Velkomin á vef Stjórnartíðinda
Setja síðu í 1024px vídd Setja síðu í 1280px vídd Setja síðu í 1400px vídd Fyrir sjónskerta Venjulegt letur Stækka letur Stækka letur enn meira

Sé munur á uppsetningu texta hér að neðan og í PDF skjali gildir PDF skjalið.
 540/2019

Nr. 540/2019 22. maí 2019

REGLUR
um innkaup Skútustaðahrepps.

I. KAFLI

Almenn ákvæði.

1. gr.

Tilgangur.

Reglur þessar eru settar með stoð í lögum um opinber innkaup nr. 120/2016 (hér eftir nefnd lög um opinber innkaup eða lögin). Tilgangur reglnanna er að útfæra nánar verklag við kaup á vörum, þjónustu og verklegum framkvæmdum. Reglur þessar eru settar til að stuðla að vönduðum og hagkvæmum innkaupum Skútustaðahrepps og til að tryggja gæði vöru, þjónustu og verka. Enn fremur skulu reglurnar stuðla að því að litið sé til umhverfissjónarmiða (eins og t.d. umhverfis­merktra og vottaðra vara, vörur sem koma úr nærumhverfi og stuðla að minna kolefnis­spori) og líftíma vöru auk meðalhófs og gagnsæis við innkaup. Jafnframt verði vistvæn innkaup og grænn rekstur haft að leiðarljósi í samræmi við stefnu stjórnvalda, sbr. skýrslu Aþingis frá nóvember 2017.

Innkaupareglum skal fylgt við öll innkaup, sem og lögum um opinber innkaup nr. 120/2016 og lögum um framkvæmd útboða nr. 65/1993. Við innkaup skal taka mið af EES-reglum þegar við á.

2. gr.

Gildissvið.

Reglur þessar gilda fyrir allar stofnanir og deildir sem reknar eru á vegum Skútustaðahrepps. Reglurnar taka ekki til samtaka eða samlaga sem sveitarfélagið á aðild að með öðrum sveitar­félögum, þó svo að lög um opinber innkaup geti gilt um þau.

Reglurnar taka til allra innkaupa Skútustaðahrepps. Við innkaup skal fylgja lögum um opinber inn­kaup sem og öðrum lögum og reglugerðum sem kunna að verða sett og ná til sveitarfélagsins.

3. gr.

Samningar sem innkaupareglurnar taka til.

Innkaupareglur þessar taka til skriflegra samninga um fjárhagslegt endurgjald sem Skútu­staða­hreppur gerir við eitt eða fleiri fyrirtæki og hafa að markmiði framkvæmd verks, sölu á vöru eða veitingu þjónustu í skilningi reglna þessara.

Til verksamninga teljast samningar sem hafa að markmiði framkvæmd, eða framkvæmd og hönnun, á verkum sem m.a. flokkast undir margvíslega byggingastarfsemi, og á verkum eða fram­kvæmd verks, með hvers konar aðferðum sem svara eiga til krafna sem Skútustaðahreppur hefur sett fram. Með verki í þessum skilningi er átt við afrakstur mannvirkjagerðar eða verk­fræði­legra aðferða sem getur, sem slíkur, þjónað efnahagslegu eða tæknilegu hlutverki. Dæmi um verk­samn­inga eru samningar um gerð nýbygginga og ýmissa þátta þeirra, gerð gatna og lagna, jarð­vinnu og lagningu margvíslegra yfirborðsefna.

Til vörusamninga teljast aðrir samningar en um ræðir í 2. mgr. þessarar greinar, sem hafa að mark­miði kaup, leigu eða fjármögnunarleigu, með eða án kaupréttar, á vöru. Samningur sem felur í sér tilfall­andi ísetningu eða uppsetningu vöru telst vörusamningur.

Til þjónustusamninga teljast samningar sem ekki eru verk- eða vörusamningar og hafa að markmiði veitingu þjónustu, svo sem viðhalds- og viðgerðarþjónustu, fjarskiptaþjónustu, fjármálaþjónustu, vátryggingaþjónustu, tölvuþjónustu, ráðgjafaþjónustu, garðslátt, sorp- og hreinlætisþjónustu o.fl. Ef samningar varða í senn tvær eða fleiri tegundir innkaupa, þ.e. á verkum, þjónustu eða vörum, er um blandaða samninga að ræða. Í þeim tilvikum skulu samningar falla undir þá tegund sem megin­efni samningsins fjallar um. Samningur sem hefur að markmiði veitingu þjónustu og felur í sér tilfall­andi verk með hliðsjón af meginmarkmiði samningsins, telst þjónustusamningur.

Um skilgreiningar á einstökum samningsgerðum vísast að öðru leyti til laga um opinber innkaup, einkum 4. og 5. gr.

4. gr.

Samningar undanþegnir ákvæðum innkaupareglna.

Innkaupareglur þessar taka ekki til þjónustusamninga sem tilgreindir eru í 11. gr. laga um opinber innkaup og samninga milli opinberra aðila á grundvelli 13. gr. sömu laga.

II. KAFLI

Ábyrgð, umsjón og eftirfylgni með innkaupum.

5. gr.

Ábyrgð á innkaupum.

Sveitarstjóri er prókúruhafi sveitarfélagsins, sbr. 4. mgr. 55. gr. sveitarstjórnarlaga nr. 138/2011, og ber ábyrgð á innkaupum Skútustaðahrepps. Sveitarstjóra er heimilt að veita öðrum starfs­mönnum sveitarfélagsins prókúru að fengnu samþykki sveitarstjórnar.

Forstöðumönnum/deildarstjórum er heimilt að stofna til útgjalda fyrir hönd sveitarfélagsins innan ramma fjárhagsáætlunar hverju sinni og bera þeir ábyrgð á innkaupum sinna stofnana. Öllum sem heimild hafa til að stofna til útgjalda ber að staðfesta að þeir hafi kynnt sér efni innkaupareglna sveitarfélagsins og að þeir muni fylgja þeim við innkaup.

Áður en ákvörðun er tekin um innkaup, útboð undirbúið eða samið um framkvæmd verks, kaup á vöru eða veitingu þjónustu, skal greina þörf fyrir innkaup, þ.m.t. umhverfissjónarmið. Mikilvægt er að það sé gert í samráði við væntanlega notendur og jafnframt íhugað hvort þarfir verði uppfylltar eftir öðrum leiðum, s.s. með breyttu vinnulagi, endurnýtingu, þjónustu eða á annan hátt. Skylt er að á þessu stigi sé leitað upplýsinga hjá seljendum um valkosti sem eru í boði, innkaupaverð, gæði, umhverfisáhrif og líftímakostnað. Áætlaður kostnaður og ávinningur af kaupunum er metinn og kannað með hvaða hætti þarfir Skútustaðahrepps verða best uppfylltar m.a. með tilliti til umhverfis­sjónarmiða.

Sveitarfélagið heldur skrá yfir þá starfsmenn sem hafa heimild til að stofna til útgjalda og ber sveitar­stjóri ábyrgð á að uppfæra skrána.

6. gr.

Umsjón og eftirfylgni með innkaupum.

Sveitarstjóri og forstöðumenn stofnana hafa umboð til innkaupa og geta falið einstökum starfs­mönnum umboð til innkaupa á afmörkuðum þáttum deildar/stofnunar. Sveitarstjórn skal stað­festa alla innkaupasamninga sem gerðir eru á grundvelli útboða í samræmi við 13.-16. gr. reglna þessara. Sveitarstjóri skal staðfesta samninga sem gerðir eru um innkaup.

Forstöðumenn skulu fylgjast með innkaupum, hver á sinni stofnun og vera starfsfólki, sem hefur heimild til innkaupa, til aðstoðar við innkaup og framfylgd innkaupareglna. Þeir skulu stuðla að og fylgjast með samræmingu innkaupa á vegum stofnana sveitarfélagsins eins og kostur er. Sveitar­stjóri og skrifstofustjóri leiðbeina og hafa eftirlit með öllum innkaupum Skútustaðahrepps með samræm­ingu og hagkvæmni að leiðarljósi.

7. gr.

Verklag við innkaup.

Þeir starfsmenn sem annast innkaup af hálfu Skútustaðahrepps skulu tryggja að með öllum inn­kaupum fylgi greinargóðar skýringar og upplýsingar um innkaupin til seljanda vöru eða þjón­ustu. Við innkaup og innkaupapöntun skal tilgreina hver pantar, hvaða deild eða stofnun viðkom­andi vara eða þjónusta tilheyrir og önnur þau atriði sem máli skipta.

III. KAFLI

Undirbúningur innkaupa.

8. gr.

Val á aðferð við innkaup.

Áður en ákvörðun er tekin um innkaup og samið um framvæmd verks, kaup á vöru eða veitingu þjónustu, skal jafnframt lagt mat á hvaða aðferð henti við innkaupin, með tilliti til eðlis og umfangs þeirra, sbr. einnig önnur ákvæði reglna þessara. Sveitarstjóri og skrifstofustjóri veita leiðbeiningar um innkaup sveitarfélagsins.

Við innkaup Skútustaðahrepps samkvæmt reglum þessum skal einkum nota eftirfarandi aðferðir:

Almennt útboð.
Verðfyrirspurn/verðsamanburð.
Rammasamninga.

Að höfðu samráði við sveitarstjóra/skrifstofustjóra, er í öðrum tilvikum heimilt að viðhafa eftir­far­andi aðferðir við innkaup:

Lokað útboð.
Samningakaup að undangenginni birtingu útboðsauglýsingar.
Samkeppnisútboð.
Nýsköpunarsamstarf.
Samkeppnisviðræður.

9. gr.

Ákvörðun um viðmiðunarfjárhæðir o.fl.

Við innkaup Skútustaðahrepps gilda viðmiðunarfjárhæðir laga um opinber innkaup og breytingar sem gerðar verða á viðmiðunarfjárhæðum í samræmi við vísitölubreytingar og auglýstar eru opin­ber­lega af fjármála- og efnahagsráðherra, sbr. einnig nánari ákvæði reglna þessara.

Viðmiðunarfjárhæðir vegna innkaupa á opinberum þjónustusamningum um félagsþjónustu og aðra sértæka þjónustu skv. 4. gr. reglna þessara, sbr. VIII. kafla laga um opinber innkaup, eru birtar í reglugerð settri af fjármála- og efnahagsráðherra í samræmi við skuldbindingar íslenska ríkisins samkvæmt samningnum um Evrópska efnahagssvæðið.

10. gr.

Viðmiðunarfjárhæðir vegna verðfyrirspurna.

Gera skal formlega fyrirspurn um verð, önnur kjör og eiginleika, sbr. 16. gr. reglnanna, þegar áætluð fjárhæð innkaupa að meðtöldum virðisaukaskatti er innan viðmiðunarfjárhæða í samræmi við vísitölubreytingar og auglýstar eru opinberlega af fjármála- og efnahagsráðherra, sbr. einnig nánari ákvæði reglna þessara.

Heimilt er að viðhafa önnur innkaupaferli í þeim undantekningartilvikum sem reglurnar greina.

Fyrirspurn er viðhöfð þegar útboð er ekki talið eiga við til að afla tilboða frá tilteknum aðilum sem taldir eru geta útvegað vöru, veitt þjónustu eða framkvæmt verk, sem óskað er eftir hverju sinni.

Þrátt fyrir að fyrirspurnir séu óformlegri en útboð, samkvæmt þeim lögum sem um þau gilda, skal tilboða aflað á grundvelli skriflegra fyrirspurnargagna og tilboð skulu einnig vera skrifleg. Sveitar­félaginu er heimilt að senda út fyrirspurnir og taka við tilboðum í fyrirspurnir í tölvupósti. Máls­meðferð öll skal vera vönduð, fyrirspurnargögn skulu vera skýr og greinargóð og skýrt skal koma fram ef meta á tilboð á öðrum forsendum en verði einu saman.

Tilboð skulu opnuð á tilsettum tíma og þau skráð. Samanburðarskrá tilboða skal gerð og þátt­tak­endur skulu upplýstir um val á tilboði.

11. gr.

Mat á virði og skipting innkaupa.

Við útreikning á áætluðu virði samnings skal miða við þá heildarfjárhæð sem Skútustaðahreppur kemur til með að greiða fyrir innkaup, að meðtöldum virðisaukaskatti, þ.m.t. aðföng sem Skútu­staða­hreppur lætur bjóðanda í té, flutningur vöru og þóknanir og annað það sem Skútu­staða­hreppur leggur til og metið verður til fjár.

Við útreikninginn skal taka tillit til heildarfjárhæðar, þar á meðal hvers konar valfrjálsra ákvæða og hugsanlegrar endurnýjunar samnings. Sé fyrirhugað að kaupa vöru, þjónustu eða verk í áföngum skal miða við samanlagt heildarverð allra áfanga sem boðnir eru út, með virðisaukaskatti.

Útreikningur skal miðast við þann tíma þegar tilkynning um innkaupin er send til opinberrar birtingar eða þegar Skútustaðahreppur hefst handa við innkaupaferli þegar ekki er skylt að tilkynna opinberlega um innkaup.

Óheimilt er að skipta upp verki eða innkaupum á vöru og/eða þjónustu í því skyni að innkaup verði undir viðmiðunarfjárhæðum.

Almennt skulu samningar ekki vera ótímabundnir.

Við útreikning á áætluðu virði verksamnings skal miða við kostnað við verkið auk verðmætis aðfanga sem Skútustaðahreppur lætur bjóðanda í té við verkið.

Við útreikning á áætluðu virði vörusamnings skal telja kostnað vegna flutnings vöru með í vöru­verði.

Þegar um er að ræða þjónustusamning þar sem heildarfjárhæð er ótilgreind skal miða við áætlaða samningsfjárhæð allan gildistíma samningsins. Sé samningstíminn óviss skal miða við heildar­greiðslur samkvæmt samningnum í 48 mánuði.

Þegar um er að ræða samninga um fjármögnunarleigu, leigu eða kaupleigu á vörum til 12 mánaða eða skemur skal miða við heildarsamningsfjárhæð. Sé samningur bundinn til lengri tíma skal miðað við heildarfjárhæð auk virðis varanna við lok samningstímans. Sé samningstíminn óviss skal miða við heildargreiðslur samkvæmt samningnum í 48 mánuði.

IV. KAFLI

Aðferðir við innkaup.

12. gr.

Almennt útboð.

Þegar um er að ræða kaup á verki eða þjónustu sem margir geta framkvæmt eða veitt, eða vöru sem margir selja eða geta útvegað, skal viðhafa almennt útboð.

13. gr.

Lokað útboð.

Þegar opnu útboði verður ekki við komið, það þykir ekki hagkvæmur kostur eða aðrar málefnalegar ástæður eru fyrir hendi er heimilt að viðhafa lokað útboð. Lokað útboð skal almennt ekki viðhaft nema að undangengnu forvali. Við lokað útboð skal leitast við að ná fram raunhæfri samkeppni og skal fjöldi þátttakenda taka mið af því.

Þegar um er að ræða vandasöm, faglega og/eða tímalega krefjandi og/eða fjárfrek verk, skal tryggja eins og kostur er að væntanlegir bjóðendur hafi bæði faglega og fjárhagslega getu til að framkvæma viðkomandi verk. Sama gildir þegar um er að ræða kaup á þjónustu eða vöru. Til að tryggja framangreint skal lokað útboð viðhaft, þegar útboðsskylda er fyrir hendi, sbr. 9. gr. regln­anna.

14. gr.

Forval.

Þegar forval er viðhaft til að velja þátttakendur í lokuðu útboði, hönnunarsamkeppni, sam­keppnis­viðræðum eða samningskaupum að undangenginni útboðsauglýsingu skal auglýsa til­kynn­ingu um forval með áberandi hætti þannig að áhugasöm fyrirtæki geti tekið þátt í forvalinu.

Í auglýsingu skulu koma fram nægilega miklar upplýsingar til að fyrirtæki geti tekið afstöðu til þess hvort þau hyggjast taka þátt í forvali og eftirfarandi útboði.

Í forvalsgögnum skulu koma fram málefnaleg og óhlutdræg skilyrði eða reglur sem leggja á til grundvallar við val þátttakenda. Skýr ákvæði skulu vera um hvaða gagna eða upplýsinga er krafist frá umsækjendum, meðal þeirra skulu vera gögn sem sýna getu umsækjenda til að taka að sér verkefnið.

Í forvali er heimilt að takmarka fjölda þeirra sem valdir eru til að taka þátt í lokuðu útboði, sam­keppnisviðræðum eða samningskaupum, enda hafi nægilega margir þátttakendur tekið þátt í forv­ali. Fjöldi þátttakenda sem valdir eru skal ætíð vera nægilegur til að tryggja raunverulega sam­keppni.

15. gr.

Undantekningar frá útboði.

Þegar ófyrirséðar, sérstakar aðstæður kalla getur sveitarstjórn tekið ákvörðun um að víkja frá skyldu til útboðs samkvæmt reglunum. Sveitarstjóra er heimilt að veita undanþágu frá verð­fyrirspurn ef ríkar ástæður eru fyrir hendi, svo sem ef búnaður og þjónusta fæst eingöngu hjá einum aðila.

16. gr.

Verðfyrirspurn.

Verðfyrirspurn skal vera undanfari ákvörðunar um innkaup þegar áætluð samningsfjárhæð inn­kaupa er á því verðbili sem 10. gr. reglna þessara greinir. Verðfyrirspurnir snúast ekki eingöngu um innkaupaverð heldur geta þær einnig náð til annarra kjara og eiginleika vöru, þjónustu og verka, eftir atvikum.

Verðfyrirspurn er framkvæmd til að afla tilboða frá tilteknum aðilum sem taldir eru geta útvegað vöru, veitt þjónustu eða framkvæmt verk, sem óskað er eftir hverju sinni. Fyrirspurnargögn og tilboð skulu vera skrifleg. Heimilt er að senda út verðfyrirspurnir og taka við tilboðum samkvæmt þeim með tölvupósti. Fyrirspurnargögn skulu vera greinargóð og skýrt tekið fram ef meta á tilboð á öðrum forsendum en einungis verði. Opnun tilboða samkvæmt verðfyrirspurn, á tilsettum opn­unar­tíma, skal skráð af þeim starfsmanni sem gerir fyrirspurnina, nema annað sé ákveðið. Tilboð skulu borin saman og þátttakendur upplýstir um val á tilboði.

17. gr.

Verðsamanburður við innkaup undir viðmiðunarfjárhæðum.

Við innkaup undir viðmiðunarfjárhæðum skv. 10. gr. reglna þessara þar sem verðfyrirspurn verður ekki við komið vegna eðlis innkaupa, t.d. þegar um er að ræða kaup á sérhæfðri vöru, þjónustu eða verkum, eða þar sem ekki þykir skynsamlegt að viðhafa verðfyrirspurn, t.d. þegar lítið magn er keypt í einu, skal þó ávallt gæta hagkvæmni og gera samanburð meðal sem flestra fyrirtækja á verði og öðrum eiginleikum vöru, þjónustu og verka. Jafnframt skal taka mið af umhverfis­sjónar­miðum og líftíma vöru. Virða skal jafnræði seljenda, sbr. 1. gr. reglnanna.

18. gr.

Samningskaup að undangenginni útboðsauglýsingu.

Ef ekkert lögmætt tilboð berst í almennu eða lokuðu útboði eða samkeppnisviðræðum, öll tilboð eru óaðgengileg eða þátttakendum eða bjóðendum er vísað frá á grundvelli ákvæða VI. kafla laga um opinber innkaup, er heimilt að viðhafa samningskaup að undangenginni útboðsauglýsingu, enda sé upphaflegum skilmálum útboðsins ekki breytt í verulegum atriðum.

Samningskaup að undangenginni opinberri birtingu útboðsauglýsingar eru einnig heimil í eftir­farandi tilvikum:

Þegar ómögulegt er að áætla heildarkostnað fyrirfram vegna eðlis verks, þjónustu eða vöru eða áhættu samfara innkaupum sem gerir áætlun kostnaðar ómögulega.

Þegar um er að ræða þjónustu, einkum þjónustu á sviði hugverka eða rannsókna og þróunar, að svo miklu leyti sem ekki er unnt að skilgreina kröfur til hins keypta með það mikilli nákvæmni að mögulegt sé að gera upp á milli tilboða samkvæmt þeim reglum sem gilda í almennu eða lokuðu útboði.

Þegar um er að ræða verk sem eingöngu eru unnin vegna rannsókna, tilrauna eða þróunar og ekki í ágóðaskyni eða til þess að mæta kostnaði vegna rannsókna, umhverfisáhrifa og þróunarverkefna.

Að öðru leyti gildir ákvæði 33. gr. laga um opinber innkaup.

19. gr.

Aðrar aðferðir við innkaup.

Um aðrar aðferðir við innkaup vísast til laga um opinber innkaup og þá sérstaklega IV. kafla lag­anna.

V. KAFLI

Kröfur til gagna og bjóðenda.

20. gr.

Útboðsgögn og forsendur.

Útboðsgögn skulu innihalda allar nauðsynlegar upplýsingar svo unnt sé að gera tilboð. Frestur til að skila tilboði skal alltaf vera hæfilegur miðað við umfang þess sem boðið er út. Styðjast má nánar við V. kafla laga um opinber innkaup eftir atvikum.

Forsendur fyrir vali tilboðs skulu annaðhvort miðast eingöngu við lægsta verð eða fjárhagslega hagkvæmni frá sjónarhóli Skútustaðahrepps í samræmi við VI. kafla laga um opinber innkaup. Forsendur sem liggja til grundvallar mati á fjarhagslegri hagkvæmni skulu tengjast efni samnings, t.d. gæðum, verði, tæknilegum eiginleikum, útliti, notkunareiginleikum, umhverfislegum eigin­leikum, rekstrarkostnaði, rekstrarhagkvæmni, viðhaldsþjónustu, afhendingardegi og afhend­ingar­tímabili eða lokum framkvæmdar samnings.

Í útboðsauglýsingu, útboðsgögnum eða skýringargögnum, eða þegar um er að ræða sam­keppnis­viðræður, skal tilgreina forsendur fyrir vali útboðs eins nákvæmlega og framast er unnt. Til­greina skal hlutfallslegt vægi hvers viðmiðs sem vísað er til sem forsendu fyrir vali útboðs. Þetta vægi má setja fram sem ákveðið bil með hæfilegum hámarksvikmörkum. Ef ómögulegt er að til­greina tiltekið vægi forsendna af ástæðum sem hægt er að sýna fram á skal raða forsendum í röð eftir mikilvægi.

21. gr.

Undirverktaka.

Heimilt er að krefjast þess í útboðsgögnum að bjóðandi upplýsi hvaða hluta samnings hann hyggst láta þriðja aðila framkvæma sem undirverktaka og hvaða undirverktaka sá aðili hyggst nota. Upplýsingar bjóðanda um undirverktaka skulu ekki hafa áhrif á ábyrgð bjóðanda gagnvart kaup­anda. Verktaki ber fulla ábyrgð á sínum undirverktökum.

Krefjast skal í útboðsgögnum að bjóðandi tryggi að allir starfsmenn sem koma munu að verkinu, hvort sem um er að ræða starfsmenn bjóðanda eða undirverktaka, fái laun og starfskjör í samræmi við gildandi kjarasamninga hverju sinni og aðstæður þeirra séu í samræmi við löggjöf á sviði vinnuverndar. Hvenær sem er á samningstíma skal bjóðandi sýna verkkaupa fram á að öll réttindi og skyldur gagnvart þessum starfsmönnum séu uppfyllt. Bjóðandi skal samþykkja að ef hann getur ekki framvísað gögnum eða sýnt eftirlitsmanni verksins fram á að samningsskyldur séu uppfylltar innan 10 daga frá ósk um slíkt er borin fram af verkkaupa getur verkkaupi rift verksamningi án frekari fyrirvara eða ákveðið að beita dagsektum fyrir hvern dag sem umbeðnar upplýsingar skortir. Beiting þessara vanefndaúrræða hefur ekki áhrif á gildi verktryggingar.

22. gr.

Frávikstilboð.

Tilboði, sem er í verulegum atriðum í ósamræmi við útboðsskilmála, skal eigi tekið. Skútu­staða­hreppur skal taka fram í útboðsauglýsingu hvort frávikstilboð eru heimil og þá hver séu skilyrði fyrir gerð þeirra, þar á meðal hverjar séu þær lágmarkskröfur sem slík tilboð þurfi að full­nægja. Að öðrum kosti eru frávikstilboð óheimil. Aðeins er heimilt að taka til umfjöllunar fráviks­tilboð sem fullnægja lágmarkskröfum kaupanda samkvæmt útboðsgögnum.

Þegar um er að ræða vöru- og þjónustukaup er kaupanda, sem hefur leyft frávikstilboð, óheimilt að hafna frávikstilboði á þeirri forsendu einni að samningur, ef hann yrði gerður, yrði þjónustu­samningur í stað vörusamnings eða vörusamningur í stað þjónustusamnings.

23. gr.

Persónulegar aðstæður þátttakenda eða bjóðenda.

Óheimilt er að gera samning við þann sem eftirfarandi á við um á opnunardegi tilboða og fram til áætlaðs samningsdags:

Hefur verið sakfelldur með endanlegum dómi fyrir spillingu, sviksemi, peningaþvætti, barna­þrælkun, mansal, hryðjuverk, umhverfisspjöll eða þátttöku í skipulögðum glæpasamtökum.

Sætir nauðasamningum, greiðslustöðvun eða er undir gjaldþrotaskiptum.

Er í vanskilum með opinber gjöld, lífeyrissjóðsiðgjöld eða önnur lögákveðin gjöld.

Eftir því sem við á geta kaupendur óskað eftir því að þátttakendur eða bjóðendur leggi fram gögn um ofangreind atriði. Heimilt er að kanna viðskiptasögu bjóðenda, þ.e. eiganda og helstu stjórn­enda, við mat á því hvort ofangreind skilyrði eigi við. Leiði sú könnun í ljós að eigandi eða fyrir­tæki hans hafi lent í greiðslu- eða gjaldþroti, sbr. 68. gr. laga um opinber innkaup, sl. fimm ár (gjald­þrot, nauðasamninga, greiðslustöðvun o.fl.) ber að vísa bjóðanda frá, enda eigi í hlut sama rekstrar­eining, með sömu eða nær sömu eigendur, í sömu eða nær sömu atvinnustarfsemi, án tillits til þess hvort fyrirtækið hafi skipt um kennitölu eða verið stofnað að nýju.

Hafi þátttakandi eða bjóðandi uppfyllt skyldur sínar með því að greiða upp vanskil fyrir opnunardag tilboða á opinberum gjöldum eða gert samning um greiðslur þeirra, þ.m.t. vexti eða sektir, skal hann ekki útilokaður samkvæmt þessari grein.

Heimilt er að útiloka fyrirtæki frá opinberum samningi sem eftirfarandi á við um á opnunardegi tilboða og fram til áætlaðs samningsdags:

  1. Hefur með endanlegum dómi verið fundið sekt um refsivert brot í starfi.
  2. Hefur sýnt alvarlega vanrækslu í starfi sem kaupanda er unnt að sýna fram á.
  3. Hefur gefið rangar upplýsingar um fjárhagslega og tæknilega getu sína eða hefur ekki lagt slíkar upplýsingar fram.

24. gr.

Fjárhagsstaða og tæknileg geta bjóðenda.

Fjárhagsstaða sem og tæknileg geta bjóðanda skal vera það trygg að hann geti staðið við skuld­bindingar sínar gagnvart Skútustaðahreppi. Miðað er við þann tímapunkt þegar tilboðum hefur verið skilað og þau eru metin, nema um lokað útboð sé að ræða eða annað verði ákveðið.

Heimilt er að gera kröfur um jákvæða eiginfjárstöðu tilboðsgjafa í útboðum.

Þegar um er að ræða vöru- og þjónustusamninga sem fela í sér ísetningu og uppsetningu, veitingu þjónustu og/eða framkvæmd verks er heimilt að meta sérstaklega getu fyrirtækisins til þess að veita þjónustuna, sjá um uppsetninguna eða vinna verkið, einkum með hliðsjón af hæfni, skilvirkni, reynslu og áreiðanleika.

Fyrirtæki getur, eftir því sem við á og vegna gerðar tiltekins samnings, byggt á fjárhagslegri og/eða tæknilegri getu annarra aðila án tillits til lagalegra tengsla fyrirtækisins við þessa aðila. Ef þetta er gert skal fyrirtæki sýna kaupanda fram á að það muni hafa nauðsynlega fjármuni til ráðstöfunar og/eða aðgang að nauðsynlegri tækni, t.d. með þeim hætti að hlutaðeigandi fyrirtæki stofni sam­eigin­lega sérstakt félag í þessu skyni, eða séu með samstarfssamning sem tryggir ofangreint.

Í útboðsauglýsingu eða útboðsgögnum skal koma fram hvaða gagna er krafist um fjárhagsstöðu og tæknilega getu bjóðenda. Ekki skal krefjast frekari gagna þessu til sönnunar en nauðsynlegt er með hliðsjón af eðli og umfangi, mikilvægi eða ætlaðri notkun verks, þjónustu eða vöru. Ef bjóðandi er ófær um að leggja fram umbeðin gögn er honum heimilt að sýna fram á getu sína með öðrum gögnum sem Skútustaðahreppur metur fullnægjandi. Sveitarstjóri leiðbeinir um gerð krafna um fjárhagsstöðu og tæknilega getu í útboðsgögnum og aðstoðar við mat á því hvort skilyrðum sé fullnægt að þessu leyti. Styðjast má við kröfur VI. kafla laga um opinber innkaup að þessu leyti.

Óheimilt er að inna af hendi greiðslur til viðsemjanda vegna verks eða þjónustu fyrr en fullnægjandi samningsefndatrygging liggur fyrir og samningur er frágenginn, í þeim tilfellum sem tryggingar er krafist.

25. gr.

Aðrar kröfur til seljanda.

Við undirbúning innkaupa skal, í samræmi við þarfir kaupanda, ákveða hvaða kröfur eru gerðar til seljenda og til vöru, þjónustu og verka.

Kaupanda er heimilt að kveða á um sérstök skilyrði, einkum varðandi félagsleg og umhverfisleg atriði, sem tengjast framkvæmd samnings, enda séu þessi skilyrði í samræmi við reglur EES-samn­ingsins og hafi verið tilgreind í útboðsauglýsingu eða útboðsskilmálum.

Skútustaðahreppur getur krafist þess að gefið sé út vottorð af óháðum aðila til staðfestingar á því að fyrirtæki fullnægi ákveðnum umhverfisstjórnunarstöðlum eða öðrum fyrirfram skilgreindum kröfum varðandi umhverfismál.

VII. KAFLI

Önnur ákvæði.

26. gr.

Hæfis- og siðareglur.

Enginn starfsmaður Skútustaðahrepps eða fulltrúi í nefnd, ráði eða stjórn á vegum sveitarfélagsins má eiga aðild að ákvörðunum um innkaup, sem varða aðila sem þeir eru náskyldir eða í hags­muna­tengslum við. Ber starfsmanni eða nefndarfulltrúa að hafa frumkvæði að því að gera viðvart um ástæður er kunna að valda vanhæfi hans.

Starfsmönnum Skútustaðahrepps og fulltrúum í nefndum, ráðum eða stjórnum á vegum sveitar­félagsins er óheimilt að þiggja boðsferðir og gjafir sem tengjast viðskiptum við sveitarfélagið nema með samþykki sveitarstjóra. Sveitarstjóra er óheimilt að þiggja boðsferðir og gjafir sem tengjast við­skiptum við sveitarfélagið nema með samþykki oddvita.

27. gr.

Viðskipti við tengda aðila.

Almennt eru tengdir aðilar aðal- og varamenn í sveitarstjórn auk æðstu stjórnenda sveitarfélagsins. Makar þessara aðila, ófjárráða börn og aðrir fjárhagslega háðir einstaklingar falla einnig hér undir ásamt fyrirtækjum í eigu eða undir stjórn þessara aðila.

Sveitarfélagið heldur skrá yfir tengda aðila og ber sveitarstjóri ábyrgð á að uppfæra skrána.

Viðskipti sveitarfélagsins við tengda aðila skulu vera á sömu forsendum og þegar um óskylda aðila er að ræða, s.s. varðandi einingaverð. Að öðru leyti gilda ákvæði 27. gr. um hæfis- og siðareglur.

28. gr.

Trúnaðarskylda.

Allir fulltrúar sveitarfélagsins er koma að innkaupum og innkaupamálum skulu gæta þagmælsku um það sem þeir fá vitneskju um í starfi sínu og leynt á að fara vegna viðskiptahagsmuna sveitar­félags­ins og stofnana þess, eða af öðrum ástæðum sem leiða af lögum eða eðli máls.

29. gr.

Kæru- og endurupptökuheimild.

Sé um að ræða innkaup sem falla undir lög um opinber innkaup og reglur þessar, er aðila heimilt að kæra til kærunefndar útboðsmála. Kæra skal borin skriflega undir kærunefnd útboðsmála innan 20 daga frá því að kærandi vissi eða mátti vita um þá ákvörðun, athöfn eða athafnaleysi sem hann telur brjóta gegn réttindum sínum, sbr. 105. gr. laga um opinber innkaup.

Heimild til að skjóta málum til nefndarinnar hafa þau fyrirtæki sem njóta réttinda samkvæmt lögum þessum og hafa lögvarða hagsmuni af úrlausn málsins.

30. gr.

Gildistaka og endurskoðun.

Reglur þessar eru settar af sveitarstjórn Skútustaðahrepps og öðlast gildi við birtingu í Stjórnar­tíðindum. Þær skulu einnig birtar á vefsíðu sveitarfélagsins.

Sveitarstjóri hefur með höndum eftirfylgni með reglunum og stendur sveitarstjórn skil á fram­kvæmd þeirra.

Við gildistöku þessara reglna falla úr gildi reglur fyrir innkaup Skútustaðahrepps nr. 244/2018.

Staðfest í sveitarstjórn Skútustaðahrepps 21. maí 2019.

Skútustaðahreppi, 22. maí 2019.

Þorsteinn Gunnarsson sveitarstjóri.


B deild - Útgáfud.: 6. júní 2019