Velkomin á vef Stjórnartíðinda
Setja síðu í 1024px vídd Setja síðu í 1280px vídd Setja síðu í 1400px vídd Fyrir sjónskerta Venjulegt letur Stækka letur Stækka letur enn meira

Sé munur á uppsetningu texta hér að neðan og í PDF skjali gildir PDF skjalið.
 1094/2017

Nr. 1094/2017 1. desember 2017

AUGLÝSING
um flokkun vöru og þjónustu vegna vörumerkja.

1. gr.

Gildissvið.

Í samræmi við 16. gr. laga nr. 45/1997 um vörumerki, með síðari breytingum og ákvæði Nice-samningsins frá 15. júní 1957 um alþjóðlega flokkun vöru og þjónustu vegna skráningar vöru­merkja, með síðari breytingum, gildir eftirfarandi flokkaskrá fyrir vörur og þjónustu vegna skrán­ingar vörumerkja. Flokkaskráin er birt sem fylgiskjal með auglýsingu þessari.

Flokkaskráin er í samræmi við 11. útgáfu alþjóðlegu skrárinnar um flokkun vöru og þjónustu við skráningu vörumerkja samkvæmt Nice-samningnum sem tók gildi 1. janúar 2017 og þær breyt­ingar sem átt hafa sér stað frá þeim tíma. Flokkaskráin er uppfærð með rafrænum hætti um hver áramót.

2. gr.

Breytingar þann 1. janúar 2018.

Eftirfarandi breytingar verða á yfirskriftum flokkaskrárinnar frá og með 1. janúar 2018.

 1. Flokkur 1: Orðalaginu „til að nota“ er breytt í „til nota“. Komma á eftir orðinu „vísindastörf“ fellur brott og í stað þess kemur orðið „og“ á undan orðinu „ljósmyndun“. Tilgreiningin „áburður“ er flutt aftar í yfirskriftina. Tilgreiningunni „slökkviefni“ er breytt í „slökkvi- og eldvarnarefni“. Tilgreiningin „efni til varðveislu á matvælum“ er felld brott. Tilgreiningunni „sútunarefni“ er breytt í „efni til sútunar á dýraskinnum og -húðum“. Tilgreiningunni „lím og bindiefni til iðnaðarnota“ er breytt í „lím og bindiefni til nota í iðnaði“. Eftirfarandi til­grein­ingum er bætt við: „kítti og önnur fyllingarefni; molta, áburður, gróðuráburður; líffræðilegar efnablöndur til nota í iðnaði og vísindum“.
 2. Flokkur 2: Tilgreiningunni „litunarefni“ er bætt við á eftir tilgreiningunni „litarefni“. Til­grein­ing­unni „blek til prentunar, merkingar og fyrir leturgröft“ er bætt við þar á eftir. Tilgrein­ingin „litfestir“ er felld brott.
 3. Flokkur 3: Í upphafi yfirskriftarinnar er bætt við: „Ólyfjabættar fegrunar- og snyrtivörur; ólyfjabættar tannhirðuvörur; ilmvörur, ilmolíur“. Tilgreiningarnar „lyflausar sápur“, „lyflausar snyrtivörur“, „lyflaus hárvötn“ og „lyflausar tannhirðuvörur“ eru felldar brott.
 4. Flokkur 4: Tilgreiningunni „vax“ er bætt við á eftir tilgreiningunni „Olíur og feiti til iðnaðar“. Tilgreiningin „(þar með talið eldsneyti fyrir hreyfla)“ er felld brott.
 5. Flokkur 7: Í stað „og“ á milli „Vélar og smíðavélar“ kemur komma og á eftir „smíðavélar“ er tilgreiningunni „orkuknúnar vélar“ bætt við. Svigar um „(þó ekki í landfarartæki)“ í yfir­skrift­inni eru felldir brott. Í stað „sem ekki eru handknúnar“ á eftir tilgreiningunni „land­bún­aðarvélar“ kemur „aðrar en handknúin handverkfæri“.
 6. Flokkur 8: Tilgreiningin „beltisvopn, þó ekki skotvopn“ kemur í stað „höggvopn og lagvopn“.
 7. Flokkur 16: Tilgreiningin „vörur fyrir listamenn og teiknivörur“ verður „teiknivörur og vörur fyrir listamenn“.
 8. Flokkur 21: Á eftir tilgreiningunni „Heimilis- eða eldhúsáhöld og ílát“ kemur „eldhús- og borðbúnaður, nema gafflar, hnífar og skeiðar;“.
 9. Flokkur 29: Tilgreiningin „matarolíur og matarfeiti“ verður „olíur og feiti til matar“ (for food).
 10. Flokkur 30: Á eftir tilgreiningunni „ís“ kemur „(frosið vatn)“.

3. gr.

Leiðréttingar.

Eftirfarandi leiðréttingar verða á þýðingum í yfirskriftum eftirtalinna flokka:

 1. Flokkur 6: Tilgreiningin „málmílát“ sem er þýðing á tilgreiningunni „metal containers“ kemur í stað „málmgámar“.
 2. Flokkur 10: Orðið „umönnunar“ sem er þýðing á orðinu „nursing“ í ensku útgáfu flokka­skrárinnar kemur í stað orðsins „hjúkrunar“.
 3. Flokkur 28: Tilgreiningin „skjáleikjabúnaður“ sem er þýðing á „video game apparatus“ í ensku útgáfu flokkaskrárinnar kemur í stað „tæki til skjáleikja“.
 4. Flokkur 31: Tilgreiningin „hráar og óunnar“, sem er þýðing á „raw and unprocessed“ í ensku útgáfu flokkaskrárinnar kemur í stað „óunnar og unnar“ í upphafi yfirskriftar flokksins. Til­greiningin „blómlaukar“ sem er þýðing á tilgreiningunni „bulbs“ í ensku útgáfu flokka­skrárinnar kemur í stað „laukar“. Tilgreiningin „kímplöntur“ sem er þýðing á tilgrein­ing­unni „seedlings“ í ensku útgáfu flokkaskrárinnar kemur í stað „græðlingar“.

4. gr.

Nánari tilgreining á yfirskriftum flokka við endurnýjun vörumerkja.

Í samræmi við ákvörðun Einkaleyfastofunnar um þrengri túlkun á yfirskriftum flokkaskrárinnar frá 1. janúar 2014, er heimilt við fyrstu endurnýjun merkis eftir það tímamark að tilgreina nánar þá vöru og/eða þjónustu sem merki er skráð fyrir. Tilgreining skal vera í samræmi við þá útgáfu alþjóðlegu flokkaskrárinnar sem er í gildi hverju sinni. Útvíkkun á vernd er ekki heimil. Ef ekki er óskað eftir endurflokkun stendur vöru- og/eða þjónustulisti óbreyttur.

Við endurflokkun þá sem heimil er skv. 1. mgr. skal þess gætt að tilgreiningar séu skýrar og nákvæmar. Leitast skal við að velja einungis þær tilgreiningar sem varða starfsemi eiganda.

Það er á ábyrgð eigenda eða umboðsmanna þeirra að tilgreina nánar vöru og/eða þjónustu við endur­nýjun í samræmi við ákvæði þetta. Telji Einkaleyfastofan tilgreiningar ekki fullnægjandi er veittur frestur til að lagfæra umsóknina í samræmi við 2. mgr. 27. gr. laga nr. 45/1997 um vöru­merki.

5. gr.

Gildistaka og brottfall.

Auglýsing þessi gildir frá og með 1. janúar 2018. Jafnframt fellur úr gildi auglýsing um flokkun vöru og þjónustu vegna vörumerkja nr. 130/2017.

Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytinu, 1. desember 2017.

F. h. ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra,

Ingvi Már Pálsson.

Brynhildur Pálmarsdóttir.

Fylgiskjal.
(sjá PDF-skjal)


B deild - Útgáfud.: 15. desember 2017