Velkomin á vef Stjórnartíðinda
Setja síðu í 1024px vídd Setja síðu í 1280px vídd Setja síðu í 1400px vídd Fyrir sjónskerta Venjulegt letur Stækka letur Stækka letur enn meira

Leiðréttingar:
Leiðrétt skjal: B_nr_217_2020 leidrett.pdf
Leiðrétt 16. mars 2020:
HTML-texti og PDF-skjal: greinanúmer 6 og 7 verði: 5 og 6


Sé munur á uppsetningu texta hér að neðan og í PDF skjali gildir PDF skjalið.
 217/2020

Nr. 217/2020 13. mars 2020

AUGLÝSING
um takmörkun á samkomum vegna farsóttar.

1. gr.

Ákvörðun og markmið.

Með vísan til 2. mgr. 12. gr. sóttvarnalaga nr. 19/1997 hefur heilbrigðisráðherra ákveðið, að feng­inni tillögu sóttvarnalæknis, og í samráði við ríkisstjórnina að setja á tímabundna takmörkun á samkomum eftir því sem hér greinir.

Markmið takmörkunarinnar er að hægja eins og unnt er á útbreiðslu COVID-19 sjúkdómsins.

 

2. gr.

Gildissvið.

Takmörkun á samkomum tekur gildi 16. mars 2020 kl. 00.01 og gildir til 12. apríl 2020 kl. 23.59.

Stjórnvöld endurmeta þörf á takmörkuninni eftir því sem efni standa til, þ.e. hvort unnt sé að aflétta henni fyrr eða hvort þörf sé á að framlengja gildistíma hennar.

Takmörkun á samkomum tekur til landsins alls.

 

3. gr.

Fjöldatakmörkun.

Í takmörkun á samkomum felst að fjöldasamkomur eru óheimilar á gildistíma þessarar auglýs­ingar. Með fjöldasamkomum er átt við þegar 100 einstaklingar eða fleiri koma saman, hvort sem er í opinberum rýmum eða í einkarýmum. Er þá m.a. vísað til:

  a) Ráðstefna, málþinga, funda o.þ.h.
  b) Skemmtana, s.s. tónleika, leiksýninga, bíósýninga, íþróttaviðburða og einkasamkvæma.
  c) Kirkjuathafna hvers konar, s.s. vegna útfara, giftinga, ferminga og annarra trúarsamkoma.
  d) Annarra sambærilegra viðburða með 100 einstaklingum eða fleiri.

Enn fremur skal tryggt á öllum vinnustöðum og í allri starfsemi að ekki séu á sama tíma fleiri en 100 einstaklingar inni í sama rými, s.s. á veitingastöðum, mötuneytum, kaffihúsum, skemmti­stöðum, versl­unum, sundlaugum, líkamsræktarstöðvum og söfnum.

 

4. gr.

Nálægðartakmörkun.

Í takmörkuninni felst einnig að á samkomum, öllum vinnustöðum og í allri annarri starfsemi skuli eftir því sem unnt er, rými skipulögð með þeim hætti að hægt sé að hafa a.m.k. 2 metra á milli einstaklinga. Þessi mörk eiga einnig við um almenningssamgöngur og aðra sambærilegra starfsemi.

 

6. gr.

Takmörkun gildissviðs.

Takmörkun þessi á samkomum tekur ekki til skólahalds en um það er fjallað í sérstakri aug­lýsingu.

Takmörkunin tekur ekki til alþjóðaflugvalla og -hafna. Það tekur jafnframt ekki til loftfara og skipa.

 

7. gr.

Undanþágur.

Ráðherra getur veitt undanþágu frá takmörkun á samkomum í þágu allsherjarreglu eða öryggis ríkisins eða til verndar lífs eða heilsu manna eða dýra.

 

Heilbrigðisráðuneytinu, 13. mars 2020.

 

Svandís Svavarsdóttir.

Ásta Valdimarsdóttir.


B deild - Útgáfud.: 13. mars 2020