Velkomin á vef Stjórnartíðinda
Setja síðu í 1024px vídd Setja síðu í 1280px vídd Setja síðu í 1400px vídd Fyrir sjónskerta Venjulegt letur Stækka letur Stækka letur enn meira

Sé munur á uppsetningu texta hér að neðan og í PDF skjali gildir PDF skjalið.
 1161/2013

Nr. 1161/2013 10. desember 2013
SAMÞYKKT
um búfjárhald í Reykhólahreppi.

1. gr.

Samþykkt þessi er sett til að tryggja skipulag, stjórnun og eftirlit með búfjárhaldi í lögsagnarumdæmi Reykhólahrepps. Sveitarstjórn, í samráði við skipulags-, bygginga-, húsnæðis- og hafnarnefnd Reykhólahrepps, sem fer með málefni landbúnaðar skv. erindisbréfi nefndarinnar, fer með framkvæmd þessarar samþykktar.

2. gr.

Með búfjárhaldi í samþykkt þessari er átt við nautgripa-, hrossa-, sauðfjár-, svína-, kanínu-, loðdýra-, geita- og alifuglahald, sbr. 2. gr. laga nr. 103/2002, um búfjárhald o.fl.

3. gr.

Búfjárhald utan lögbýla er óheimilt án leyfis sveitarstjórnar Reykhólahrepps.

4. gr.

Sá sem hyggst sækja um leyfi til búfjárhalds samkvæmt 3. gr. samþykktar þessarar skal senda skriflega umsókn til sveitarstjórnar Reykhólahrepps. Í umsókninni skal tilgreina tegund búfjár, fjölda þess, húsakost og annað er máli kann að skipta um öryggi þess og vörslu.

Óheimilt er að halda búfé, nema hafa fyrir það hús sem samræmist reglugerðum um aðbúnað búfjár. Sama gildir um allt umhverfi húsanna.

Leyfishafi ber einn ábyrgð á því að hann hafi beitiland og fóður fyrir allt sitt búfé og hann skal tryggja góða meðferð þess.

Gangi búfé úti á vetrarbeit skal eigandi eða umráðamaður þess ábyrgjast nægilegt fóður, viðunandi skjól og örugga vörslu.

Allt búfé skal einstaklingsmerkt eigendum sínum samkvæmt lögum og reglum.

Telji sveitarstjórn að umsækjandi uppfylli þau skilyrði, sem krafist er samkvæmt gildandi lögum og stjórnvaldsreglum, veitir hún leyfið. Leyfið skal gefið út á nafn og er það ekki framseljanlegt. Um leyfið gilda ákvæði þessarar samþykktar og er það uppsegjanlegt með eins árs fyrirvara miðað við 15. júní ár hvert. Ef leyfishafi brýtur ítrekað gegn lögum nr. 103/2002, um búfjárhald o.fl. eða samþykkt þessari, má svipta hann leyfi til búfjárhalds með þriggja mánaða fyrirvara.

5. gr.

Reykhólahreppur sér um lögbundið búfjáreftirlit skv. lögum nr. 103/2002, um búfjárhald o.fl. og reglugerð nr. 743/2002, um búfjáreftirlit o.fl.

6. gr.

Lausaganga stórgripa er bönnuð í Reykhólahreppi, og sama gildir um lausagöngu alls búfjár innan þéttbýlis á Reykhólum, sbr. fylgiskjal 1, reglugerð nr. 748/2002, um girðingar og reglugerð nr. 59/2000, um vörslu búfjár. Öllum umráðamönnum stórgripa í sveitarfélaginu er skylt að hafa þá í vörslu innan gripaheldra girðinga.

7. gr.

Nú verður stórgripa vart utan vörslugirðinga sem og sauðfjár og geitfjár innan þéttbýlis­kjarna, á skipulögðum íþróttasvæðum og fólkvöngum sem eru afgirt samkvæmt ákvæðum girðingarlaga nr. 135/2001 og reglugerðar nr. 748/2002, um girðingar og er þeim sem verða gripanna varir skylt að tilkynna það til sveitarfélagsins.

Sveitarfélagið skal sjá um að láta handsama búfénaðinn og færa í örugga vörslu. Eiganda skal tilkynnt um gripi sína og gert að sækja þá. Við ítrekuð brot eða hafi eigandi ekki hirt um að sækja gripi sína innan tíu daga, er heimilt að innheimta áfallinn kostnað og/eða svipta viðkomandi leyfi til búfjárhalds. Um ráðstöfun gripa fer eftir lögum nr. 103/2002, um búfjárhald o.fl.

8. gr.

Brot gegn samþykkt þessari varða viðurlögum samkvæmt lögum nr. 103/2002, um búfjárhald o.fl.

9. gr.

Samþykkt þessi, sem er samþykkt af sveitarstjórn Reykhólahrepps, staðfestist hér með samkvæmt lögum nr. 103/2002, um búfjárhald o.fl. og öðlast þegar gildi. Frá sama tíma falla úr gildi allar fyrri samþykktir um sama efni sem gerðar voru í þeim hreppum sem síðar við sameiningu urðu að Reykhólahreppi.

Ákvæði til bráðabirgða.

Þeir sem við gildistöku þessarar samþykktar, eiga eða hafa í umsjón sinni búfé utan lögbýla, fá leyfi til að halda þeim gripafjölda er þeir þegar hafa, uppfylli þeir að öðru leyti skilyrði samþykktarinnar.

Þeir skulu tilkynna búfjárhald sitt til sveitarstjórnar Reykhólahrepps innan tveggja mánaða frá gildistöku þessarar samþykktar.

Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytinu, 10. desember 2013.

F. h. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra,

Kristinn Hugason.

Sigríður Norðmann.

Fylgiskjal.
(sjá PDF-skjal)

B deild - Útgáfud.: 23. desember 2013