Velkomin á vef Stjórnartíðinda
Setja síðu í 1024px vídd Setja síðu í 1280px vídd Setja síðu í 1400px vídd Fyrir sjónskerta Venjulegt letur Stækka letur Stækka letur enn meira

Sé munur á uppsetningu texta hér að neðan og í PDF skjali gildir PDF skjalið.
 1240/2022

Nr. 1240/2022 26. október 2022

REGLUR
um störf ráðgjafa nauðungarvistaðra samkvæmt lögræðislögum nr. 71/1997.

1. gr.

Reglur þessar eiga við um ráðgjafa nauðungarvistaðra einstaklinga sem starfa á grundvelli 27. gr. lögræðislaga og samnings við dómsmálaráðuneytið. Í samningi skal meðal annars kveðið á um þóknun til ráðgjafa.

 

2. gr.

Nauðungarvistaður einstaklingur á rétt á að njóta ráðgjafar og stuðnings sérstaks ráðgjafa vegna sjúkrahúsdvalarinnar og meðferðar þar, sbr. 1. mgr. 27. gr. lögræðislaga. Þessi réttur tryggir að hinum nauðungarvistaða á að standa til boða viðtal við ráðgjafa hvort sem viðkomandi er nauðungar­vistaður í allt að 72 klst. skv. 2. mgr. 19. gr. lögræðislaga, allt að 21 dag skv. 3. mgr. 19. gr. lögræðis­laga eða í allt að 12 vikur skv. 29. gr. a. lögræðislaga.

Vakthafandi læknir eða hjúkrunarfræðingur skal ávallt hafa samband við ráðgjafa svo fljótt sem verða má og tilkynna honum um nauðungarvistunina. Nauðungarvistaður einstaklingur á rétt á að ræða við ráðgjafann einslega um hvaðeina sem nauðungarvistunina varðar og hafa samband við hann reglu­lega, nema ástandi hins nauðungarvistaða sé þannig háttað að mati vakthafandi læknis að það hafi enga þýðingu, sbr. 2. mgr. 27. gr. lögræðislaga.

 

3. gr.

Ráðgjafi skal með símavakt tryggja að viðtal við hinn nauðungarvistaða hefjist að jafnaði innan 12 klukkustunda eftir að vakthafandi læknir eða hjúkrunarfræðingur deildar á sjúkrahúsi hefur haft samband við ráðgjafa. Greiður aðgangur skal vera að ráðgjafa þannig að tryggt sé að starfsmenn sjúkra­húss geti náð í ráðgjafa alla daga ársins frá kl. 10 til kl. 20.

 

4. gr.

Almenn störf ráðgjafa eru:

  1. Að veita nauðungarvistuðum einstaklingi upplýsingar um réttindi hans og stöðu.
  2. Að veita nauðungarvistuðum einstaklingi persónulega ráðgjöf, stuðning og aðstoð um hvað­eina er nauðungarvistunina varðar allt til loka hennar, nema ástandi hins nauðungarvistaða sé þannig háttað að mati vakthafandi læknis að það hafi enga þýðingu.
  3. Að vera talsmaður hins nauðungarvistaða um hvaðeina er vistunina varðar.

 

5. gr.

Ráðgjafi hefur heimild til að kynna sér sjúkraskrá nauðungarvistaðs einstaklings sem hann veitir ráðgjöf, sbr. 2. mgr. 27. gr. lögræðislaga. Nær heimildin til þeirra upplýsinga er varða nauðungar­vistunina sem slíka og þvingaða lyfjagjöf eða meðferð. Í því sambandi er ráðgjafa meðal annars heimilt að kynna sér:

  1. Ástæður nauðungarvistunarinnar og eftir atvikum undirliggjandi læknisvottorð.
  2. Hvenær nauðungarvistun hefst.
  3. Hvenær vakthafandi sjúkrahúslæknir tilkynnti yfirlækni um ákvarðanir sínar skv. 2. mgr. 19. gr. og 3. mgr. 28. gr. lögræðislaga.
  4. Hvenær hinum nauðungarvistaða var kynntur réttur til að ráðfæra sig við ráðgjafa skv. 27. gr. lögræðislaga.
  5. Hvenær hinum nauðungarvistaða var kynntur réttur til að bera ákvörðun um nauðungar­vistun eða þvingaða lyfjagjöf eða meðferð undir dómstóla skv. 30. gr. lögræðislaga eða eftir atvikum ástæður þess að sá réttur hafi ekki verið kynntur þegar í stað.
  6. Ákvarðanir eða fyrirhugaðar ákvarðanir um þvingaða lyfjagjöf og aðra þvingaða meðferð skv. 28. gr. lögræðislaga og rökstuðning fyrir nauðsyn hennar.

 

6. gr.

Ráðgjafi skal aðstoða þann sem hefur verið nauðungarvistaður við kröfugerð ef einstaklingurinn óskar eftir að bera ákvörðun um vistunina og/eða þvingaða lyfjagjöf eða meðferð undir dómstóla og sjá um að dómstól berist krafan þegar í stað, sbr. 3. mgr. 30. gr. lögræðislaga.

 

7. gr.

Ráðgjafi skal halda nákvæma skrá yfir þjónustubeiðnir og dagsetningar þeirra, fjölda tíma og fleira er þjónustuna varðar samkvæmt nánari ákvörðun ráðuneytisins. Ráðgjafar skulu skila árlegri greinargerð um störf nýliðins árs til ráðuneytisins og jafnframt senda hana stjórnendum sjúkrahúsa þar sem nauðung fer fram.

 

8. gr.

Ráðgjafa er skylt að gæta þagmælsku um atriði er hann fær vitneskju um í starfi sínu eða vegna starfs síns og leynt skulu fara skv. 18. gr. laga um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins. Brot á þagnarskyldu varðar refsingu skv. XIV. kafla almennra hegningarlaga.

Þagnarskylda samkvæmt þessari grein helst þótt látið sé af starfi.

 

9. gr.

Verði ráðgjafi áskynja um eitthvað sem betur mætti fara við framkvæmd nauðungarvistunar, svo sem samskipti við hinn nauðungarvistaða eða samskipti ráðgjafa við sjúkrahús, ber honum að koma ábendingu þess efnis til hlutaðeigandi aðila, svo sem sjúkrahúss eða ráðuneytis.

 

10. gr.

Ráðgjafi skal vera óháður og ótengdur hinum nauðungarvistaða, svo sem vegna atvinnu, ættar­tengsla eða vinatengsla, svo ekki leiki vafi á að hlutlægni hans við starfann sé stefnt í hættu. Ef ráð­gjafi veit um slík tengsl ber honum að vísa málinu til annars ráðgjafa sem starfar samkvæmt samn­ingi við ráðuneytið. Ef allir starfandi ráðgjafar telja sig vanhæfa ber þeim að snúa sér til ráðuneytis­ins með úrlausn málsins.

 

11. gr.

Reglur þessar eru settar samkvæmt 5. mgr. 27. gr. lögræðislaga nr. 71/1997, og öðlast þegar gildi.

 

Dómsmálaráðuneytinu, 26. október 2022.

 

Jón Gunnarsson.

Haukur Guðmundsson.


B deild - Útgáfud.: 16. nóvember 2022