Velkomin á vef Stjórnartíðinda
Setja síðu í 1024px vídd Setja síðu í 1280px vídd Setja síðu í 1400px vídd Fyrir sjónskerta Venjulegt letur Stækka letur Stækka letur enn meira

Sé munur á uppsetningu texta hér að neðan og í PDF skjali gildir PDF skjalið.
 782/2017

Nr. 782/2017 1. september 2017

REGLUGERÐ
um Framkvæmdasjóð ferðamannastaða.

1. gr.

Framkvæmdasjóður ferðamannastaða.

Framkvæmdasjóður ferðamannastaða starfar á grundvelli laga nr. 75/2011. Sjóðurinn heyrir undir atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið. Sjóðurinn er í vörslu Ferðamálastofu sem annast rekstur hans, þ.m.t. framkvæmd úthlutana úr sjóðnum og samskipti við styrkþega, upplýsingamiðlun, upp­gjör, bókhald og gerð ársreikninga.

Ráðherra skipar fjóra fulltrúa í stjórn Framkvæmdasjóðs ferðamannastaða til tveggja ára í senn. Skal einn skipaður eftir tilnefningu Samtaka ferðaþjónustunnar, einn eftir tilnefningu Sambands íslenskra sveitarfélaga, einn eftir tilnefningu ráðherra sem fer með málefni náttúruverndar og einn án tilnefningar og skal hann jafnframt vera formaður.

2. gr.

Hlutverk Framkvæmdasjóðs ferðamannastaða.

Hlutverk Framkvæmdasjóðs ferðamannastaða er að veita styrki til uppbyggingar, viðhalds og vernd­unar ferðamannastaða um land allt og til aðgerða sem stuðla að öryggi ferðamanna og verndun náttúru landsins. Einnig er sjóðnum ætlað að fjölga viðkomustöðum ferðafólks til að draga úr álagi á fjölsótta ferðamannastaði.

3. gr.

Stjórn Framkvæmdasjóðs ferðamannastaða.

Stjórn sjóðsins gerir að jafnaði einu sinni á ári tillögur til ráðherra um úthlutanir úr sjóðnum.

Stjórn sjóðsins getur haft frumkvæði að öflun upplýsinga frá yfirvöldum umhverfis- og ferðamála og öðrum hagsmunaaðilum um þörf á framkvæmdum á ferðamannastöðum og forgangsröðun fram­kvæmda.

Stjórn sjóðsins getur farið í vettvangsferðir á ferðamannastaði, telji hún þörf á því, og stuðlað að auknu samstarfi hagsmunaaðila um uppbyggingu og verndun ferðamannastaða ef við á. Kostnaður við vettvangsferðir greiðist af sjóðnum.

Stjórn sjóðsins skal halda fundargerðir um fundi sína og skulu þær undirritaðar af þeim sem fundinn sitja. Fundargerðir stjórnar skal birta á heimasíðu Ferðamálastofu.

4. gr.

Hlutverk Ferðamálastofu.

Framkvæmdasjóður ferðamannastaða er í vörslu Ferðamálastofu sem annast rekstur sjóðsins.

Hlutverk Ferðamálastofu er:

  1. Skipuleggur starfsemi sjóðsins og annast rekstur hans.
  2. Þjónusta við stjórn sjóðsins vegna tillagnagerðar til ráðherra:
    1. Undirbýr og boðar til funda í stjórn sjóðsins og ritar fundargerðir í samráði við formann.
    2. Annast kynningu á sjóðnum, útbýr kynningarefni og upplýsingar um starfsemi hans, úthlutunarstefnu, áherslur, fresti og skilyrði og birtir auglýsingar eftir umsóknum.
    3. Sér um móttöku umsókna og að faglegt mat á umsóknum fari fram.
  3. Annast afgreiðslu styrkja, samningagerð við styrkþega og eftirfylgni styrkúthlutana.
  4. Metur framvindu- og lokaskýrslur og efndir samninga.
  5. Sér um verkefnabókhald, gerð ársreikninga og tilheyrandi reikningshald í samvinnu við ráðu­neytið.

Ferðamálastofa hefur eftirlit með framvindu verkefna og bregst við ef verulegar breytingar verða vegna einstakra verkefna.

Ferðamálastofa skal einu sinni á ári skila ráðuneytinu skýrslu um stöðu sjóðsins ásamt yfirliti yfir styrk­þega, veitta styrki og stöðu verkefna. Í skýrslunni skal einnig fjallað um árangur af starfi sjóðsins og mat á framtíðarhorfum verkefna.

5. gr.

Styrkhæf verkefni.

Samkvæmt 2. og 3. mgr. 1. gr. laga nr. 75/2011 skal sjóðurinn veita fjármagni til:

  1. uppbyggingar, viðhalds og verndunar mannvirkja og náttúru á ferðamannastöðum sem eru í eigu eða umsjón sveitarfélaga og einkaaðila,
  2. framkvæmda sem varða öryggi ferðamanna og verndun náttúru á ferðamannastöðum í eigu eða umsjón sveitarfélaga og einkaaðila,
  3. undirbúnings- og hönnunarvinnu sem nauðsynleg er vegna framkvæmda sem talin eru upp í a- og b-lið.

Mótframlag styrkhafa miðast að jafnaði við 20%. Mótframlag getur verið í formi útgjalda eða vinnu­framlags.

Framkvæmdir sem eru á landsáætlun um uppbyggingu innviða til verndar náttúru og menning­ar­sögu­legum minjum koma ekki til álita við úthlutun úr Framkvæmdasjóði ferða­manna­staða nema sérstaklega standi á, verkefnið sé í þágu almannahagsmuna og þarfnist skjótrar úrlausnar.

Framkvæmdasjóður ferðamannastaða leggur áherslu á að veita styrki til varanlegra langtímalausna sem byggja á vandaðri hönnun. Að öllu jöfnu er ekki gert ráð fyrir að sjóðurinn veiti fjármagni til uppsetningar skyndilausna nema ef um undantekningartilvik er að ræða þar sem mjög brýna nauðsyn ber til og þá sem undanfara varanlegrar mannvirkjagerðar eða í kjölfar náttúruhamfara.

Styrkir til einstakra verkefna eru að jafnaði ekki veittir til lengri tíma en eins árs. Þó getur stjórn sjóðsins ákveðið að leggja til við ráðherra að styrkur skuli veittur til lengri tíma sé verkefnið þess eðlis að það taki lengri tíma en eitt ár að ljúka framkvæmd þess.

6. gr.

Takmarkanir á styrkveitingum.

Framkvæmdasjóði ferðamannastaða er ekki heimilt að:

  1. Veita framlög til rekstrarkostnaðar mannvirkja, náttúruverndarsvæða eða annarra ferða­manna­staða.
  2. Veita fjármagni til verkefna sem þegar er lokið.
  3. Styrkja fyrirtæki sem hafa með höndum rekstur ferðamannastaða umfram þá hámarks­upphæð sem leyfilegt er samkvæmt reglugerð ESB nr. 1998/2006 um minni­háttar­aðstoð (de minimis reglu), nú að hámarki € 200.000 á hverju 36 mánaða tímabili að frádregnum öðrum styrkjum frá opinberum sjóðum sem viðkomandi hefur fengið til sömu verkefna á sama tímabili.
  4. Greiða fastan launakostnað umsækjenda, sbr. þó 2. mgr. 8. gr.
  5. Veita styrki til ferðamannastaða sem ekki eru opnir gjaldfrjálsri umferð almennings. Heimilt er þó að taka gjald fyrir veitta þjónustu.

7. gr.

Umsóknartímabil.

Styrkjum úr sjóðnum er að jafnaði úthlutað einu sinni á ári. Samkvæmt ákvörðun ráðherra skal aug­lýsa eftir umsóknum í fjölmiðlum og á heimasíðum Ferðamálastofu og atvinnuvega- og nýsköpunar­ráðu­neytis­ins. Umsóknartímabil skal vera minnst þrjár vikur.

Ráðherra er heimilt að tilgreina í auglýsingu að sérstaklega sé óskað eftir styrkumsóknum með tilteknum áherslum og skal þá gæðamat verkefna í þeirri úthlutun taka mið af þeim áherslum.

8. gr.

Umsóknir og fylgigögn.

Allar umsóknir skulu vera rafrænar. Umsóknum skal fylgja:

  1. Verkefnalýsing sem lýsir hugmyndinni með rökstuddum og skýrum hætti. Æskilegt er að í lýsingu komi fram markmið verkefnis eða aðgerðir sem stefnt er að og hvernig þær falla að hlutverki Framkvæmdasjóðs ferðamannastaða.
  2. Sundurgreind kostnaðar-, verk- og framkvæmdaráætlun (tímasett), sbr. umsóknareyðublöð.
  3. Afrit af skipulagi svæðis og/eða skriflegt samþykki viðkomandi yfirvalda vegna verkefnisins.
  4. Teikningar af mannvirkjum, þar sem það á við og/eða skriflegt samþykki byggingarfulltrúa.
  5. Skriflegt samþykki allra landeigenda og/eða umsjónaraðila.
  6. Yfirlit yfir aðra opinbera styrki sem sama verkefni hefur fengið sl. 36 mánuði.

Áætlun um heildarfjármögnun verkefnis, þar með talin eigin mótframlög og/eða frá öðrum, skal koma fram í kostnaðaráætlun og skal hún staðfest við gerð samnings ef umsókn er samþykkt.

9. gr.

Mat á umsóknum.

Við mat á umsóknum skal litið til forsendna og eðlis verkefna. Umsóknir skulu metnar og þeim gefnar einkunnir á grundvelli gæðaviðmiða sem stjórn sjóðsins setur sér. Gæðaviðmið skulu taka mið af tilgangi sjóðsins og hvort óskað hafi verið, í auglýsingu, eftir styrkumsóknum með tilteknum áherslum. Innbyrðis vægi gæðaviðmiða skal ákveðið fyrirfram fyrir hverja úthlutun og birt á heima­síðu Ferðamálastofu á umsóknartíma.

Stjórn sjóðsins getur óskað eftir frekari upplýsingum frá umsækjendum ef þörf er á. Stjórn sjóðsins getur jafnframt leitað umsagnar og upplýsinga frá sveitarfélögum og öðrum opinberum aðilum varðandi tilteknar umsóknir.

10. gr.

Tillögugerð.

Ferðamálastofa leggur styrkumsóknir fyrir stjórn sjóðsins ásamt mati á styrkhæfni umsókna. Stjórn sjóðsins gerir heildstæðar tillögur til ráðherra um samþykki eða synjun umsókna. Stjórn sjóðsins ber ábyrgð á tillögugerðinni.

Hverri tillögu stjórnar skal fylgja rökstuðningur þar sem fram kemur mat á viðkomandi verkefni.

Tillögur stjórnar eru sendar ráðherra með rafrænum hætti ásamt eftirfarandi fylgigögnum:

  1. Tillögur til samþykktar og synjunar.
  2. Heildaryfirlit umsókna ásamt greinargerð þar sem gerð er grein fyrir verkefnum.

Óski styrkhafi eftir því að gera breytingar á verkefni sem ekki teljast verulegar getur Ferða­mála­stofa veitt samþykki. Ef beiðni felur í sér verulegar breytingar á forsendum verkefnis skal Ferða­mála­stofa leggja mat á forsendur breytinganna og leggja fyrir ráðherra til samþykktar eða synjunar.

Stjórn sjóðsins getur ákveðið að gera ekki tillögu til ráðherra um að veita styrk til tiltekins verkefnis, sem uppfyllir að öðru leyti kröfur sjóðsins, af þeirri ástæðu að umsækjandi hafi ekki staðist kröfur sjóðsins við framkvæmd fyrri verkefna, svo sem ef framvindu- eða lokaskýrslu hefur ekki verið skilað þrátt fyrir ítrekun af hálfu sjóðsins eða ef stjórn sjóðsins metur það svo að umsækjandi muni ekki ná að nýta umbeðinn styrk vegna annarra verkefna sem hann er þegar með í vinnslu á grundvelli styrkja úr sjóðnum.

11. gr.

Úthlutanir.

Ráðherra tekur ákvörðun um einstakar úthlutanir úr Framkvæmdasjóði ferðamannastaða á grund­velli tillagna stjórnar. Um veitingu styrkja og málsmeðferð gilda ákvæði stjórnsýslulaga. Upplýsingar um úthlutanir úr sjóðnum skal birta opinberlega.

Ákvarðanir ráðherra eru sendar með rafrænum hætti til Ferðamálastofu sem sér um framkvæmd úthlutana.

12. gr.

Greiðsla styrks og mat á framvindu verkefna.

Styrkur greiðist út til styrkþega í samræmi við samþykkta kostnaðar-, verk- og fram­kvæmdar­áætlun, sbr. b-lið 8. gr. Fyrsta greiðsla, 30% af styrkfjárhæð, greiðist við undirritun samnings. Styrkþega er heimilt að skila inn framvinduskýrslu sem lýsir a.m.k. hálfnuðu verki og greiðist þá 30% af styrkfjárhæðinni við samþykkt hennar. Lokagreiðsla, 40% af styrkfjárhæðinni eða 70% hafi styrkþegi kosið að skila ekki framvinduskýrslu, er greidd þegar lokaskýrslu hefur verið skilað og hún samþykkt.

Ef styrkfjárhæð er lægri en 6 m.kr. eða verktími styttri en 4 mánuðir greiðist styrkur út í tveimur greiðslum. Við undirritun samnings greiðist 30% af styrkfjárhæð og 70% greiðist þegar lokaskýrslu hefur verið skilað og hún samþykkt.

Samningum um styrki skal lokið og þeir undirritaðir innan þriggja vikna frá því að ákvörðun um styrkveitingu er tilkynnt styrkþega eða eins fljótt og unnt er. Styrkþega ber að skila inn lokaskýrslu ásamt greinargerð um eigið framlag sem telst hluti af heildarkostnaði innan þess frests sem til­greindur er í samningi. Hafi samningur eða lokaskýrsla ekki borist fyrir tilsettan tíma fellur styrkurinn niður og verður afturkræfur hafi ekki komið fram sérstakar skýringar eða samið um annað.

13. gr.

Skilyrði fyrir styrkveitingu og ábyrgð styrkhafa.

Styrkur er veittur til tilgreindra verkefna samkvæmt samningi. Styrkþega er óheimilt að framselja styrkinn eða ráðstafa til annarra aðila eða til annarra verkefna en getið er um í samningi. Reikningar vegna verkefnisins skulu vera skýrt aðgreindir frá annarri starfsemi í bókhaldi.

Styrkþegi skal tilkynna Ferðamálastofu án tafar ef breytingar verða á högum hans sem geta haft áhrif á framkvæmd verkefnisins. Ef aðilaskipti eða breytingar á högum skerða fyrirsjáanlega mögu­leika styrkþega á að ljúka verkefni á tilsettum tíma fellur réttur styrkþega til styrkveitingar niður.

Styrkþegi skal vinna verkið í samræmi við vinnuáætlun. Styrkþegi skal leita fyrirfram samþykkis Ferða­málastofu fyrir breytingum á verkefnum. Styrkur greiðist aðeins út ef gæði vinnu eru í sam­ræmi við kröfur sjóðsins. Allur frágangur við verkefnið verður að vera til fyrirmyndar og í sam­ræmi við lög, reglugerðir og samþykkt viðmið.

Styrkþegi er ábyrgur fyrir eðlilegu viðhaldi svæðis og mannvirkjum, stórum sem smáum, er tengjast viðkomandi framkvæmd. Sjóðurinn tekur ekki á sig skuldbindingar við uppfærslu, viðhald eða viðgerðir á mannvirkjum sem tengjast styrkveitingu.

Styrkþegi ábyrgist með undirritun á samningi að öll lögbundin leyfi og samþykktir vegna fram­kvæmdar­innar liggi fyrir, sem og önnur þau gögn sem tiltekin voru í auglýsingu um styrki.

Myndir sem teknar eru skulu staðsettar þannig að auðvelt verði að taka samanburðarmyndir á sama stað síðar.

14. gr.

Vanefndir.

Brot styrkþega á gerðum samningum eða öðrum skilmálum um úthlutun styrkja úr Fram­kvæmda­sjóði ferðamannastaða veitir Ferðamálastofu heimild til að stöðva greiðslur til styrkþega, fella niður styrk og krefjast fullrar endurgreiðslu þegar styrkþegi hefur fengið hluta styrksins greiddan fyrir­fram. Brot á samningi getur einnig haft áhrif á möguleika styrkhafa til frekari styrkveitinga. Ferða­mála­stofa fer með mál vegna vanefnda samkvæmt málsmeðferðarreglum stjórnsýslulaga.

Mál er kunna að rísa út af ágreiningi um samninga skulu rekin fyrir héraðsdómi Reykjavíkur.

15. gr.

Endurúthlutun styrkja.

Þegar samningur um styrk er felldur niður vegna vanefnda eða þegar samningur um styrkveitingu er ekki gerður skal veitt styrkfjárhæð renna til baka í sjóðinn til endurúthlutunar. Það sama gildir þegar styrkhafi er krafinn um endurgreiðslu þegar greidds styrks.

16. gr.

Kæruheimild.

Ákvarðanir Ferðamálastofu sem teknar eru á grundvelli laga nr. 75/2011 og reglugerðar þessarar eru kæranlegar til ráðherra. Um málsmeðferð fer samkvæmt stjórnsýslulögum.

17. gr.

Gildistaka.

Reglugerð þessi, sem sett er með heimild í 6. gr. laga um Framkvæmdasjóð ferðamannastaða, nr. 75/2011, öðlast þegar gildi. Jafnframt fellur úr gildi reglugerð um starfsreglur Framkvæmdasjóðs ferða­mannastaða vegna styrkveitinga, nr. 20/2016, með síðari breytingum.

Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytinu, 1. september 2017.

Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir
ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra.

Heimir Skarphéðinsson.


B deild - Útgáfud.: 5. september 2017