Velkomin á vef Stjórnartíðinda
Setja síðu í 1024px vídd Setja síðu í 1280px vídd Setja síðu í 1400px vídd Fyrir sjónskerta Venjulegt letur Stækka letur Stækka letur enn meira

Sé munur á uppsetningu texta hér að neðan og í PDF skjali gildir PDF skjalið.
 433/2022

Nr. 433/2022 12. apríl 2022

REGLUR
um tilhögun í kjörfundarstofu við sveitarstjórnarkosningar.

1. gr.

Gildissvið.

Reglur þessar gilda um tilhögun í kjörfundarstofu við sveitarstjórnarkosningar.

 

2. gr.

Kjörklefi.

Þegar kosning fer fram skal svo búið um kjörklefa að þar sé nægileg birta og hann afmarkaður með tjaldi eða skilrúmi, þannig að kjósandi geti greitt þar atkvæði án þess að aðrir sjái til. Yfir­kjörstjórn sveitarfélags ber ábyrgð á að aðgengi fatlaðs fólks sé tryggt.

 

3. gr.

Atkvæðakassi.

Í kjörfundarstofu skal vera atkvæðakassi sem uppfyllir þær kröfur sem kveðið er á um í reglugerð um kjörgögn, atkvæðakassa o.fl. við kosningar.

 

4. gr.

Tilkynningar og kosningaleiðbeiningar.

Í kjörfundarstofu, svo og annars staðar á kjörstað, skal á áberandi stað festa upp tilkynningu um framboðslista í sveitarfélaginu þar sem fram koma heiti stjórnmálasamtaka, listabókstafir og nöfn frambjóðenda í sömu röð og á kjörseðli.

Fari fram óbundin kosning í sveitarfélaginu skal festa upp tilkynningu á áberandi stað í kjörfundar­stofu og á kjörstað um þá sem beðist hafa undan endurkjöri.

Kosningaleiðbeiningar skulu festar upp á áberandi stað í kjörfundarstofu og á kjörstað. Þær skulu m.a. hafa að geyma upplýsingar um það hvernig kjósandi skuli gera grein fyrir sér, hverjir hafi kosningarrétt, hvernig greiða skuli atkvæði, aðstoð við atkvæðagreiðslu og skyldur og ábyrgð þess sem veitir kjósanda aðstoð.

 

5. gr.

Skriffæri.

Í hverjum kjörklefa skal vera borð sem skrifa má við. Á borðinu skulu vera skriffæri sem kjör­stjórn lætur í té.

 

6. gr.

Gildistaka og lagastoð.

Reglur þessar eru settar skv. 2. mgr. 79. gr. kosningalaga nr. 112/2021 og taka þegar gildi.

 

Landskjörstjórn, 12. apríl 2022.

 

Kristín Edwald.

  Ólafía Ingólfsdóttir.  Hulda Katrín Stefánsdóttir.
     
  Ebba Schram.   Magnús Karel Hannesson.

                                                 

                                                         

Ástríður Jóhannesdóttir
framkvæmdastjóri.      


B deild - Útgáfud.: 13. apríl 2022