemmdum eyrum, gilda ákvæði 27. gr.

38. gr.

Marklýsingarnefnd skal skipuð þremur mönnum, markaverði sýslunnar og tveimur mönnum skipuðum af sýslumanni eftir tilnefningu búfjáreftirlits- og fjallskilanefndar Austur-Húnavatnssýslu, og tveimur til vara. Nefndin skal skipuð til fjögurra ára í senn. Nefndin kýs sér formann. Þóknun til nefndarmanna og annar kostnaður greiðist af búfjáreftirlits- og fjallskilanefnd Austur-Húnavatnssýslu.

39. gr.

Enginn má taka upp mark, er líkist svo mörkum sem eru í markaskrá sýslunnar eða nærliggjandi sýslna, að ætla megi að valdi misdrætti. Mikil særingarmörk má ekki taka upp né heldur þau mörk sem vandkvæði er á að marka svo glöggt sé. Fleiri en tvær undirbenjar má ekki hafa sömu megin á eyra.

Verði ágreiningur með markaverði og markeiganda eða þeim, er vill taka upp nýtt mark, má vísa þeim ágreiningi til markanefndar skv. 69. gr. laga nr. 6. 21. mars 1986. Búfjáreftirlits- og fjallskilanefnd Austur-Húnavatnssýslu, skal ráða mann til að annast undir­búning að prentun markaskrár fyrir sýsluna, og kallast hann markavörður. Skal hann gæta þess að ekki séu tekin upp ný mörk sem notuð eru í héruðum sem búast má við samgöngum við.

Nú vill maður taka upp nýtt mark milli þess sem ný markaskrá er prentuð, og skal hann þá snúa sér til markavarðar og fá samþykki hans til að taka upp markið. Markavörður tilkynnir fjallskilastjórum í nærliggjandi fjallskiladeildum um markið og sendir það til birtingar í Landsmarkaskrá.

Enginn má nota mark, nema það sé prentað í markaskrá sýslunnar eða tilkynnt af markaverði. Markavörður skal fá þóknun fyrir starf sitt. Þeir sem taka upp ný mörk milli þess sem markaskrá er prentuð, skulu greiða kostnað við tilkynningu þeirra. Sama gildir um mörk þeirra, sem flytjast inn í sýsluna, milli þess er markaskrá er prentuð.

Sýslutákn og númer sveitarfélaga:

1. Fyrrum Vindhælishreppur

H 1

6. Fyrrum Svínavatnshreppur

H 4

2. Fyrrum Höfðahreppur

H la

7. Fyrrum Torfalækjarhreppur

H5

3. Fyrrum Skagahreppur

H Ib

8. Fyrrum Blönduóshreppur

Blós

4. Fyrrum Engihlíðarhreppur

H 2

9. Fyrrum Sveinsstaðahreppur

H 6

5. Fyrrum Bólstaðarhlíðarhreppur

H 3

10. Fyrrum Áshreppur

H 7

X. KAFLI

Eftirlit, rekstur og flutningur búfjár á bílum.

40. gr.

Óheimilt er að reka hóp búfjár á vegum í þéttbýli nema sérstakt leyfi lögreglustjóra komi til. Utan þéttbýlis má reka búfjárhópa eftir vegum, en rekstrinum skulu fylgja nægilega margir gæslumenn, og ef vænta má umferðar ökutækis um veginn, skal einn gæslu­maður ætíð fara fyrir. Fénu skal vikið fljótt og greiðlega út af veginum, ef þess er þörf vegna annarrar umferðar. Nú er vegi lokað um tíma fyrir bílaumferð vegna fjár­rekstra, skulu þá allir sem reka þurfa fé þá leið gera það á þeim tíma sem veginum er lokað.

41. gr.

Í hverju sláturhúsi skal láta samviskusaman mann skoða löggild búfjármörk á öllu sauðfé og hrossum sem slátrað er. Skal hann skrifa hjá sér eyrnamark, áletrun á plötumerki og einkenni, ef vafi þykir um eiganda. Komi fram við slátrun kind með vafasömu marki, skal kveðja til, auk markaskoðunarmanns, tvo menn valda af eigendum sláturhúsa á staðnum, og skulu þeir úrskurða um mark á kindinni ef unnt er, áður en henni er lógað. Þeim úrskurði má áfrýja til marklýsingarnefndar, enda verði það gert strax, eða þegar eftir að hlutaðeigendur hafa fengið að vita um niðurstöðu marklýsingarmanna. Ef úrskurði er áfrýjað eða ef ekki fæst úr því skorið strax, skal varðveita haus kindarinnar og leggja afurðir af henni inn á sérstakan reikning. Sömu ákvæði gilda um hross og nautgripi.

XI. KAFLI

Refsiákvæði, gildistaka o.fl.

42. gr.

Sýslumaður sker úr öllum ágreiningi milli hreppsnefnda út af fjallskilamálum. Þá heyra undir úrskurð hans allar kærur og kröfur á hendur sveitarstjórnum, er snerta fjall­skila­mál. Ennfremur geta einstakir aðilar lagt slík ágreiningsmál undir úrskurð sýslu­manns.

43. gr.

Samþykkt þessi sem héraðsnefnd Austur-Húnvetninga hefur samið og samþykkt, stað­festist hér með, samkvæmt 3. gr. laga nr. 6/1986 um afréttarmálefni, fjallskil o.fl. með síðari breytingum, til þess að öðlast þegar gildi. Á sama tíma falla úr gildi fjall­skila­samþykkt fyrir Austur-Húnavatnssýslu nr. 9/1989 og auglýsing nr. 400/1996, um breytingu á fjallskilasamþykkt nr. 9/1989 fyrir Austur-Húnavatnssýslu.

Sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytinu, 3. mars 2009.

F. h. r.
Sigurgeir Þorgeirsson.

Guðlaug Jónasdóttir.

B deild - Útgáfud.: 20. mars 2009